15.1.2008 | 15:07
Aldrei má góð saga gjalda sannleikans
Eina og eina jólabók er farið að reka á fjörur mínar án þess nánast ég ráði því sjálfur eða leiti eftir þeim meðvitað; nú var það bókin Sögur úr sveitinni sem óvænt var komin upp í hendurnar á mér, eftir Böðvar Guðmundsson. Böðvar þekki ég aðeins sem rithöfund og þá af vesturfarabókum hans sem mér þótti skemmtilegar - og jú, ég sá hann fyrir óralöngu leika Grasa-Guddu ef ég man rétt. Ætli það hafi verið í Reykholti? Eða í götótta samkomuhúsinu sem hann lýsir í Síðunni? Eða á herranótt Menntaskólans í Reykjavík? Ég man það ekki, en ég held ég hafi ekki séð aðrar Guddur betri.
Glettni tilviljunarinnar - ef tilviljun er til - að Sögur úr Síðunni skuli rata á náttborð mitt næst á eftir Landi þagnarinnar eftir Ara Trausta, sem ég bloggaði um um daginn. Báðar þessar sögur eru nefnilega sannsögulegar skáldsögur og að vissu marki þroskasögur höfunda sinna. Verð þó að segja að mér finnst meiri skáldæð koma úr Síðunni og augljóst að höfundur Síðusagnanna hefur vel að leiðarljósi hið fornkveðna að aldrei skuli góð saga gjalda sannleikans. Því hér er krítað vel liðugt en þess um leið gætt að sögupersónurnar sem koma fyrir aftur og aftur í hverjum kaflanum eftir annan séu sjálfri sér samkvæmar.
Báðir ofannefndir höfundar hafa farið þá leið að gefa persónum og stöðum ný nöfn, Ari Trausti að hluta en Böðvar næstum að fullu og satt að segja kann ég betur við hið síðarnefnda. Hann getur að vísu ekki stillt sig um að nefnda höfuðborgarskáldin með nöfnum en þó hef ég grun um að hann víxli þar að nokkru hlutverkum en finnst það ekki koma að sök.
Báðir hafa uppi nokkrar skáldlegar vangaveltur milli þess sem þeir segja sögu og skýra drætti persóna sinna en einhverra hluta vegna pirra þær mig minna hjá Böðvari. Hann hefur líka lag á að gefa í skyn með einhverjum hugljúfum og nær óræðum hætti ýmislegt sem hann segir ekki beint, eins og persónuna á bak við Halldór Narfa Austmann Kjartansson og sosum líka Bjarna meinleysingja, svo nefndar séu tvær aukapersónur sem einhverra hluta vegna verða minnistæðar að lestri loknum, kannski umfram umfang þeirra í sögunni sjálfri.
Spaugilegar eru sumar lýsingar hans á tæknibúnaði og innreið nútímatækni í Síðuna þó þar feti höfundur að mínu viti dálítið hæpinn stíg á köflum, eins og þar sem hann ræðir um herjeppa Þorláks á Hrauni sem hann segir árgerð 1944. Skal þó ekki fortaka að sú árgerð hafi verið flutt inn að stríðinu loknu sem hergóss keypt í útlöndum, veit að m.a. Sigfús í Heklu keypti allnokkra stríðsjeppa af depot einhvers staðar í Bretlandi og kann að vera að einhverjir þeirra hafi verið ´44. En ameríkanar hér voru aðeins með ´42. Hann segir heldur hvergi beint að blæjan á honum hafi verið með lokaðar hliðar en einhvern veginn býður manni það í grun; herjepparnir voru aðeins með blæju yfir og þvert um að aftanverðu en opnir á hliðar. - Þetta skiptir ekki verulegu máli og má kannski segja að sitt hvað fleira lúti sé á svipuðu róli á mörkum hins raunverulega.
Myndin er af Willys herjeppa árg. 1944
Í heildina séð er þetta afar skemmtileg bók og sennilega ekki hvað síst í augum þeirra sem muna þá tíma tvenna sem höfundurinn rifjar hér upp.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hef einmitt nýlokið við Sögur úr Síðunni og hafði feikilega gaman af þeirri bók. Skellti oft og iðulega upp úr ein með sjálfri mér yfir kostulegum lýsingum á atburðum og mönnum. Mér var ( og er ennþá ) því nokk sama um hvort Jeppi Þorláks var ´44 eða ´42 (hvað svo sem það þýðir nú). Hafði meiri áhuga á Stóra-Blesa en það lýsir líklega nokkrum áherslumun hvað áhugamál okkar varðar.
kveðja af eyrinni
GEH
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, 15.1.2008 kl. 22:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.