19.12.2007 | 15:12
Hverjir bregðast vinnuskyldum sínum?
Helst gæti það heft för útlendinga sem settir eru í farbann hér að setja á þá einhvers konar öklaband sem gefur upp með nútíma rafeindatækni hvar þeir eru staddir hverju sinni. Svo heyrist mér á málflutningi málsmetandi manna í þessum efnum. Það sem mér þykir á skorta það þjóðráð, eða réttara sagt umræðuna um það, er hvernig á að tryggja að útlendingurinn, sem á þá ósk heitasta þá stundina að komast úr þessu voðalega landi þar sem hann á refsidóm yfir höfði sér, klippi ekki einfaldlega af sér græjuna, lími hana á næsta hross í haganum og fari svo laus og liðugur leiðar sinnar úr landi í gegnum flughöfnina þar sem eftirlitsliðið er aðallega í því að koma í veg fyrir að fólk fari til annarra landa með naglaþjalir sínar -- eða tyggjóklessu undir skósólanum, sbr. athugasemd Ómars Ragnarssonar við síðasta blogg mitt.
Ómar var ekki einn um að koma þar með athugasemdir. Ég nefni tam. Helgu (ég held að þessi Helga sé óskyld mér, merkilegt nokk, þrátt fyrir nafnið!) sem er nokkuð niðri fyrir um þessi efni. Mér þykir hluti af athugasemd hennar svo áhugaverður að ég leyfi mér að taka hann hér eins og hann leggur sig, innan gæsalappa og í skáletri:
Tveir nauðgarar flúnir úr landi, einn sem var dæmdur fyrir fíkniefnainnflutning og fyrir það að að koma ekki deyjandi manni til aðstoðar var dæmdur í endurkomubann, engu að síður hefur hann dvalið hér á landi stærstan hluta ársins, tveir nauðguðu í Reykjavík í haust og í ljós kom að báðir höfðu setið af sér dóma fyrir gróf ofbeldisbrot í heimalandi sínu. Allir eru þeir útlendingar, Pólverjar og Litháar og hvort sem sumu fólki líkar betur eða verr að heyra það sagt þá skiptir þjóðerni þeirra máli. Það skiptir máli og það miklu máli að landið sé galopið fyrir erlenda glæpamenn og það er líka opið fyrir þá að flýja úr landi þegar í þá næst.
Mig hefur undrað mjög hvers vegna blaða- og fréttamenn gera ekki ítarlega rannsókn á því hver/hverjir eru að bregðast skyldum sínum. Það fer enginn sem er í endurkomubanni inn í landið nema einhver manneskja bregðist vinnuskyldum sínum og á sama hátt þá fer enginn úr landi sem er í farbanni nema einhver manneskja bregðist vinnuskyldum sínum. Að blaða- og fréttamenn hafi ekki rannsakað hvar brotalömin er, undrar mig verulega. Við erum ekki vön því hér að embættismenn axli ábyrgð á afglöpum sínum og segi af sér, en þar með er ekki sagt að ekki sé tími til kominn að taka upp þá reglu. Hvernig er það t.d. þegar útlendingar hafa afplánað dóma fyrir hrottaverk eins og nauðgun er þeim þá sleppt út á götuna eins og íslenskum ríkisborgurum eða eru þeir sendir úr landi og settir í endurkomubann? Ég veit ekki hvort aðra fýsir að fá svör við þessu, en ég vil að frétta- og blaðamenn fræði mig um þetta, vegna þess að ég vil vita í hvers konar samfélagi ég bý og tel mig eiga rétt á þeim upplýsingum."
Ég get skrifað upp á flest af þessu. Hef kannski einhverjar vangaveltur um að hve miklu leyti nákvæmt þjóðerni útlendinganna skiptir máli. Hitt er ljóst og ætti ekki að vera feimnismál, að þó margir þeir útlendingar sem hingað koma til lengri eða skemmri tíma séu ágætisfólk og góð viðbót við innfædda er þar sem annars staðar misjafn sauður í mörgu fé. Það er ekki allt rjóminn, sem hingað kemur, rétt eins og það var ekki allt rjóminn af íslensku samfélagi sem fluttist vestur um haf á sínum tíma. Og því er kannski rétt að halda þjóðerni meintra glæpamanna til haga eins og öðru.
En: það sem ég vil endurtaka og undirstrika úr máli Helgu þessarar er þetta: Það fer enginn sem er í endurkomubanni inn í landið nema einhver manneskja bregðist vinnuskyldum sínum og á sama hátt þá fer enginn úr landi sem er í farbanni nema einhver manneskja bregðist vinnuskyldum sínum." Og ég tek undir það að fróðlegt væri að vita hvar brotalömin liggur - væri ekki meira upp úr því leggjandi í að vita hvaða fénaður er að fljúga hingað og héðan heldur en hvort einhver hefur með sér kók í dós eða góða naglaþjöl?
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
vel mælt hjá þessari Helgu, það þarf endilega að halda þessu í umræðunni amk fram yfir áramót því núna eru allir að pæla í skrauti og jólasveinum, þetta er nefninlega mjög mikilvægt mál og gott að þú ert að taka þennan vinkil á því.
halkatla, 19.12.2007 kl. 15:33
Það sem þú segir, Gunnar Þór, breytir ekki þeirri staðhæfingu minni að ekki hafi allir verið til fyrirmyndar sem fluttu vestur um haf. Vesturferðir voru tíska á þessum tíma, frá flestum ef ekki öllum löndum Evrópu, hvað sem líður vistarböndum.
Og staðreynd er að þeir sem spjara sig ekki í einu samfélagi eru ólíklegri en aðrir til að gera það frekar í öðru.
Sigurður Hreiðar, 20.12.2007 kl. 07:49
Þakka þér fyrir Sigurður að taka undir með mér.
Hvort þig er að finna í frændgarði mínum veit ég ekki, þeir eru ekki margir nafnarnir þínir þar. Við erum kannski bara best sem pennavinir.
Eins og þú orðar það þá hefur þú "kannski einhverjar vangaveltur um að hve miklu leyti nákvæmt þjóðerni útlendinga" skipti máli. Ég gagnrýni þig ekki fyrir það, enda óþarfi að þú kinkir kolli við öllum mínum skoðunum, en það er mín skoðun að Íslendingar eigi rétt á því að vita hverjir koma til landsins til að brjóta af sér og hverjir það eru sem ógna frelsi kvenna og karla á götum úti, sbr. nauðganir og aðrar líkamsárásir síðustu mánuði. Svo ég taki dæmi sem snýr að konum, þá er það nýtt hér á landi að karlmenn fari um í hópum, tveir, þrír, fjórir, fimm saman gagngert í þeim tilgangi að nauðga konu. Þetta gerist úti á götu og inni á veitingahúsum. Samkvæmt þeim fréttum sem ég hef séð þá eiga karlarnir í þessum hópum nauðgara það sameiginlegt að vera útlendingar, margir eða flestir frá Póllandi og Litháen. Pólverjar voru staðnir að því fyrr á þessu ári að stelast í veiðiár. Hefði félag veiðirétthafa í ánum ekki vitað hvers lenskir veiðiþjófarnir eru þá hefði félagið ekki getað útbúið upplýsingar á þeirra tungumáli um að bannað sé að veiða án leyfis, svo ég nefni dæmi þar sem hægt var að bregðst við með upplýsingum vegna þess að mennirnir fengu að vita að hverjum þeir þyrftu að beina orðum sínum. Ef talað væri um Austur-Evrópubúa, þá myndi fólk frá allri Austur-Evrópu liggja undir grun og það væri ósanngjarnt. Ef talað væri um fólk frá Eystrasaltslöndunum þá lægju Lettar og Eistar undir grun og það væri ósanngjarnt. Það er ávallt best að orða hlutina sem skýrast svo ekki fari milli mála við hvað er átt.
Ég held að við sjáum öll að samfélag okkar hefur breyst gríðarlega á fáum árum, og breytingarnar eru hreint ekki allar þakkarverðar. Það er ekki efi í mínum huga að við eigum rétt á því að vita hverjir það eru sem hafa breytt samfélagi okkar til hins verra. Fullorðið fólk á að geta sagt sér að í öllum samfélögum býr bæði heiðarlegt og óheiðarlegt fólk. Það á því að vera óþarfi að hengja aftan í umræður um útlendinga að "auðvitað eigi þetta ekki við um alla Litháa og alla Pólverja". Það liggur í augum uppi að hér býr líka heiðarlegt fólk frá Póllandi og Litháen. Ég efast ekki um að sumt að því heiðarlega fólki hefur fundið fyrir því að Íslendingar eru á varðbergi vegna glæpa sumra landa þeirra, en áður en fólkið gagnrýnir að upplýsingar séu veittar ætti það að muna að það er ástæða fyrir því að Íslendingar eru margir hverjir á varðbergi - það er við glæpamennina að sakast en ekki þá sem reyna að verjast þeim. Heiðarlegir Pólverjar og heiðarlegir Litháar eiga val: Þeir geta valið að gagnrýna að upplýsingar um þjóðerni glæpamanna sé nefnt í fréttamiðlum en þeir eiga líka það val að stilla sér upp með þjóðinni og gagnrýna þá sem brjóta af sér. Þeirra er valið.
Ég ítreka þakkir mínar til þín um leið og ég get þess að skv. fréttaumfjöllun síðustu daga þá virðist sem fréttamenn séu að taka við sér. Nú er t.d. deilt um útfærslu á farbanni, hvað má skv. lögum, hvað ekki og hvað þarf að gera til að farbann virki. Umræðan er þó alla vega hafin þótt enn sé mörgum spurningum ósvarað, þ.á m. stærstu spurningunum: Vill þjóðin vera í Schengen: Hvað hefur þjóðin grætt á aðildinni að Schengen: Hverju hefur þjóðin tapað á aðildinni að Schengen?
Helga (IP-tala skráð) 20.12.2007 kl. 10:53
Ég hef engu við þetta að bæta, Helga. Nema þessi athugasemd mín um frændgarðinn var vegna þess hve mikið er af Helgum í kring um mig, það var nafn móður minnar, ég á Helgu fyrir dóttur og tvær systurdætur fyrir utan fjölmargar fjarskyldari Helgur. Gott nafn. -- Gleðileg jól.
Sigurður Hreiðar, 20.12.2007 kl. 18:35
Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 23.12.2007 kl. 10:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.