Farbann og fjandsamlegur vopnaburður

Nú þegar hver Pólverjinn eftir annað þeysist úr landi þrátt fyrir farbann rifjast upp fyrir manni hve máttlaust þetta svokallaða eftirlit flugvallanna getur verið -- og að einhverju marki gagnslaust. Til stuðnings máli mínu langar mig að segja ofboðlitla reynslusögu um þetta efni: 

Fimmtudaginn 6. mars 2003 fór ég í stutta ferð til Þýskalands við þriðja mann. Far­ang­ur var lítill: nauðsynlegustu föt til skiptanna, axlataska með tveimur mynda­vélum, smá­­segul­­bandstæki og hlutum þeim tengdum, snyrtiskjóða með tannbursta, rak­vél og öðru snyrtidóti, saumadóti til að geta tyllt á sig tölu ef þyrfti, höfuð­verkja­töfl­um og ein­hverju þannig smádóti.

Kvöldið fyrir brottför setti ég þetta allt annað en myndavélatöskuna í eina meðalstóra handtösku sem ég hugðist hafa í handfarangur. Við hefð­bundið eftirlit í flughöfninni í Keflavík var ég látinn kannast við tösku mína og leidd­ur að borði þar til hliðar. Nú rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði ekkert tekið til í snyrti­skjóðunni eftir síðustu utanferð þar sem skjóðan hafði verið tösku sem fór í far­angursflutning flugvélarinnar; sennilega væri ég með í henni minnstu gerð af „Sviss army" sjálfskeiðungi sem ég hef þar yfirleitt til ýmissa þæginda, með blaði ca 4 sm löngu, litlum skærum, tannstöngli og flísatöng.

Starfsmaður vopnaeftirlitsins sagði að ég myndi vera með hníf í farteski mínu. Í snyrtiskjóðunni í handtöskunni fannst strax naglaþjöl úr stáli, ca 12-13 sm löng. Hana greip starfsmaðurinn og gerði upptæka, fleygði í dall með ýmsum oddhvössum eða eggbeittum gersemum. Ég leitaði meira að honum ásjáandi án frekari árang­­urs. Þá tók hann skjóðuna, lokaði henni og fór með hana aftur á færibandið til gegn­umlýsingar. Kom með hana á ný og krafðist þess nú að fá að skoða í myndavéla­töskuna, sem lét honum að sjálfsögðu heimilt. Hann skoðaði í hana vand­lega, gegn­um­lýsti hana aftur, kom svo með hana og sagði mér að skoðun væri lokið og mér óhætt að ganga á ný frá dóti mínu og fara mína leið.

En ég var svo viss um að ég væri þarna einhvers staðar með minn smákuta að þegar ég hafði stund aflögu eftir komuna á hótelherbergi í Frankfurt að ég tók snyrti­skjóð­una og hvolfdi öllu úr henni. Viti menn: þar var ekki aðeins einn hnífur eins og ég hef að framan lýst heldur tveir - og önnur naglaþjöl sömu gerðar og tekin hafði verið af mér í Leifsstöð.

Síðan þetta var hef ég farið nokkrum sinnum milli landa og í flestum ferðum hefur einhver ferðafélagi uppgötvað sig eftirá með eitthvert lag- eða höggvopn af ofannefndu tagi. Ekki viljandi heldur óviljandi. Og enginn af ásetningi. Því Íslendingum amk. er ekki tamt að líta á þetta sem vopnabúnað til fjandsamlegra nota.

Er nema von að manni verði stundum hugsað til þess hvaða tilgangi tilkostnaður flughafna og óþægindi flugfarþega í svokölluðu fyrirbyggjandi eftirliti þjónar - eða hvort hvort tveggja nær tilgangi sínum nema að takmörkuðu leyti.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Komdu sæll, Sigurður!

Ég held að flest fólk sem ferðast reglulega sé búið að átta sig á því hvers konar fíflagangur eftirlit með venjulegum ferðamönnum er orðið. Naglaþjölin þín er í félagsskap annarra sakleysislegra verkfæra venjulegs fólks, m.a. naglaskæranna minna. Þetta eftirlit, sem ég get ekki kallað annað en fíflaskap, hefur e.t.v. skapað þeim sem hafa illt í hyggju aukið svigrúm. Til að sinna þessum fíflagangi hefur þurft að ráða hundruð þúsunda manna á flugvelli heimsins og til þeirra starfa ráðast ekki bara þeir sem eru starfi sínu vaxnir, sbr. reynslu íslensku konunnar frá JFK-flugvelli nýlega.

En að því sem er tilefni þessarar bloggfærslu þinnar. Tveir nauðgarar flúnir úr landi, einn sem var dæmdur fyrir fíkniefnainnflutning og fyrir það að að koma ekki deyjandi manni til aðstoðar var dæmdur í endurkomubann, engu að síður hefur hann dvalið hér á landi stærstan hluta ársins, tveir nauðguðu í Reykjavík í haust og í ljós kom að báðir höfðu setið af sér dóma fyrir gróf ofbeldisbrot í heimalandi sínu. Allir eru þeir útlendingar, Pólverjar og Litháar og hvort sem sumu fólki líkar betur eða verr að heyra það sagt þá skiptir þjóðerni þeirra máli. Það skiptir máli og það miklu máli að landið sé galopið fyrir erlenda glæpamenn og það er líka opið fyrir þá að flýja úr landi þegar í þá næst.

 Mig hefur undrað mjög hvers vegna blaða- og fréttamenn gera ekki ítarlega rannsókn á því hver/hverjir eru að bregðast skyldum sínum. Það fer enginn sem er í endurkomubanni inn í landið nema einhver manneskja bregðist vinnuskyldum sínum og á sama hátt þá fer enginn úr landi sem er í farbanni nema einhver manneskja bregðist vinnuskyldum sínum. Að blaða- og fréttamenn hafi ekki rannsakað hvar brotalömin er, undrar mig verulega. Við erum ekki vön því hér að embættismenn axli ábyrgð á afglöpum sínum og segi af sér, en þar með er ekki sagt að ekki sé tími til kominn að taka upp þá reglu. Hvernig er það t.d. þegar útlendingar hafa afplánað dóma fyrir hrottaverk eins og nauðgun er þeim þá sleppt út á götuna eins og íslenskum ríkisborgurum eða eru þeir sendir úr landi og settir í endurkomubann? Ég veit ekki hvort aðra fýsir að fá svör við þessu, en ég vil að frétta- og blaðamenn fræði mig um þetta, vegna þess að ég vil vita í hvers konar samfélagi ég bý og tel mig eiga rétt á þeim upplýsingum.

Schengin-samkomulagið er dásamað fyrir það að því fylgi góður gagnagrunnur um glæpamenn. Gott og vel, ekkert veit ég um þann grunn, en ég spyr á ekki að nota þennan upplýsingagrunn? Hvað þurfa afbrot manna að vera alvarleg til að upplýsingar um glæpamenn séu færðar inn í grunninn? Setja t.d. íslensk stjórnvöld nöfn og aðrar upplýsingar um útlendu karlana sem hér hafa nauðgað eða geta þeir valsað úr einu landi í annað án þess að kennsl séu borin á þá á landamærum? Hvernig virkar grunnurinn? Mér nægir ekki að þessi gagnagrunnur sé til, ég vil vita hvort hann sé nothæfur og hvort hann sé notaður. Ég vil sjá umræðu um þennan grunn. Hafa íslensk stjórnvöld látið lýsa eftir pólsku nauðgurunum tveimur hjá Interpol? Þær eru ansi margar spurningarnar sem vakna.

Nóg í bili, en ástandið vegna útlendra glæpamanna er orðið óþolandi og þögnin um glæpi þeirra sömuleiðis.

Helga (IP-tala skráð) 17.12.2007 kl. 19:35

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Nú hafa Danir hlegið sig máttlausa yfir uppátæki stráksins á Skaganum sem vildi fá viðtal við Byssu Bush. Og þeir hafa velt fyrir sér hvort hefnd þessa uppátækis sé að leggja steina í götu saklausrar íslenskrar konu sem var á ferð þar vestra nú nýverið. Um þetta má lesa á netútgáfu danska blaðsins Politiken: www.pol.dk

Margt skondið má rifja upp til fróðleiks varðandi vopnaeftirlit. Eitt sinn var spússa mín stoppuð með naglaklippur í Leifsstöð. Mikil undur og stórmerki varð þegar við rákumst á áþekkt verkfæri til sölu í Fríhöfninni! Eins og ekki mætti hafa saklausa naglaklippu í handraðnum. En svona eru verklagsreglurnar, svona er eftirlitið og embættismennirnir eru væntanlega að vinna eftir fyrirmælum sem oft eru óljós.

Óskandi er að efnahgsástandið lagist sem fyrst í Austur Evrópu þannig að þeir sem nú leita sér vinnu til Íslands geti verið kjurir heima í sínu heimalandi. Þá þarf að koma skikki á Tyrki en mér skilst að þeir hagi sér á áþekkan hátt og SS sveitirnar hans Hitlers í heimstyrjöldinni. Áður voru það Gyðingar, núna eru það Kúrdar sem Tyrkir hafi ofsótt mjög lengi. Í fyrri heimsstyrjöldinni sölluðu þeir niður um hálfa aðra milljón Kúrda og verða Tyrkir arfavitlausir ef einhverjum dettur í hug aðminnast þessara morða. Er það ekki 25% af siðlausum ofsóknum gegn Gyðingum og drápum þeirra á áhrifasvæði Hitlers? Af hverju er nánast ekkert um þetta í íslenskum fjölmiðlum öðru vísi en séð með tyrkneskum gleraugum? Síðustu fregnir herma um loftárásir tuga tyrneskra flugvéla gegn „hernaðar mikilvægum stöðum“ eins og það nefnist á þessu miður huggulega fagmáli hernaðarhyggjunnar. Þessir staðir eru einkum brýr og vegir sem fyrst og fremst eru samgöngubætur fyrri tíma, oft frumstæðar og einfaldar. Þá eru konur, börn og gamalmenni sem oftast verða fyrir þessum árásum enda skæruliðar fljótir að komast í skjól fyrir þessum öflugu árásaröflum.

Kúrdar eiga ábyggilega margt betra skilið en að vera  endalaust kúgaðir. Stríð og ólga vegna ótryggs stjórnmálaástands er aðalhvati þeirra sem koma sér úr landi. Oft leynist misjafnt fé í þessu fólki sem freistast stundum að stela.  Síðar kann það að færa sig upp á skaftið og til verður einhver rumpulýður sem fer land úr landi, rænandi og ruplandi öllu sem hönd á festir. Þjóðverjar hafa því miður yfirleitt slæma reynslu af þessu en vegna sögunnar vilja ekki nema hafa friðsama stefnu í þessum málum. Sama má segja um fleiri þjóðir sömuleiðis. Smám saman verður til nýtt þjóðarbrot í þessum löndum sem oft á tíðum aðlagar sig illa og kannski alls ekki í landinu sem sýnir þeim þá gustuk að fá að vera. Trú og siði vilja þeir sumir ógjarnan láta af og þá er oft stutt í alvarlega árekstra.

Þessi mál eru ekki einföld. Austur Tyrkland eða Kúrdistan er ægileg púðurtunna sem verður að gefa betri gaum en verið hefur. Kannski Tyrkir hefðu gott af því að fá nýja granna í túnfætinum, granna sem verið hafa mjög lengi í sveitum þar eystra og myndu ábyggilega verða friðsamari ef betur væri tekið tillit til þeirra.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 17.12.2007 kl. 20:15

3 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Ja hérna frændi - nú er að skapast hin skemmtilegasta umræða. Ég er sammála henni nöfnu minni í einu og öllu. Það er eins og gagnrýnin umræða um útlendinga varði við lög. Er ekki alltaf verið að tala um að við eigum að horfa til nágrannalanda og nýta þeirra reynslu. En svo er eins og upplýsingar þaðan berist hingað með vindinum, sem jafnvel er þá búinn að fara marga hringi í kringum hnöttinn. Við fáum örugglega ekki að vita fyrr en eftir tíu ár (svona opinberlega) að þeir eru núna að leita allra leiða til að bjarga sér frá óförum í innflyténdamálum.

Helga R. Einarsdóttir, 17.12.2007 kl. 21:45

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta atvik í flughöfninni minnir mig á svipað atvik sem ég lenti í fyrir nokkrum árum þegar "vopn" í fórum mínum flaug óvart í gegnum skoðun.

Minnisstætt er atvik sem við hjónin upplifðum fyrir nokkrum árum í Bandaríkjunum þegar kona sem var næst á undan okkur var bókstaflega skoðuðu í tætlur eftir að örlitlar leifar af tyggjóklessu sem hún hafði stigið einhvers staðar á, fannst undir skóm hennar. Skórnir voru gerðir upptækir og konan varð að fara á sokkaleistunum áfram. 

Við vorum þrjú svo barnaleg að halda að með því að mæta nógu rosalega snemma yrði þetta þægilegra en það varð þveröfugt. Verðirnir skoðuðu allt þeim mun vandlegar og ætluðu aldrei að geta hætt. Sannaðist þar á óvæntan hátt eitt af lögumálum Parkinsons þess efnis að hvers kynst starfsemi leitast ævinlega við að fylla út í það rými sem fyrir hendi er.  

Ómar Ragnarsson, 17.12.2007 kl. 23:30

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Biðst afsökunar á því að athugasemd mín þrefaldaðist án vilja míns vegna "tæknilegra mistaka." Ég segi bara eins og Jón Hækill þegar hann hjólaði í gegnum gluggann á Uppsalakjallaranum og stóð upp í glerbrotahrúgunni og leit á hjólið og sjálfan sig: "Ekki er ég vel góður enn."

Ómar Ragnarsson, 17.12.2007 kl. 23:34

6 identicon

Jæja Mosi.

Þetta var flott tímasetning hjá þér. Núna eru Tyrkir búnir að ráðast á Írak og þetta er allt að koma fram sem þú spáðir. Vonandi verður tekið fram fyrir hendurnar á þeim áður en þeir ná 25%.

Jói

Jói (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 08:14

7 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ekkert að afsaka, félagi Ómar. Sjálfur kann ég minnst á þetta forrit sem stjórnar bloggi voru. Reyndi þó að fækka endurtekningum þínum sem voru augljóslega óviljandi -- kannski hefur það tekist. Ef ekki verðum við bara að lifa við vort daglega óðagot… og allt í lagi með það!

Sigurður Hreiðar, 18.12.2007 kl. 10:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 306018

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband