Kóngstorg eða Krikatorg?

Kóngstorg er eina tillagan sem mér hefur borist um nafn á hringtorg nr. 5 á Vesturlandsvegi, númer talin frá Reykjavík. Í nafnatillögu minni í bloggi frá í fyrradag hafði ég ekkert gott (les: sjálfgefið) nafn á þetta hringtorg og kallaði það í hallæri Reykjatorg.

Kóngstorg er tignarlegt nafn og fallegt á lítilli manngerðri þúfu, en kannski dálítið heimalegt (= lókal) fyrir okkur Mosfellinga. Það var víst ekki á margra vitorði að þessi vegur, sem nú heitir Reykjavegur alla leið frá hringtorgi nr. 5 að Reykjum, var á sínum tíma lagður til þess að einhver kóngur sem hingað kom, ég man ekki hver enda kom hann mér ekki við, ætli hann hafi ekki verið danskur? -- þyrfti ekki að fara um „hina yndislegu Álafosskvos“ sem fram að þessum tíma, einhvern tíma á sjötta áratugnum, var önnur tveggja mögulegra leiða upp í Reykjahverfi, hin var að fara austur fyrir Úlfarsfell.

Sjálfum hefur mér líka dottið í hug heitið Krikatorg, með skírskotun til þess að hin nýja Krikabyggð er að rísa þarna norðan og austan í Lágafellinu.

Ath: Ég breytti þessum pistli núna eftir ábendinu um að ég fór ekki rétt með heiti nýju byggðarinnar þarna hinum megin í Lágafellinu. - SHH

Hvað segja menn (kven- eða karl-) um þessar tillögur -- og almennt um að gefa hringtorgum nöfn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Reykjavegur fyrir framan teigahverfið var alltaf kallaður Kóngsvegur þegar ég var lítil písl í Mosfellsveitinni,því þegar ég átti heima þarna hét það sveit.Og finnst mér það vel við hæfi að kalla þetta kóngstorg svo eitthvað haldi nú sínu þarna í Mosfellsbænum ,búið að byggja allstaðar sem maður lék sér sem barn.Sem gamall nemandi þinn sendi ég þér kæra kveðju.

Laugheiður Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 09:37

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Danski kóngurinn var Friðrik IX. og kom til Íslands 10. apríl 1956, sjá forsíðu Mbl. daginn eftir. Var um að ræða fyrstu komu dansks konungs síðan fyrir stríð.  Af þessu tilefni var margt framkvæmt, gamli Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu gerður upp og nýir vegir lagðir, þ. á m. Reykjavegurinn um Mosfellssveitina, beint strik frá Vesturlandsvegi og austur að Reykjum. Fram að því var leiðin um Álafoss. Morgunblaðið greinir frá því 13. apríl að í gær hafi verið ekið þangað að skoða og nutu fagurs útsýnis á leiðinni. Athygli vekur að ekki var farið lengra enda buðu vegirnir ekki upp á það en kóngi var ekið í fínustu drossíu landsins, Packard bíl forsetaembættisins!

„Ég hefi aldrei séð Ísland eins fagurt og þessa daga“ er haft eftir Friðrik Kristjánssyni konungi Dana í keðjuhófi.

Fróðlegt er að fletta og lesa í gömlum Morgunblöðum. Brátt kemur að því að við getum flett og lesið Alþýðublaðið, Vísi, Tímann og Þjóðviljann og kannski seinna DV og fleiri fjölmiðla. Endilega að kíkja við tækifæri í Gagnasafn Morgunblaðsins og heimasíðu Landsbókasafnsins um gömlu tímaritin: www.timarit.is

Mosi - alias

Mosi - alias

Guðjón Sigþór Jensson, 5.9.2007 kl. 09:45

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Er ekki nýja hverfið KRIKAHVERFI? - KRIKATORG?

Halldór Egill Guðnason, 5.9.2007 kl. 16:51

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Alveg rétt hjá þér, Halldór Egill. Nafnið er nýtt fyrir mér og einhvern veginn ekki eðlilegra en svo að ég hef margsinnis ruglað því.

Krika skal það vera. Breyti því. Takk.

Sigurður Hreiðar, 5.9.2007 kl. 19:54

5 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

En Teigatorg ... nei er ekki viss en ég held að Guðjón sé að tala um eldri veg. Ég man nefnilega eftir því þegar "Kóngsvegurinn" eða Kóngsteigurinn var malbikaður það var reyndar vegna þess að von var á "einhverjum kóngi" sem átti að skoða Dælustöðina í og framhaldi fór hann á Þingvöll við við vinkonurnar í Helgafellshverfinu(sem nú heitir Ásland) stóðum niður við"steypta veg" (Vesturlandsveg sem þá hafði nýverið steyptur) og vinkuðum þessum "kóngi" og ég er fædd árið 1968 svo þetta hefur verið svona í kringum 1974 -75

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 5.9.2007 kl. 22:43

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Halló, Laugheiður! Gaman að fá kveðju frá þér, bestu þakkir.

Já, kæru mosfellsku snótir, Laugheiður og Hulda Bergrós, ég fer að hallast að Kóngstorgi. Ég man þetta eins og Laugheiður, Kóngsvegur var kallaður þessi fremsti hluti þess sem núna heitir Reykjavegur frá Kóngstorgi upp að Reykjum. Um tíma mun þessi vegur líka hafa verið kallað Jónsteigur, áður en þvergatan niður að Vinjum fékk það heiti.

Hulda Bergrós -- þeir hafa verið nokkrir þessir blessaðir kóngar, með nokkurra ára millibili. Hvernig var með þinn kóng um miðjan áttunda áratuginn, veifaði hann nokkuð á móti?

Mosi minn góður, og aðrir sögufróðir á þessum slóðum -- hver var hann þessi Jón sem Jónsteigur og Jónstóft hét eftir? Og hvar var Jónsteigurinn? Ég held ég viti hvar Jónstóftin stóð.

Sigurður Hreiðar, 6.9.2007 kl. 08:42

7 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Auðvitað var okkur vinkað

Hvort það var kóngurinn sem vinkaði er svo allt annað mál

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 6.9.2007 kl. 16:59

8 Smámynd: Karl Tómasson

Heill og sæll meistari.

Þetta er frábær hugmynd!!!

Þá getur maður t.d. sagt, "mikið er Krikatorgið eða Kóngstorgið alltaf fallegt" Auðvitað eigum við að gera eitthvað skemmtilegt úr öllum þessum hringtorgum og þetta er sannarlega góð hugmynd sem vert er að vekja athygli á hjá þér Sigurður Hreiðar. Ég hef reyndar vakið máls á því að það þurfi að skreyta torgin meira og planta þannig að þau verði bæjarprýði en þessi hugmynd þín er punkturinn yfir iið.

Bestu þakkir fyrir þetta Sigurður Hreiðar.

Kær kveðja frá Kalla Tomm.

Karl Tómasson, 6.9.2007 kl. 19:52

9 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Hlakka til að sjá punktinn...

Sigurður Hreiðar, 7.9.2007 kl. 07:54

10 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Karl, við treystum því að þú setjir þetta í gang hið snarasta

Halldór Egill Guðnason, 7.9.2007 kl. 13:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband