„Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt“

Bloggvinkona mín sem kennir sig við pósthólf 810 skrifar tímabært blogg um hringtorgin sem við Faxflóingar verðum að krækja fyrir á ferðum okkar um heimaslóðir. 810 Hulda Bergrós segir ma. eftir skreppitúr sinn úr Hveragerði heim á bernskuslóðir í Mosó:

„Það eru hvorki fleiri né færri en tíu hringtorg á þessari alls ekki löngu leið (reikna með að þetta séu rétt um 50 km) og fram og tilbaka eru þetta samtals tuttugu hringtorg.

Ég fer í gegnum það fyrsta á leið minni út út Hveragerði, það næsta er við Norðlingaholt, eitt er svo við Rauðavatn, svo er hringtorg við Úlfarsfell, Blikastaði, Skálatún, Langatanga, Þverholt, Álfosskvos og nú er verið að gera eitt við afleggjarann inn í Mosfellssdal.

Mosfellsbær hefur sem sagt vinninginn um flest hringtorg í einu bæjarfélagi !!!!!!!“

Til að fyrirbyggja misskilning er rétt að benda á að hringtorgin þar sem nú er kallað Norðlingaholt og við Rauðavatn eru í Reykjavík og á Suðurlandsvegi. Hin eru öll á Vesturlandsvegi, þar af sex sem hann liggur í gegnum Mosfellsbæ.

Ég vil gefa öllum hringtorgum nöfn og setja á skilti við þau. Á Vesturlandsvegi í réttri röð frá Reykjavík, og minnumst þess að torg nr. 1 þar af er í Reykjavík:

1. Lambhagatorg -- skammt frá bænum (býlinu) forna Lambhaga, þar sem vegurinn liggur upp á Lambhagafell og síðan inn Lambhagafell með Úlfarsfell á vinstri hönd.

2005_0928Hamrah00072. Hamrahlíðartorg (stendur undir Hamrahlíð sem er vesturhlíð Úlfars-fells. Skógarreitur Skógræktarfélags Mosfellssveitar er þar á hægri hönd; eyðibýlið Hamrahlíð stóð niðri í mýrinni nær ánni.

Myndin er tekin 28. sept. 2005, skömmu eftir að Hamrahlíðartorg var tekið í notkun. Sjá má hvernig eystri akreinarnar -- frá Reykjavík -- sveigjast til vinstri inn að torginu og skapa aukakrók. Vond hönnun!

3. Skarhólatorg. Stendur að vísu á Sauðholtsmýrinni miðri, allfjarri Skar-hólum (sem hétu Skarðhólar þegar ég var lítill) en svonefnd Skarhólabraut er þekkt gata og liggur til austurs frá þessu torgi þó hún hafi aldrei verið fullgerð og sé ekki mikill sómi sýndur.

4. Langatangatorg. Sama rökfræðin og með Skarhólatorg. Langatangi er dulítil tota sem krækist út í Leirvoginn innarlega að austan og er forn uppskipunarstaður; raunar voru viðir Lágafellskirkju það síðasta sem ég hef hermt að þar hafi verið skipað upp, líklega árið 1887. En gatan Langatangi endar við þetta torg.

5. Reykjatorg? Set spurningarmerki við þetta heiti af því ég finn ekkert nafn sem er eins sjálfgefið og mér finnst nöfnin á hin. En Reykjavegur liggur til austurs frá þessu torgi og nafnið gæti verið vísbending um að þarna liggur vegur upp í Reykjahverfi. Allar góðar tillögur um þetta torg vel þegnar. En nafnið verður að vera þjált í munni.

6. Kvosartorg. Kannski ætti að vera spurningarmerki líka við þetta heiti. Fleiri koma til greina: Brúartorg (með skírskotun til Brúarlands, söguríkasta húss Mosfellsbæjar), Álafosstorg (með skírskotun til þess er Álafossverksmiðjan var og hét, Varmártorg vegna nándar við sprænuna þá. En ég mæli með Kvosartorgi.

7. Ásatorg. Engin spurning með heiti þessa nýja torgs sem tengir Þingvallaveg við Vesturlandsveg við rætur Ásanna.

-- Þetta voru sem sagt hringtorgin á Vesturlandsvegi, frá Reykjavík suður að Reykjavík norður (Kjalarnesi). Fyrirheit er um að flest þeirra, kannski öll ég man það ekki, verði síðar meir að mislægum gatnamótum. Óskandi að skipulag bæjanna gleymi ekki að taka frá það pláss sem með þarf svo þetta verði ekki ömurlegar og kaoskenndar ljósaflækjur eins og sums staðar hefur gerst í Reykjavík.

Út af fyrir sig eru hringtorg ekki slæmur kostur til að greiða fyrir umferð. Því miður hafa vegaverk-fræðingar nú ákveðið að þau séu ekki síður aðferð til að draga niður umferðarhraða. Það gera þeir með því að búa til undarlegar slaufur þannig að fyrst þarf að beygja til vinstri inn að torgunum áður en hægt er að beygja til hægri inn í þau. Meginárangur þessarar röngu hugsunar er að ergja menn í umferðinni og auka eldsneytisnotkun og þar með mengun. Hamrahlíðartorg er eitt grátlegasta skólabókardæmið um illgjarnar torgtengingar af þessu tagi.

Hitt er annað mál að furðu margir bilstjórar kunna ekki að aka um hringtorg og gera sér td. ekki grein fyrir að þar sem þau eru tveggja akreina gilda sömu lögmál um akreinar þar sem annars staðar, nema hvað innri akreinin á alltaf réttinn út úr torginu -- en þá líka á sömu akrein áfram!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er mjög áhugavert. Mæli með þessu. Langar líka að benda ykkur á að það eru mun fleiri hringtorg í Hafnarfirði. Held að það séu ein 8 á Völlunum.

Mosfellingur (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 13:18

2 Smámynd: Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir

Ég verð nú að viðurkenna að persónulega finnst mér ansli þreytandi að aka öll þessi hringtorg en kannski þætti mér það skemmtilegra ef þau hétu eitthvað

kveðja af eyrinni

GEH

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, 3.9.2007 kl. 14:49

3 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

nr 5 gæti verið Kóngstorg.  Í mínum huga liggur Kóngsvegurinn í átt að Reykjavegi

Það var gott að ég gat gefið þér hugmynd af bloggi er reyndar sammála um að fæstir kunna að aka í gegnum blessuðu hringtorgin.

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 3.9.2007 kl. 20:35

4 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Þetta er góð hugmynd með nöfnin.

Það er fátt gott sem hefur farið í gegnum verkfræðinga vegagerðarinnar, einn "hrákurinn" eftir þá er á Hellu þar sem þeir réðu ekki við að hanna veginn austan við torgið þannig að leið lægi beinni við bæði að því og frá, hvað þá að koma veginum þannig að ekki væri ekið héðan og þaðan úr þorpinu út á þjóðveg 1 þar sem umferðin er að aukast verulega þessi misserin.

Þeir vita ekki að sú mikkla umferð sem var fyrir örfáum misserum að þynnast út við Grímsnensafleggjarann, Selfoss og Hreppaafleggjarann er núna að þynnast út við Hreppaafleggjarann, Landveg og Hvolsvöll.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 3.9.2007 kl. 23:32

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já, þetta með hringtorgafjöldann -- það er víðar Guð en í Görðum, var einu sinni sagt. Ég þori ekki að fara í hreppameting um fjöldann í hverju sveitarfélagi. En hringtorg eru ekki slæm ef þau eru ekki illa hönnuð. Vissulega tek ég undir með Gunnfríði Elínu um að það er þreytandi að aka þau, einkum ef maður á leið í bæinn kannski allt upp í þrisvar á dag. En það er mest af því þau eru hönnuð sem hindrun, ekki til að greiða fyrir umferð.

Þakka þér fyrir tilefnið, Hulda Bergrós, og þér fyrir undirtektirnar, Högni. Nú þurfum við bara að kýla á að hringtorg fái nöfn og þau séu notuð. Melatorg og Hagatorg eru enn til í Reykjavík, kannski fleiri ég man það ekki. En Miklatorg hefur verið þurrkað út og ég veit ekki til hve mikilla bóta ljósagangurinn á þeim gatnamótum er.

Sigurður Hreiðar, 4.9.2007 kl. 08:26

6 Smámynd: Anna Runólfsdóttir

Sæll Sigurður

Þú gerir athugasemd við sveigjuna á götunni þar sem hún kemur að hringtorginu og finnst þetta slæmt mál.

Það er hins vegar góð ástæða fyrir þessu og það er að hægja betur á umferðinni á leið inn í hringtorgið þar sem umferðin inni í torginu á réttinn. Auk þess myndar þessi sveigur samfellda aksturslínu með beygjunni í hringtorginu sjálfu. Á leiðinni út úr torginu er leiðin mun beinni og til þess fallin að auðvelt er að auka hraðann aftur.

Ef vegurinn héldi nú bara beint áfram alveg að hringtorgin þá myndi þurfa að taka frekar krappa beygju inn í hringtorgið, sem væri mun óþjálla. Ef vegurinn sveigð út að ytri boga hringtorgsins þá hægir umferðin minna á sér og það er erfiðara að sjá umferðina sem er þegar inn á torginu og á réttinn.

Anna Runólfsdóttir, 4.9.2007 kl. 10:43

7 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þakka þér fyrir athugasemdina Anna,

en ég er ósammála -- þessi sveigur til vinstri til að beygja til hægri inn á hringtorgið myndar ekki samfellda aksturslínu, heldur leggur hlykk á hana. Allir almennilegir ökumenn hægja á sér gagnvart annarri umferð þegar hún er fyrir hendi, svo ekki á að vera nauðsynlegt að gera umferðina flóknari, dýrari og meira mengandi til að halda aftur af umferð að nauðsynjalausu. Bein aðkoma að hringtorgunum tekur léttari hægri beygju inn í þau heldur en ef tekinn er krókur til vinstri fyrst. Komdu sjálf að Hamrahlíðartorgi Reykjavíkurmegin frá, og þá sérðu hvað þetta er asnalegt.

Sigurður Hreiðar, 4.9.2007 kl. 13:01

8 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Líst mjög vel á að gefa hringtorgunum nöfn og í raun hálf undarlegt að það skuli ekki þegar vera búið. Bý sjálfur í Töngunum í Mosfellsbæ og fer til vinnu í Hafnarfirði hvern dag og því orðinn þokkalega "hringtorgaður".  Sammála þér að hluta með aukasveiginn að Hamrahlíðartorginu og lét hann fara verulega í taugarnar á mér fyrst í stað. Þetta er að sjálfsögðu gert til að minnka enn hraðann áður en komið er inn í torgið og nú er ég bara orðinn vanur þessu. Hræddur um að ef aðkoman væri beinni og menn gætu ekið á 60-70 km inná torgið, myndi það skapa slysahættu. Eins og allt of margir aka, er þetta því miður nauðsynlegt að mínu mati. Með ólíkindum hve fáir aka eins og á að gera í hringtorgum. Mætti til að mynda halda að stefnuljósaskaftið við stýrið væri 1000 gráðu heitt, eða allar perur sprungnar þegar kemur að því að gefa stefnuljós. Ég þakka bara fyrir hringtorgin og vona að umferðarljósaruglið nái aldrei vinsældum í Mosfellsbæ.

Halldór Egill Guðnason, 5.9.2007 kl. 09:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 306295

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband