25.10.2011 | 12:11
Klaufaleg og ófagleg framsetning af hálfu fréttastofunnar
Satt að segja var ég ekki par ánægður með fréttastofu RÚV í gærkvöld þar sem sagt var frá afsögn Bankasýslu ríkisins. Sagt var að hún hefði sagt af sér vegna ráðningar Páls Magnússonar sem framkvæmdastjóra. Hið rétta virtist mér vera að hún hefði sagt af sér vegna viðbragða við ráðningu Páls Magnússonar. Svo var hann nefndur til sögu með nafni og sú ein glefsa tekin úr afrekaskrá hans að hann hefði einu sinni verið aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur sem þá var ráðherra.
Þetta þótti mér klaufaleg og ófagleg framsetning af hálfu fréttastofunnar.
Satt að segja ennfremur þykir mér mestur partur umræðunnar um ráðningu þessa manns sem framkvæmdastjóra Bankasýslu ríkisins vera hin verstu nábrókarfræði. Honum er fundið til foráttu að vera eða hafa verið framsóknarmaður. Sem sumum þykir álíka ófyrirgefanleg afglöp eins og sumum öðrum þykir að vera Krati=Samfylkingarmaður. Svo á hann ekki að hafa nægilega feit og fín próf til að geta staðið sig í þessu starfi sem hann er ráðinn til, þó hann hafi komið manna best út úr persónuleikaprófi og hæfniprófi þar að lútandi sem þar til bær ráðningarstofa -- ópólitísk að ég best veit -- tók hann til.
Ekki skal ég vanmeta eða gera lítið úr bókarlærdómi og þykir vissulega eðlilegt að bókvitið verði í askana látið. En ekki síður persónuleiki og mannlegir eiginleikar mannsins sjálfs. Nú þekki ég ekki Pál þennan en þykir hann sviphreinn og drengilegur að sjá og pabba hans var ég vel kunnugur um skeið og gef honum ágætiseinkunn hvað snertir drenglyndi og almennt mannvit.
Ég þekki fólk sem komist hefur í sínar stöður út á bókvitið eitt og feitt prófskírteini, en er vegna skorts á almennri umgengnishæfni og sveigjanleika hugans illa fært um að gegna starfi sínu og stöðu og það sem verra er, neitar að horfast í augu við það eða taka skynsamlegur rökum.
Slæmt þykir mér líka þegar rasshandarmenn í pólitík láta gamm sinn geysa og geipa mikinn um fólk sem hefur það eitt sér til sakar unnið að hafa þekkt -- að ég nú segi ekki unnið með -- pólitíkusum rétthendinnar eða öðrum þeim sem rasshandarmönnum eru vanþóknanlegir og hafa kosið að gera að blórabögglum gagnvart því sem þeir í hentisemispólitík sinni kjósa að þvo hendur sínar af sjálfir, með misjafnlega réttu eða röngu.
Enginn er svo slæmur að hann eigi ekki leiðrétting orða sinna og gjörða ef þess kynni að vera þörf. Mér býður í grun að ef Páll Magnússon hefði haft fláræði til að segja sig hástöfum frá framsóknarmennskunni og ganga í annan hvorn rasshandarflokkinn í tæka tíð fyrir ráðninguna hefði enginn stigið í ræðustól alþingis eða aðra lýðskrumspontu og hrópað hneyksli yfir ráðningu hans.
Bara af því hún var ópólitísk og tekin út frá mannlegum eiginleikum og verðleikum.
Sennilega hefur þessi lævíslega leið aldrei hvarflað að Páli. Hann kaus að ganga hreint til verks og koma framan að málunum. Það sýnist einkis metið.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.