Í Sirt á pors í lívæsbuxum?

Austur í Líbíu eru þeir að berjast og fara mikinn. Ekki síst í borg sem heitir víst Sirte.

Ekki veit ég hvernig nafn þessarar borgar er borið fram á máli þarlendra. En allt í einu eru þulir íslenskra fréttamiðla farnir að bera þetta fram sem Sirt. Ætli það sé rétt? Eða gætir hér áhrifa engilsaxnesku?

Um tíma framleiddi Renault strumpastrætó sem hét Espace. Á máli heimamanna, Frakka, Espas. Hérlendir menn vildu endilega kalla þennan bíl Espeis. Þjóðverjar framleiða bíl sem heitir Porsche. Á máli þarlendra Porsé. Hér eru menn að burðast við að kalla þennan bíl Pors. Sem er ekki einu sinni enska. Á sínum tíma flutti Austurríkismaðurinn Levy Strauss (Leví Stráss) til Ameríku og fór að sauma þar gallabuxur sem kenndar voru við hann og kallaðar buxurnar frá Levy. Nema hvað Kanar breyttu framburðinum til nándar við það mál sem þeim var tamast og kölluðu Leví gamla Lívæ. Eigum við þess vegna að kalla buxurnar hans Lívæs buxur? Væri ekki réttara að kalla þær Levís buxur? Bretar kalla ríkisútvarpið sitt Bíbísí eftir skammstöfuninni BBC. Furðu margir hérlendir hafa þó haft burði til að fara með heiti þessara stafa á íslensku og kalla það Bébésé. Húrra fyrir því. --

Ef ég skrepp í bæinn fer ég í báðum leiðum framhjá draugahöll sem á stendur stórum stöfum Bauhaus. Þetta orð mun vera þýskt að uppruna og kallast í munni þarlendra báhás. Er eitthvert vit að ég og aðrir sem þarna fara fram hjá séum að eltast við það? Megum við ekki bara kalla það bauhaus með íslenskum framburði?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Meðan við köllum Köln ekki Kólogn (eins og ég hef heyrt) þá er mér nokkuð sama hvernig framburður flækist fyrir mönnum. Þetta með Bauhaus er athyglisvert. Ég kalla þetta flykki alltaf Báhás en auðvitað ætti að kalla það einfaldlega Bauhaus. Man að Jón Múli las einu sinni auglýsingu um hisé (HiC) og það þótti ekki fyndið.

Sæmundur Bjarnason, 14.10.2011 kl. 14:20

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Við gætum bætt um betur og kallað Mílanó Mílan, eins og ég hef heyrt m.a.s. í útvarpi allra landsmanna. Og Mjúnic fyrir Munchen. Og þannig mætti eflaust halda vel áfram. -- Ég gleymdi að nefna að sumir kalla sólareyjuna Tenerife oftast Teneríf og það jafnvel leiðsögumenn íslenskra ferðaskrifstofa á staðnum. Innfæddir láta sér ekki detta í hug að sleppa a-inu.

Sigurður Hreiðar, 14.10.2011 kl. 17:41

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Nafn borgarinnar Sirte, sem upphaflega hét Syrtis (Σὖρτις), hefur einnig í gegnum tíðina verið skrifað Sirt, Surt, Sertor Syrte. Nafnið dregur borgin af Syrtisflóa hinum stærri (Σύρτις μεγάλη).

Viljið þið vita hvernig nafnið er borið fram í dag á arabísku, þá hljómar það eins og "surt" (eins og í surtur) á íslensku, eins og heyra má hér:http://en.wikipedia.org/wiki/File:Ar-ly-Surt.ogg  . Þetta sýnir okkur að drengirnir á RÚV, sem mest atast í fréttum arabaheimsins, eru ekki einu sinni talandi á máli þeirra sem þeir hafa svo mikinn áhuga á og nota stundum 20% fréttatímanna að segja okkur frá.

Syrtis á grísku þýðir svo upprunalega rúst, sem er borið fram "rúst". Þannig, að ef þið viljið nú vera mjög þjóðlegir gamlir fauskar, þá megið þið kalla þessa borg Rústaborg fyrir mér, eða jafnvel Tættur. Hljómar ekki nokkuð vel að "Gaddafí fæddist í Tættum"?

Bójs, iff jú dónt læk itt, lív itt.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 15.10.2011 kl. 05:05

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gott er nú að eiga að bloggvin vel mæltan á arabísku. Þökk fyrir þetta, Villi. Nú getur maður rifið borginmannlegan kjaft, með þessa vitneskju á bakinu. -- En til að fylla mælinn, VÖV, hvað ætli Gaddafí þýði, svo maður geti þá talað um Strigakjaftinn frá Tóftum?

Sigurður Hreiðar, 16.10.2011 kl. 11:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 306294

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband