Blikkandi löggubíll í langferð

Í gær skruppum við upp í Borgarfjörð. Í birtunni eins og hún var í gær var landið aldeilis ótrúlega fallegt. Hafið þið séð Hafnarskóginn í sólarljóma eins og í gær? Varla fallegra til.

Á móts við Arnarhamar á Kjalarnesi varð ég var við lögreglubíl með forgangsljósum á eftir okkur. Blá, blikkandi ljós, og þegar hann dró á blikkaði hann líka ofursterkum ljóskösturum milli ökuljósanna. Svo dreif hann sig fram úr og hakkaði svo einn og einn eftir því fær gafst framundan og mótkomandi umferð rýmdi fyrir. Svo hvarf hann ofan í Hvalfjarðarrörið með sinn ljósagang.

Þegar við komum upp úr því hinum megin var þessi sami lögreglubíll að renna út af bílastæðinu austan við hringtorgið. Hafði greinilega haft þar áningu stutta stund. Ljósin á og svo gefið í inn Kúludalsströndina. Þrátt fyrir forgangsljósin (heyrði aldrei í sírenum, held að þær hafi ekki verið notaðar) gekk ferðin frekar treglega, allmikil umferð í báðar áttir og greinilega skaut ljósagangurinn ýmsum skelk í bringu sem kom fram í því að þeir drógu úr umferðarhraða niður í næstum ekkert en viku samt treglega. Við Galtarlæk var löggubíllinn kominn fimm bílum lengra en við en þegar við komum að Melahverfinu var hann að hverfa út yfir hæðina hjá Lyngholti. (Er þessi hæð kannski Lyngholtið sjálft?)

Við stöldruðum ekkert við í Borgarnesi en héldu áfram norðurleiðina, vorum hætt að hugsa um hvaða ósköp hefðu gerst einhvers staðar. En þegar við vorum komin fram hjá söluskálanum Baulu sé ég allt í einu kunnuglegan ljósagang í bakspeglunum. Var þar kominn löggubíllinn ljósaglaði (var þetta ekki Santa Fé? Öll þessi ljós dreifa athyglinni frá sjálfsögðum hlutum eins og að taka eftir tegundum) og fór mikinn sem fyrr. Ekki aðrir bílar á þessum vegarkafla en við nema vörubíll með tengivagn neðst í Kolásbrekkunni framundan og það mátti löggubíllinn ljósaglaði eiga að hann fór ekki fram úr honum móti blindhæðinni fyrr en vörubílstjórinn vék út á útskot sem komið er þarna rétt á móts við afleggjarann að orlofshúsunum í Kolásnum.

Nokkuð veltum við því fyrir okkur hvernig stæði á þessum forgangsakstri, hvort slys hefði orðið eða hvort bíllinn væri á leið á glæpavettvang. Merkilegt þótti okkur að hann dró okkur uppi í einu lögregluumdæmi og hélt áfram forgangsakstri sínum í næsta lögregluumdæmi. Hann, hún, þeir, þær eða þau sem í honum voru létu, þrátt fyrir ljósin, sér ekki liggja meira á en svo að gefa sér tíma til áningar við norðurenda Hvalfjarðarganganna og aftur í Borgarnesi, hafa líklega fengið sér pylsu þar.

En hvers vegna forgangsakstur alla þessa leið? Kunnu bílverjar kannski ekkert á alla þessa ljósatakka? Eða voru þetta bara krakkar sem þótti gaman að geta gefið svolítið í án þess að eiga á hættu að verða sektaðir og fá refsipunkta?

Kannski kemur aldrei svar við þessu. En það var augljóst að þessi ljósagangur hafði lamandi áhrif á hægri fót margra ökumanna, bæði sem mætt var og tekið var fram úr. Sem aftur leiddi til aukinnar framúrtöku þeirra sem höfðu sæmilegar taugar og vissu ekki upp á sig nein alvarleg afbrot. – Ég skal að vísu viðurkenna að það hvarflaði að mér hvort ég hefði farið óþarflega geyst fram hjá Grundarhverfinu á Kjalarnesi, en ekki svo að það ylli mér neinum skjálfta eða óeðlilegum hjartslætti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Sé að þú ert "inni" frændi. Fróðleg lesning, sem minnir aðeins á óstöðvandi sírenuvæl á götunum hér. Það jókst til mikilla muna eftir að "almennir bílstjórar" tóku við sjúkraflutningunum af löggunni, hvort sem sú var ástæðan eða ekki.

Reyndar hefur örlítið dregið úr þessu aftur, en á tímabili mátti heita að á hverjum degi vældu sírenur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Vonandi er það merki þess að slysum sé að fækka og heilsufar sunnlendinga fari batnandi, en ekki að "sjúkramennirnir" hafi tekið til sín( að óþörfu?) aðfinnslur íbúanna, sem brustu næstum daglega í hraðari hjartslátt og hærri þrýsting útaf eilífu sírenuvælinu.

Helga R. Einarsdóttir, 23.9.2011 kl. 20:14

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já, maður er víst „inni“ meðan maður hefur ekki formlega skráð sig út. Þó maður sé kannski víðs fjarri tölvunni. Það kemur fyrir að maðu heyrir í sírenum hér á Vesturlandsveginum en ekki oft og ekki mikið. Frekar að maður heyri rösklega gefið í á mótorhjólum. -- En mínir menn í gær spöruðu hljóðin, það mega þeir eiga. Notuðu bara ljósin.

Sigurður Hreiðar, 23.9.2011 kl. 23:51

3 Smámynd: HP Foss

Hefur ekki löggan verið að æfa sig? Þeir verða líklega að æfa forgangsakstur eins og annað.

HP Foss, 3.10.2011 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 306021

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband