Bíllausi dagurinn? Lélegur brandari

Einhvers staðar las ég að það væri bíllausi dagurinn í dag. Lélegur brandari það, nema fyrir mig af því bíllinn minn er á verkstæði í dag. Mér virtist allir aðrir bílar vera í notkun í morgun þegar ég ók mínum á bílasjúkhúsið.

Þetta er sérhæft sjúkhús fyrir þessa bíltegund og stendur í austurhluta Kópavogs. Þaðan eru engar eðlilegar almenningssamgöngur við Mosfellsbæ, Smiðjuvegur fær t.d. einkuninna "villa" á straeto.is þegar maður leitar leiða til að komast heim frá þeim bæ.

Ég hafði hugsað mér að komast yfir á straetostöðina í Mjódd því þaðan hljóta allar leiðir að liggja. En að komast þangað yfir 10 akreina bílafljót með sírennsli í báðar áttir var nokkuð sem ég hætti fljótlega við. Veðrið var líka eins og best var hægt að hugsa sér, blankalogn og sólskin, hitastigið að vísu ekki nema rétt yfir núllinu og allt hrímgrátt sem sólin ekki skein beinlínis á. Svo ég hugsaði mér að arka yfir Elliðaárdalinn upp á höfða þar sem ég þóttist vita af einum gulum sem færi mína leið.

Ég var einn á gangi í morgun. Kom mér reyndar á óvart hve margir voru á reiðhjólum. Karlmenn í meirihluta. Þetta fólk var margt glatt á svipinn og sumt af því tók meira að segja undir ósk mína um góðan dag.

Gekk nú allt vel þangað til ég var kominn á Rafstöðvarveginn -- eða svo held ég hann heiti. Þá var um nokkrar leiðir að velja upp brekkuna og sú sem ég valdi lá heim að gömlu jarðhúsunum í Ártúnsbrekku. Þaðan var mér engin leið augljós nema fara niður á bílagötuna þar sem bíll var við bíl á 80-90 km hraða, á bíllausa deginum. Ekki fýsilegt fyrir gangandi mann. Vatt mér til hægri upp grasi gróna óslegna brekku og komst á braut sem ég ályktaði að væri hitaveitustokkur og þaðan á gangstíg inn á milli húsa á brekkubrúninni. Leitaði jafnt og þétt að gangstíg milli húsanna til vesturs en fann engan og eins og götur lágu fannst mér leiðin beina mér í öfuga átt. Engan mann að sjá né lífsmark neitt annað, ekki einu sinni kött.

Þegar mér þótti í algjört óefni komið gekk ég í veg fyrir ungan mann sem kom akandi á rauðum smábíl -- á bíllausa deginum -- og leitaði ásjár. Honum þótti ég augsýnilega afar vitlaus en gaf mér þó þá leiðbeiningu sem dugði, og viti menn, ég átti aðeins eftir að fara fyrir eitt húshorn og þá blasti við mér bensínstöðin á Ártúnsbrekkubrún, sem ég hafði einmitt verið að leita að.

Þegar ég kom á strætisvagnastöðina hafði ég verið tæpan hálftíma á röltinu. Þar slóst ég í hóp með þremur konum sem líka voru að bíða vagns og fljótlega kom fjórða konan. Enginn vagn. Sírennsli bíllausa dagsins hélt áfram á Suðurlandsbrautinni í báðar áttir. Eftir rúmar 10 mínútur komu svo tveir gulir strætisvagnar samtímis. Banana buses, hétu strætisvagnarnir í Bournemouth þegar ég dvaldi þar sumarlangt forðum, af því þeir eru gulir og koma í kippum. Sama gerist hér. Sambiðarkonur mínar fóru allar í fremri vagninn, ég í þann aftari. Bauð vagnstjóranum góðan dag en hann var eins og barbapabbi sem hefði verið settur í bílstjórasætið fyrir langalöngu þvert móti vilja sínum og var eins og upp úr súru. Góður dagur kom honum ekki við.

Við vorum þrjú í strætó fyrir utan barbapabba. Karlkynið í meirihluta.

Þar með er eiginlega ferðasögunni lokið. En sem ég skrifa þetta við vesturgluggann í stofunni minni heima og horfi niður á Vesturlandsveg er þar sírennsli misglaðlegra bíla af öllum stærðum og sortum, lifandi áminning þess að þetta sem heitir bíllaus dagur er ekkert annað en ákaflega misheppnaður brandari. Almenningssamgöngur? Ég var klukkutíma rúman á leiðinni heim, þessa leið sem tekur ekki nema sosum 15 mínútur að aka -- fyrir þann sem ekki á bíllausan dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

hahaha fyrirgefðu en mér finnst þetta brosleg frásögn :)

Ragnheiður , 22.9.2010 kl. 22:00

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ekkert að fyrirgefa, Ragnheiður, þetta átti einmitt að vera broslegt. Út af fyrir sig svolítið skemmtilegur morgunn.

Sigurður Hreiðar, 23.9.2010 kl. 12:02

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Já mörg er búmanns raunin, líka þeirra sem þurfa að koma bílum sínum á verkstæði. Hefði annars ekki verið styttra að fara með bílinn á verkstæðið hjá Sigurbirni og Grétari í Flugumýri? Þeir geta nánast allt að hlúa að biluðum bílum.

Annars er fremur stutt leið úr Breiðholtinu þvert yfir Elliðaárdalinn, yfir brú skammt neðan við Félagsheimili Rafveitunnar og síðan þvert yfir hálsinn vestan Árbæjar og niður að strætó í Ártúni. Svo fer leið 12 á milli ´Breiðholts og Ártúns.

Bestu kveðjur

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 23.9.2010 kl. 20:52

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Það er nú svona, Guðjón minn, Bjössi vinur minn baðst eiginlega undan þessari aðgerð þegar hann hafði hjálpað mér að greina meinið. Þar fyrir utan, ég var ekki svo illa staddur að vera í Breiðholti. Ég var í nógum raunum að vera í austurbæ Kópavogs. Straeto.is vísaði mér ekki á neinn strætó í Kópó, viðurkenndi ekki einu sinni að Smiðjuvegur væri til.

Sigurður Hreiðar, 23.9.2010 kl. 21:42

5 identicon

http://www.straeto.is/leit?from=Smi%C3%B0juvegur+1%2C+200+K%C3%B3pavogur&from_auto_selected=true&to=Gar%C3%B0afl%C3%B6t+1%2C+210+Gar%C3%B0ab%C3%A6r&to_auto_selected=true&arrival_hour=02&arrival_minute=47&timetype=T&day=2010-09-25&date=&Sta%C3%B0festa=Finna+lei%C3%B0ir

Ég sé ekki betur en straeto.is viti mæta vel hvaða apparat þetta Smiðjuvegur er.

Góðar stundir!

steinar (IP-tala skráð) 25.9.2010 kl. 02:38

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ekki vildi það sýna mér þetta, Steinar minn, þegar ég leitaði eftir. Kallaði það villu. Í gær sagði straeto.is þegar ég vildi vita hvernig ég kæmist í bæinn um fjögurleitið að ég gæti tekið strætó við Baugshlíð kl. 15.50. Ég hafði vaðið fyrir neðan mig sem var eins gott, því strætóinn kom kl. 15.45. Svo þú sérð að ég hef ekki alltof góða reynslu af almenningssamgöngum höfuðborgarsvæðisins.

Sigurður Hreiðar, 25.9.2010 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 306021

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband