Af rakvélaraunum

Stundum hef ég lofað skeggi mínu að vaxa nokkurn veginn sem því þóknast þó aldrei hafi það náð mér niður á miðja bringu eins og honum afa mínum forðum. Þessi skeggræktun mín hefur ekki stafað af letinni einni heldur hef ég átt við ýmisskonar skegg– eða kannski væri réttara að segja rakstrar– vandamál að etja og vandamál í granstæðinu (enn munu þeir menn uppi sem skilja þetta orð!).

Meðal annars hefur skeggstæði mitt verið vandfýsið á þau áhöld sem notuð hafa verið til að skrapa það. Rafmagnsrakvélar með hjólum sem snúast hef ég aldrei getað notað og heldur ekki nema sumar gerðir af þeim sem eru með kamba til rakstrar; leiðist afturámóti heilmikið að skafa mig með sápu og handrakvél þó ég láti mig sosum hafa það þegar þannig stendur á snúningi.

Fyrir rúmum 13 árum áskotnaðist mér rafmagnsrakvél af gerðinni Braun. Hún er orðin svo máð og slitin að ég get ekki lengur lesið týpunúmerið, en það byrjar á 4 og endar á fimm einum fjórum eða fimm stöfum síðar. Á þessum tíma hef ég líklega þrisvar sinnum keypt á hana nýjan haus en henni er á ýmsum öðrum sviðum farið heldur að förlast, á tam. til að slökkva á sér í miðjum rakstri sem er helvíti sárt. 

Ég ætlaði því að rausnast við að leysa greyið af hólmi og fór í þar til gerða búð að skoða hvað væri í boði. Best leist mér á vél með einum kambi af gerðinni Panasonic, keypti hana og fór með heim. Þótti gaman að nota hana og gott, gat mas. rakað mig meðan ég horfði á sjónvarpsfréttirnar. 

En Adam var ekki lengi í Paradís með Panasonicinn. Á fjórða degi datt hausinn í tvennt. Ég fór með gripinn aftur til seljanda en eftir nokkrar þreifingar kom í ljós varahlutur var ekki til og varan var endurgreidd án frekari málalenginga.  Við nánari skoðun kom í ljós að þetta hafði verið síðasti gripur sinnar gerðar í höndlaninni svo ég splæsti í aðra Panasonic, nú tveggja kamba, þó hún væri nokkru dýrari.

Er nú ekki að orðlengja það að sá gripur varð mér ekki til fagnaðar. Og þegar ég hafði að mínum dómi reynt til þrautar og ekki náð líkamlegu eða vitrænu sambandi við greyið og vikan var á enda nýtti ég mér 30 daga skilaréttinn og skilaði apparatinu gegn staðgreiddri endurgreiðslu. Og hef tekið mína gömlu Braun í gagnið aftur, enda virðist Panasonic með einum kambi hvergi vera til þar sem leið mín hefur legið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

sæll, hnaut um orðið "granstæði" og verð að koma með innlegg í málið...

Mér vex grön sem flestum öðrum karlmönnum og leiðist að raka mig en ég hef líka það leiða vandamál sem er viðkvæm húð.

Ég tók mig til fyrir einhverju síðan og hætti að nota raksápu, það gerði gæfumuninn. Nú er allt annað líf að snyrta sína grön... :)

En ég á líka eina svona maskínu sem hefur einn kamb en hún er af gerðinni Philips, hefur hún reinst endingargóð þar sem þetta er vél með hleðslurafhlöðu og ætti að vera úr sér gengin miðað við aldur.

En að lokum vona ég að þú komir til með að finna vél við hæfi fljótlega (senn líður að Jólum)...

Kveðja

Kaldi...

Ólafur Björn Ólafsson, 20.8.2010 kl. 21:42

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þetta er vandamál sem ég þekki líka, Ólafur Björn. Eina raksápan sem ekki gefur mér grænar bólur er Nivea í bláum túpum. En nú fást ekki nema vondir rakkústar svo þetta er allt á sömu bókina lært.

Þær Philips rafmagnsrakvélar sem ég hef séð eru með hjól sem snúast og svoleiðis vélar vinna ekki á mínu skeggi.

En satt segirðu. Það líður að jólum.

Sigurður Hreiðar, 20.8.2010 kl. 22:09

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Lærði að raka mig með hníf en pabbi var rakari.  Þetta var nú bara hýungur sem þurfti að skafa í þá daga en lengst af hef ég notað gamaldags gillette eða líkt. Í upphafi notaði ég allskonar sápur, kremklístur og froðu en það var ekki svo sem mér líkaði. 

Konan mín elskuleg gaf mér rafmagnsvél með snúningsblöðum en hún var gersamlega ónothæf.  Keypti ég því kambavél sem var í sjálfu sé ágæt en rakaði maður sig að morgni þá þurfti rakstur aftur um kaffileitið og stæði partíið lengi þá aftur um miðnættið væri til þess ræna. 

Um síðir þá lærði ég að með því að hita húðina vel með heitu vatn þá gengur raksturinn jafnvel betur heldur en með sápu og maður er laus við kregðurnar í húðinni. En þá steðjar upp annað vanda mál sem er að það er orðin vandi að finna gamaldags rakblöð. 

Rakvélar urðu tveggja blaða og svo þriggja blaða og með veltihaus, en ég hef nú ágætis veltihaus sjálfur svo þar voru engar þarfir.  En þegar gamaldags rakblaða skorturinn varð alger þá keypti konan mín ágæt, sport rakvél með fimm blöðum og eru fjögur í setti öðrumegin en eitt hinumegin á hausnum. 

Það sem þó var snjallast við þessa sport vél  var að í henni var rafhlaða og væri stutt á rofa þá suðaði í henni eins og rafmagnsvél.  Þetta var semsagt rakvél með rafmagns suðara, en þar sem mér líkar betur þögn en suð þá fjarlægði ég rafhlöðuna og þá kom í ljós að þetta er ágætis áhald en það kostar

Hrólfur Þ Hraundal, 21.8.2010 kl. 08:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband