Að misbjóða bíógestum

Til þess að gera eitthvað jákvæðara en að lána útlendingum peninga sem ekki eru til með loforði um vexti sem ekki er hægt að standa við hafa sumir brugðið á það útrásarlag að gera kvikmyndir, einhverjir hugsanlega með von um Oscar (svo ljót sem sú stytta er) í bakhöndinni, aðrir setja markið á sjónvarp allra landsmanna.

Ekki hef ég nú séð þetta allt ennþá þó ég rembist nokkuð við. Sá tam. í sjónvarpinu heimildarmynd um Goðafossslysið, sem er ein fyrsta katastrófa sem ég man eftir -- þ.e.a.s. slysið -- sem var svo sárt og þungbært að 6 ára snáðinn grét yfir öllum sem þar fórust og harmleiknum í heild þó hann þekkti þar engan sjálfur né nokkuð af því þar mætti örlögum sínum. Snáðinn hafði áður óljósa hugmynd um harmleik þess er Þjóðverjar kafskutu íslensk skip á úthafinu þegar Reykjaborgin var skotin niður einhverjum árum fyrr, hafði orðið þess áskynja þó ungur væri hve góðvinur hans Guðmundur á Reykjum tók sér nærri að hafa ekki verið með um borð í þeirri ferð.  Guðmundur var hinn eiginlegi skipstjóri Reykjaborgarinnar en hafði tekið sér frí frá þessum sölutúr.

Gæði heimildarmyndarinnar um Goðafoss? Þar var trúverðuglega sagt frá og sumpart dregnar fram gamlar og áhugaverðar myndir. Sums staðar er þó seilst um hurðarás til lokunnar -- Marlene Dietrich átti tam. engan þátt í slysinu þó hún glappaðist til að vera í heimsókn á Íslandi akkúrat á meðan Goðafoss lagði úr höfn héðan í hinsta sinn. Fleiri atriði hnaut ég um meðan á sýningu stóð, einkum fyrri hlutanum, sem mér fannst álíka fánýt í samhenginu þó þau séu farin að dofna í minninu.

Svo var mynd sem hét ef ég man rétt (farinn nokkuð að eldast, eins og þið sjáið hér að ofan) Guð blessi Ísland. Ég hélt í einfeldni minni að þetta ætti að vera heimildarmynd um hálfbyltinguna sem framin var hér á landi fyrir ári eða svo og fólst einkum í því að hafa hátt í miðborg Reykjavíkur og tala digurbarkalega í hljóðnema og þar sem fjölmiðla var von. 

En -- var þetta í alvöru heimildarmynd? Mér fannst þetta vera einhvers konar spaugstofugjörningur og skrípilæti. Hvernig ber td. öðru vísi að skilja gjörninginn með að láta Jón Ásgeir koma að landi á einhverjum smákopp með utanborðsmótor og geta ekki einu sinni vaðið sjálfur í land, eftir að koppurinn kenndi grunns? Fleira fannst mér ámóta álappalegt þó mér gangi raunar furðu vel að gleyma þessu filmuslysi -- man þó eftir konu sem ætlaði að nota tækifærið og flytja til útlanda, sem mér fannst ekki frásagnarvert. Því skyldi hún ekki gera það ef hugur hennar stóð þangað? Mér sýndist hún ekki mikilla sæva hér á landi og datt í hug hið fornkveðna að sá sem ekki getur spjarað sig í einu landi er ekkert líklegri til að gera það annars staðar. Sama var með fyrrverandi vörubílstjóra sem ég sá ekki betur en hefði það bara nokkuð gott hérlendis en belgdi sig samt út á Keflavíkurflugvöll til að komast til Amiríku. Átti hann á vísan að róa þar? Svo var hann úr sögunni og er líklega enn.

Svo var það í bíó. Einhvern tíma í desember fór í í bíó að sjá mynd sem hét Desember. Þar stendur tvennt upp úr, veðurfarslegur drungi sem einkenndi myndina alla í gegn og ágætur leikur aðalleikarans, Tómas hygg ég hann heiti. Næst þegar kemur desember hygg ég flestir hafi gleymt Desember.

Mamma Gógó. Þar vænti ég mikils og fékk mikið. Þar er fléttað saman mögnuðum söguþráðum Mömmu Gógóar sem heilaglöpin eru að gleypa og blankheitabláþræði leikstjórans sem þó berst nokkuð á með beitingu kunningjatengsla. Hvor tveggja aðalleikaranna, Kristbjörg Kjeld og Hilmir Snær eiga stjörnuleik og þótt myndin sé í raun byggð upp á atriðabrotum, sketsum eins og það heitir nú, falla þau öll saman sem ein heild og grípa hvert inn í annað eins og tannhjól. Aðeins eitt skar sig nokkuð þar úr sem lítið eitt óviðeigandi: þegar leikstjórinn brestur í grát til að tjá mömmu kærleika sinn og væntumþykju gersamlega upp úr þurru. Eini tilgangurinn sem ég sá var að gefa mömmu Gógó færi á að koma inn tragikómískum brandaranum: „Í hvaða leikriti erum við núna?“

Mynd eins og Mamma Gógó er af þvi taginu sem ég gæti hugsað mér að sjá aftur. Og kannski í þriðja sinn.

Að lokum má ég til með að koma inn á atriði sem gerir það að verkum að ég er ekkert himinfús að fara í bíó: Áður en myndin hefst, sem maður hefur borgað sig inn á, kemur urmull af auglýsingum og glefsum úr kvikmyndum sem til stendur að sýna einhvern tíma á næstunni. En meðan á þessu stendur er hljóðið stillt svo hátt að það skefur á manni hlustirnar. Hlýtur að vera heyrnarskemmandi.

Mig langar að spyrja bíófólk: Er einhver ástæða til að misbjóða bíógestum með þessum yfirgengilega hljóðstyrk?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Tómasson

Ég á eftir að sjá Mömmu Gógó og einnig Bjarnfreðarson og hlakka mikið til þess.

Hvað varðar hávaðan Sigurður, þá er nú mikið sagt þegar gömlum rokkhundi er gersamlega misboðið. Þetta er í einu orði sagt ömurlegt að þurfa að sitja undir þessum hávaða sem er að sjálfsögðu skaðlegur heyrninni.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Tungunni.

Karl Tómasson, 13.1.2010 kl. 18:41

2 identicon

Tek undir með þér,meiri andsk...hávaðinn !

Margrét (IP-tala skráð) 15.1.2010 kl. 20:07

3 Smámynd: Hulda Haraldsdóttir

Alveg hjartanlega sammála þér, enda hef ég ekki farið í bíó síðasta einn og hálfan tuginn eða þar um bil, Kv,

Hulda Haraldsdóttir, 22.1.2010 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 306294

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband