Færsluflokkur: Dægurmál

Hvenær er maður það sem hann er?

Nú er orðið tímakorn síðan ég hef bloggað. Smetta er nokkurn veginn að hafa yfirhöndina. Samt væri gaman að grípa í þetta aðeins svona þó ekki væri nema til að halda því við. Því ekki eru allir á Smettu en það sem maður hefur til málanna að leggja þarf náttúrlega að komast sem víðast. (Takið eftir að ég sagði ekki „náttúrUlega“).

En sem sagt:

Las í Mogganum í morgun að tiltekinn borgarfulltrúi væri ekki borgarfulltrúi nema þegar hann væri í vinnunni. Haft eftir honum sjálfum. Skringilegt atarna. Þá er rithöfundur tam. ekki rithöfundur nema þann tíma sem hann er að pikka inn ritverk sitt. Leigubílstjóri ekki leigubílstjóri nema þegar hann er í leiguakstri. Hestamaður ekki hestamaður nema hann sé með hross í klofinu. Og annað eftir því.
Hins vegar er skítt ef borgarfulltrúi má ekki leika sér með strákunum vinum sínum þegar hann á frí. Þó það sé einhver vinanna sem borgar veitingarnar á meðan og jafnvel standi fyrir gistingu ef þarf.

 


Gettu betur/gargaðu meira!

Fyrra kvöldið af tveim sem Gettu betur/Gargaðu meira var dengt yfir okkur núna í vikunni entist ég til að hlusta til enda, þrátt fyrir gargið. Hugsið ykkur, það þarf að garga og syngja yfir því að fólkið í liðunum kunni nafnið sitt! Nema hvað ég held mér hafi ekki misheyrst. Í hraðspurningum var spurt hve margar lappir væru á sex hestum og fimm knöpum. Hvorugt liðið hafði þetta rétt og þegar dómarinn (sá karlkyns) fór yfir svörin sem ekki komu finnst mér endilega að hann hafi sagt að sex hestar hefðu 24 lappir sem líklega er alveg rétt, og knaparnir hefðu fimm svo samtals væru þetta 29 lappir. Ég vona að mér hafi misheyrst. Það er svo miklu þægilegra fyrir knapa (og fólk almennt) að hafa tvo fætur hver, og þá hefur þetta safn 11 dýra 34 lappir.

Eða hvað?


Hvers vegna velur það sér glæpalýð til forystu?

Las í gær blogg eftir mótorhjólamann sem skælir undan því að mótorhjólaklúbbarnir skuli nefndir í sama orði og glæpasamtök. Segir að næstum allir mótorhjólamenn (já, konur eru líka menn) séu sakleysingar og bestu sálir. Það séu bara nokkur skemmd epli í tunnunni en það sé ekki sakleysingjunum að kenna og við -- þessi sem álengdar stöndum og kunnum ekki á mótorhjól -- megum ekki skella skuldinni á samtök mótorhjólafólks. Lögreglan hafi vitað um glæpatendensa þeirra sem nú sitja inni sem forystumenn í mótorhjólaklúbbum, grunaðir um fólskuglæpi, en svo sem ekkert farið að gera í málunum fyrir en téðir forystumenn mótorhjólara voru komnar í úlpur með vígalegri áletrun tengda mótorhjólaklúbbum á bakinu.

Hells Angels, Outlaws og hvað þetta allt heitir, er ekki nefnt á nafn.

Mér finnst mega spyrja: Úr því þetta MC-fólk er 90% meinleysingjar og gæðablóð, hvers vegna

a) velur það sér glæpalýð til forystu?

b) losar það sig ekki við glæpalýðinn, vísar honum úr sínum röðum?

Þá fyrst, góðir mótorhjólarar, þegar þið farið fjöldaaðför að þessum forystumönnum ykkar, klæðið þá úr úlpunum góðu og vísið þeim þangað sem piparinn grær, hreinsið klúbbana af slúbbertum, getið þið farið að berja ykkur á brjóst og segjast vera góðmennin einber.


Eru tillögur að nýrri stjórnarskrá nokkur bragarbót?

Vísvitandi gengið fram hjá mikilvægum atriðum?

Nokkrar hugleiðingar um nýja stjórnarskrá

Mér var gefin vasaútgáfa af prentuðum tillögum Stjórnlaganefndar að nýrri stjórnarskrá landsins. Sem var góð gjöf því hún varð til þess að ég fór að lesa plaggið. Og leggja mat á það.

Ekki er að efa að ágætir nefndarmenn hafi legið yfir þessum tillögum og sums staðar hafi þurft að gera málamiðlanir. Sums staðar er þó skringilega að orði komist og annars staðar er eins og mikilvæg smáatriði hafi fallið úr. Víðast hvar er hún í tilskipunarstíl, annars staðar heimildar- og tilmælastíl.

Annars staðar er eins og vísvitandi hafi verið gengið fram hjá mikilvægum atriðum. Til dæmis er hvergi bann við því að kjörinn þingmaður geti að eigin dyntum snúið baki við atkvæðum sínum og farið að berjast fyrir einhverju allt öðru en hann var kjörinn til.

Frestur almennings til að koma athugasemdum á framfæri mun liðinn. En í guðanna bænum, kynnið ykkur þessi drög að nýrri stjórnarskrá og hvernig þar er staðið að málum. Stjórnarskráin sem við höfum er um margt góð og ekki bót að því að skipta henni út fyrir aðra sem um margt er svo flekkótt að hún er kannski litlu ef nokkru betri.

Ég skora á landsmenn að lesa þær báðar og sjá hvað þeim líkar og hvað ekki.

Sagt er að við eigum að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá samhliða forsetakosningum (ef þær verða) í lok júní.

Verður ný stjórnarskrá þá borin upp í einu lagi?

Eða verður ný stjórnarskrá borin upp lið fyrir lið?

Verður niðurstaða þjóðaratkvæðis um hana bindandi?

Hér fara á eftir hugleiðingar mínar við yfirferð þeirra draga sem nú liggja fyrir:

 

8. gr: Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.

Síðari málsgreinin er óljós í orðalagi og í raun ofaukið. Það væri endalaust hægt að karpa um og jafnvel hafa réttarhöld um hvað sé „margbreytileiki mannslífsins".

 

11. gr: Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. (o.s.frv). Síðar, 2. mgr: Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr.  má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

Hér tel ég rétt að fella út það sem ég hef undirstrikað hér að ofan eða bæta við: sbr. 2. mgr. Með orðalaginu eins og það er hér er opið fyrir stjórnvöld að setja hvers konar íþyngjandi og ósanngjörn lög sem heimila það sem málsgreininni er ætlað að takmarka eða banna.

 

16. gr.

Í greininni er fjallað um frelsi fjölmiðla. Í lokamálsgrein segir svo: Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.

Þetta finnst mér þurfa að hvessa. Skilgreina lágmarks alvarleika sakamálsins til að unnt sé að krefjast rofs nafnleyndar. Sakamál af því tagi þarf að mínu viti að varða við mjög þunga refsingu til að réttlæta riftingu trúnaðar við heimildarmann og að dómsúrskurð um riftingu megi aðeins kveða upp þegar viðurlög af því tagi blasa við, svo sem vegna alvarlegs ofbeldisglæps eða glæps sem verulega varðar almennt öryggi.

 

18. gr. um trúfrelsi

Í 2. mgr. segir svo: Öllum er frjálst að iðka trú, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi. Mætti bæta við: Trúariðkun má aldrei vera með þeim hætti að hún trufli eða sé meiðandi fyrir iðkun annarra trúarskoðana.

 

20. gr. um félagafrelsi:

Síðustu setningu  1. mgr. mætti orða svo: Löglega stofnað félag í löglegum tilgangi má ekki... o.s.frv.

 

25. gr. um atvinnufrelsi:

Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum ef almannahagsmunir krefjast.

Varasamt orðalag og gefur í raun of mikið frelsi. Samkvæmt því mætti ég gefa mig út til lögfræðiþjónustu eða lækninga þó ég hafi hvorugt lært. Eða annað sambærilegt. Og handrukkun gæti orðið lögverndaður atvinnuvegur.

 

27. gr. um frelsissviptingu

Niðurlag 3. mgr: Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem fangelsisvist liggur við. Er sök ákveðin fyrr en dómur liggur fyrir? Tillaga um annað orðalag: Gæsluvarðhaldi má aðeins beita þegar grunur er um sök sem fangelsisvist liggur við.

6. mgr.: Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta. Ansi opið orðalag. Menn eru iðulega sviptir frelsi um sinn í sambandi við rannsókn máls en síðan sleppt án frekari aðgerða eða jafnvel sýknaðir með dómi. Eiga þeir alltaf að eiga rétt á skaðabótum? Ég held ekki. Nær væri að segja eitthvað á þessa leið: Hafi maður verið sviptur frelsi á hæpnum eða óljósum forsendum skal hann eiga rétt til skaðabóta.

 

48. gr. sjálfstæði alþingismanna

Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína en ekki við nein fyrirmæli frá öðrum.

Tillaga (krafa) um viðbót:

Nú treystir alþingismaður sér ekki lengur til að standa við þá sannfæringu sem hann bar fram við væntanlega kjósendur í aðdraganda kosninga eða styðja þá stefnu sem hann var kjörinn til með atkvæðum til þess lista sem hann átti sæti á og skal hann þá láta af þingsetu en löglega kjörinn varamaður taki sæti hans.

Rökstuðningur með þessu er augljós. Við listakosningu er ekki verið að kjósa einstaklinga heldur lista og enginn einn þeirra sem komast á þing af listanum getur eignað sér þau atkvæði. Ef persónukjör kæmist á hérlendis, sem er loðið sbr.  5. mgr. 39. gr., er á sama hátt svik við kjósendur ef persónukjörinn þingmaður söðlar um á kjörtímabilinu og fer að styðja annan málstað og stefnu en hann bar fram og kynnti er hann leitaði eftir atkvæðum fyrir þær kosningar er komu honum á þing. Þess utan: Hvernig er tilhögun um varamann í persónukjöri háttað? Sá varamaður hlýtur að vera jafn bundinn af því sem atkvæðin voru greidd út á eins og aðalmaðurinn.

 

63. gr. um stjórnskipunar og eftirlitsnefnd

Þykir mér skrýtin klásúla og svolítið eins og út úr kú. Þetta á að vera einskonar yfir-yfirvald með vald til að snupra og ávíta alþingi og ríkisstjórn. Ekkert er kveðið á um hvernig í þessa yfir-barnfóstrunefnd skuli skipað eða hvernig standa skuli að lagasetningu um hana.

 

65. gr. um málskot til þjóðarinnar og 66. gr. um þingmál að frumkvæði kjósenda

Að tíu af hundraði kjósenda skuli geta krafist þjóðaratkvæðis finnst mér alltof lág prósenta. Ég veit ekki nákvæmlega hve margir hafa kosningarétt hér nú, en giska á að þeir séu nálægt 200 þúsund. Að ekki þurfi nema 20 þúsund að smitast af múgæsingu er alltof hættulegt; það vitum við sem erum nógu gömul og munum t.d. eftir Gervasoni-málinu og ákvörðuninni um hvort ætti að færa sölu mjólkur inn í almennar matvöruverslanir, svo ég taki tvö dæmi sem mér eru ofarlega í minni. Einnig má minna á málið um hundinn Lúkas og jafnvel nýafstaðna sönglagakeppni  sjónvarpsins...

Ekki minna en 25% til að krefjast svo viðurhlutamikillar aðgerðar sem þjóðaratkvæðis  eða þess að leggja fram þingmál á Alþingi. Raunar er hið síðarnefnda og öll 66. gr. lítilsvirðing við Alþingi og við þá kjósendur sem kusu sér þangað fulltrúa.

 

71. gr. um skatta

Þessa grein alla væri voða gott að fá á mannamáli. Öll orðin eru að vísu íslensk sýnist mér, er þetta er óttalegur þvæluvöndull, nema 1. mgr. Mér sýnist hinar tvær málsgreinarnar hreint óþarfar, eða dylst mér eitthvað í þeim sem ekki kemur fram í 1. mgr?

 

72. gr. um eignir og skuldbindingar ríkisins

Mér sýnist mega einfalda 3. mgr.: Um ráðstöfun eigna ríkisins og afnotarétt af þeim fer að lögum.

- Og þá má svo sem spyrja: þarf að setja svo augljósan hlut í stjórnarskrá?

 

81. gr um starfskjör forseta:

Tvær fyrstu setningar mætti draga saman í eina: Forseta Íslands er óheimilt að hafa með höndum önnur störf , launuð eða ólaunuð, meðan hann gegnir embætti.

 

88. gr um Hagsmunaskráningu og opinber störf

Sama á við hér og um forseta í 81. gr.

 

89. gr.

Spurning hvort kveða skal á um það í stjórnarskrá að ráðherrar allir skuli vera utanþings - eða hvort ekki skuli nást um það samstaða og skilningur áður en svo drastískri ákvörðun er skellt á - kannski laumað inn í krafti þess að „þjóðinni" yfirsjáist það í hita leiksins.

Og í framhaldi af því: Hvernig á að bera þessa stjórnarskrá undir atkvæði þjóðarinnar? Sem heildarpakka eða grein fyrir grein? Og á atkvæði þjóðarinnar að vera bindandi?

 

90. gr. um stjórnarmyndun

Í 4.-5. línu 2. mgr. segir  Er hann rétt kjörinn ef meirihluti þingmanna... Er einfaldur meirihluti nóg? Ef svo er, ber þá ekki að taka það fram?

 

92. gr um starfsstjórn

Vont orðalag í niðurlagssetningu. Betra væri: Ráðherrar í starfsstjórn taka aðeins þær ákvarðanir sem brýnustu nauðsyn ber til.

 

97. gr. um sjálfstæðar ríkisstofnanir

Skil ekki þetta heimildarákvæði. Almennt sýnist mér stjórnarskráin í tilskipunarstíl. Ætti þetta þá ekki vera: Í lögum skal kveða á um að tilteknar stofnanir...

 

100. gr. lögsaga dómstóla

Loppið orðalag í niðurlagi 2. mgr. Betra svona:  Ákvörðun stjórnvalds skal þó gilda þar til hún hefur verið ómerkt með dómi.

 

102. gr. um skipun dómara

Mér finnst vanta í 2. mgr: Ráðherra skipar dómara og veitir þeim lausn, sbr. þó 5. mgr. 96. gr. Dómara verður ekki...

 

105. gr. um sjálfstæði sveitarfélaga

Finnst vanta aftan á 2. mgr.: Ríkisvaldi ber að tryggja þeim fjárhagslegan grundvöll til þess.

 

107. gr. um kosningu sveitarstjórna osfrv.

Finnst vanta aftan á: sbr. þó 108. gr.

 

 


Ekki í framboði

Fyrir æði löngu las Jón Helgason prófessor Passíusálmana í útvarpið á lönguföstu. Gæti það hafa verið 1947? Ég gætti þess að hafa bókina við höndina og las með Jóni í hvert sinn sem ég gat komið því við. Við ljósið af Alladínlampanum heima í Braggakoti. Síðan hefur mig alltaf dreymt um að lesa Passíusálmana í útvarpið. Og ég er ekki í framboði til biskups. Svei mér þá.
mbl.is Örn Bárður tekinn af dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Læðupokagangur

Andskotans læðupokagangur er þetta. Það er ekki hægt að gera sér grein fyrir því hvað þarna er raunverulega að gerast nema fá raunverulegar tölur upp á borðið. Hvað býður hver? Hvert er gagnboðið? Nákvæmlega, upp á fisk!

Og ef einhverjir eru svo barnalegir að halda að einhver þjóð, heiti hún Færeyingar eða Íslendingar, Rússar eða Norðmenn, sitji á sér að veiða nýtanlegan fisk sem bókstaflega syndir upp á fjörusandinn hjá þeim, er freistandi að halda að þeir hinir sömu séu úr þessum fjórðungi stráka sem nennir ekki að læra að lesa.


mbl.is Buðu Íslandi hærri hlutdeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru nokkrar partíklíkur „þjóðin“?

Mér er spurn: Eru nokkrar partíklíkur „þjóðin“? Þeir sem fylgdust með í netheimum sáu fyrirfram hvernig nokkrir hópar sammæltust um að greiða fjölda atkvæða fyrirfram gefnum sigurvegara, en svo var munurinn ekki nema 700 símaatkvæði. -- Þannig að strákarnir sem kenna sig við nammið fara með staðleysu þegar þeir staðhæfa að þeir hafi fengið atkvæði „þjóðarinnar“. Þeir fengu atkvæði frá smáklíkunum, sömu atkvæðin margendurtekin. Jibbí!
mbl.is „Ég hef sjaldan verið jafnglaður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaðan?

Er einhver svo glöggur að hann þekki hvaðan -- og hvert -- meðfylgjandi málverk er málað? Ég veit hver höfundurinn er, Snorri Halldórsson, faðir tónlistarbræðranna Sigurðar og Snorra Arnar. Mér áskotnaðist þetta málverk nokkru áður en Snorri dó en kom því aldrei í verk að heimsækja hann og fá upplýsingar um málverkið. Þannig seinagangur er gömul saga og ný. malverk_snh.jpg

Áhyggjulaust ævikvöld?

Sé í Fréttatímanum að laun Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra hafa hækkað á kjörtímabilinu um 217 þús. krónur, væntanlega á mánuði. Það er svipað og ég fæ sem gamalmenni á mánuði samanlagt úr lífeyrissjóðum og TR -- fyrir skatt.

Hvaðan kom hér í eina tíð slagorðið „búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld?“


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 306374

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband