Eins málefnis örsaga

Kosningar afstaðnar og niðurstaðan ljós. Vinstri græn fagna stórkostlegum kosningasigri, bættu við sig 5 þingmönnum. Eru þó jafngamlir öldinni eða ári betur og hafa haft góðan tíma til að hasla sér völl og kynna sig, reyndar kvísl úr gamla Alþýðubandalaginu sem á ættir að rekja langt aftur í síðustu öld og allt til Moskvu á dögum Stalíns.

Mér þykir meira koma til sigurs Borgarahreyfingarinnar sem á 60 dögum eða þar um bil náði að fá þann hljómgrunn að hún náði inn fjórum þingmönnum og hérumbil 5. Þó að hún fengi ekki meiri „aðgang að fjölmiðlum“ en brölt Ástþórs.

Nú er Borgarahreyfingin engan veginn flokkur og eins og ég skildi málflutning liðsmanna hennar var meginmarkmið hennar að stuðla að hjálpræði heimilanna og skynsamlegri skuldaleiðréttingu þeirra. En svo er að sjá sem stjórnarflokkarnir S og V einblíni á aðildarviðræður við Evrópubandalagið en hafi gleymt því að heimilin í landinu brenna enn. 

Hvert verður hlutskipti þeirra ef þau eiga að bíða eftir hjálp frá Brussel?

Auk þess trúi ég engan veginn á að EU (eða ESB) sé það hjálpræði sem öllu bjargar. Ég trúði heldur ekki á segularmböndin forðum né vorrósarolíuna. Ég trúi ekki að hjálp Íslands komi að utan. Ef við verðum teymd inn í EU verðum við þar ígildi lítils sveitaþorps í miðevrópu. Keyrt yfir megnið af matvælaframleiðslu okkar hvort sem hún kemur úr hafi eða af hauðri svo dæmi sé tekið. Þá þarf allt að kaupa handan um haf sem kostar allnokkuð, hvort sem það verður borgað með krónum eða evrum. Fyrir utan hvar við verðum stödd ef skrúfast fyrir aðflutningsleiðir af einhverjum sökum.

Nei, Borgarahreyfingin er engan veginn flokkur. Samt bjálfaðist ég til að kjósa hana í þeirri von að hún yrði fyrst um sinn áfram rödd skynseminnar og myndi sem slík hljóma gagnvart valdhöfum landsins. Fjórir þingmenn eftir örstutta tilveru er mjög góður sigur. En ég sé fyrir mér að þessir fjórir einstaklingar sakni þess bráðlega ef þeir finna ekki bakland sitt og munu þá tínast inn í lið fjórflokkanna, hver eftir sínum geðþótta, enda eiga þingmenn ekki að fara eftir neinu öðru en sinni samvisku og geta valsað milli flokka án tillits til þeirra sem kusu þá í upphafi. Ef Borgarahreyfingunni er sú alvara sem mér fannst í aðdraganda kosninganna verður hún að setja sig upp sem flokk eða félag, þar sem þingmenn hennar finna sitt trausta bakland og geta sótt sér ráð og stuðning.

Annars verður hún aðeins einna kosninga og eins málefnis örsaga í íslenski pólitík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mikið fjandi er ég sammála þessu. Alþingismenn fara nefnilega með umboð fólksins sem kaus þá.

Árni Gunnarsson, 28.4.2009 kl. 15:31

2 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Býsna góður pistill félagi Sigurður Hreiðar.

Aldeilis ótrúlegt hversu litla áheyrn og skilning venjulegt fólk á Íslandi  - sem hefur tekið lán - en sér sínar áætlanir hrynja vegna gerninga sem stafa af glæpum og vanrækslu bankakerfis og stjórnkerfis.  Hvort tveggja brást fjölskyldum og framtíðarkynslóðum.

Hagsmunasamtöl Heimilanna (www.heimilin.is ) hafa haldið uppi býsna góðum málflutningi  - sem frumkvæðisaðilar borgarfunda og áhugamenn um húsnæðismál og velferð fjölskyldna höfum lagt upp og/eða tekið undir.

Fjölskyldur og fyrirtæki þurfa á bráðaaðgerðum að halda í skuldaleiðréttingu sem tekur til baka vísitöluyfirskotið og skrúfar gengistrygginguna niður í viðráðanlegt stig.    Mikilvægt skref jafnhliða er auðvitað að sækja um viðræður við ESB og óska skjóls fyrir krónuna með hraði þar til við fáum að taka Evruna.

Ekki má heldur draga stjórnlagamálið og stjórnarskrána . . . . og réttarbætur . . . .

Það þarf að skapa vinnustemmingu hjá ríkisstjórn - - og samráð við margvíslega hagsmuna- og áhugaaðila - - - sem lið í að endurvekja traustið.    Sjálflægni forystumanna VG og SF má ekki verða yfirgnævandi - - í marga daga.

Benedikt Sigurðarson, 28.4.2009 kl. 22:05

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þakka fyrir vinsamleg comment

-- en því miður trúi ég ekki á EU né Evruna frekar en vorrósarolíu, segularmbönd eða fótanuddtæki! Tiltektin verður að vera í okkar eigin ranni og síst megum við sleppa fyllstu yfirráðum yfir auðlindum þjóðarinnar -- þar meðtalið okkar eigin matvælaframleiðslu.

Sigurður Hreiðar, 28.4.2009 kl. 22:22

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Sæll vinur og gleðilegt sumar! Þar sem ég sé þig ekki endilega kjósa VG þá finnst mér þú hafa valið skynsamlega (að öðru leyti en því að Borgarahreyfingin er ,,svag" fyrir ESB) og er sammála þeirri brýningu sem þú sendir Borgarahreyfingunni. En það er eitt sem ég vil endilega leiðrétta ,,svo er að sjá sem stjórnarflokkarnir S og V einblíni á aðildarviðræður við Evrópubandalagið en hafi gleymt því að heimilin í landinu brenna enn." Við í VG einblínum svo sannarlega ekki á aðildarviðræður við ESB heldur erum að glíma við að fá áframhaldandi vinnufrið með samstarfsflokknum, sem aftur á móti virðist ekki sjá neitt annað hjálpræði. Og við erum engan vegin tilbúin að fórna auðlindum þjóðarinnar, hvorki fyrir vafasamt ,,hjálpræði" né annað. Bæði kosningabaráttan og viljinn til að fara í stjórnarsamstarf snerist um að bretta upp ermar og grípa til almennilegra aðgerða til að fjölskyldur og fyrirtæki þurfi ekki að líða meira fyrir axarsköft frjálshyggjunnar. Ég býst ekki við að þú sjáir betri kost í SOB stjórn, þannig að vonandi styður þú okkur í glímunni við kratana sem ættu að vera að hugsa um hag heimilanna en eru búnir að týna sér í einhverjum fullkomlega óraunsæjum ESB-draumum. Sumir þeirra (Björgvin og Árni Páll frændi minn) eru reyndar bara hreinræktuð frjálshyggjubörn, en Jóhanna þarf á VG að halda til að fara að vinna að alvörumálum, þau öskra á okkur.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 29.4.2009 kl. 10:29

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

... engan veginn .... á að standa þarna miðsvæðis ... vantaði eitt n!

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 29.4.2009 kl. 10:30

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Takk fyrir þetta, Anna vinkona!

Sennilega hefði ég kosið VG ef þið hefðu ekki samþykkt á landsfundi (eða hét samkoman ekki því nafni?) að beita ykkur fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. Þangað til var ég að ýmsu hallur undir ykkar málstað. En ef með einni samþykkt á að eyðileggja allt það menningar- og félagslegt samhjálparstarf sem rekið er af hálfu kirkjunnar og mögulegt vegna þess að hún er ríkiskirkja -- þá er mér öllum lokið. Því starf kirkjunnar er svo margfaldlega miklu meira en stólræða á sunnudegi!

En þetta með EU -- ég sé ekki betur en það sé notað nú -- aðallega þó af hálfu kratanna -- sem moldviðri í augu landsmanna svo þeir gleymi því sem mest á ríður: að taka hendinni til hér heima.

Sigurður Hreiðar, 29.4.2009 kl. 11:09

7 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

við verðum að komast út úr þessu á okkar eigin krónu, EU er hvort sem er ekkert að fara gerast á morgun.

En vona að Borgarhreyfingin finni sitt bakland.

Sumarkveðjur að austan

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 29.4.2009 kl. 18:24

8 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Sæll aftur! Hefði nú verið gott að hafa þig með þótt ég gerði mér ekki miklar vonir um það. Er afskaplega sammála þér varðandi félagslegt hlutverk kirkjunnar, sé það vel í minni sveit, og met hana sem mikils, en það er ekki hægt að vera sammála um allt, ég vil að kirkjur hafi tekjustofna eftir sem áður þrátt fyrir að breytingar yrðu. Reyndar held ég að við í VG séum í talsverðum minnihluta í afstöðu okkar eins og sakir standa. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 29.4.2009 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 305939

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband