Vængbrotið flugtak

Margir eftirminnilegir menn hafa orðið á leið minni gegnum lífið. Sumir fyrir ágæti sitt, aðrir fyrir sérkenni sín.

Í morgun rifjaðist upp fyrir mér maður sem við skulum kalla PP.

Ég var þá að vinna við fyrstu vinnuskálana í Reykjalundi, þá sem tóku við af bröggunum þar sem starfsemin hófst upphaflega. Ég veit ekki hvort PP var líka að vinna við þá eða eitthvað annað á Reykjalundi, en sennilega ætti orðið vinna að vera í gæsalöppum „“.

Hann „kom uppeftir" eins og það var kallað þá að koma frá Reykjavík til Mosfellssveitar síðdegis á mánudag eða þriðjudag, eftir því hvernig helgin hafði verið. Átti fleti í vinnumannaskála sem var um það bil þar sem efsti hluti bílastæðisins er núna og í því dvaldi hann þaðan í frá svo sem fram að hádegi á föstudag. Þá mjakaðist hann úr fletinu til að ná rútunni klukkan þrjú í bæinn aftur.

Ég sá hann aldrei vinna - né heldur taka á móti launaumslagi, svo gætt sé fyllstu sanngirni. Og hann hefði ekki komist upp með þetta háttalag hefði hann ekki átt föður á staðnum, ágætan og starfsaman iðnaðarmann sem - svo enn sé gætt fyllstu sanngirni - hafði áhyggjur og ama af háttsemi sonar síns.

Ég kynntist PP aðeins af því mér þótti gott að fleygja mér í autt fleti þarna í skálanum sem yfirleitt var þunnskipaður þegar ég var búinn að borða í hádeginu. Stundum reyndi PP að senda mig eftir einhverju handa sér að éta, en mér fannst hann bara geta borið sig eftir því sjálfur.

Einhvern tíma hafði tíkin Táta, hunda blíðust og prúðust, elt mig í vinnuna að morgni og til þess að tryggja að hún biði mín til vinnuloka skaut ég henni inn í skálann til PP og skipaði honum að gæta þess að hún færi ekki út fyrr en ég kæmi. Svo smurði ég nokkrar brauðsneiðar í hádegismatnum og færði tíkinni þegar ég fór í hádegishvíldina mína.

En viti menn, þegar ég lagði brauðmetið á gólfið handa tíkinni færðist óvænt líf í PP. Hann stökk fram úr rúminu, sem var þrekvirki þegar hann átti í hlut, hrifsaði matinn af hundinum og hafði góflað honum í sig áður en ég eða tíkin næðum að reisa rönd við. Þetta mun hafa verið á fimmtudegi og líklega hafði PP ekkert étið eftir að hann „kom uppeftir" eftir síðustu helgi.

Eitthvað iðjaði hann þarna í fleti sínu en hvað veit ég ekki nákvæmlega, nema að hann fékkst við að yrkja ljóð og þau órímuð, eins hafði farið að tíðkast þá fyrir nokkrum misserum. Ég laumaðist í ljóð PPs einhvern tíma í mánudagshádegi meðan hann var enn við helgariðju sína í Reykjavík og einhvern veginn festist eitt ljóða hans í minni mínu þennan dag og situr þar enn:

Ég reyndi að hugsa um þig/ en gat það ekki/ -- því hver sú hugsun sem hóf sig á loft/ vængbrotnaði í flugtakinu/ og nauðlenti á rúmstokknum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Verulega góð saga. Mér er líka alltaf minnisstæð sagan sem þú sagðir um drauminn um Ómar Ragnarsson. "Nei, nei, nei, nei. Ég er bara framliðinn!!"

Sæmundur Bjarnason, 1.9.2008 kl. 15:35

2 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Skemmtileg saga, ég sá kall alveg fyrir mér svífandi gírugur á hundsmatinn á gólfinu. En merkilega gott ljóð þó, svona miðað við hvaða tilfinningu maður var farinn að fá fyrir liðleskjunni.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 1.9.2008 kl. 17:00

3 Smámynd: Haraldur Davíðsson

...sammála Helgu, merkilega gott ljóð...

...ég kann eitt svona "örljóð" sem festist í mér og er eitt flottasta ljóðið, þykir mér..

Í stórum snjóskafli

liggur einmana,

lopavettlingur með gati.

Haraldur Davíðsson, 2.9.2008 kl. 03:09

4 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Góður, meira af svona, takk :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 2.9.2008 kl. 06:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 306016

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband