Of nýr og of linur 11% ostur – og ófáanlegur í Krónunni

Þegar ég var barn í föðurhúsum og mjólkin var send til Reykjavíkur í Mjólkurstöðina var bændum stundum gert að taka greiðslu að einhverjum litlum hluta með úttekt á eigin framleiðsluvörum, sem þá var gjarnan stungið í brúsana þegar þeir höfðu verið tæmdir og þvegnir í Mjólkurstöðinni. Ég man eftir fínasta smjöri, kílóklumpum innpökkuðum í -- já, smjörpappír, auðvitað -- skyri sem líka var innpakkað í einhvers konar pappír sem stundum hafði þó tilhneigingu til að grotna undan vökvanum í skyrinu. Og svo man ég eftir ostinum, heilum og hálfum hleifum.

Þessi ostur hét 30% ostur. Heima hjá mér vakti hann ekki mikinn fögnuð nema hjá pabba -- og mér. Þess vegna fékk hann stundum frið til að verða dálítið gamall, harðna og þorna. Þannig þótti mér hann allra bestur og þetta voru mikils til frjáls gæði þannig að ég mátti að kalla ganga í hann eins og mig lysti.

Þessi 30% ostur var magrasta ostkyn sem á boðstólum var. Síðan hefur mér þótt ostur því betri sem hann er færri %. Nú eru %-in reiknuð eitthvað öðruvísi, en ætli 11% nú séu ekki eitthvað í kyn við það sem 30% voru „í mínu ungdæmi“ (sem þykir einmuna kallalegt orðalag). Og enn þykir mér 11% ostur osta bestur.

Því miður er hann bara iðulega settur á markað allt of nýr. Linur og leiðinlegur, varla skær með venjulegum ostaskera -- osthefli. Hann rifnar í staðinn fyrir að skerast. Það væri hægt að kreista bitann óskorinn í sundur milli þumals og vísifingurs. Það þýðir einfaldlega að hann er of nýr. Með réttu ætti hann að fá að standa og þorna vel áður en hann er skorinn niður í neytendabita og pakkað inn.

Og það sem verra er. Hann fæst ekki í Krónunni, þar sem ég geri mest af mínum matarkaupum nú um stundir. Verslunarstjórinn hér í minni búð segir mér að það þýði einfaldlega að Kaupás -- móðurfyrirtæki og innkaupastofnun Krónunnar -- fái hann ekki á samkeppnishæfu verði.

Ja, svei, liggur mér við að segja.

Svo ég verð að fara í Bónus, sem mér þykir (hér á mínu svæði amk.) mun leiðinlegri verslun. En hlýt þó að eiga erindi þangað annað slagið. Til að kaupa ost. Og Nescafé Gull, sem heldur fæst ekki í Krónunni, af sömu ástæðu er mér sagt, af því birgirinn vill ekki láta Kaupás fá þá vöru á samkeppnishæfu verði.

Skítt með það. Ég kaupi þá bara allt það í Bónusi þann daginn sem ég hefði ella keypt í Krónunni. Þeir hjá Krónunni verða þá bara að hafa það. Og er víst slétt sama.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

ja - þetta með ostinn er rett- ekki hægt að skera heilar sneiðar ! Var farin að hugsa um að henda öllum ostaskerum- en takk ! þú bjargaðir því ! kv.

Erla Magna Alexandersdóttir, 9.11.2011 kl. 21:04

2 identicon

SHH- 30% ostur er sama og 17% feiti í þurrefni, 45% gömlu er sama og 26%

Þetta með verðin hjá Kaupási, innkaupastjórar stóru verslanakeðjanna vilja ráða því á hvaða verði innlendir framleiðendur selja sínar framleiðsluvörur. "Ef þú lætur mig ekki hafa það verð sem ég vil, versla ég ekki við þig og hafðu það!"

En þetta með að osturinn fari of nýr í búðir er þekkt, það eru einmitt innkaupastjórarnir sem halda því fram að innkaupastjórar heimilanna vilji ekki vel lageraðan ost. Því vilja þeir fá hann í raun alltof nýjan. Ég er svo heppinn að búa rétt við hliðina á ostaframleiðslusamlagi og fæ þar ostinn minn rétt lageraðan eins og ostameistararnir vilja hafa hann og þeirra dönsku formúlur segja að hann eigi að vera. Allt önnur vara og betri.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 9.11.2011 kl. 21:12

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Takk fyrir þetta, bæði tvö. Þorkell, má ég nokkuð vita hvar hægt er að kaupa ostinn rétt lageraðan? Síðasta æta ost sem ég keypti fékk ég í kaupfélaginu í Bifröst, einhverra hluta vegna. Erla Magna, eru kannski feitari ostarnir svona glundurslegir líka?

Sigurður Hreiðar, 9.11.2011 kl. 21:52

4 identicon

SHH - ég kaupi þetta hér á Króknum í kaupfélaginu hér, þeir pakka í samlaginu osti í stóra bita sem heitir Sveitabiti, veit ekki hvort þeir eru til sölu annarsstaðar. Hinsvegar er allur annar ostur sendur til pökkunar í Reykjavík, það má helst ekki selja hann beint frá vinnslustöðvunum, en gerð undantekning hér með þessa einu tegund.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 10.11.2011 kl. 16:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 305940

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband