25.12.2009 | 16:51
B O R I N G
Þegar ég var að alast upp tíðkaðist ekki í minni sókn að hafa aftansöng á aðfangadag. Á þeim tíma dags sinntu bændur og búalið gegningum svo hægt væri að halda jólin hátíðleg með fjölskyldunni. Jólamessan var á jóladag milli gegninga og þá mættu þangað allir í sínu fínasta pússi og nutu þess að hlusta á jólaguðspjallið og svo spjall prestsins þar að lútandi og taka þátt í að syngja Í Betlehem er barn oss fætt og Heims um ból.
Þá var ekki búið að finna upp að ekki mætti tala um guð og Jesúbarnið og að slíkt gæti verið börnum hættulegt.
Ég fór ungur að syngja með kirkjukór og þó það hafi verið með nokkrum hléum hafa hléin aldrei verið löng. Eftir að ég var hættur að ganga til gegninga og aftansöngur fór að tíðast í minni sókn og síðan miðnæturmessur á aðfangadag hef ég jafnan komist í best og mest hátíðaskap með því að taka þátt í þessum messum.
Kvöldið í gær var engin undantekning. Nema hvað þá var höggormur í þeirri paradís í seinni messunni.
Þegar prestur steig í stólinn og byrjaði að leggja út af jólaguðspjallinu settist ég á skákina hjá organistanum og virti fyrir mér prúðbúna kirkjugestina. Skáhallt fyrir neðan mig var ung kona - eða kannski bara rúmlega hálfvaxið telpubarn, brúðbúin og axlaber með skrautspöng um enni og þungt silfurarmband með skrautsteinum. Hún sat hjá föður sínum að ég held - getur varla hafa verið kærasti því aldursmunurinn leit út fyrir að vera talsverður.
Ég veit ekki af hverju ég fór að taka eftir henni. Kannski af því hún var svo ókyrr. Svo fór hún að hjúfra sig upp að pabba og reyna að hvísla einhverju að honum en hann færðist undan. Þá tók hún sig til og tók að teikna stafi með einum fingri á bekkinn fyrir framan, þar sem blasti við pabba og mér. Ég fylgdist með fingrinum og náði að lesa stafina: B O R I N G. Svo lagði hún kollinn að öxl pabba og þó ég sæi ekki framan í hana þykist ég vita að hún hafi lokað augunum, með fýlusvip.
Raunar risti hún þessar þöglu rúnir sínar nokkrum sinnum í bekkbakið. Veslingurinn. Því hún hefur gjörsamlega misskilið tilganginn með því að sækja miðnæturmessu á helgri nótt. Hún hefur haldið að þetta ætti að vera eitthvað fyndið. Hún gaf sjálfri sér ekki einu sinni séns á að vita hvað presturinn hefði að segja. Að leyfa hátíðleikanum að flæða til sín, hátíðleikanum sem aðeins fylgir jólum.
Ég færði mig til að verða ekki vitni að frekari rúnaristum stúlkunnar. En hún hafði náð að spilla fyrir mér stundinni og enn nú nær sólarhring síðar fæ ég hálfgerðan kökk í hálsinn við endurminninguna.
Í bæninni á eftir sóaði ég þó persónulegum bænatíma á þessa ungu konu og bað þess að henni bæri, þó seinna yrði, gæfa til þess að finna jólafriðinn og skynja hvað jólaguðspjallið raunverulega hefur að segja.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.