Haustdagar á Tenerífe

Nú á haustdögum þáðum við hjónin gott boð þríeinnar ferðaskrifstofu íslenskrar um sólarlottó á Tenerife. Höfðum aldrei á þá góðu Kanaríeyju komið en stundum horft til hennar frá Stóru Hundaeyju - Gran Canaria  -- og jafnvel rætt um að skreppa þangað dagsferð svo sem í boði er. En ætið fallið frá því með það í huga að skreppa þangað gagngert þegar svo bæri upp á eins og varð nú í liðnum mánuði.

0909160044.jpgÞegar maður kaupir lottó er ævinlega óvíst um vinning. Í sólarlottói er óvissan um gististaðinn og maður verður að þiggja það sem að er rétt. Hingað til hefur okkur ekki verið í kot vísað en sosum heldur ekki fengið það allra besta, nema ef það var þegar við tókum sambærilegt ferðaboð frá breskri ferðaskrifstofu til Kýpur.

Í þessu tilviki fengum við inni á Hotel Tropical Playa sem er í sjálfu sér ágætur gististaður hvað vistarverur og annað atlæti snertir, en umhverfið er afar lítið aðlaðandi. Til suðurs blasir við illa útgrafin sandgryfja - eða að þar stendur til að byggja eitthvað stórt og mikið þegar aftur blæs byrlega fyrir slíkum framkvæmdum. Þar á móti er fjölfarið hringtorg og við það hóruhús - eða hvað annað íslenskt heiti á við um 0909150036.jpgfyrirtæki sem auglýsir „erotic massage, body to body"? Að öðru leyti liggja ekki annað en bílagötur og byggingar að nærumhverfi þessa hótels.

Frá því er 10-15 mínútna gangur til fjöru. Auglýst fjarlægð í metrum er sögð 350-400 metrar en það hlýtur að vera reglustrikumæling stystu leið. Um þrjár gönguleiðir er að velja og ég þori að fullyrða að hin skemmsta - sem liggur meðfram steyptum lækjarfarvegi, þurrum er þetta var, er ekki undir 600 metrum. Þá miða ég við þekkta 400 metra leið hér í mínu nánasta heimaumhverfi. Engin þessara þriggja leiða er sérlega skemmtileg eða aðlaðandi.

0909150042.jpgGistingunni á Hotel Tropical Playa fylgdi hálft fæði, 0909100006.jpgmorgumatur og kvöldmatur. Okkur reyndist hann fjölbreyttur og prýðilegur. Hins vegar þykjumst við eiga þar einn kvöldmat inni, þó trúlega gangi illa að innheimta hann.  Lending frá Íslandi var svo seint um kvöld komudaginn suður þangað að matartími var afstaðinn. Þar sem við höfum lent í svipuðum aðstæðum á Gran Canaria hafa hótelin ævinlega látið kaldan mat, gjarnan smurt brauð og ávexti, í kæliskápinn ásamt góðri vatnsflösku en því var ekki að heilsa þarna. Kurteis kona í móttökunni benti mér á „súpermarkað" á næsta götuhorni sem opinn væri allan sólarhringinn og þannig bjargaðist þetta kvöld.

Og þarna fór vel um okkur næstu tíu dagana. Gisting okkar var kölluð stúdíóíbúð, en það er herbergi með dulitlum eldhússbekk og prýðilegu baðherbergi. Rúmið var mjög gott og svalirnar sömuleiðis, við vorum svo heppin að fá suðvestur-svalir þannig að mesta breiskjan var horfin úr sólskininu þegar það náði inn á svalirnar hjá okkur undir það að síestunni lýkur suður þar. Þrifnaðurinn var allþokkalegur, þrjá þrifnaðarkonur komu daglega og fóru eins og hvítur stormsveipur um stúdíóíbúðina, sjaldan lengur en þrjár mínútur og voru þá líka búnar að búa um rúmið. Hreint ónískar á þessi líka fínu, hvítu handklæði en diskaþurrku urðum við að kaupa úti í búð. Skorkvikindi hreint engin ef frá eru taldir örsmáir maurar sem voru sífellt eitthvað að úðra í kringum eldhússvaskinn en voru okkur svo sem ekki beint til ama, greyin, einkum af því við notuðum þessa elhúsboru svo sem ekkert.

0909170051.jpgEn af því ég lét í skína að við hefðum líka nokkra reynslu af Gran Canaria - hvor eyjan er mér nú hugleiknari eftir stutta kynningu af Tenerife? Svarið er að mér er sú fyrrnefnda afar hugfólgin og þar finnst mér ég eiga dável heima. En Tenerife er líka áhugaverð og viðmót þeirra sem við hittum þar ekki síðra en á hinni eyjunni. 10 dagar eru líka of skammur tími á nýjum stað þannig að mér þykir einboðið að þangað liggi leiðin aftur - og þá með gistingu nær ólgandi Atlanshafinu.

Og nú kem ég að aðalefninu. Er ekki sagt að rúsínan sé best geymd í pylsuendanum? - Ég hafði einhvers staðar lært að réttur framburður á nafni þessarar eyjar væri Tenerífe - lesið til fullnustu eins og íslenskt orð væri og endað á e-inu. Íslendingar margir hverjir hafa þann leiða sið að sleppa e-inu og segja bara Teneríf. Þetta heyrir maður enda líka hjá sumum, jafnvel fararstjórum, suður þar. Ég spurði innfædda hvernig ætti að bera fram þetta heiti, Tenerife, og svarið var að e-ið í enda orðs ætti að heyrast. Hitt væri bara þjónkun við þá sem helst vildu hafa allt upp á ensku.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Frikkinn

Ég gisti á þessu hóteli sumarið 2007 eða fyrir kreppu og þá var þessi mikla sandgryfja kominn, þannig að hún er búin að vera þarna lengi

Frikkinn, 15.10.2009 kl. 20:26

2 Smámynd: Yngvi Högnason

Ég hef aldrei komið þarna en mér líst nú ágætlega á þessa nuddstofu samkvæmt lýsingunni.

Yngvi Högnason, 16.10.2009 kl. 08:24

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Samgleðst ykkur vegna ferðarinnar og sjáumst á Gran Canaria við tækifæri, vona ég. Við höfum skoppið yfir til Tenerife og gist þar einu sinni í tvær vikur, þá vorum við í fallegu umhverfi um það bil fimm mínútna gang frá sjónum, sammála að það er kostur, þó að við Ari gistum nú reyndar alltaf frekar ofarlega á Playa del Inglés. Minnir að hótelið heiti Hacienda del Sol eða eitthvað álíka, við hliðina á Gala, látlaust en fallega innréttað.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.10.2009 kl. 18:59

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Takk fyrir innlitið, öll saman. Frikki -- já, mér sýndist þessi efnisnáma vera harla yfirgefin og óhrjáleg. Yngvi: um ágæti nuddstofunnar skal ég ekki segja og í raun kom hún mér ekki við, þótti bara óvenjulegt að hafa svona starfsemi nánast fyrir opnum tjöldum, vanari því að rekast annað veifið á hana ef ég renni augum yfir smáauglýsingar Fréttablaðsins.

Takk fyrir innlitið, vinkona Anna. Já, gaman væri að hitta ykkur Ara einhvern tíma á Gran Canaria og súpa með ykkur úr kollu, mætti kannski gerast á Terra Gelata líka! -- Þetta hótel sem við vorum á var ekki langt frá Gala og leið okkar til og frá sjávar lá gjarnan fram hjá Gala.

Sigurður Hreiðar, 18.10.2009 kl. 12:25

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gleymdi því Anna að ég ætlaði að svara þér á þínum eigin vettvangi, en þá ertu búin að loka á athugasemdir! Nú er ég hissa.

Sigurður Hreiðar, 18.10.2009 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 306295

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband