5.10.2009 | 20:47
Allt í vinstrigrænum sjó
Fréttablaðið segir í dag, og nafnkunnur stjórnmálafæðingur hnykkti á því í kvöldfréttum, að stjórnin sé svo gott sem fallin. Með úthlaupi Ögmundar og upphlaupi Guðfríðar Lilju og þeirra arms innan Vinstrigrænna sé ekki lengur nothæfur stjórnarmeirihluti fyrir hendi.
Viðbúið er að þetta sé rétt. Og þarf engum að koma á óvart sem hefur lifað við hefðbundin íslensk stjórnmál síðustu hálfa öldina og rúmlega það. Flokkurinn lengst til vinstri, hvað sem hann hefur heitað hverju sinni, hefur aldrei verið nothæfur nema í besta falli örskamma stund. Svo kemur smákóngahugsunin í ljós. Smákóngar eru ekki samstarfshæfir. Til samstarfs þarf samstarfsvilja og skilning á því að maður nær aldrei öllu fram sem maður helst vildi óska sér. Skilning á því að stundum -- kannski oftast? -- er betra að slá örlitlu af um sinn en láta ekki einn ósigur slá sig út af borðinu og missa þau tök sem maður annars getur haft til þess að þoka málum síðar meir aftur í átt til þess sem hugurinn stendur til. Nei, segir eðli smákóngsins, nú lem ég í borðið, læt á mér bera og kem fram af heiðarleika og einlægni, tek ekki þátt í leiknum lengur, ég er farinn heim í fýlu!
Kemur þetta einhverjum á óvart? Hvernig urðu Vinstrigrænir til? Jú, það var þegar smákóngar á vinstri vængnum gátu ekki hugsað sér að fara í samflot með öðrum vinstri mönnum þegar Samfylkingin varð til heldur þurftu að búa sér til sitt eigið smákóngaveldi. Er líklegt að eðli þeirra hafi breyst einhver ósköp á þeim skamma tíma er síðan kratar í heild og nokkrir kommar að auki urðu Samfylking?
Ég tel ekki að þetta þurfi að koma neinum á óvart. Og út af fyrir sig græt ég það fremur þurrum tárum þó þessi stjórnarnefna falli. Hins vegar finnst mér tímasetning þess heldur óhagstæð og flest annað hefðum við þurft heldur akkúrat núna heldur en stjórnarkreppu ofan á fjármálakreppu.
Kannski er það þó einmitt það sem smákóngarnir vilja helst. Þá munu þeir sjálfsagt kyrja, hver með sínu nefi -- ég efast um þeir geti sungið saman, hvað þá í kór -- allt í vinstrigrænum sjó.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 306289
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Nú liggur mikið við að ríkisstjórnin haldi sjó í þessum gríðarlegu erfiðleikum sem arfleifð íhaldsins skilur eftir sig.
Hvorki Framsókn né Sjálfstæðisflokkurinn má koma að landsmálunum. Ef svo yrði, verður væntanlega eitt fyrsta verk slíkrar stjórnar að stoppa rannsóknina á bankahruninu. Hún gengur hægt en vænta má að nú fari meira að gerast. Viðtalið við Evu Joly nú á dögunum bendir til að nú sé sitt hvað fastara í hendi og að nú megi vænta tíðinda.
Var í gær að ræða við einn af mínum bestu kunningjum mínum í lögfræðingastétt. Hann er mjög góður lögfræðingur og sækja margir ráð til hans. Þessi lögrfræðingur tjáði mér að það ætti ekki að koma á óvart að annar núverandi ritstjóra Morgunblaðsins verði í stöðu sakbornings innan tíðar. Málsatvik eru þau að viðkomandi veitti Landsbankanum 100 milljarða lán án nokkurra veða né trygginnga. Hér er mjög alvarlegt brot á 249. gr. hegningarlaganna, umboðssvik.
Þessi grein hljóðar svo: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi“.
Ekki hefur verið rætt mikið um þetta einstaka mál en þarna er um gríðarlega fjármuni að ræða.
Allar þessar rannsóknir þarf að leiða til lausnar þessa erfiða máls. Ef ríkisstjórnin heldur ekki og nánari rannsókn að engu gerð, hvaða skilaboð eru það til heimsbyggðarinnar? Eru Íslendingar þá eitt minnst spillta þjóð heims? Ætli það myndi ekki snúast við á örskotsstundu og við sett á stall með spilltustu löndum heims?
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 8.10.2009 kl. 11:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.