2.10.2009 | 22:53
Lausn fyrir fórnarlömb hrunsins?
Eftir væran svefn í tæpt ár rumskuðu stjórnvöld aðeins þegar staðið var frammi fyrir greiðsluverkfalli sem getur orðið óþægilegt fyrir bankana, svo ekki sé meira sagt. Þá loks greip þau írafár svo þau ruku til og hnykktu á gamalreyndri aðferð til hagsbóta fyrir heimili sem ráða ekki við svimháar afborganir af lánum, ýmist verðtryggðum upp á gamla mátann eða gjaldeyrisviðmiðuðum: Færa afborganir aftur til þess sem var fyrir gengishrunið (sem var í raun mun afdrifaríkara en bankahrunið per se, einkum ef við lítum fram hjá Ísbjörgunum) ásamt óljósi loforði um að ef eitthvað verði ógreitt af höfuðstólnum þegar lánstíma lýkur (25 ár, 40 ár, hver eða hvað sem verður þá við stjórnvölinn hér) verði það sem út af stendur afskrifað.
Takk fyrir kærlega, vinstri stjórn. En vantar ekki dálítið upp á? Ég sé ekki betur en t.a.m. það húsnæði sem stendur í veði fyrir þessum lánum sé óseljanlegt til jafnlengdar. Hver fer að kaupa íbúð fyrir 25 milljónir með veðbagga upp á 48 milljónir? Eða þó veðbagginn væri ekki nema upp á 30 milljónir. Jafnvel þó óljóst fyrirheit sé um að það sem ógreitt verði af honum verði fellt niður, ja, kannski, hugsanlega, árið 2050 eða svo?
Eru þetta góðir kostir? Eru þetta góðir stjórnarhættir? Er þetta lausn fyrir fólkið sem varð fórnarlömb hrunsins?
Ég sé ekki betur en það verði allan lánstímann fangar í skuldafangelsi, fjötrað innan sömu veggja alla tíð, jafnvel þó múrar henti fjölskyldunni engan veginn allan þann tíma.
Staksteinar Moggans töluðu um fjölskyldu sem keypti þriggja herbergja íbúð og gat svo ekki selt tveggja herbergja íbúðina, endaði með að missa báðar. Fólkið sem á allt sitt undir úrræðum vinstri stjórnarinnar í lánamálunum sem hrunið setti úr böndunum getur ekki einu sinni látið sig dreyma um annað en hírast megnið af ævinni í gömlu tveggja herbergja íbúðinni.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 306289
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.