22.8.2009 | 15:18
Prúttnir þjófar og ómannleg mistök
Stundum er eins og við tölum áður en við hugsum eða jafnvel án þess að hugsa og þetta á ábyggilega við um ritað mál líka: við skrifum áður en við hugsum eða án þess að hugsa.
Dæmi um þetta eru fastir frasar sem hver étur eftir öðrum án þess að hugsa um hvað það þýðir sem við erum að segja. Kvenkyns þingmaður Borgarahreyfingarinar bar samhreyfingarmann sinn forláts á því á dögunum, og það úr ræðustóli Alþingis ef ég hef skilið rétt, að segja efnislega í tölvupósti til þriðja (eða jafnvel líka fjórða og fimmta) að hann væri sjúklegur rugludallur. Þingmaðurinn bar því við að þetta hefðu verið mannleg mistök.
Mér er spurn: Eru til mistök sem ekki eru mannleg?
Oft heyrir maður og les að einhver geri eitthvað sem honum einum er lagið. Þá hefur mér skilist að hann hafi gert eitthvað sem hann gerir vel, eða að minnsta kosti liðlega. En í mörgum tilvikum er vitað um sosum hundrað manns sem gera þann sama hlut vel, eða að minnsta kosti liðlega. Þarna hlýtur að vera átt við að manninum sé þetta lagið -- sem sagt til lista lagt, án þess að það sé að nokkru leyti hans einkaleyfi.
Í Fréttablaðinu í dag er sagt undir eyranu FRÉTTIR AF FÓLKI frá því að óprúttnir þjófar hafi einhvern tíma í sumar stolið tölvu úr Borgarleikhúsinu.
Mér er spurn: Eru til prúttnir þjófar -- eða yfirleitt þjófar sem ekki eru óprúttnir?
Væri ekki stundum gott að hugleiða hvað orðin þýða -- og jafnvel fletta þeim upp?
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.