Blikastaðir hafa breytt um nafn

Rétt við bæjardyr Reykjavíkur stendur enn bærinn Blikastaðir. Nú í Mosfellsbær, þar áður Mosfellssveit. Framan af öldum þótti þetta hálfgert kot en það dæmi snerist við á öldinni sem leið og um hríð var þar rekið eitt stærsta kúabú norðan Alpafjalla -- alveg örugglega stærsta bú með íslenskar gæðakýr sem eins og kunnugt er gefa af sér heilsusamlegri mjólk og mjólkurafurðir en dýr með sama tegundarheiti gera annars staðar.

Nú mun bær þessi kominn í eigu verktakafyrirtækis sem smám saman er að breyta túnum og móum, melum og hólum í byggingalóðir og golfbrautir. Og líklega nafni bæjarins líka. Blikastaðir eru víst ekki lengur í fleirtölu heldur sýnist heitið Blikastaður vera orðið nýtt heiti bæjarins. Ef marka má skilti sem komið er upp við heimreiðina að bænum. Samanber myndina hér að neðan, sem ég tók núna rétt áðan:

0908200046.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Tímarnir breytast, og mennirnir með. Og staðarnöfn líka.

Þetta hefur lengi farið í taugarnar á mér.

Á skilti vegagerðarinnar austur á landi, stendur Smyrlabjargará, við ána sem rennur hjá Smylabjörgum.

Fólk í ferðaþjónustu er oft ekki með staðarnöfn á hreinu, þar sjást oft nöfn eins og:

Skógarfoss, Snæfellsnesjökull og Hornarfjörður.

En, full ástæða til að benda á og halda vöku sinni varðandi staðarnöfn.

Man annars nokkur hvað kaupstaðurinn í Fáskrúðsfirði heitir ?

Börkur Hrólfsson, 20.8.2009 kl. 20:27

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Heimur versnandi fer og örnefnin þar með.

Á miðöldum voru fleiri myndir af þessu bæjarheiti. Þannig minnir mig að hafa rekist á Blakkastaði hvað sem það nú á að merkja.

Á Blikastaðanesi var áður töluvert æðarvarp. Síðustu bændur á Blikastöðum ræktuðu það og sinntu vel meðan heilsa leyfði. Fyrir ströndinni má enn sjá allmarga blika synda í flæðarmálinu en fleiri voru þeir fyrir um 3 áratugum þá eg fór að ganga þar um. Æðarkollurnar voru á hreiðrum en blikarnir söfnuðust saman og væntanlega er nafn bæjarins af því dregið.

Eigi er ljóst hversu gamalt orðið bliki er í íslenskunni. Örnefni eru yfirleitt mjög gömul. Þau eiga stundum til að breytast en þessi breyting sem þú bendir á, er væntanlega eins og hver önnur flýtisvilla. Nú á tímum er því miður ekki alltaf tími hjá öllum að doka við og hugsa dálítið betur og meira áður en ritað er og látið frá sér fara.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 20.8.2009 kl. 20:28

3 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Mér þykir verst að ég skyldi ekki fá að koma í fjósið á Blikastöðum.Ég er viss um að svo stórfenglegur kúabúskapur hefði orðið mér ógleymanlegur. Ekk víst að fjósamennirnir þar hefðu gefið sér tíma til að horfa og hlusta á smástelpu syngja um Dísu í dalakofanum og dansa sömbu, eins og við gerðum í fjósinu í Hvammi. Ætli þeir hafi ekki líka allir verið danskir?

Amma fór bara með okkur inn í bæ til Helgu og  við áttum að leika okkur við Kristínu og Magnús. Ég man nú reyndar ekki eftir því að mér þætti það mjög skemmtilegt ,var víst ekkert að biðja um að fara aftur seinna. Ég hef víst lengst af viljað velja mína leikfélaga sjálf.

En það var held ég meira spennandi að koma að Bjargarstöðum, samt var Hjörtur ekki nærri því fæddur. Ég man bara eftir Bjössa þá. 

Helga R. Einarsdóttir, 20.8.2009 kl. 20:31

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Börkur: Kannski ruglar það menn eitthvað í ríminu að Smyrlabjörg (í fleiritölu) hjólmar eins og kvenmannsnafnið Smyrlabjörg -- ef hún væri til! Annars laumast R inn í staðaheiti á ólíklegustu stöðum eins og þú raunar bendir á og ég get bætt við Laugarveginum í Reykjarvík".

Mosi: Ég man líka vel eftir Blikunum og heima á Hulduhólum var reynt að hlúa að æðarvarpinu eftir föngum. Það var mest niðri á Langatanga aðeins utan við girðinguna hjá okkur, en fjögur hreiður voru ævinlega rétt neðan við kúahliðið heima -- á að giska þar sem nú stendur blokkin í Fálkahöfða -- líklega nr. 8.

Helga: Nokkrum sinnum kom ég í fjósið á Blikastöðum og stundum var ég sendur þangað með kú sem þurfti að finna naut. Hafði þó jafnan meira gaman af að koma þar í hlöðuna sem mér þótti ævintýralega stór og steypt ökubrú eftir henni endilangri með dyrum við hæfði á báðum göflum. -- En í þá gömlu og góðu daga var snyrtimennska í fyrirrúmi við útihúsin á Blikastöðum, sem varla verður sagt nú til dags þegar þetta er e-s konar ruslakompa fyrir -- hvað? Ístak? Ég man ekki hvað verktakafyrirtækið heitir sem á þetta núna.

Sigurður Hreiðar, 20.8.2009 kl. 21:19

5 identicon

Hrikalega pirrandi þróun, og einkennileg árátta fólks að bæta við þessu bévíans erri inn í orð.

Öfgakenndasta dæmi um þetta sem ég man eftir er af bróður mínum, þegar hann sagði, kinnroðalaust "Kóparvogur" 

Ég var næstum því farinn að gráta...... 

Guðmundur Helgason (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 12:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 306294

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband