27.7.2009 | 12:53
Um staðgengil fóstrunnar (fyrirgefið: leikskólakennarans)
Ekki man ég hvaðan mér kemur þessi saga. Kannski las ég hana einhvers staðar á blogginu? En mér þykir hún góð og þar sem ég hef ákveðið að nenna ekki að blogga um öll leiðinlegu málin að sinni -- það hefur hvort sem er ekkert upp á sig því enginn virðist hafa vit á að fara eftir mínum góðu ráðum -- læt ég hana bara gossa hér. Er reyndar að hugsa um að fóðra ykkur á góðum smásögum þessa vikuna:
Pjakkur nokkur á leikskóla -- kannski sá sami og ég sagði frá í gær? -- hafði komist upp á lag með að láta fara vel um sig þegar kom að kyrrðarstund dagsins. Þá settist fóstran (fyrirgefið, leikskólakennarinn) flötum beinum á gólfið út við vegg og las eitthvað fallegt fyrir börnin til að róa þau. Þessi piltur sá sér fljótlega leik á borði að setjast þétt upp við fóstruna (fyrirgefið, leikskólakennarann) og hjúfra sig upp að henni og gerði þetta alla daga.
Svo fór fóstran (fyrirgefið, leikskólakennarinn) í frí og unglingsstúlka hljóp í skarðið fyrir hana. Unglingsstúlkan fékk nokkra tilsögn í því hvernig best væri að fara að og fyrsta daginn settist hún flötum beinum á gólfið út við vegg, eins og fóstran (fyrirgefið: leikskólakennarinn) hafði gert til að lesa eitthvað fallegt fyrir börnin. Og drengurinn hljóp til eins og hann var vanur og hjúfraði sig upp að staðgengli fóstrunnar (fyrirgefið, leikskólakennarans).
Þegar staðið var upp eftir lesturinn mældi strákur unglingsstúlkuna með augunum, upp úr og niður úr. Svo spurði hann: Átt þú engin brjóst?
Unglingsstúlkan stokkroðnaði en svaraði svo, dálítið særð: Jú, auðvitað á ég brjóst.
Jæja, sagði pjakkurinn. Heldurðu að þú viljir þá ekki hafa þau með þér á morgun?
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 306295
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góðar sögur báðar tvær. Ég á nokkrar líkar þessum úr minni vinnu, þær koma kannski þegar ég fæ aftur almennilega lyst á skriftum.kv.
Helga R. Einarsdóttir, 27.7.2009 kl. 21:06
Var þetta kannski barnaskólakennari, nei, ég meina grunnskólakennari? Varla hjúkrunarkona, nei, ég meina hjúkrunarfræðingur?
Bestu kveðjur úr Tungunni frá Kalla Tomm.
Karl Tómasson, 27.7.2009 kl. 22:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.