Að biðja Guð að hjálpa sér

Forlátið mér þó ég sé dálítið með böggum hildar yfir því hvað ég á að kjósa á laugardaginn. Eða hvort ég á yfirleitt að kjósa. Mér finnst í sjálfu sér meira prótest felast í því að kjósa alls ekki -- fara ekki á kjörstað -- heldur en fara á kjörstað og skila auðu. Það finnst mér í sjálfu sér vesældómur.

Ég tók því tveim höndum að fara inn á kosningakompás mbl.is og svara þar spurningum sem eiga að sýna mér hvaða framboði ég á helst samleið með. Gerði það eins og ég hafði best vit á og viti menn: Niðurstaðan var sú að ég ætti helst að kjósa framboð sem ég mun aldrei kjósa vitandi vits.

Kompás þessi er að mér skilst byggður upp eftir því sem forsvarsmenn framboðanna hafa lagt áherslu á í málflutningi sínum. Sem í flestum tilvikum er, að mér virðist, það sem þeir álíta að helst muni vænlegt til að afla framboðum þeirra fylgis. Og forlátið mér enn þó ég sé mjög beggja blands um það hvaða hugur fylgir þar máli. Því þegar allt kemur til alls er alveg sitt hvað að gaspra í stjórnarandstöðu og/eða kosningabaráttu eða haga sér með valdið og ábyrgðina í höndunum. Sjáið bara Steingrím Jóhann og kúvendingu hans gagnvart AGS. Eða hlustið á æpandi þögn Ögmundar eftir að hann komst til ábyrgðar.

Ég hef enn viku til að ná niðurstöðu í þessu efni. Á ég að segja vitrænni niðurstöðu? Mér hrýs hugur við því að fá aftur neyðarstjórnina sem ráðskast hefur hér síðustu vikurnar. Enn verra væri þó að fá aftur samkrull eins og ríkti vikurnar sem fallið átti sér stað síðast liðið haust.

Hvað er þá til ráða? Ástþór með sínum bægslagangi og offorsi? Guð forði mér. Og almennt séð: Ég held ég verði bara að treysta á þann síðastnefnda og að hann vísi mér veginn á laugardaginn kemur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ja þú segir nokuð.....ekki hafði mér dottið hann í hug til að hjálpa mér að taka ákvörðun...ég kanski mæti á kjörstað eftir alltsaman

Ráðvillt (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 17:08

2 identicon

Herrann eða Mogginn?

Alveg Sammála/Mjög Mikilvægt -- Borgarahreyfingin

Alveg Sammála/Engu Skipta -- Borgarahreyfingin

Hvorki Né/Mjög Mikilvægt -- Lýðræðishreyfingin

Hvorki Né/Engu Skipta -- Lýðræðishreyfingin

Alveg Ósammála/Mjög Mikilvægt -- Lýðræðishreyfingin

Alveg Ósammála/Engu Skipta -- Lýðræðishreyfingin

Hvaða kompás er bilaður?

Magnús Þ. Þórðarson (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 17:22

3 Smámynd: Marilyn

Skil ekki þegar talað er um að það sé meira "statement" að fara ekki á kjörstað heldur en að skila auðu. Hvernig á maður að vita muninn á vesalingum sem hafa ekki áhuga á málefnum frambjóðenda eða pólitík og kosningum yfirleitt og nenna hreinlega ekki að hafa skoðum eða þeim sem eru að mótmæla "öllum slæmum kostum".

Þetta er álíka og að auðir og ógildir eru taldir saman nema þarna væru vesalingar og "mótmælendur" ekki taldir saman. 

Marilyn, 18.4.2009 kl. 18:33

4 identicon

Ætli Guð fari nú mikið að blanda sér í þessi mál.    Til hvers að mæta á kjörstað, það er ekkert boðlegt í boði.   

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 19:57

5 identicon

Ekki sé ég neitt rangt við að skila auðu og líta alls ekki að það sem neinn vesaldóm.  Maður sem skillar auðu er að segja vissa hluti sem eru ekki vesaldómur.   Það segir hins vegar ekki neitt um neitt ef fólk bara mætir ekki.  Sammála Marylin.

EE elle (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 20:06

6 identicon

Nei, Marilyn.

EE elle (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 20:07

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurður. Mér finnst ekki vesældómur að skila auðu í kosningum. Segjum að þú sjáir bara tvo kosti í stöðunni. Annaðhvort að mæta ekki eða mæta og skila auðu.

Ef þú mætir ekki getur það verið af ýmsum ástæðum. Til dæmis að þú hafir engan áhuga á þessu kosningastandi.

Ef þú mætir og skilar auðu ertu að mínu viti að gefa yfirlýsingu um að þú hafir áhuga en finnir engan flokk sem þú er nægilega sammála til að kjósa.

Mestu skiptir samt hvað þér sjáflum finnst.

Sæmundur Bjarnason, 18.4.2009 kl. 22:00

8 identicon

Sigurður, ætlaði ekkert að kolfella þig þarna í no. 5.  Og er líka sammála Sæmundi að mestu skiptir samt hvað þér sjálfum finnst.

EE elle (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 22:26

9 Smámynd: Gerður Pálma

Blessaður Sigurður,
Það er sannarlega vandasamt að vera Íslendingur í dag, alvarlegasta valið í þessum kosningum að mínu mati er hvort við viljum halda áfram flokksræði og klíkustarfsemi sem því miður mun halda áfram með því að kjósa fjórflokkana, það er nú einu sinni eðli þeirra.
Flokkurinn sem fer fram í þeim eina tilgangi að gefa mjöguleika á að breyta kerfinu í lýðræðiskerfi er BORGAHREYFINGUNA,
Valið er í raun -
Flokkakerfið eins og var  -  þá er hægt að kjósa einn af fjórflokkunum
Nýtt Ísland, ný stjórnarskrá - Borgaraflokkurinn
Borgarahreyfingin er þverpólitísk og samanstendur af hugsjónafólki sem elskar Ísland, þar er ný byrjun.
Með nýrri skýrri stjórnarskrá mun starf núverandi flokka skýrast og einbeitingin mun meiri í að þjónusta landið heldur en nú þegar allt gengur út á að tryggja sæti, sem við, kjósendur,  hugsanlega viljum alls ekki að viðkomandi sitji.
Með því að mæta ekki á kjörstað er hættan á að gengið sé útfrá að viðkomandi hafi ekki áhugi á þjóðfélagsmálum.

Gerður Pálma, 19.4.2009 kl. 08:11

10 Smámynd: Hörður Hilmarsson

Er ósammála þér Sigurður varðandi það að skila auðu í kosningum. Í því felst að mínu mati sterkari afstaða heldur en að kjósa ekki. Með því að nýta atkvæðisréttinn og skila auðu er kjósandi að gefa skýr skilaboð um að honum sé ekki sama, en hann sé ósáttur við þá valkosti sem í boði eru. Ég er það og ætla því að skila auðu.
Kveðja

Hörður Hilmarsson, 19.4.2009 kl. 11:37

11 identicon

Skil ekki alveg þetta með að mæta ekki, eða skila auðu. Þá afsalar maður sér um leið réttinum til að kvarta yfir úrslitum eftirá! Einhver blanda af því sem er í framboði núna mun ráða ferðinni næstu ár, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Þá myndi ég ætla að það væri skylda hvers eins að reyna að hafa áhrif á það, eftir sinni bestu samvisku.

Snæbjørn Bjornsson Birnir (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 12:08

12 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ánægjulegt að sjá hve margir hafa skoðun á þessu máli. Það sýnir að margir eru að velta því fyrir sér hvernig þeir geta helst lýst í kosningum vanþóknun sinni á framboðskerfinu eins og það er.

Ef litið er á kjörsókn til alþingiskosninga hér og þeirra landa sem við viljum gjarnan miða okkur við kemur í ljós að kjörsókn -- það að mæta á kjörstað, taka við kjörseðli í hendurnarog skila honum frá sér í kjörkassa -- er með því mesta sem þekkist. Ef við gætum lækkað þá tölu hlýtur að verða að taka það sem skilaboð um að leikurinn sé þess eðlis að við kjósum að taka ekki þátt í honum.

Ef við hins vegar skilum auðu er atkvæðið þar með lagt til jafns við ógilt atkvæði -- þ.e.a.s. seðil einhvers sem ekki kann að kjósa og skemmir þar með atkvæði sitt. Þar með sýnum við að við tökum að vísu þátt í leiknum, en einna helst með aðferðum Bobbís heitins Fissérs -- eftir leikreglum sem við búum til sjálf á staðnum á stundinni.

Í Guðs friði.

Sigurður Hreiðar, 19.4.2009 kl. 13:41

13 Smámynd: Marilyn

Málið með það að sitja heima er að ríkisstjórnin les ekki hugsanir. Enginn veit hvað þeir sem sitja heima eru að hugsa, hverjir eru að "mótmæla" innra með sér og hverjir eru bara áhugalausir. Þar sem kosningar á íslandi eru engin eldflaugavísindi má gera því skóna að ógildir seðlar séu í mesta lagi 5% af því sem kallast "auðir og ógildir" og því auðveldara að sjá mótmæli á fjölda slíkra atkvæða. Maður hefur áhuga á lýðræði ef maður mætur á kjörstað. EF þú vilt kalla það "leik" til að taka þátt í og taka ekki þátt í að kjósa eða ekki kjósa þá það. Fyrir mér er það lýðræðisleg skylda mín að mæta á kjörstað, hvernig sem atkvæðaseðillinn lítur svo út þegar ég hef lokið mér af. Ég held samt að ekki bjóðist betri eða áreiðanlegri leið til að meta vilja þjóðarinnar og skoðanir, hvað sem flokkakerfinu líður, og því verða kosningar alltaf notaðar til þess. Það er líka hægt að telja auða og ógilda í sitt hvoru lagi en það væri örugglega flóknara að telja letingja, upptekna og áhugalausa frá þeim mótmælendum sem heima sitja. 

Mikla kosningaþátttöku hér á Íslandi má örugglega að miklu leyti rekja til þess hve fá við erum en líka til þess hversu hátt menntunar- og mannréttindastig er hér í landinu (og ég er ekki með þessu að segja að hér sé allt fullkomið). Ég hef amk. ekki séð neinar fréttir enn um að fólk sé hér hrætt við að kjósa, verðir fyrir hótunum vegna stjórnmálaskoðana eða geti ekki kosið vegna ólæsis. 

Marilyn, 19.4.2009 kl. 18:15

14 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Takk fyrir þolinmæðina, Marilyn, þú telur mig greinilega ekki vonlausan og hugsanleg sé hægt að koma vitinu fyrir mig. En ég er ekki bara að hugsa um ríkisstjórnina sem við höfum nú heldur pólitískt framboð yfirleitt. Og setjum dæmið svona upp: Kosningaþátttaka hefur undanfarnar kosningar verið um 90% (veit að þetta er ekki nákvæmt en ég er hér bara að setja upp dæmi) og síðan eftir gauragang eins og þann sem hér hefur ríkt síðan í október, dettur hún niður í 75%. Telur þú að hægt sé að afgreiða það afhroð aðeins með áhugaleysi eða djúpstæðum veikindum þeirra sem láta ekki hafa sig að leiksoppi í þessum efnum?

Sigurður Hreiðar, 19.4.2009 kl. 19:31

15 Smámynd: Snæbjörn Björnsson Birnir

Held að flestir sem skila auðu, eða mæti ekki, sé fólk sem áður hefur kosið íhaldið og getur ekki hugsað sér að kjósa neitt annað. Alveg sama hvað á gengur. Eins og menn séu að bíða eftir einhverju nýu og "betra" íhaldi. Þá held ég að þeir verði að bíða lengi!

Snæbjörn Björnsson Birnir, 19.4.2009 kl. 22:02

16 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þarna veður þú reyk, Snæbjörn frændi. Ég held að ég hafi þegar gert grein fyrir því að ég hef í gegnum tíðina einhvern tíma kosið alla fjórflokkana nema krata hef ég aldrei kosið, hvað sem þeir hafa kallað sig hverju sinni. Ég er ekki einu sinni að lofa því að skila auðu þó mér þyki sá kostur enn vænlegastur fyrir þá sem finna enga samstöðu með neinu sem í boði er og mest prótest í því fólgið. En eitt máttu vita: Fari ég á kjörstað greiði ég atkvæði. Sá heigull er ég ekki að skila auðu.

Sigurður Hreiðar, 19.4.2009 kl. 22:25

17 identicon

Það ætti líka að telja auða seðla og ógilda sitt í hvoru lagi, er það ekki?  Þannig fæst alvöru niðurstaða um þá sem mættu.

EE elle (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 23:18

18 Smámynd: Marilyn

Nei Sigurður ég er viss um að þú ert "vonlaust keis" hehehe ;) þeas. ég ætla ekki að reyna að breyta skoðun þinni. En mér finnst bara afskaplega gaman að ræða þetta mál.

Annað merkilegt heyrði ég um daginn sem var það að öll ógreidd atkvæði eða ógild atkvæði (hvort sem fólk mætir ekki eða skilar auðu) væru sjálfstæðisflokknum í vil. Veit ekki hvernig manneskjan komst að þessari niðurstöðu en þykir samt rökrétt í framhaldi af þessari fullyrðingu, ef fólki er alvara með að losna alveg undan sjálfstæðisflokknum, að kjósa vinstri græna þar sem þeir einir hafa lofað að vinna ekki með þeim flokki. 

Það er samt einmitt kjánalegt við þetta flokkakerfi allt saman að sumir kjósa flokk sem þeir eru ekki nógu sammála til þess eins að losna flokk sem þeir eru algerlega ósammála vegna þess að flokkurinn sem þeir eru mest sammála er með of lítið fylgi eða fullur af bjánum þrátt fyrir að málefnin séu góð.

Að lokum langar mig að mótmæla því að kalla það heigulskap að skila auðu. Mér finnst meiri heigulskapur í að sitja heima og autt atkvæði fyrir mér jafngildir mótmælum. Mótmælendur er ekki heiglar.

Marilyn, 20.4.2009 kl. 11:41

19 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þú ert skemmtileg, Marilyn, best gæti ég trúað að þú væri frænka mín! Ég svaraði þér akki alveg strax af því mér þykir þessi síðasta athugasemd þín nokkuð merkileg, t.d. þetta með bjánana í flokkunum og hvernig fólk kýs einn lista í hallæri til þess að mótmæla öðrum.

Þar fyrir utan finnst mér slæmt að VG skuli hafa heitið því að vinna ekki með Sjstfl. eftir kosningar, því eins og málin standa núna hygg ég hag Íslendinga best borgið í nánustu framtíð með meirihlutastjórn VG og Sjstfl. Áframhald Samfylkingar og VG er skelfileg tilhugsun!

Stend svo við orð mín um það hvar heigulskapurinn liggur.

Sigurður Hreiðar, 20.4.2009 kl. 12:57

20 identicon

Því skyldi ég kjósa það sem ég er óánægð með?

Ef ekkert er í boði sem ég get hugsað mér að velja, á ég þá bara að sitja heima og vera í fýlu?

Ef ég geri það, þá er ég að kasta mínu atkvæði á glæ.

Ef ég er skráð inn á kjörstað og fæ minn kjörseðil þá hef ég það val að nýta hann samkvæmt minni sannfæringu.

Ef sannfæring mín er sú að mér finnist enginn kostur sem í boði er ásættanlegur, þá hlýt ég að skila auðu.

Ég kýs  ekki bara eitthvað eða eitthvað, bara af því að ég er komin inn í kjörklefann og á minn rétt á að nýta kosningarrétt minn.

Því miður þá eru leikreglurnar vitlausar - þær taka ekki mið af því að kjósandinn geti líka túlkað  óánægju sína né að tekið sé mark á henni.

Það er nefnilega vitlaust gefið.

Ruth Fjeldsted (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 22:32

21 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já, Ruth, ég er hræddur um að það sé vitlaust gefið í þessu eins og svo mörgu öðru. Og þú getur gefið til kynna að þú viljir ekki spila með í spili þar sem vantar í stokkinn eða gjöfin er svindl, með því að setjast ekki við spilaborðið. Mér þykir það kröftugra heldur en sá kostur að skila auðu, sem mér þykir, eins og að ofan er skráð, vesældómur.

Sigurður Hreiðar, 21.4.2009 kl. 23:00

22 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei Ruth. Það er ekkert endilega vitlaust gefið. Réttara að segja að það sé vitlaust talið. Yfirleitt er sagt að auð og ógild atkvæði séu svo og svo mörg. Venjulega eru þessi atkvæði fremur fá og lítið hlutfall af greiddum atkvæðum. Þessvegna skipta þau kannski ekki miklu máli. Ef auðu atkvæðin væru marktækt hlutfall af greiddum atkvæðum horfði málið öðru vísi við.

Sæmundur Bjarnason, 21.4.2009 kl. 23:03

23 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurður, þarna get ég ómögulega verið sammála þér. Léleg kjörsókn getur stafað af ýmsu. Skemmtilegt efni í sjónvarpinu. Slæmt veður. Óánægja með kjördag. Kosningar ekki á réttum tíma o.s.frv. Mörg auð atkvæði geta aðeins stafað af því að kostirnir sem í boði eru séu ekki nógu góðir í augum þeirra sem auðu skila. Jú og kannski eru þeir að þykjast nota sinn rétt án þess að gera það í raun og veru og leggja talsvert á sig til þess.

Sæmundur Bjarnason, 21.4.2009 kl. 23:14

24 identicon

Ég er ekki heiðarleg, hvorki gagnvart sjálfri mér né frambjóðendum, ef ég kýs eitthvað sem ég er ekki sátt við, bara af því að ég er komin með kjörseðilinn í hendurnar.

Já, ég er sammála Sæmundi,  það er/verður  vitlaust talið.

Ruth Fjeldsted (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 23:28

25 Smámynd: Marilyn

Gallinn við spilaborðslíkinguna er sú að eina leiðin til að sitja ekki við borðið er líklega að flytja úr landi. Sértu Íslendingur á Íslandi situr þú óhjákvæmilega við spilaborðið og eina valið er hjarta, spaði, tígull og lauf og svo tveir jókerar ;)

Marilyn, 26.4.2009 kl. 03:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband