24.3.2009 | 12:57
Groddaskapur og sóðaskapur
Heimurinn er fljótur að taka við sér þegar honum er misboðið með eitthvað. Nú ætla Svíar að hætta að éta góðan norskan eldisfisk af því sagt var í sjónvarpsþætti þar ytra -- og endurtekið hér heima -- að hann væri alinn á íslensku fiskimjöli sem unnið væri úr fiski sem hugsanlega gæti verið matfiskur milliliðalaust.
Svona er nú það. Við lofsyngjum lóuna sem komin er að kveða burt snjóinn og dásömum hennar dirrindí allt sumarið meðan hún er að koma upp ungunum sínum sem hún flýgur svo með austur um haf í haust til að vera skotin og étin sem lúxusmatur í Frakklandi.
En aftur að þessum sjónvarpsþætti um austfirska fiskimjölið sem eldisfiskur í Noregi er fóðraður á. Ég sá þennan þátt og þar með þátt hins jörmunrekna og nú burtrekna verksmiðjustjóra sem þar fór mikinn og gaspraði um að það yrði að drepa eitthvað til að setja á pönnuna, stóð í stafni á dýrum knerri með tveggja hlaupa frethólk og skaut í allar áttir, hirti svo skothylkin úr og fleygði þeim allt í kring um sig, í sjóinn eða á þilfarið eftir því hvar þau vildu lenda, tókst fyrir rest að skjóta auman svartfugl og lét snúa knerrinum af stefnu og eyddi glás af olíu í að sækja svartfuglshræið til að geta rifið það úr hamnum -- og fleygt hamnum í sjóinn. Já, lengi tekur sjórinn við.
Það sem eftir stóð hjá mér eftir þáttinn var þessi stóri maður með groddaskap sinn og sóðaskap. Kannski hefur hann haldið að hann væri að sýna karlmennsku.
Mér hefur lengi þótt Eskifjörður með fallegri byggðarlögum þessa lands. Hef samt aldrei staldrað þar lengi við. Vona engu að síður að þar þrífist fallegra mannlíf en þessi mynd sýndi.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sammála þér eiginlega í öllu, sem þú skrifar þarna, SHH. Þessi Eskfirðingur er bara því miður bara dæmigerður íslenskur ruddi. Þessi typa er því miður alltof algeng hér á landi. Við verðum að fara að horfast í augu við það, þessir íslensku karlmenn, að við erum eiginlega ekki samfélagshæfir upp til hópa. Ekki nóg með að þetta sambland af minnimáttarkennd og hroka, sem alltof oft skýst upp á yfirborðið einkenni okkur, heldur erum við ósiðaðir sóðar.
Robin Hood (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 17:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.