Í gær fékk ég svolátandi skilaboð sem koma einnig upp þegar ég opna stjórnborð fyrir blogg mitt núna:
Birting ábyrgðarmanns
Nafnið sem þú gefur upp á blogginu þínu er ekki það sem sama og skráð er í Þjóðskrá. Í henni er skráð nafnið Sigurður H Hreiðarsson. Vegna þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru um áramótin á blog.is getur þú því ekki bloggað um fréttir mbl.is nema að þetta nafn sé birt sem nafn ábyrgðarmanns á blogginu þínu. Auk þess birtast bloggfærslur ekki á forsíðu blog.is nema nafnið sér birt.
Yfir þessu varð ég nokkuð hugsi og endaði með að senda eftirfarandi tölvubréf til blog@mbl.is -- sem verður þó varla lesið fyrr en fólk kemur til vinnu á bak áramótum:
Sæl veri blogstjórnin.
Fékk póst frá ykkur um það að fá áramótum skyldi ég heita eins og ég er skráður í þjóðskrá, Sigurður H Hreiðarsson.
Ég hef aldrei verið spurður af hálfu þjóðskrár hvernig ég vildi vera skráður þar.
Þegar mér varð sem unglingi ljóst, fyrir meira en hálfri öld, að millinafn mitt sem er sama og föðurnafnið, myndi detta út ef ég gerði ekki einhverjar ráðstafanir til að halda því. Úr varð að ég hef alla tíð, þar með talið sem blaðamaður, ritstjóri, rithöfundur og kennari, notað aðeins skírnarnöfnin, Sigurður Hreiðar. Undir þeim er ég nokkuð þekktur og hingað til hefur enginn efast um ábyrgð mína á því sem ég læt frá mér undir þeim nöfnum.
Haldi blog.is því til streitu að ég verði framvegis skráður fyrir auto.blog.is eins og þjóðskrá hefur þóknast að bóka mig, verð ég að taka afstöðu til þess hvort ég a) sæti því, b) færi mig til á bloggsvæði c) hætti að blogga.
En fyrst vil ég fá svar frá ykkur um hvort sú ákvörðun sem mér var tilkynnt í tölvupósti í morgun er ósveigjanlegt.
Í ljósi þess arna tel ég rétt að kveðja bloggvini mína og þakka þeim ánægjuleg samskipti, svo og öðrum þeim sem ég veit að hafa verið tryggir lesendur mínir á þessum vettvangi.
Ef úr þessu rætist á einhvern handa máta og ég held áfram að blogga, sem mér þykir öðrum þræði dáltið skemmtilegt, mun ég einfaldlega heilsa á ný.
Hvað sem því líður:
Ég óska ykkur öllum gleðilegs komandi árs og þakka liðna tíð.
Athugasemdir
Stundum getur maður glaðst yfir því að heita tveimur nöfnum og eiga engan alnafna. Mér er aldrei ruglað við neinn, kannski bara nógu ruglaður fyrir?
Ég trúi ekki öðru en að þeir leysi þetta farsællega fyrir þig.
Gleðilegt ár!
Haukur Nikulásson, 31.12.2008 kl. 13:45
Þú þarft varla að hafa áhyggjur. Fer ekki Mogginn á hausinn á morgun eða hinn?
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 31.12.2008 kl. 15:01
Þú ert að lenda í því sama og ég. Nafn mitt er ekki rétt í Þjóðskrá og ég mun aldrei ábyrgjast neitt undir röngu nafni á blogginu eða annars staðar.
Sigurður Þór Guðjónsson, 31.12.2008 kl. 15:56
Sæll frændi. Ég fékk líka svona póst og mér finnst hann asnalegur eins og þér. En mig grunar -- í mínu tilfelli hvað er að. Í þjóðskrá er ég Helga R Einarsdóttir, en hjá Mogganum Helga R.Einarsdóttir. Getur verið að þessi eini punktur sé svo áhrifamikill að mér verði vísað frá fréttum vegna hans? Gleðilegt nýár og góðar kveðjur til allra þinna. Helga R.E.
Helga R. Einarsdóttir, 31.12.2008 kl. 15:59
Ja dýr er sá punktur . Lenti í svipuðu , jú ég skrifaði B. í staðinn fyrir Birgir . Bara klikka á og samþykkja , þíðir ekki að deila við "dómarann" , nema kannski eftir að hann er farinn á hausinn .
Hörður B Hjartarson, 31.12.2008 kl. 16:50
Þetta er orðinn svolítið fyndið og absúrd! Aldrei datt mér í hug að þú yrðir einn af þessum alræmdu "nafnleysingjum", frekar en hinn frábæri bloggari Sigurður Þór Guðjónsson. Sé að Helga frænka þín hefur verið áreitt af bókstafsmönnunum líka.
Býst við að heimsóknum mínum á moggabloggið fækki mjög ef veist er svona harkalega að bloggurunum mínum bestu. Vona að þetta verði ekki svona. Sendi þér nýárs- og baráttukveðjur í Mosfellsbæinn þinn fagra.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 31.12.2008 kl. 17:32
Ég er að spá í að gera smá tilraun eftir áramótin. Að breyta skráningu minni úr Björgvin Rúnar Leifsson (skv. þjóðskrá) í Björgvin R. Leifsson. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Þvíklíkir ritskoðunaraular!
Björgvin R. Leifsson, 31.12.2008 kl. 22:21
Já það eru ekki bara fréttirnar sem eru kjánalegar á þessum miðli.Fékk líka svona sendingu.
Svo virðist sem "Nafnleysingjar" séu nornir samtímans, sem ber að óttast eins og þessar sem fljúga yfir höfðum vorum á kústsköftum, hlægjandi eins og fífl. Þær verða brenndar og svo sjá menn eftir því.
Kannski sjáumst við bara "hinum megin" eins og þeir orða það fyrir sunnan.
Ólafur Þórðarson, 1.1.2009 kl. 00:14
Ómar Þorfinnur Ragnarsson gengur hér ljósum logum undir dulnefninu Ómar Ragnarsson.
Þorsteinn Briem, 1.1.2009 kl. 01:17
Lenti líka í þessu, svipt faðerni í þjóðskrá, mistök prestsins er mér sagt, ekki pabba og mommu að kenna alla vega. Þannig að Anna Björnsson er sem sagt gengin í ábyrgð fyrir mig.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 1.1.2009 kl. 01:22
Ég fæ ekki að heita fullu nafni, en samt krefjast þeir því að mér. En Þjóðskrá hefur ekki tölvukerfi til að skrá allt mitt nafn þannig að mér er gert að breyta Ingu nafninu í I. Sendi þeim athygasemd og fékk svar, um að því miður gætu þeir ekki bjargað þessu fyrir mig. þetta yrðir að vera eins og þjóðskrá hentaði.
(IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 12:26
Gleðilegt ár Sigurður Hreiðar og takk fyrir skrif liðins árs. Ég þarf að sæta hinu sama og fleiri hér. En ég læt mér það í léttu rúmi liggja og held að bréf þitt til baka geri lítið gagn. Faðir minn kenndi mér ungum að tala aldrei við blækur ef eitthvað þyrfti leiðréttingar við og er svo hér.En kominn á sextugsaldur þá nenni ég ekki að gera mér rellu út af þessu,það er víst nóg annað að nöldra um.
Yngvi Högnason, 1.1.2009 kl. 13:45
Gleðilegt ár minn kæri Sigurður Hreiðar.
Já þetta er hálf öfugsnúið mál í sumum tilvikum þetta dæmi að skikka menn til að nota nafnið sitt beint úr þjóðskrá sem "birting ábyrgðarmanns" á höfundasíðu hvers og eins. Ég reyndar fagna þessari reglu þeirra MBL manna að flestu leyti. Með þessu geta menn síður verið að þvarga á blogginu undir röngum nöfnum eða dulnefnum á bakvið hundshausa.
Sumir virðast samt aðeins misskilja hvernig þetta virkar hjá blog.is. Nafnið á bloggsíðunni minni hefur til þessa verið "gudni.is" og alltaf hefur svo fullt nafn mitt Guðni Þorbjörnsson verið skráð hjá mér á höfundasíðunni minni. Nú við þessar breytingar breytist ekkert hjá mér annað en það að neðst á höfundarsíðunni minni - http://www.gudni-is.blog.is/blog/gudni-is/about/ (sem opnast þegar klikkað er á litlu myndina af mér) kemur grár reytur með textanum "Ábyrgðarmaður skv. Þjóðskrá: Guðni Þorbjörnsson"
Þannig að hjá þér Sigurður Hreiðar ef þá ef þú samþykkir þessa klausu á stjórnborðssíðunni þinni þá mun það eina sem breytist hjá þér að það kemur inn grátt box neðst á höfundasíðunni þinni http://auto.blog.is/blog/auto/about/ þar sem fullt nafn þitt Sigurður Hreiðar Hreiðarsson kemur fram. Þú munt áfram koma fram bara sem Sigurður Hreiðar eins og til þessa og ef þú bloggar við fréttir þá bloggarðu sem Sigurður Hreiðar, en menn geta farið inn á síðuna þína og klikkað á mynd af höfundinum og þá kemur upp fullt nafn samkvæmt þjóðskrá neðst í gráu boxi.
Þetta finnst mér svo sem bara vera allt í lagi system hjá þeim. Rétt eins og þú þarft væntanlega að nota fullt nafn skv. þjóðskrá á stöðum eins og t.d. í bankanum þínum þó svo allir þekki þig sem bara Sigurð Hreiðar.
Ég vona innilega kæri vinur að þetta leysist í þínu tilviki svo við þurfum ekki að sjá á eftir þér héðan. Það væri nefnilega algjör synd.
Mosókveðja, Guðni
gudni.is, 2.1.2009 kl. 18:03
Gleðilegt nýtt ár!
Já mér finnst þetta nokkuð skondið. Við sem sitjum uppi með einhver millinöfn sem enginn kannast við, erum allt í einu skikkuð að taka þau upp. Mér skilst að eg eigi aðeins einn alnafna á landinu og aldrei hefur okkur verið ruglað saman. Öðru máli gekk ljósum logum fyrir nokkrum misserum að eg undirritaður ætti að vera fyrirmynd af einhverjum geðvondum bensínafgreiðslumanni, - allt fyrir einhvern misskilning! Ætli blaðamaður einn ágætur sem einnig er búsettur í Mosfellsbæ sem við Sigurður, hafi vonandi kveðið þann draug niður. Eigi hann góðar þakkir skildar.
En það bar víst einu sinni til að handritasafnarinn mikli, Árni Magnússon reif í tætlur gamalt handrit og fleygði í eldinn. Nú kann einhver að hrökkva í kút en svo var máli vaxið að Árni var að bera saman heimildir um sama atburð. Varð hann áskynja að eitt þessara gömlu handrita var uppfullt af vitleysum. Hafði höfundur steypt saman fjórum annálabrotum og varð úr þokkalegur grautur. Árni ritaði áminnismiða: „Svo gengur það til í heiminum að sumir hjálpa erroribus (vitleysum) í gang, og aðrir leitast síðan við að útryðja aptur þeim sömu erroribus. Hafa svo hveritveggju nokkuð að iðja“.
Svo dreifist vanviskan um heiminn eins vel og viskan. - Sjá hið gagnmerka fróðskaparrit um merka þætti menningarsögu Íslendinga: Handritaspjall eftir Jón Helgason prófessor í Kaupmannahöfn og út kom fyrir réttri hálfri öld (1958).
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 2.1.2009 kl. 20:51
Sæll Sigurður Hreiðar. Vonandi ertu lifandi. Mér finnst ekki sanngjarnt að þú skulir gera mér það að hætta að skrifa. Það nálgast illgirni, að mínu mati, að taka frá mér þá gleði að lesa skrif þeirra sem hafa eitthvað fram að færa af viti. Ef þú ert dauður fyrirgef ég þér annars ekki.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 10.1.2009 kl. 18:46
Gleðilegt ár, Sigurður Hreiðar, minn kæri bloggvinur!
Ég trúi ekki öðru en þeir taki nafnið þitt gilt. Þessi skírnarnöfn þín eru tvö saman álíka þekkt í "íslenskum heimi" skrifanna og Sverrir Stormsker er í tónlistarheiminum. Ég sé ekki fyrir mér að hann fari að skrifa sig Ólafsson til að þóknast Mogganum.
En hvernig sem allt veltist þá ertu alltaf velkominn yfir á blekpennar.com
Við erum ekki næstum því jafn slæm og af er látið...
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 12.1.2009 kl. 13:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.