21.11.2008 | 13:10
Er nú þetta betri Björg?
Oft er gaman að hlusta á Steingrím J. Sigfússon tala, en ég er farinn að hallast að því að mér þyki það ekki gaman nema fyrir málfar hans, góða og vel framborna kjarnyrta íslensku. Pólitískt séð eru mér ræður hans sjaldan til unaðar, inntakið nei nei og vil ekki, þetta má ekki, vondir menn og vondar ráðstafanir og burt með þá. Ef eitthvað hefur jákvætt og uppbyggilegt slæðst inn á milli hefur það verið svo vandlega falið að ég amk. hef ekki náð að nema það. Hvað þá að bent hafi verið á góðar leiðir til að fara þegar brotist er í fenjum landsmálanna.
Þó tekur steininn úr núna þegar hann fer að tefja ráðamenn þjóðarinnar frá brýnum störfum stundarinnar með því að leggja fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina sem tekur tíma frá tímabærari og vitlegri störfum löggjafarsamkomu og ríkisstjórnar. Þetta er að mínu viti andskotans firra og ef svo færi að tillagan yrði samþykkt, með þingrofi fyrir áramót og tilheyrandi kosningabaráttu og síðan kosningum þar eftir, væri fyrst fyrir alvöru aukið til stórvandræða á þá stertabendu sem fyrir er í samfélaginu.
-- Forsætisráðherra Haarde var spurður í kastljósi í gær hvort hann hefði íhugað að segja af sér sem forsætisráðherra þegar allt fór til fjandans. Já auðvitað, svaraði hann, enda hefði það verið annað hvort, en hann axlar þó sína ábyrgð og ætlar að stjórna meðan stætt er og gera sitt besta til að klóra okkur út úr vandanum. Því miður héld ég hann sæki sér of mikla ráðgjöf til þess fyrirrennara síns í starfi sem síst skyldi, en hann hefur þó manndóm til að stökkva ekki af skútunni í miðjum brimgarðinum. Og nú hefur utanríkisráðherra Gísladóttir tekið í sama streng.
Eflaust eru fleiri færir til þeirra verka en þau og þeirra lið og vel má vera að einhverjir væru ennþá færari. En þá höfum við ekki í hendi og það yrði of mikil upplausn of langan tíma ef nú ætti að fara að berjast í kosningum og myndun nýrrar ríkisstjórnar og allt það og alsendis óvíst að betur tækist til með nýja ríkisstjórn að lokum -- eða í hvaða fen við hefðum ratað meðan þau ósköp ganga yfir.
Í þessu sambandi hefur verið að söngla í hausnum á mér gömul vísa sem ég lærði einhvern tíma og kannski vitlaust, um mann sem skildi við Björgu konu sína og tók saman við aðra sem líka hét Björg. Þá var þetta ort til hans -- og leiðrétti mig hver sem vísuna kann betur; mér finnst hún geta átt við um þær vangaveltur um stjórnarfar sem nú ganga yfir, á Austurvelli og við hann -- og víðar um land:
Þú hefur fengið Björg fyrir Björg/Björgu varstu sviftur./ En er þú þetta betri Björg/en Björg sem þú varst giftur?
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 306295
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sigurður. Ég er sammála þér með þessa þál. tillögu Steingríms. Hún er gagnslaus sýndarmennska. Hann trúir því sjálfsagt að hann slái pólitískar keilur með henni þótt hann geri sér örugglega grein fyrir því ekkert síður en við, að hún verður kolfelld.
En maður hefði sannarlega viljað sjá þingheim ná þverpólitískri samstöðu um að setja þessa handónýtu ríkisstjórn lyginna rugludalla af og skipa starfsstjórn vitiborinna fagmanna til að finna leiðir til að brjótast út úr þeim fenjum sem þjóðin er nú föst í, m.a. fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar.
Einhverjum þingmönnum þótti á dögunum við hæfi að væla undan því að þeim væri haldið utan við allt björgunarstarf, en að taka sig tll og fleygja þessu lygna og dáðlausa liði í ríkisstjórninni á dyr datt þeim auðvitað ekki í hug að reyna.
En ég er ósammála þér í því að ekki megi trufla ríkisstjórnina við björgunarstörfin, því að þetta fólk sem hana skipar er ekki líklegt til að bjarga nokkrum hlut, heldur þvert á móti eins og hefur sýnt sig. Finnst þér virkilega óhætt að treysta brennuvörgunum fyrir því að slökkva elda sem þeir sjálfir kveiktu og byggja rústirnar upp að nýju?
Stefán Ásgrímsson (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 15:21
Já, ég hef vitað til þess og kannski oftar en einu sinni að þeir sem óvart ösnuðust til að kveikja í hafi jafnoft sjálfir afrekað að slökkva eldana og koma í veg fyrir að þeir yllu óbætanlegu tjóni. Leyfum brennuvörgum dagsins að gera það en svo getum við kosið aðra og betri til að byggja upp á rústunum -- ef þeir þá verða í boði.
Mér líst ekki á þá ringulreið sem yrði ef stjórnin yrði sett af á þessum tímapunkti, né heldur að samstaða gæti náðst um starfsstjórn fagmanna sem dygðu.
Sigurður Hreiðar, 21.11.2008 kl. 16:15
Sæll Sigurður
Var þessi vísa ekki orkt til Hákonar í Haga á sínum tíma ?
Ágúst J. (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 18:10
Að venju er ég sammála þér um flest. Þar að auki finnst mér að það sé mátulegt á þá, sem komu okkur í yfirstandandi vanda, að þeir komi okkur út úr honum. Eða dettur einhverjum í hug að hengja Steingrím fyrir Geir?
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 21.11.2008 kl. 18:58
Nú veit ég ekki, Ágúst J, og eins og ég sagði er ég ekki einu sinni viss um að vísan sé rétt eftir höfð.
BenAx: Einhvern tíma var sagt um vert sem rak vertshús sitt á norðurleiðinni að hann hefði ekki nennt að moka fönn af tröppum hússins en gestir gátu fundið op á fönninni og smokrað sér ofan um það og hallvikað sér þaðan inn um dyrnar. Einhver gesturinn hafði spurt vertinn hvers vegna hann hreinsaði ekki frá dyrum sínum, en þá svaraði hann: „Ég vil að sá taki þetta sem lét það þarna.“ -- Mér finnst það eiga við um yfirstandandi vanda okkar líka.
Sigurður Hreiðar, 21.11.2008 kl. 19:05
Finnst þér ekki gaman að virða fyrir þér rugludallana sem sitja á Alþingi. Sumir væla undan því að þeir fái ekki að leika sér með hinum, segja að þeir fái ekki að vera með í stórfiskaleiknum þó að þeir séu "réttu megin" í pólitík. Líkja sér jafnvel við afgreiðslustúlkur í búð. Kannski væri þá rétt að leiðrétta laun þeirra í samræmi við vinnuframlagið, færa þingmenn sem svona láta niður á taxta VR. Svo eru þeir sem láta öllum illum látum til að vekja á sér athygli eða með öðrum orðum sagt eru komnir í kosningafötin, haga sér eins og vindurinn blæs því mótmælendum fjölgar með hverjum laugardeginum. Það vill nefnilega svo til að þeir sinna þokkalega launuðu starfi og vilja auðvitað halda í það, það er jú ekkert grín að verða atvinnulaus í dag og ekki geta allir orðið sendiherrar eða bankastjórar.
Auðvitað verður kosið til þings á ný - einhvern tíma seinna. Það háttur valdhafa að vilja halda í völdin, þetta er sýki sem nefnd er valdafíkn, og þá er um að gera að ræða ekki það sem gæti ógnað veldi þeirra. Skiptir þá engu hvort um er að ræða inngöngu í ESB, sem stjórnmálaflokkur einn hefur ekki talið tímabært til þessa - ja ekki fyrr en skoðanakönnun sýndi þá á leið í hóp smáflokka né hvort tímabært sé að kjósa næsta vor eða að hausti. Verstur fjandinn að við borgum brúsann og líka laun aðstoðarmannanna eins og að þingmenn rugli ekki nóg hjálparlaust. Kannski er þetta grátt gaman sem við verðum að búa við í nafni lýðræðisins.
Þráinn (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 22:57
Þetta viðtal ( http://www.youtube.com/watch?v=E3zqtGWEc8U&eurl=http://strida.blog.is/blog/strida/ ) sýnir að Geir Haarde fannst allt í himnalagi með of lítið aðhald seðlabankans og að samkvæmt hans stöðlum væru engin lausatök í fjármálum. Hann segir þá sem gagnrýndu seðlabankann jafnsnemma og 2007 fyrir of lítið aðhald hafa rangt fyrir sér. Annað hefur heldur betur komið á daginn.
Nú spyr ég; eru staðlar Geirs ekki einfaldlega of lágir? Hefur hann nægjanlegt vit á fjármálum til að koma okkur úr þessari kreppu? Væri ekki nær að koma þeim að sem þó sáu kreppuna fyrir, og hafa þannig sýnt að þeir hafi þekkingu og skilning á efnahagsástandi nútímans? Eða er klisjan og lygin um að sjálfstæðismenn séu bestir á sviði fjármála svo sterk að mönnum finnst sá möguleiki fjarstæða?
Mín skoðun er sú að Geir og félagar eru að taka að sér eitthvað sem þeir ekki við.
Ég hef heyrt þessa sögu um vertinn, en í þeirri útgáfu sem ég heyrði var hann kripplingur og gat því ekki mokað frá dyrunum en sagði þetta til að halda stoltinu.
Össur I. (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 23:07
Þetta viðtal ( http://www.youtube.com/watch?v=E3zqtGWEc8U&eurl=http://strida.blog.is/blog/strida/ ) sýnir að Geir Haarde fannst allt í himnalagi með of lítið aðhald seðlabankans og að samkvæmt hans stöðlum væru engin lausatök í fjármálum. Hann segir þá sem gagnrýndu seðlabankann jafnsnemma og 2007 fyrir of lítið aðhald hafa rangt fyrir sér. Annað hefur heldur betur komið á daginn.
Nú spyr ég; eru staðlar Geirs ekki einfaldlega of lágir? Hefur hann nægjanlegt vit á fjármálum til að koma okkur úr þessari kreppu? Væri ekki nær að koma þeim að sem þó sáu kreppuna fyrir, og hafa þannig sýnt að þeir hafi þekkingu og skilning á efnahagsástandi nútímans? Eða er klisjan og lygin um að sjálfstæðismenn séu bestir á sviði fjármála svo sterk að mönnum finnst sá möguleiki fjarstæða? Winston Churchil fékk forsætisráðherrastól Bretlands við byrjun seinni heimstyrjaldar því hann hafði lengi varað við að nasisminn gæti orðið að því skrímsli sem hann varð, hann gafst mjög vel í því embætti eins og frægt er orðið.
Mín skoðun er sú að Geir og félagar eru að taka að sér eitthvað sem þeir ekki við.
Ég hef heyrt þessa sögu um vertinn, en í þeirri útgáfu sem ég heyrði var hann bæklaður og gat því ekki mokað frá dyrunum en sagði þetta til að halda stoltinu.
Össur I. (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 23:24
Þetta viðtal ( http://www.youtube.com/watch?v=E3zqtGWEc8U&eurl=http://strida.blog.is/blog/strida/ ) sýnir að Geir Haarde fannst allt í himnalagi með of lítið aðhald seðlabankans og að samkvæmt hans stöðlum væru engin lausatök í fjármálum. Hann segir þá sem gagnrýndu seðlabankann jafnsnemma og 2007 fyrir of lítið aðhald hafa rangt fyrir sér. Annað hefur heldur betur komið á daginn.
Nú spyr ég; eru staðlar Geirs ekki einfaldlega of lágir? Hefur hann nægjanlegt vit á fjármálum til að koma okkur úr þessari kreppu? Væri ekki nær að koma þeim að sem þó sáu kreppuna fyrir, og hafa þannig sýnt að þeir hafi þekkingu og skilning á efnahagsástandi nútímans? Eða er klisjan og lygin um að sjálfstæðismenn séu bestir á sviði fjármála svo sterk að mönnum finnst sá möguleiki fjarstæða?
Mín skoðun er sú að Geir og félagar eru að taka að sér eitthvað sem þeir ráða ekki við.
Ég hef heyrt þessa sögu um vertinn, en í þeirri útgáfu sem ég heyrði var hann kripplingur og gat því ekki mokað frá dyrunum en sagði þetta til að halda stoltinu.
Össur I. (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 23:26
Ekki veit ég afhverju fyrri athugasemd mín kom þrisvar. Það var ekki ætlunin. Biðst velvirðingar á þessu.
Össur I. (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 23:28
Takk fyrir allar þessar athugasemdir og þrefalt þakklæti til þín Össur I. -- Nei, vertinn var ekki bæklaður á líkama, um það get ég borið því ég þekkti hann lítilsháttar og var ma. einn af þeim sem þurfti að skríða ofan um göng til hans -- hvort það var sama vetur og hann sagði þessi fleygu orð man ég ekki.
Sigurður Hreiðar, 22.11.2008 kl. 11:03
Þetta var hin skemmtilegasta vísa. Ég hef aldrei heyrt hana en legg hana héðan í frá á minnið. Vona að mér fyrirgefist að hafa sama fangamark eins og þú!
S.H. (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 11:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.