17.11.2008 | 09:32
Köld er krumla Ísbjargar
Kannski verður það lausnin okkar að kyssa vöndinn og sætta okkur við að sæta kúgun annarra þjóða álfunnar sem við teljumst til (þó ef grannt er skoðað komi í ljós að Ísland er í rauninni heimsálfa út af fyrir sig).
Já, köld er krumla Ísbjargar.
Mér datt það í hug í gær á degi íslenskrar tungu að það er í rauninni ótækt að við séum alltaf að nota erlend heiti á íslenskum fyrirbrigðum. Ef ég hef skilið rétt eru þessir árans æs-seif reikningar íslenskir og þá eiga þeir líka að heita íslensku nafni: Ísbjörg skulu þeir heita og eru jafn kuldalegir og nafnið bendir til.
Burtséð frá Ísbjörgu og kaldri krumlu hennar og þjóðanna sem við viljum vera í bandalagi við er satt að segja ótækt að hér skuli vera heill herskari fyrirtækja með erlend heiti sem ekki eru einu sinni skrifuð að íslenskum framburði. Hvers vegna heitir Europris ekki Júróprís? Eða Evruprís? Hvernig leyfir þýskt fyrirtæki sér að skrifa nafn sitt Bauhaus þegar það ætlast til að við segjum Báhás? Fleiri dæmi mætti tína til sem við látum yfir okkur ganga -- en svo erum við svo lítilla sanda að þegar við höldum í útrás köllum við ísbjargir okkar icesave upp á engilsaxnesku.
Litlar sálir eiga sennilega ekki ríka samúð skilið.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Sigurður,
Ég setti nokkrar myndir í viðbót í möppuna "Gamli tíminn" á blogginu mínu, þær eru teknar í Mosfellssveitinni að mig minnir 1964 eða hugsanlega 1965. Vonandi hefur þú gaman af. Svo setti ég fermingrmyndina alla, þar sem meira sést af innviðum kirkjunnar en það er samt mjög takmarkað.
Kveðja,
Marta Gunnarsdóttir.
(ég var á Lágafelli í mörg ár frá því ég var 9 ára hjá systur minni Esther og mági mínum Herberg sem þá var vefari í Vefaranum og seinna á Álafossi og enn síðar hjá hitaveitunni.)
Marta Gunnarsdóttir, 18.11.2008 kl. 00:34
Lengra orð en kannski réttara væri Íssparibaukurinn (sem eflaust bráðnaði bara). Ég þurfti nefnilega að fletta því upp áðan hvort fyrirbrigðið héti Icesave eða Icesafe. Ég er reyndar alltaf svolítið skotin í því að nota íslenska framburðinn á erlend nöfn, sennilega frá því að Paul McCartney var kallaður Paul með au-i (skemmtilegur angi af því þegar ríma átti Paul og (handa)skol, en í laginu er Paul nefnilega nefndur með au-framburðinum: ,,Ég keypti allar Bítlaplöturnar og hermdi eftir Paul,. já ég fyllti allt af plötum, það fór allt í handaskol"
Sem sagt Bauhaus ... við vitum þá fyrir hvað það stendur. Ég held að íslensk aðlögun orðsins squash (sem er frábær íþrótt): skvass, sé af sama meiði og Paul-heilkennið. Skemmtilegast var þó þegar 7up kom fyrst á markað hér og stelpurnar í blokkinni voru ekki í vafa um nafnið: supp!
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 18.11.2008 kl. 03:07
Bestu þakkir fyrir þetta, Marta. „Því miður“ ertu svo ung að myndirnar af Lágafellskirkju, bæði innan og utan, eru eftir stækkun hennar 1955-6. Þó langar mig að fá lánaða skýrari myndina af kirkjunni að utan -- þú kannski gaukar henni til Hebba og Estherar við tækifæri? Við Hebbi hittumst af og til auk þess sem hann ratar heim til mín… Kannski lánar þú líka myndina af gamla Lágafellshúsinu? Áttu fleiri svona? Við Hebbi voru fyrir nokkru að leita að myndum þar sem gömlu útihúsin á Lágafelli sjást, hann hefur sjálfsagt leitað til þín um það líka. Það var í sambandi við staðfestingu á því hvenær þau voru rifin.
Já, Anna, eflaust væri íssparibaukur lógískari þýðing en ekki jafn íslensk, finnst mér. Nema ef maður yfirfærði og stytti sparigrís og kallaði ófétið Ísgrís! Það hefur kannski of loðna merkingu, samt.
Já, þetta með framburðinni. Dæmi sem er að verða nokkuð úrelt þó er um Levy's fatnaðinn, sem heitinn var eftir austurríkismanninum Levy Strauss. Maður getur rétt ímyndað sér hvort réttur austurrískur framburður munu vera Lívæ. En Íslendingar með sína minnimáttarkennd kusu að nota þann ameríska framburð í markaðssetningu sinni á vörunni hér. Ágætur þýskur bíll heitir Porsche -- Porsé. Dannaðir Íslendingar vilja heldur nota nafn hans með amrískum framburði: Pors. Annað dæmi: Renault Espace, franskur, = Renó Espas. Íslensk-amerískur aulaframburður: Runó Espeis. Þriðja dæmi: Frönsk almenningsvagnategund: Irisbus = Írisbús. Aulaframburður: Ærishböss.
Eigum við að hafa þetta lengra í dag?
Kv. í bæina
Sigurður Hreiðar, 18.11.2008 kl. 09:26
Í enska þorpinu kalla menn Bensinn "Merc" (frb.Mörk). Sjálf á ég svo gamlan, sígildan "Djag". Bestu kveðjur til baka.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 18.11.2008 kl. 18:58
Sæll Sigurður
Þér er velkomið að taka myndir af síðunni minni, hægri klikkar á þær og ferð í save picture as ..... þú kannt það sjálfsagt.
Ef ég rekst á fleiri myndir úr sveitinni þá skal ég láta þig vita og setja þær á bloggið mitt. Þá þarf svo lítið að hafa fyrir því að ná í þær.
Kveðja,
Marta
Marta Gunnarsdóttir, 18.11.2008 kl. 21:51
Takk Marta
ég var bara að fiska eftir hærri upplausn á myndunum -- en skoða þetta betur af síðunni þinni.
Kv.
Sigurður Hreiðar, 18.11.2008 kl. 22:37
Ísgrís er alveg himnesk tillaga. Þú veldur ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn og margræðnin er bara kostur.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 18.11.2008 kl. 23:43
Kíktu á þetta: http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/717773/
Helga (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 09:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.