Ný öreigastétt í uppsiglingu

  Fyrir rúmu ári keypti nýstofnað fyrirtæki í byggingaiðnaði nýtt iðnaðarhúsnæði sem kostaði 135 milljónir. Tók til þess myntkörfulán skv. ráðgjöf þjónustufulltrúa í viðskiptabanka sínum og sem að bestu manna yfirsýn þótti álitlegasta aðferð til lántöku þá, upphæð í Íkr. 110 milljónir. Veð í hinni keyptu eign sjálfri.

Nú er lánsupphæðin komin í 240 milljónir og fyrirtækið - ja, ekki verkefnalaust heldur getur ekki sinnt verkefnum af því það fær ekki a) lán til að kaupa hráefni til rekstursins b) yfirfærðan gjaldeyri til hins sama. Gjaldþrot blasir við. Bankinn verður að ganga að veðinu. Eignin sjálf er lítt seljanleg nú (vegna skorts á eftirspurn) en þó hún stæði undir upprunalegu verði vantar samt 130 milljónir upp á að veðið standi undir skuldarupphæðinni. Þessi mismunur fellur á bankann sem beint tap hans.

Fyrirtækið er ónýtt og gjaldþrota. Eini ljósi punkturinn að ef eigandinn er ekki sjálfur gjaldþrota og heldur heimili sínu getur hann ef til vill stofnað nýtt fyrirtæki á annarri kennitölu og haldið áfram að lifa mannsæmandi lífi.

Ennþá verra er sá hluti þessa lánafyrirkomulags sem lýtur að fjölskyldum landsins. Dæmi: Hjón á fertugsaldri með tvö börn keyptu fyrir rúmu ári íbúð fyrir 31 milljón. Tóku til þess 70% myntkörfulán að fengnu greiðslumati, í samráði við þjónustufulltrúa í bankanum sem bestu kjörin bauð og sem að bestu manna yfirsýn þótti álitlegasta aðferð til lántöku þá. Veð í hinni keyptu eign sjálfri. Lánsupphæðin upprunalega tæpar 22 milljónir króna. Stendur núna í rúmum 48 milljónum.

Þessi hjón geta ekki skipt um kennitölu og byrjað einfaldlega á núlli. Við þeim blasir ekkert annað en persónulegt gjaldþrot og þau mega þá ekkert eiga og nánast ekkert gera næstu sjö árin. Spurning hvað þau geta síðan gert, með þennan fjármálaferil á bakinu. Þau geta ekki skipt um kennitölu og látið sem ekkert sé.

Bankinn hins vegar gengur að veðinu, íbúðinni, og lætur að öllum líkindum bera fjölskylduna út. Situr uppi með íbúðina sem hugsanlega selst einhvern tíma á næstu misserum. Verð hennar hefur lækkað nú þegar en þó að fyrir hana fengist svipuð krónutölu og í fyrra vantar bankann samt 26 milljónir miðað við daginn í dag til að fá lánið að fullu greitt. Það er fyrirsjánlega hans tap.

Þessi tvö dæmi eru tekin bara úr því umhverfi sem ég þekki til sjálfur. Fullvíst að tilfæra mætti um þessar mundir þúsundir ef ekki tugþúsundir svona dæma. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokk ber ábyrgð á þessu ástandi og verður að greiða úr því. Ef hún gerir það ekki verða afleiðingarnar fyrir almenning í landinu, og kannski sérstaklega litla manninn sem amk. sumir ráðherrar þessarar ríkisstjórnar nefna stundum með snert af klökkva í röddinni, ekkert annað en persónulegt gjaldþrot með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum og allsleysi, andlega sem veraldlega. Ríkisstjórninni dugar ekki að vísa málinu til bankanna með tilmælum um úrbætur eins og tímabundna frystingu afborgana. Hún verður að bjarga þessu fólki ef hún ætlar að bjarga sjálfri sér.

Eitt það aumasta sem hún gæti gert væri að slíta stjórnarsamstarfinu og láta allt reka á reiðanum með þeirri óreiðu og stertabendu sem af því hlytist.

Það er deginum ljósara að bankar eru ekki og hafa aldrei verið góðgerðastofnanir, ekki heldur þó að þeir séu nú aftur ríkisreknir. Eðli þeirra stofnana samkvæmt og ef ekkert verður að gert verða skuldirnar einfaldlega gjaldfelldar með þeim afarkostum sem því fylgja og því tapi sem bankarnir óhjákvæmilega hljóta að verða að sýna samkvæmt því. Lánþegarnir sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér verða reknir út á gaddinn með börn og buru, stimplaðir vanskilamenn og óreiðufólk.

Hér verða stjórnvöld að taka myndarlega á með tilskipun um virka skuldbreytingu og niðurfellingu hluta skuldanna þannig að lánin séu ekki himinhátt yfir því veði sem að baki þeim stendur. En leyfa lántakendum að koma niður standandi - alveg skilyrðislaust þar sem íbúðarhúsnæði, eitt af frumþörfum mannsins, er að veði, fyrir utan mannorð og persónulegan fjárhag lántakandans og fjölskyldu hans.

Verði það ekki gert er þar með skotið rótum undir nýja öreigastétt sem samanstendur einkum af vel menntuðu, dugmiklu og ábyrgu fólki. Ég get lofað núverandi stjórnmála- og stjórnarflokkum því að það fólk mun ekki taka niðurlægingu sinni þegjandi og aðgerðalaust.

– – Pistilinn hér að ofan sendi ég Morgunblaðinu til birtingar fyrir tæpri viku, en þar á bæ ekki ekki pláss fyrir allt aðsent efni og það brennur á mér að koma þessu á framfæri. Mér finnst það ekki hafa verið gert nógu skilmerkilega hingað til, amk. ekki þar sem ég veit til. – Rétt líka að taka fram að á þeim tíma hafa gengistryggðar tölur hækkað enn frá því sem hér er tilgreint.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög greinargott hjá þér og skýrlega sett fram með dæmum. Já það er alveg hárrétt hjá þér við höfum nú tugþúsundir af svona dæmum útí þjóðfélaginu og þessum hryllilegu dæmum fjölgar bara dag frá degi. Róm brennur, það er bara svoleiðis.

En stjórnvöld verða að koma með einhverjar lausnir, þau bera megin ábyrgð á því að öllu var hér keyrt í kalda kol af 20 til 30 veruleikafyrrtum og siðlausum framagosum.

Ég styð þá leið að hér verði einhliða tekinn upp einhver heppileg erlend mynnt. Fengnir verði færustu sérfræðingar heimsins til þess að aðstoða okkur við það. Mér líst ekkert á það að þurfa að fara útí allar þessar skefjalausu lántökur hjá þessari glæpastofnun IMF og svo líka að þurfa að kyssa á vöndinn hjá Bretum og Hollendingum og þurfa svo hlíta skilmálum þeirra og Seðlabanka Evrópusambandsins í einu og öllu. Ég er búinn að sjá mjög góðar röksemdir fyrir að akkúrat þessi leið verði valinn nú þegar.

Hlustum ekki á úrtöluliðið í Evrópusambands trúboðinu á Íslandi sem getur ekki hugsað sér að þjóðin hafi neina aðra úrkosti en ganga í ESB og síðar einhverntímann í framtíðinni að takau upp Evru. Annars gæti alveg verið heppilegra að taka einhliða upp Norska krónu eða einhvern allt annan gjaldmiðil, það verður bara að koma í ljós, ég hef sko alls ekki mikla trú á Evruni til langs tíma litið. En ef niðurstaða færustu manna verður sú að Evra væri heppilegust, þá bara gerum við það strax með aðstoð erlendra sérfræðinga og samstöðu allrar þjóðarinnar að baki. Við þurfum ekkert að semja um þetta eitt eða neitt við Brussel valdið, þeir eru og verða hvort eð er á móti okkur af því að stórþjóðirnar Bretar og Hollendingar skipa svo fyrir. Ekki vil ég vera í bandalagi með þessum þjóðum í framtíðinni eftir svona framgöngu, hvorki í ESB né NATO.  

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 14:06

2 identicon

Ríkisstjórnin gefur bara út einhliða fréttatilkynningar um að alþjóða samfélagið og stofnanir hafi algjörlega brugðist smáþjóðinni Íslandi á ögurstundu. IMF hafi neitað okkur um lán nema gegn því að við gengum nauðug að samningaborði við Breta og Hollendinga til þess að skrifa undir Versala samninga sem væri nauðung fyrir þjóðina og næstu kynslóðir. Að þessum afarkostum gæti Íslenska þjóðin undir engum kringum stæðum gengið.

Því væri einhliða upptaka Evru, eða Norskrar krónu algjör neyðarréttur sem við gripum nú til vegna þessara mjög svo erfiðu aðstæðna. Við óskuðum svo eftir skilningi og velvild frænda okkar og vina, þ.e. Norðurlandaþjóðanna og hjá þeim öðrum vinum sem við hugsanlega enn ættum eftir í heimsbyggðinni.

Svona einhvernveginn held ég að við verðum að gera þetta Sigurður !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 14:15

3 identicon

Best er að Hjónin Fari í gjaldþrot Strax og hætti að borga núna

Að Vera Gjaldþrota er Guðsgjöf þú færð ekki lánað og Þarft ekki að Borga Vexti

Kveðja

Æsir (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 20:25

4 Smámynd: Púkinn

Hvernig í ósköpunum datt nokkrum í hug að taka myntkörfulán fyrir rúmu ári síðan, þegar það var augljóst að krónan var allt, allt of sterk?

Ef fólk tekur svona heimskulegar ákvarðanir, þá situr það uppi með afleiðingarnar.

Púkinn, 10.11.2008 kl. 20:57

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Púki minn, alltaf jafn jákvæður og réttsýnn. Fólk almennt var ekki hagfræðingar eða fjármálaspekúlantar og tóku ráðum þeirra sem það treysti til að taka hagkvæmustu ákvarðanirnar fyrir sig. Lygamerðir bankanna léku þann leik þar til dyrunum var lokað, svo það er ekki við grunlaust fólk að sakast. Venjulegt fólk hefur traust. Nú er það rokið út í veður og vind og við þurfum sennilega að búa við algera tortryggni manna í millum í talsvert mörg ár hér eftir.

Góð grein og maður dofnar raunar upp við að sjá þennan veruleika í samhengi við fólkið. Ég vona að þetta blessist hjá þér. Kannski fólk í slíkri aðstöðu ætti að bindast samtökum og mæta á uppboð og gera hverju öðru kleyft að kaupa eignirnar sínar aftur með að bjóða ekki gegn því. Þessar eignir munu varla seljast á frjálsum markaði. Hann er of yfir þaninn til þess.

Einhliða upptaka nýrrar myntar og mótaðgerðir yfirvalda gætu bjargað mesta skaðanum. Verðtrygging mun átomatískt hverfa og vextir lækka við þá aðgerð. Svo má semja. Ég held að yfirvöld séu öll af vilja gerð og hafa raunar engan annan kost.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.11.2008 kl. 08:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband