Að „senda skattgreiðendum reikninginn“

Eitt af því sem pirrar mig er þegar lærðir og leikir (les: fjölmiðlamenn og nöldrarar) staðhæfa að opinberir aðilar geri eitt og annað á kostnað skattgreiðenda eða „sendi skattgreiðendum reikninginn“ þegar eitthvað er gert fyrir opinbert fé.

Þetta hefur ekki síst verið uppi núna þegar ráðherrar og annað forstandslið skemmtir sér við að þeysast hnöttinn á enda (eða hálfa leiðina kringum hann) og hafa maka sína með sér. Þá er gasprað um að þeir geri þetta „á kostnað skattgreiðenda“.

Vissulega er það gert fyrir opinbert fé. En hafandi verið skattgreiðandi í skratti mörg ár og vera enn að greiða skatt af lífeyrinum mínum, sumir segja öðru sinni, er ekki laust við að þetta orðalag kverúlantanna ergi mig því ég hef aldrei fengið aukareikning þó dándimenni þjóðarinnar hafi kosið að leggja land undir fót. Þannig að ég sem skattgreiðandi borga mína skatta og ekki hót fram yfir það, þrátt fyrir dagpeninga dándiliðsins. Skatta mína hef ég borgað til samfélagsins og ekki eyrnamerkt þá til sérstakra nota í því efni, né heldur tekið fram að þá megi ekki nota til tiltekinna verkefna. Ég beygi mig undir að þeir ráðstafi fénu sem meirihluti þjóðarinnar hefur til þess kosið, iðulega í trássi við minar óskir í því efni.

Þar fyrir utan þykir mér heldur betra að þetta fólk búi ekki eins og beiningamenn þar sem það fer í nafni þjóðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ef ég skil þessa athugasemd rétt þýðir hún að ég muni vera hægrimaður. Mér þykir alltaf gaman þegar ég er skammaður frá vinstri fyrir að vera hægrimaður en frá hægri fyrir að vera vinstrimaður.

Satt að segja er ég hvorugt eða hvort tveggja því mér er ómögulegt að rekast eftir einhverri línu heldur fara skoðanir mínar eftir því hvað mér finnst rétt hverju sinni. Þar að auki á ég til, sem betur fer, að skipta um skoðun.

Sigurður Hreiðar, 10.9.2008 kl. 09:31

2 Smámynd: Yngvi Högnason

Komdu sæll Sigurður. Varðandi skattana þá hef ég ekki tekið sérstaklega eftir því að þeir hafi hækkað eða lækkað,fremur en þú, þó að einhverjar breytingar séu á ríkisútgjöldum,ár frá ári. En líklega tala bara svona, hátekjumenn sem blæðir í hvert sinn sem að vél fer á loft með opinberan starfsmann. Hefur mér fundist í gegnum tíðina að þeir sem að tala um skattana "okkar" séu ekki alveg þeir sömu og borga þá mesta.
   En af því að við notum bloggið til að fá útrás fyrir nöldur okkar,þá set ég hér inn,kannski mest mér til gamans,smá úrdrátt frá mér sem að birtist annars staðar: Ég var að taka til í veskinu hjá mér og kanna stöðuna, því að félítill er maður ekki. Þarna voru allar tegundir af seðlum í bunkum og mynt að auki. Til að hafa allt í röð og reglu þá raðaði ég þessu uppí nokkra bunka og merkti með penna, þannig að allt færi nú á réttan stað, eins og t.d;  K, fyrir króm, S fyrir sígó, N fyrir nammi og svo framvegis. Þetta var þó nokkur vinna og flokkun en skemmtileg. Neðarlega í einum bunkanum rakst ég á gamlan hundrað kall, sem ég hef líklega ekki tímt að eyða á sínum tíma. Það er mynd af Tryggva Gunnarssyni að framan og fé að renna af fjalli með Heklu í baksýn að aftan. Þá mundi ég eftir sauðburðinum í sveitinni forðum og því þegar blessuð litlu lömbin voru eyrnamerkt, það var kallað að marka þar sem ég var. Þetta var oft gert með vasahníf og skorið eins og t.d; biti aftan hægra, sýlt vinstra eða tvístíft og fjöður hitt. Var þetta nokkuð blóðugt og mikið jarmað en bændur þurftu að þekkja fé sitt að hausti og ekki er hægt að rífast um eyrnamark.  En aftur að mínu. Ég ætla að halda áfram að merkja mitt fé með penna, þó að það taki nokkurn tíma, mitt fé hefur nefnilega ekki eyru.

Yngvi Högnason, 10.9.2008 kl. 10:29

3 identicon

Athyglisverður punktur. Ég man að eitthvað böggaði mig við þetta þegar ég var barn, því eins og þú segir hækka skattar ekki við að ráðamenn þjóðarinnar eyði einhverjum nokkrum milljónum í smá þægindi. Sóun skattfés liggur ekki í æðstu ráðamönnum þjóðarinnar; þeir eru einfaldlega ekki nógu margir að eyða nógu miklu til að það skipti einhverju raunverulegu máli.

Nærri lagi væri að hætta að borga ríkisrekna skemmtunarþjónustu, svosem Þjóðleikhúsið. Ég komst að því einhvern tíma við að glugga í fjárlög (2003 að mig minnir) að við eyðum yfir 800 milljónum á ári samanlagt í Þjóðleikhúsið, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Listdansflokk Íslands. Ekkert af þessu er meira íslensk menning heldur en tælensk, ekkert af þessu er nauðsynlegt á neinn hátt fyrir neinn, og ef hugmyndin er að styrkja menningu spyr ég hvers vegna tónlistin sem ég vil hlusta á sé ekki ríkisstyrkt, eða myndirnar sem ég vil sjá. Hér er ákveðin menning tiltekin sem "góð" eða "þess virði" og þannig réttlætt að eyða almannafé í þetta, þegar augljóst ætti að þykja að ef þjóðinni þykir svona vænt um þessa þjónustu, þá ætti það að geta staðið undir sér. Ellegar er þjóðinni einfaldlega sama. Athugið líka að það er vel réttlætanlegt að eyða ríkisfé í sér-íslenska menningu, svosem söfn eða eitthvað þannig sem er til þess að varðveita menningararfinn og söguna, en listdans, sinfónía og leiklist eru ekki þar á meðal.

Frekar mætti einkavæða allt þrennt og nota peningana í heilbrigðiskerfið eða menntakerfið eða eitthvað; það þyrfti ekki að lækka skatta. En hvernig sem maður lítur á það, þá er peningasóun í dúbíus verkefni af hálfu ríkisins normið. Þó ráðamenn ferðuðust eingöngu með strætó og skipi og borðuðu ekkert nema Cheerios væru 800 milljónir samt sem áður að fara í skemmtunariðnað.

Og þetta er bara dæmigert! Þessir smámunir sem fara í ofurliðið sjálfa gera lítið en að gefa fólki þá hugmynd að ríkið væri einhvern veginn betur rekið ef yfir ofurliðið ferðaðist ekki með ættingjum sínum líka. Það myndi ekki breyta neinu, hvorki skattprósentu né rekstri ríkisins.

Þetta varð nú lengra en ég bjóst við. Hvað finnst þér, Sigurður? Ég hefði gaman af að vita þitt álit.

P.S.: Ég er líka bæði eða hvorki hægrimaður og/né vinstrimaður. Þetta þykir voðalega hægrisinnað álit hjá mér, svo er ég vinstrisinnaður þegar ég vil eyða nær ótakmörkuðu fé í menntun. Ég vil setja þessar 800 milljónir beint í menntun, helst á grunnskólastigi.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 10:38

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Bíddu -- Helgi Hrafn -- af hverju viltu taka frá einu til að setja í annað? Eða, réttara sagt, eru viss um að menntunin nyti góðs af niðurskurði einhvers staðar annars staðar? Ég er sammála þér um að seint sé of miklu varið til menntunar, en ég vil líka halda háu menningastigi og tel að bæði Þjóðleikhúsið og Sinfónían séu útverðir okkar menningarstigs, svo tekið sé dæmi úr athugasemd þinni sem þó á alveg rétt á sér.

Takk fyrir heimsóknina Yngvi. Ég var nú alltaf klaufi að marka í gamla daga, og var þó markið heima ærið hreinskorið: sýlt vinstra og sýlt biti aftan hægra. Það var í lagi með sýlinguna en bitinn vildi verða ljótur hjá mér. Þannig að ég held að ég yrði einnig klaufi við að marka seðlana -- en pistillinn þinn er skemmtilegur.

Sigurður Hreiðar, 10.9.2008 kl. 11:18

5 identicon

Sigurður: Einfaldlega vegna þess að menntun og heilbrigði eru mikilvægari en menning. Ég kann ekki að útskýra það betur en svo, en mér þykir það nokkuð augljóst. Spurning um forgangsröðun og auðvitað spurninguna um það hvað eigi að nota skattpeninga í, og hvað fólk eigi að borga fyrir sjálft. Það þykir til dæmis sjálfsagt að ég borgi fullt verð fyrir bíóferðir, tónlist og bjór, allt af því er alveg jafn mikilvægt menningarstarf og sinfónía eða leiklist. M.ö.o. er ég ekki sammála þér um að Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveit Íslands séu útverðir okkar menningar. Ég myndi frekar segja að Þjóðminjasafnið og hinar ýmsar sögu- og fornleifadeildir innan Háskóla Íslands væru útverðir okkar menningar. Ég sé ekkert íslenskt á neinn hátt við sinfóníu eða leiklist.

Athugaðu þó að ég segi þetta alls, alls ekki af einhverri vanþóknun á sinfóníu eða hljómsveit. Þvert á móti er ég mikið fyrir klassík almennt og hef lengi ætlað mér að sitja tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar (eitt af því mörgu sem maður ætti að gera en gerir aldrei). Ég myndi hinsvegar ekki sjá neitt að því að borga fullt verð inn á slíka tónleika, ég sé ekki hvers vegna allir aðrir ættu að borga fyrir mína dægradvöl, og ef ríkið ætti að styrkja mig í að sjá sinfóníu velti ég strax fyrir mér hvers vegna það styrki mig ekki í því að sjá Hraun, Stuðmenn eða Baggalút, sem ég fullyrði hiklaust að séu engu minni menningardemantar en Sinfóníuhljómsveitin.

Ég skil hinsvegar mjög vel hvers vegna aðrir ættu að borga fyrir mína menntun eða heilsu, til dæmis (einfaldlega svo mikilvægt að allir hafi aðgang að). Því sé ég himin og haf milli þess að "ræna almenning" (eins og alvöru hægrimaður myndi kalla það) til þess að mennta eða bjarga lífum, en þegar það kemur að dægradvöl og algerlega einstaklingsbundnu mati á hvað þyki menningarlegt og hversu mikilvægt það sé... þá sé ég bara ekki næga réttlætingu fyrir því að þetta eigi heima á höndum ríkisins. Mun frekar ætti það heima í höndum þeirra sem vilja njóta þessarar líka ofboðslega mikilvægu menningar.

Svo er hitt auðvitað, að ef sinfónía og leiklist eru svona mikilvæg menningu okkar, þá einfaldlega hljóta þau að geta staðið undir sér sjálf, ellegar eru þau greinilega ekki svo mikilvæg, því eins og ég segi, það er ekkert sér-íslenskt á neinn hátt við leiklist eða sinfóníu.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 306295

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband