4.9.2008 | 11:17
Þegar -i ríður baggamuninn
Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður er ólétt. Þetta kom fram í Mogganum í gær. Til hamingju með það, Ragnheiður Elín, ég er viss um að þetta verður fallegt barn. Og það eru viss forréttindi að fá að fæðast miðaldra foreldrum. Það þekki ég af eigin reynslu.
Annars er þetta sosum ekkert merkilegt. Kona hefur fyrr orðið ólétt. Þá er hún barni aukin, eins og sagt var á penu máli hér áður fyrr. Það sem kemur mér til að blogga um þetta er orðalagið í myndatexta mogga. Þar stendur að Ragnheiður Elín gangi með barni.
Ehm -- það geri ég raunar líka þegar færi gefst. Sérstaklega núna þegar yngsta barnabarnið mitt er að taka sín fyrstu spor en hefur ekki enn fundið kjarkinn til að gera það óstudd. Og satt að segja þykir mér afskaplega gaman að hjálpa henni að kanna heiminn með þessum hætti. En ég hef ekki líffræðilega möguleika á að verða barni aukinn. Með ítrustu hótfyndi mætti segja að ég gæti orðið óléttur en mér er eindregið ráðlagt að bæta ekki við þyngdina. Það mætti líka segja að ég gæti gengið með barn, ef ég tæki það á handlegginn. En það orðalag -- rétt fallbeyging orðsins barn -- er þó viðurkennt um það ástand konu að vera barni aukin.
Merk kona skammast í bloggi sínu út í þá áráttu sumra -- kannski ekki síst mína -- að vera að fárast yfir röngum fallbeygingum. Eru þær eru stundum svo álappalega vitlausar að það er ekki hægt að halda kjafti. Eins og þetta um ólétta konu, að hún gangi með barni. Eða eins og þekktur maður hafði iðulega fyrir orðtak, að þetta og þetta riði baggamuninum.
Þarna er það einmitt þetta litla -i aftan á orðinu barn sem ríður baggamuninn.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ætli það sé ekki af því, að fólk skilur ekki svona myndhverfa líkingar, þar sem þau hafa aldrei séð mismunandi bagga á klakk?
Hinsvegar er það svo, að lítill má baggamunur vera á nettri hryssu, svo ekki halli nokkuð.
ÆTli þetta teljist kvenfyrirlitning í myndlíkingu?
Kveðjur úr sveitastörfum hér áður og fyrrmeir.
Miðbæjaríhaldið
fæddur af miðaldra foreldrum eða naumt um miðjan aldur.
Bjarni Kjartansson, 4.9.2008 kl. 16:03
Sæll Siggi
Hef einmitt oft velt fyrir mér þessum orðum sem snúa að því að kona sé ólétt, ófrísk, eigi kona einsömul, gangi með barni, þunguð, og guð má vita hvaða fleiri orð eru notuð um þessa fjölgun okkar mannanna:) En reyndar finnst mér þau öll afskaplega fáránleg og ekki einhvern veginn passa við. En aldrei hef ég samt fundið orð sem lýsir því svo mér líki. Erum við ekki bara barnfullar:) Annars langt síðan ég hef kvittað fyrir mig þrátt fyrir að lesa hér oft en geri það hér með.
Bið að heilsa henni frænku minni
Kv Erna H
Erna Hauksdóttir (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 09:12
Takk fyrir þetta, Erna. Um þetta eðlilega fyrirbæri eru til margs konar orð, en kona gengur ekki með barni þegar hún er ófrísk, hún gengur með barn. Eða er með barni. Hún gengur ekki með því fyrr en það er fætt og farið að ganga. Mér finnst bara fallegt að konur séu óléttar og það passar þeim yfirleitt prýðilega.
Kveðja í bæinn
Sigurður Hreiðar, 5.9.2008 kl. 09:35
Klukk! Þú ert´ann!
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 7.9.2008 kl. 19:14
HMMM???
Sem þýðir hvað, Helga Guðrún? Hvern á ég að elta? Hvaða leik erum við í?
Sigurður Hreiðar, 7.9.2008 kl. 21:26
Við nánari skoðun -- sá síðuna þína og veit hvað er að gerast.
Sigurður Hreiðar, 7.9.2008 kl. 21:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.