Að fallbeygja mannsnafnið Rut

Einn af betri bloggurum landsins sendi frá sér geðillskulegan pistil -- ætli það hafi ekki verið í gær -- þar sem hann -- eða hún, af því bloggarinn er kona -- frábiður sér vangaveltur um íslenska málfræði og fallbeygingar sérstaklega, ekki síst frá afdönkuðum blaðamönnum og birtir pistil af heimasíðu BÍ sem er fullur af sláttuvillum (óvönduð vinnubrögð, satt að segja) til sannindamerkis um að blaðamönnum farist ekki að gagnrýna óvönduð vinnubrögð annarra.

Það þarf svo sem ekki lengi að lesa blöð -- eða hlusta á ljósvakamiðla -- til þess að finna mýgrút dæma um óvönduð vinnubrögð í framsetningu íslensks máls. Blaðamenn, dankaðir eða afdankaðir, eru upp til hópa þverskurður af málsamfélaginu öllu.

Ég gat ekki að mér gert að taka þennan bloggpistil til mín, því ég hafði áður skotið athugasemd að konu þessari þar sem ég vildi láta hana fallbeygja mannsnafnið Rut (jú, konur eru líka menn og bera því mannsnöfn), sem hún hafði látið óbeygt þar sem það hefði átt að vera í eignarfalli.

Ég hef fengið sendingar til Sigurðar Hreiðar sem augljóslega hefðu átt að fara til Sigurðar Hreiðars.

Nefndur bloggari má alveg búast við því að ég haldi áfram að nöldra í henni (hefði ég átt að segja bögga hana?) ef mér sýnist tilefni til. Eins og ég nöldra í öðrum af sama tilefni.

Annar bloggari geipaði um smámunasemi í íslensku máli og tileinkaði þann pistil „háöldruðum málfarspervertum“ sem ég á þeim tíma tók líka til mín og taldi mér raunar til tekna, hef gjarnan titlað mig sem slíkan síðan og þykist heldur betri fyrir bragðið.

Þessa stundina langar mig að beina þessum sérstæða „pervertisma“ að tilteknum orðasamböndum sem virðast vera að negla sig gjörfasta í íslenku máli.

1) Mannleg mistök. Spurning? Eru til mistök sem ekki eru mannleg?

2) knýr [farartækið] áfram. Spurning: Hver skollinn knýr það þá afturábak?

3) Ég vaknaði upp í rúminu mínu í morgun. Spurning: hvers vegna upp? Er ég þá ekki orðinn uppvakningur?

4) Ég tek ofan hattinn [fyrir tilteknu athæfi]. Spurning: Hvers vegna hattinn? Er ekki nóg að taka ofan?

Læt þetta duga í bili. Þess má þó geta að ég er ekkert of góður til að nota allskonar slanguryrði sem eru að laumast inn í málið. Stend mig að því að segja ókei oft og iðulega, þegar mér finnst það eiga við - og skammast mín sosum ekkert fyrir. Skil nú orðið hvað það er að „bögga“ (sjá hér að ofan) en hef enn ekki fundið út hvað það þýðir að dissa og tjilla. Læt mér það svo sem í léttu rúmi liggja af því mér hefur ekki orðið orða vant án þeirra.

Að lokum: Ég læt mér nokk í léttu rúmi liggja þó ég reki augun í það sem eru augljósar sláttuvillur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Ég held að dissa þýði að spæla einhvern (ætla þó að spyrja unglinginn minn í kvöld til að vera viss) en að tjilla þýðir að slappa af og kemur úr enskunni eins og fleira. (Chill(ing) out).

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 2.9.2008 kl. 12:13

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Æ,mér finnst þetta kuldaleg sögn (gives me chill)og lítt slakandi.

Sigurður Hreiðar, 2.9.2008 kl. 13:05

3 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Eiginlega já, við erum sennilega ekki nógu "cool", Sigurður minn, til að kunna að meta þetta orðalag. Og kannski orðin of "framorðin" líka.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 2.9.2008 kl. 13:56

4 identicon

Sæll Sigurður, blessaður láttu ekki deigan síga, haltu á að bögga liðið eins og sagt er. Fjöldi fólks kann heldur ekki með málshætti eða orðtök að fara, ógleymanlegt er mér þegar ég heyrði ljósvakamann segja: Og nú blæs Sigurður í lúðurinn eins og honum einum er von og vísa. Þetta er ekki eina dæmið og fer alltaf jafn mikið í taugarnar á mér.

Kveðja að vestan

Halldóra (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 15:23

5 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Það er líka vestfirska að segja "halda á". (=Halda áfram).

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 2.9.2008 kl. 16:10

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæll nafni ég tek heilshugar undir með þér þetta er hvimleiður fjandi.

Við eigum að gera þá kröfu til manna sem hafa atvinnu af því að vera með gapandi kjaftinn s.s. þingmenn að þeir læri að beygja algeng orð eins og sonur og dóttir en á því er verulegur misbrestur. Ef þessir aðilar taka sig ekki á myndi ég ekki gráta það þótt einhver framtakssamur málverndarmaður sett viðkomandi í "gapuxastokk" sjálfu sér og öðrum til hvatningar um að vanda sig betur. 

Sigurður Þórðarson, 2.9.2008 kl. 16:12

7 identicon

Jú, mörgum finnst óþægilegt að vera bent á undarlega málnotkun sína og bregðast reiðir við og lýsa því gjarnan yfir að það sé  ómerkileg iðja og kerlingavæl að velta fyrir sér móðurmálinu, málfræði og hvað sé gott og vont málfar. Skyldi þetta vera að einhverju leyti sama fólkið sem talar um hundruðir af hinu eða þessu sem birtist eins og þjófur úr heiðskíru lofti? Veit það ekki.
Ég vann einu sinni í byggingarvinnu með miklum snillingi. Hann var að losa mikinn fleka sem hafði verið negldur fyrir bílskúrsdyr í nýbyggingu. Flekinn hafði bólgnað af ágangi regns og var mjög fastur fyrir. Snillingurinn djöflaðist á honum með hamri, kúbeini og síðast sleggju og loksins losnaði flekinn. Þá sagði minn maður. -Djöfull var hann fastur. Ég ætlaði varla að geta losað helvítið og lá ég þó á öllu liði mínu.
Í annað skiptið vorum við saman í jeppa með kerru aftaní. Félaginn sem ók, tók mjög víða og fagmannlega beygju sem tvísýnt var með að ná. Það hafðist án minnstu vandamála. Þá varð honum að orði: -Það er vissara að hafa vitið fyrir neðan sig.

Stefán Ásgrímsson (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 18:00

8 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já, Stefán. Ég þekki svona gæja. Sumir þeirra sinna ekki því sem þeir eiga að gera fyrr en eftir djúpan disk. Eða gæinn sem var yfirleitt í síðustu rútuferð á sunnudagskvöldi suður á völl í Kanavinnuna, vel hífaður, og söng við raust: Bára blá um loft þú líður.

Sigurður Hreiðar, 3.9.2008 kl. 20:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband