20.8.2008 | 18:28
Olíufélögin kunna ekki að reikna út álagningu sína
FÍB hefur margoft bent á að olíufélögin eru drjúg að hækka álagningu á eldsneytisverði en fjölmiðlar og líklega almenningur allur hefur skipulega látið þessa ábendingu sem vind um eyru þjóta. Nú tekur Félag kúabænda í sama streng og FÍB, reiknar dæmið út fyrir sig og kemst að sömu niðurstöðu, olíufélögin maka krókinn með hærri álagningu og nota heimsmarkaðsverð og fallandi gengi sem skálkaskjól.
Þá loks tóku fjölmiðlarnir, útvarp, sjónvarp og blöð, dálítið við sér en gerðu sér að góðu og kokgleyptu þá patentskýringu olíufélaganna að fjármagnskostnaður sé svo svakalega mikill. Án þess að spyrja hver hann væri. Öll nema reyndar DV sem spyr forsvarsmenn olíufélaganna nokkuð út úr og fær að vita að FÍB og kúabændur kunni ekki að reikna og fái þar af leiðandi þá vitlausu niðurstöðu að álagning olíufélaganna hafi hækkað um 23% á síðustu 12 mánuðum. Hve mikið hefur hún þá hækkað, spyr blaðamaður DV og fær svar frá Neinum: það er ekki hægt að reikna það út.
Og stjórnarformaður Neins hefur ekki einu sinni kynnt sér tölurnar!
-- Getum við skipt við olíufélag sem getur ekki reiknað út hver álagning þess er?
Við viljum að olíufélögin segi okkur hvaða kostnaður það er sem hefur hækkað svona gífurlega og færi okkur neytendum rök fyrir því hvers vegna við eigum að borga þennan kostnað, sem þau hafa þá stofnað til fyrir okkar hönd. Og við viljum að þau segi okkur hver álagning þeirra er.
Nú tilkynnir Neinn að þeir þurfi að hækka verð á metangasi á farartæki um 4,4% af því það hafi endurbætt afgreiðslustöð sína fyrir metangas á Bíldshöfðanum. -- Eiga neytendur að borga hærra verð fyrir vöru þegar einhver seljandi lagar aðstöðu sína til að selja hana? Hmmm?
Og ég er hættur að furða mig á og ergja mig á að Atlantsolía skuli nú síðustu mánuðina spila algjörlega með stóru strákunum" og hafa algjörlega brugðist því upprunalega ætlunarverki sínu (í orði kveðnu) að veita þeim aðhald og vera neytendum hagstæðari í verði. Ég hef nefnilega fengið upplýst að Atlantsolía kaupir ekki lengur inn sitt eldsneyti sjálft heldur kaupir allt af Skeljungi.
Hvað á ég nú til bragðs að taka, Búkolla mín?
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Alveg bullandi samkeppni
Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 20.8.2008 kl. 19:26
Það gleður mig að fleiri taka eftir að Atlantsolía er ekki stíga þungt niður. Ég man eftir að hafa lesið einhvers staðar að inn í álagningunni sé jöfnunargjald til félaganna til þess að þau sjái hag í að flytja eldsneyti til afskekktra staða. Er það ennþá greitt?
Kveðja, Káta.
Káta (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 04:43
Veljum samkeppni! var það ekki slagorð AO þegar þeir voru að komast inná markaðinn, það var amk ástæða þess að ég skipti eingöngu við þá í einhver 3 ár. Undanfarið hef ég einmitt tekið eftir því að AO hefur verið duglegt við að stökkva á hækkanir, yfirleitt næst á eftir N1, en orðið lækkun er ekki til í orðabókinni í dag. Ég hef reyndar heyrt af eignatengslum milli Byko og Atlantsolíu ef svo reynist vera (sem ég held að sé mjög augljóst) þá útskýrir það að AO hefur algjörlega tekið niður allar auglýsingar um að "Velja samkeppni". Ég vel alla vega ekki svona samkeppni og er því hættur að skipta við AO.
Ein spurning, varðandi flutning eldsneytis sem talinn er dýr, af hverju geta félögin boðið upp á ódýrara eldsneyti langt inní landi en í höfuðborginni? Þar á ég við Selfoss og Hreðavatnsskála, þar er eldsneytið 2 kr lægra en annarsstaðar og þannig helst það að jafnaði hefur mér sýnst!
Kristján (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 11:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.