20.7.2008 | 19:51
Höfðingleg fjölskylduhátíð í Bifröst
Háskólinn í Bifröst bauð til fjölskylduhátíðar á föstudaginn var, 18. júlí. Tilefnið var að nú stendur yfir afmælisár í Bifröst, 90 ár liðin nú í haust síðan Samvinnuskólinn var settur í fyrsta sinn snemmvetrar 1918, en Háskólinn í Bifröst telur sig beina framlengingu af Samvinnuskólanum sem fluttur var frá Reykjavík í Bifröst árið 1955. Skólastofnun hefur þetta óslitið verið alla tíð frá 1918 og á sem slík 90 ára afmæli í ár, þó menn geti svo skemmt sér við að pexa um hvort háskóli í Grábrókarhrauni geti státað af þeim aldri.
Víst er um það að Háskólinn í Bifröst hélt þessa fjölskylduhátíð af rausn og höfðingskap sem sómi var að. Valin dagskrá svo þétt skipuð frá kl. 11 til 16 að ógerningur var að höndla það allt, allra síst fyrir þá sem þurftu að hressa upp á gömul kynni við aðra gesti og staðinn sjálfan. Ekki veit ég um fjölda þeirra sem þarna komu við en allir voru velkomnir og látnir finna það, meira að segja álfamær á fagurbláum skautbúningi höfð til að knúsa gesti að skilnaði jafnóðum og þeir létu úr hlaði. Sem gamall heimamaður beggja megin borðsins hafði ég þá aðfinnslu helsta að ekki skyldu fleiri gamlir Bifröstungar leggja leið sína í gamla skólastaðinn sinn undir Grábrók þennan íðlfagra sólardag í júlí. Þarna var gaman að koma og ferðin þess virði.
Gífurleg uppbygging hefur átt sér stað í Bifröst undanfarin ár og það svo að gamlir heimamenn vita ekki einu sinni hva aðalinngangurinn er lengur. En sjá má kunnuglegt sjónarhorn ef horft er neðan úr hrauni heim að gamla skólastaðnum.
Hér í eina tíð hefði þótt sérstakur lúxus að geta farið í rútu í útivist. En núna bauð Sæmundur Bifrastarvinur upp á skutl á gömlu Ford-rútunni sinni frá 1947 út að vatni eða niður að Glanna svo menn gætu tölt til baka. -- Ég var ekki einn um að hafa gaman af að fá smátúr á rútu af þessu tagi -- þeirri einu sem eftir er sinnar gerðar, mas. með V8 bensínvélinni (sem líklega er heldur óhagkvæm nú um stundir).
Sagt var um Sæmund að hann hefði kvenhylli nokkra og það hefur ekki elst af honum. Ef vel er gáð má sjá að hann hefur fengið stimpil upp á það á hægri kinn -- og kannski líka á þá vinstri.
Þar sem áður var hlaðið utan við eldhúsgluggana og mjólkurbílarnir komu og fóru er núna komið Háskólatorg umlukt byggingum á alla veg svo vindar ná þar tæpast á blása. Á fjölskylduhátíðinni voru þar sölu- og sýningaborð þar sem fólk seldi handverk sitt eða þær eigur sem annars hefðu lent á Flóamarkaði eða í Kolaportinu.
Af fjölmörgum atriðum hverju öðru betra var kannski hátindurinn þegar frumflutt var Bifrastarlag eftir Jóhann G. Jóhannsson (árg. 1965) við texta Jónasar Friðriks (árg. 1966). Lagið var flutt í núverandi aðalsal skólans sem heitir Hrifla og þótti sumum við hæfi að útsetjari lagsins og stjórnandi og undirleikari sönghópsins sem lagið flutti skyldi vera Jónas -- það er að segja Jónas Þórir. Sönghópurinn er skipaður völdum karlaröddum og heitir enda Voces Masculorum -- ætli það þýði ekki bara karlaraddir? Altént voru þetta góðar karlaraddir en viðstaddir skemmtu sér við að spá í hvort þetta væri tvöfaldur kvartett eða átta manna karlakór. Og eins og sjá má að neðan var þetta alvöru fjölskylduhátíð og börnin gleymdust ekki.
Þegar komið er í Bifröst er alltaf freistandi að koma niður að Glanna og jafnvel í Paradís. Á báðum stöðum hefur ferðamannaaðstaða nú verið bætt og þess má sjá stað á myndinni frá Paradís, sem verður lokaþáttur þessa pistils.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæmundur Bjarnason, 21.7.2008 kl. 00:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.