Að gera sér glaða nótt

4. júlí. Hlýtur að vera þjóðhátíðardagur Kanada. Einhverra hluta vegna minnist ég hans alltaf með hlýhug síðustu 41 árið. Eða frá því við Kristján heitinn Magnússon vorum að þvælast í Montreal á þessum degi árið 1967.

Við unnuð þá saman á Vikunni og fórum í erindum hennar á heimssýninguna (Expo 67) sem þetta ár var haldin í Montreal. Lærðum að bera nafn borgarinnar fram nánast eins og það er skrifað með áherslu á síðasta atkvæði en ekki sem Montríol eins og starfsmaður Pan Am á Íslandi sem seldi okkur flugfar á staðinn ásamt gistingu. Þetta með flugfarið stóðst til hálfs en gistinguna alls ekki en það kemur 4. júlí ekkert við.

Það sem kemur 4. júlí við er að við Stjáni fórum um kvöldið út að borða með starfsfólki íslensku deildarinnar á sýningunni. Tókum síðustu lest heim í gististað nema hvað á skiptistöðinni þar sem við þurftum alltaf að skipta um lest voru allir reknir út - lestarnar hættar að ganga í dag.

Gott og vel. Þá bara að taka leigubíl. Við höfðum svo sem gert það áður, í hina áttina að morgni dags þegar morgunlúr var í okkur af og til vikuna sem við vorum þar fyrir Vikuna. En þessa nótt, klukkan að ganga tvö, voru engir leigubílar sjáanlegir. Við spurðum einhverja innfædda sem flæddu um göturnar hvernig ætti að fá leigubíl og okkur var sagt að við gætum bara gleymt svoleiðis lúxus. Nú væri 4. júlí og leigubílstjórar væru að gera sér glaðan dag og nótt.

Þá voru bara postulahestarnir eftir og við rötuðum þetta sosum, bara dálítið langur gangur...

Klukkan um fjögur um nóttina vorum orðnir þyrstir en æði spölur eftir enn. Nú væri gott að geta sest og fengið sér eins og einn öllara. En allar ölgáttir voru læstar og lokaðar. Barþjónar eins og leigubílstjórar að gera sér glaða nótt. Það var líka alveg satt, á öllu þessu þrammi höfðum við ekki séð einn einasta leigara.

En Kristján var ekki bara snilldar ljósmyndari. Hann var líka tónlistamaður, píanóleikari af guðs náð. Og nú tóku píanótónar að berast okkur til eyrna. Stjáni stansaði og sperrti eyrun, nefndi tónverk sem barst okkur úr djassheimum og tók eins og ósjálfrátt stefnuna á hljóðið. Það var svo sem ekkert úr vegi fyrir okkur og nú stóðum við hjá húsinu, víst einar 40 tröppur þverbrattar ofan í kjallara og opnar dyr sem hljómarnir komu út um. Stjáni rann af stað niður tröppurnar og ég með hálfum hug á eftir honum, svona heitir víst trespassing í útlöndum.

En nú geri ég langa sögu stutta. Þarna var okkur tekið eins og við værum þeir sem beðið hafði verið eftir. Við fengum sæti og við fengum öl og kannski eitthvað fleira fljótandi og fast, ég man það ekki. Gleymt er þá gleypt er segir máltækið, og það eru komin 41 ár síðan þetta var. En allir vildur við okkur spjalla og létu sem við værum vildargestir en það er eins með það og aðrar veitingar að smáatriðin eru fyrnd, aðeins vinsamlegt heildarviðmótið lifir. En svo mikið fullyrði ég þó að Kristján galt beina okkur veittan í fríðu því hann settist við píanóið og lét tónana flæða einn eða með öðrum, við höfðu rambað á óformlegan djassklúbb og þarna átti hann marga sálufélaga.

Klukkan að ganga sjö um morguninn sá Kristján að hinn íslenski félagi hans var farinn að hengja haus og ramba út í morgunbirtuna af og til til að halda sér vakandi. Þá reis listanaðurinn upp frá píanóinu og sagði að nú væri mál að hafa heilagt, hverju ég samsinnti af alhug milli geyspanna, þó morgunsólin væri falleg í Montreal sem annars staðar. Hvar lifið þið í borginni? spurðu þarlendir og þegar þeir höfðu fengið svarið litu þeir hver á annan og sögðu en það eru einar fimm mílur þangað. Hann Nick er alltaf edrú, hann getur tekið ykkur þangað. Það voru víst afar ósannfærandi mótbárur sem þeir fengu. Svo mikið er víst að Nick var kominn með okkur í gamla Lettann sinn innan skamms og tók okkur þangað sem við gistum á vegum Air Canada sem hafði komið okkur til bjargar þar sem Pan Am skildi okkur eftir nánast í lausu lofti.

Gott var að skríða undir sængina þennan morgun, um það leyti sem við hefðum átt að vera að vakna og koma okkur til verka. En liðinn var eftirminnilegur sólarhringur sem gerir það að verkum að 4. júlí á alltaf dulítinn streng í hjarta mér og sama er að segja um minninguna um góðan dreng og vinnufélaga árum saman, Kristján Magnússon.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband