Eftirminnilegt fyllirí í flugi

Fyllirí Íslendinga í sólarlöndum varð að umræðuefni í athugasemd við blogg hjá mér nýlega. Sem kom mér nokkuð á óvart,því almennt séð er fyllirí Íslendinga erlendis svo ég tali nú ekki um í flugi milli landa orðið fátítt, amk. miðað við það sem áður gerðist.

Sem rifjaði þó upp fyrir mér eftirminnilegt flug til Majorka, líklega fyrir 11 árum. Fyrir einhverja tilviljun höfðum við slysast til að kaupa okkur inn í ferð sem einkum hafði víst verið auglýst fyrir eldri borgara - hóp sem við vorum þá ekki enn farin að tilheyra.

Flogið var með spænsku flugfélagi sem ég man ekki að nafngreina, en á leiðinni til Íslands hafði klósett stíflast í vélinni og við tilraunir Spánverjanna til að losa þá stíflu tafðist brottför frá Keflavíkum fjóra tíma eða svo. Öldungarnir höfðu margir hverjir verið búnir að kaupa sér eitthvað í gleri inni í fríhöfn, sem þá var enn til, og settust síðan fram í rana og hófu að kanna innihald glerjanna. Sem varð til þess að þegar loks var hleypt út í flugvél og ferðin í raun hafin voru furðu margir orðnir - ja, satt að segja, þéttingsfullir.

Upphófst nú jafnhliða því að vélin hóf sig til himins hin mesta óreiða í vélinni sem lódökkar og móeygðar spænskar flugfreyjur hugðust lækna með því að neita að ganga um beina; sá sem vildi fá eitthvað að láta ofan í sig varð að sækja það í annað hvort eldhúsið, fremst eða aftast. Sem varð til þess að gangurinn var jafnan öllum ófær og troðfullur af misfullu fólki. Fararstjóri öldunganna var landskunnur danskennari og ég hef æ síðan haft sérstakt dálæti á nafni þess manns, svo mikið sem hann lagði á sig til að hald aeinhverju skikki á liði sínu og svo laglega sem honum tókst til, þó um hann eigi við hið sama og fjölda marga aðra að enginn má við margnum.

Inn á milli má skjóta því inn að Spánverjunum hafði ekki tekist að kroppa stífluna úr klósettinum, þannig að þeir sem þurftu að bjarga sér urðu að standa í biðröð við tvö klósett aftast. Og þar hafði víst iðulega verið háð mörg tvísýn baráttan að sögn, en sem betur fer var ég nokkuð framan við miðju í farþegarýminu og hefði átt að sleppa sæmilega hvað þetta snerti.

Nema hvað: 

Fyrir aftan mig sat einn þeirra sem verst var á sig kominn og þegar fór að nálgast millilendingu í Alicante, þar sem hluti farþeganna átti að verða eftir, hafði honum tekist að verða sér úti um kaffibolla, sem væntanleg hefði átt að verða honum til hagsbóta, hefði ekki svo slysalega tekist til að hann hellti úr honum ofan í klofið á sér. Og varð svo mikið um að hann meig á eftir öllu saman. Mér fannst þetta tilefni til þess að jafnvel spænskar flugfreyjur  gerðu undantekningu frá þjónustubindindinu og tókst að ná augnasambandi við eina þeirra, sem blikkaði mig bara samsærislega og veifaði kókett á móti öllu handapati mínu og látæði sem ég reyndi að hafa í samræmi við tilefnið, amk. var ég var hrein tekkert að reyna að koma á stefnumóti við hana að flugferð lokinni, eins og mér sýndist hún skilja málið. Og kumpáninn fyrir aftan mig mátti bara sitja í sínu dammi flugferðina á enda.

Sem betur fer varð hann eftir í Alicante.

Allt varð léttara og rýmra fluglegginn frá Alicante yfir til Palma Majorka, og til þess að gæta allra sanngirni með tilliti til aldurs má geta þess að meðal ferðafélaganna voru tvær konur á næstbesta aldri, svona sirka milli tvítugs og þrítugs. Önnur þeirra var nú ekk ivissari um sig en svo að þegar hún ætlaði að setjast á tösku sína þar sem við biðum rútufars frá flugvellinum í Palma hitti hún ekki á töskuna heldur hlassaðist óblíðlega niður á gangstéttina við hliðina á henni.

Og vinkonan lét hana bara vera þar.

Og enn frekari sanngirni: Þetta samferðafólk áttum við eftir að sjá og hitta oft næstu vikurnar á Playa del Palma, bláedrúog hið kurteisasta. Og á heimleiðinni var bara sofið, minnir mig, og allir sjálfum sér og þjóðinni til sóma. Á aldrinum frá tvítugt og uppúr.

Bæti hér við kl. 22.16: einhvern veginn tekst mér aldrei að flytja texta beint úr Word yfir í blogg án þess að einhver slys verði, svo sem orðasamsláttur upp um allan pistil. Og skammist hann sín bara.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Heill og sæll Sigurður og velkominn aftur.

Aldrei að taka mark á fullum Íslendingum var einu sinni viðkvæðið. Þegar eg hefi farið til útlanda hefi eg yfirleitt aldrei farið með Íslendingum hvorki fullum né ófullum. Yfirleitt fer eg með mínu fólki og stundum höfum við ferðast með þýskum ferðaskrifstofum oftast til sólarlanda. En það hefur komið fyrir að þeir þýsku geta líka verið fullir ekki síður en íslenskir og þá er maður bara óheppinn.

Annars væri athugandi hvort ekki sé tilefni að halda námskeið fyrir þá yngri í því hvernig best er að umgangast brennivín og bjór.

Bestu kveðjur

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 20.5.2008 kl. 21:08

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Vá, hvað þetta hefur verið skelfileg ferð ... en kannski fyndin í minningunni. Það versta sem ég get ímyndað mér er að vera föst einhvers staðar með drukknu fólki, t.d. í sumarbústað, og háð öðrum, jafnvel einhverri byttunni, með heimferð og ekki fyrr en í fyrsta lagi daginn eftir. Það eru líklega einu skiptin sem ég hef óskað þess að eiga bíl og geta látið mig hverfa þegjandi og hljóðalaust. En í flugvél, drottinn minn ... fallhlíf kannski? Arggggg

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 21.5.2008 kl. 00:23

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Nei, Gurrí, hún er ekki einu sinni fyndin í minningunni. Og til að kóróna allt lenti ég við neyðarútgang í sæti þar sem ekki var hægt að halla bakinu. Þetta var í stuttu máli sagt alveg skelfilegt, eins og þú réttilega segir. En fallhlíf? Satt að segja datt mér það aldrei í hug, enda ætlaði ég að komast á leiðarenda, hvarflaði ekki að mér að skilja konuna eftir í þessu geitungabúi!

Sigurður Hreiðar, 21.5.2008 kl. 00:31

4 Smámynd: Freyr Hólm Ketilsson

Alltaf gaman að "skemmtilegum" ferðasögum.
Heimilisráð að færa úr word yfir á netið.
Best er að copy/paste allan texta á notepad (finnur það undir start/All programs/accessories)
Þá máist allt undirliggjandi af og eftir stendur texti.

Freyr Hólm Ketilsson, 21.5.2008 kl. 08:59

5 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Skemmtilegt!  kv. B

Baldur Kristjánsson, 21.5.2008 kl. 17:26

6 Smámynd: Einar Steinsson

Varðandi athugasemdina með "Word" og brenglun á texta.

Það sem þú ert að gera er væntanlega það sem margir gera, þ.e. skrifa textann ekki beint inn í blogg kerfið heldur fyrst inn í annað forrit og færa hann síðan yfir í lokinn. Þetta er ágætisaðferð til að minnka líkurnar á að textinn týnist ef samband rofnar við netþjóninn eða ef allur textinn er ekki skrifaður strax heldur með hléum. En að nota "Word" eða sambærileg öflug ritvinnsluforrit er eiginlega eins og að nota stóra skurðgröfu til að moka upp úr blómapotti og árangurinn stundum eftir því.

Stóru ritvinnsluforritin eru nefnilega ekki endilega að vinna með einfaldan texta eins og hentar best fyrir svona bloggkerfi heldur fylgir alls konar drasl með og þess vegna koma svona villur eins og þú ert að tala um. Fyrir svona vinnu er oft betra að nota bara einfalda textaritla eins og "NotePad" eða "WordPad". Bæði fylgja með Windows og eru eins og Freyr benti á hérna að ofan undir "START-All Programs-Acessories". Samsvarandi textaforrit fylgja með Linux ef menn eru að nota það og örugglega með Mac líka þó að ég þekki það ekki.

Einar Steinsson, 21.5.2008 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband