Undarleg fælni við að viðurkenna löngun til sólarlanda

Ferðir til sólarlanda seljast nú sem aldrei fyrr, þrátt fyrir að fjölmiðlar hamri á hallæri sem nær yfir bankana og miðin -og þá merkilegu staðreynd að sé minnst á sólarlandaferðir við hinn almenna Íslending fer hann strax í bakkgír og fer að tala um hvað það sé leiðinlegt að liggja í sólbaði.

Só vott? - svo gripið sé til nýíslensku. Er endilega samasemmerki milli þess að una sér vel í hlýju veðri og björtu og tilþess að leggjast marflatur á sólbekk og góna upp í loftið?

Frá því ég fór mína fyrstu ferð til Sólarlanda(hafði verið að vinna dálítið fyrir eina ferðaskrifstofuna og neyddist til að taka Mallorkaferð fyrir okkur hjónin og yngsta barnið upp í launin) hef ég verið yfir mig hrifinn af sólarlandaferðum en afar lítið gert af því að liggja ísólbaði - skal þó viðurkenna að ég hef lagt mig stund og stund í sand við sjó og bara unað því vel allt upp í hálftíma samfleytt.

Því í sólarlandi er hægt að gera margt fleira en að liggja á sólbekk og góna upp í loftið. Til dæmis fara í langar gönguferðir og bara njóta þess að vera léttklæddur og finna sólargeisla og dálítla golu leika um kroppinn. Og hver hefur ekki gaman af því að ganga í flæðarmálinu og fá öldurnar annað veifið allt upp að hnjám? Þess á milli tylla sér inn á góða ölkrá og fá sér bjórkrús eða kaffibolla, eftir því hvernig maður sjálfur og ferðafélaginn er stemmdur í það og það skiptið? Og horfa á mannlífið misbert allt í kringum sig.

Úr garðinum

Sofa fram eftir á morgnana og setjast svo út á svalir með morgunmatinn sinn og horfa á þá sem una sér við að liggja marflatir á sólbekk og góna upp í loftið. Bregða sér kannski í minigolf einhvern tíma dagsins og skellihlæja að sjálfum sér og hinum sem eru allt í kring jafn miklir klaufar að berja hvítu kúlurnar, eða skreppa að skoða fallegan skrúðgarð eða jafnvel dýragarð - nú eða þá fara í búð. Verst hvað allt er dýrt í sólarlandinu.5 lítra kútur af venjulegu vatni ( því það er yfirleitt ódrekkandi úr krananum á þessum stöðum)  225 kr. Mjólkurlítri 147,50.

400 gr heilhveitibrauð (ekki sérlega gott) 250kr. 6 tómatar í pakka (góðir að vísu) 125 kr. Appelsínur 125 kr. pr. kg. Rauðepli (góð) 233 kr pr. kg. Og þannig 

með hattinn

mætti áfram telja, ég á allt bókhaldið í smáatriðum.Verðið er eins og það var á Kanarí í febrúar og miðað við evruna á 118 kr.

En til að bæta þetta upp set ég nokkrar myndir með frá sömu ferð. 

Og aðeins með myndunum-- verst að textarnir lenda ekki alltaf með réttri mynd vegna kunnáttuleysis míns á því sviði, en þá ber að lesa í sömu röð og myndirnar:

Ekki þykir öllum leiðinlegt að liggja í sólbaði. Sumir sinna því verkefni eins og þeir hafi keypt sólarljós eftir fermetratali, svo og svo margar mínútur m.v. fermetra skinns…

  

 

 

Cheers

Aðrir eru ekki að vesenast í að klæða sig einhver ósköp. Hattur og bakpoki dugar alveg fyrir manninn á myndinni.

 

Blogghöfundur á það alveg til að halda sig á öruggum stöðum og kunnuglegum.

 

 

 

 

 

 

 Á sunnudögum má gera góð kaup í notuðum bílum á markaðnum við Faro 2.

Færslu breytt svo að segja strax eftir innfærslu af því sums staðar er hafa orð slengst saman þó ég þykist hafa sett bil á milli þeirra. Og aftur nú á sunnudagsmorgni. Bið lesendur að sýna þolinmæði og lesa í málið þó forritið sé eitthvað að skemma fyrir mér.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Ég skildi þetta allt. Mér væri held ég alveg ómögulegt að góna upp í loftið liggjandi flöt í sólbaði. Myndi hafa lokuð augun.

Ég er líka alveg einstaklega léleg við að nota sólgleraugu, týni þeim bara alltaf. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 11.5.2008 kl. 16:13

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Oh, ég fæ bara heimþrá til Kanarí þegar ég les þetta og sé myndirnar. Þetta er líf sem mér líkar mæta vel og væri alveg til í að eyða ögn meiri tíma á Kanarí en fram til þessa. Öll sólarlönd höfða til mín, en kostirnir við Kanarí (fyrir utan verðlagið) eru margir, gott veður á réttum tíma árs, jafnt veður, ótrúlega fjölbreytilegir göngumöguleikar, góðir minigolffélagar og -vellir og svo bara þetta ,,eitthvað" sem veldur því að maður er kominn ,,heim" til Kanarí um leið og vélin er lent.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 11.5.2008 kl. 16:22

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Helga mín R, fyrir alla muni drífðu þig í sólarland og finndu hvað þú getur haft mikið út úr því, þó að þú leggist aldrei í sólbað.

Já, Anna mín Ól, við þekkjum þetta „eitthvað“ sem Gran Canaria hefur við sig. Strax við færibandið í flugstöðinni!

Ben Ax -- gaman að sjá til þín aftur. Geymi alltaf pistilinn þinn um hundahreinsun.

Góð kveðja

Sigurður Hreiðar, 11.5.2008 kl. 19:41

4 Smámynd: Hanna

Ég hélt alltaf að sólarlandaferðir væru ekki fyrir "lifandi" fólk þar til ég "óvart" lenti í einni.  Óvart, vegna þess að ég hélt ég væri að fara í ferð sem væri ekki sólarlandaferð eða til Króatíu.  Þar lærði ég hvað það getur verið yndislegt að liggja við sundlaugarbakka með bók og verða gjörsamlega endurnærð á eftir.  Síðan þá hef ég farið í nokkrar og alltaf er það jafn frábært að vera í afslöppun í sól og huggulegheitum og eiga val um að skoða sig um í lengri og styttri ferðum.

Hanna, 11.5.2008 kl. 20:05

5 identicon

Ég hef farið í tvær. Og það er bara ekki fyrir mig að liggja í sólbaði, hvorki erlendis né hérlendis. Höfuðverkur og máttleysi. Semsagt vanlíðan. En það er gaman að ferðast. Bara ef ekki væri svona heitt þarna suðurfrá.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 08:40

6 Smámynd: Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir

Hef einu sinni farið í sólarlandaferð og fannst það heldur klént.  Ekki það að ég hafi ekki gaman af sól.  Þvert á móti þá er ég mikil sóldýrkandi (þó ég sólbrenni iðulega ef ég gæti ekki að mér) og líður ákaflega vel þegar hitastigið er +25 °C.  Það voru fullu Íslendingarnir sem máttu klárlega missa sín.  Fór hins  vegar í góðum félagsskap 3 daga að ströndum Svartahafsins.  Þar voru engir Íslendingar en reyndar nokkrir Skandínavar sem eru ef eitthvað er, ennþá leiðinlegri með víni, en Íslendingar.  Þar komst ég að því að þessir 3 dagar voru passlegur tími fyrir mig að liggja í sólbaði við sundlaugarbakkann.  Eftir þann tíma þá var ég hætt að hafa gaman að því að gera ekki neitt og þurfti að breyta til.  En ég hef náttúrulega aldrei farið til Kanarí

kveðja úr Borgarfirðinum

GEH

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, 12.5.2008 kl. 10:34

7 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Hitastigið sem þú nefnir, Gunnfríður Elín, +25°C, er einmitt það sem ríkir á Gran Canria (+/-5°) yfir íslensku vetrarmánuðina. Afar þægilegt sem sagt fyrir okkur.

Sem betur fer hef ég lítið haft af fullum Íslendingum að segja í utanferðum síðan árið 1997 að ég slysaðist inn í svokallaða eldri borgara ferð til Mallorka. Og þá aðeins í fluginu á leiðinni út, en það var líka eftirminnilegt og verður kannski frá sagt einhvern tíma í bloggi.

En boðskapur minn er sá að það sé yfirleitt hægt að gera svo ótal margt fleira og skemmtilegra í sólarlöndum heldur en liggja í sólbaði við sundlaugarbakka, þó það sé í sjálfu sér ekki skammarlegt athæfi. Ég hef þó að mestu haldið mig við Eyjar í Miðjarðarhafi (Mallorka, Sardiníu, Krít og Kýpur) og Gran Canaria, sem er ein af Kanaríeyjum. Allir þessir staðir hafa upp á margt fleira að bjóða en sundlaugarbakka sem gaman er að dunda sér við og skoða og sá sem það gerir er um leið sjálfkrafa kominn úr mestu hættunni af fylliröftum hverrar þjóðar sem þeir kunna að vera.

Góð kveðja í Borgarfjörðinn, sem ætið er hátt á vinsældalistanum hjá mér, hvort heldur er sól eða súld.

Sigurður Hreiðar, 12.5.2008 kl. 12:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 306295

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband