5.5.2008 | 19:07
Á hvaða hæð er jarðhæð?
Ég get ekki á mér setið að bæta hér við pistilinn frá því fyrr í dag. Ágætur vinur minn sendi mér semsé tölvubréf um málefnið og ég get ekki stillt mig um að skeyta erindi hans hér inn í hjá mér, í gæsalöppum en án þess að geta nafn hans því til þess hef ég ekki leyfi og get að auki skrifað upp á það sem hann segir hér:
Stundum óskar maður þess að hafa komið sér upp "bloggi" þegar eitthvað skrýtið rekur á fjörur og það væri við hæfi að fá útrás.
Eitt slíkt var um helgina þegar Námsgagnastofnun var að auglýsa eftir húsnæði til leigu og þar sagði í skilmálum: lagerhúsnæði á jarðhæð og skrifstofuhúsnæði á 1. hæð.
Eitthvað finnst mér þetta "útlenskt" því venjan hér á landi hélt ég vera að að jarðhæð væri 1. hæð (nema þegar menn eru að fela það að kjallari sé jarðhæð en ekki ekki kjallari) og síðan væri næsta hæð 2. hæð.
Fyndni parturinn var að mínu mati að það er Námsgagnastofnun (þeir sem eiga væntanlega að hafa vit á íslensku) sem er að auglýsa
Ég er sammála og einnig um að heggur sá er hlífa skyldi ef Námsgagnastofnun lætur svona frá sér fara.
En fleiri mega passa sig. Td. RÚV rás 1, sem að mínu viti er aðal útvarpsstöðin og hefur kannski enn ríkari málfarsskyldum að gegn en þær hinar. Nú síðast í Speglinum, fréttaskýringaþætti eftir kvöldfréttir, var talað um að standa sig í stykkinu sem er tvítekning: annað hvort stendur maður sig eða maður stendur í stykkinu. Ekki hvort tveggja. Og í gærkvöldi var í Seiði og hélogi lesin þýdd klausa úr erlendri skáldsögu um einhvern sem hljóp eins og fætur toga eitthvað út í buskann. -- Ég er þeirrar skoðunar að þarna hefðu báðar sagnirnar átt að vera í sömu tíð.
Hvað segja málfarsspekingar?
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 306295
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það var skemmtilegt að lesa póst sem Kringlan sendi frá sér nýlega til "rekstraraðila" í húsinu þess efnis að nú væri hægt væri að kaupa auglýsingapláss í bílakjallara á 1. hæð Kringlunnar.
Magnús (IP-tala skráð) 5.5.2008 kl. 22:32
Það er samt miklu rökréttara að mér finnst að tala um hæðina fyrir ofan jarðhæð sem fyrstu hæð því jarðhæð er ekki í neinni hæð.
Hitt er samt verra þegar þegar hver eftir annan segir að eitthvað sé þrisvar sinnum minna en eitthvað annað þegar átt er við að stærðin sé þriðjungur af viðmiðinu. Meira að segja ómari Ragnarssyni hefur orðið þetta á hvað eftir annað þegar hann er t.d. að tala um bíla sem eyða þrisvar sinnum minna en einhver annar.
Landfari, 5.5.2008 kl. 23:30
Landfari: hefur þá einnar hæðar hús enga hæð?
Sigurður Hreiðar, 6.5.2008 kl. 11:01
Það er alltaf dapurlegt þegar gömlum skilgreiningum og gamalli málvenju er breytt. Auðvitað byrjaði þetta allt saman í húsnæðisvandræðunum um aldamótin 1900 og fram eftir allri 20. öldinni. Hús voru gjarnan byggð þannig að fyrst var hlaðinn kjallari. Í honum voru geymd kol og matvæli og sitthvað sem ekki þurfti alltaf að nota. Þá var einnig þvottaaðstaða og jafnvel þurrt rými þar sem unnt var að hengja upp þvott. Stundum var lítið verkstæði allt eftir þörfum viðkomandi. Næst fyrir ofan kjallarann var auðvitað fyrsta hæðin. Stundum þegar hús voru byggð á klöpp var kjallarahæðin lítið eða ekki niðurgrafin en „jarðhæðin“ kom víst ekki til sögunnar fyrr en eftir að hitaveitan útrýmdi kolaupphituninni og farið var að nýta kjallarrýmið undir litla íbúð. þá þótti ekki nógu fínt að búa í kjallara og jarðhæðin kemur fram á sviðið.
Erlendar venjur með að telja jarðhæðina sem við Íslendingar höfum vanist að nefna neðstu hæð eru sennilega mun rótfastari en íslensku venjurnar. Í Þýskalandi er 1. hæð nefnd „Erdgeschoss“ á tungu Schillers og Goethe. Í nýjustu orðabókum er farið að þýða þýska orðið sem jarðhæð eftir þessari nýju stefnu en skilgreiningin á þýska orðinu er að „Erdgeschoss“ megi ekki vera niðurgrafin að neinu leyti. Það getur því verið með nokkuð vafasömum rétti að sökkva „jarðhæðinni“ niður á við þó ekki sé nema um nokkra þumlunga. Annaðhvort er notað orðið kjallari eða jarðhæð, jarðhæðin getur aldrei verið samkvæmt eldri skilgreiningu einnig verið það sama og við höfum nefnt 1. hæð í húsi. Er þá kannski jafnframt önnur „jarðhæð“ enn neðar? Þá kann kannski að styttast í að auglýst verði „efri“ og „neðri“ jarðhæðir í fasteignaauglýsingum! Og kannski vel „staðsettum“ í þokkabót!
Eitt sem mér finnst alltaf vera annkannalegt eru þessar dæmalausu „staðsetningar“ í fasteignaauglýsingum og tröllríður virðist öllum fasteignasölum. Þetta orð „staðsetning“ hlýtur eftir eðli þess orðs að eiga við e-n hlut sem er ekki alltaf á sama stað. Þannig getum við með réttu staðsett farartæki út um allt hvort sem eru bílar, flugvélar eða skip, jafnvel húsbílar en alls ekki hús sem sjaldan leggjast í flakk þó örfá dæmi séu um slíkt. Af hverju í ósköpum er ekki einfaldlega tekið fram að tiltekið hús eða íbúð sé á „mjög góðum stað“ eða að það sé „vel í sveit sett“ ef um hús úti á landi er um að ræða? Þess ber og að geta að lögfræðilega hugtakið „fasteign“ er tiltekinn hluti af yfirborði jarðar sem er ákveðinn fjöldi fermetra og er útlagður með tilteknum hnitasetningum. Hús eru því fylgifé fasteignar en ekki „fasteignin“ sjálf, hlutur sem er misauðveldlega forgengilegur. Fasteignina er hins vegar ekki unnt að eyðileggja eða afmá meðan jörðinnni hefur ekki verið tortýmt.
Annars má ræða þessi mál fram og aftur en er ekki fyllsta ástæða til að vanda það sem lengi skal standa? Mismunandi merking eða skilningur orða getur valdið mikilli tortryggni og jafnvel fjandskap með tilheyrandi ósköpum, jafnvel heiftúðugum málaferlum og jafnvel þaðan af verra. Fasteignasalar þurfa að vanda sérlega upplýsingamiðlun sína og nota þau orð og orðasambönd sem venja er að nota og enginn efi er á. Að teygja og toga merkingu orða út um víðan völl kemur hlutaðeigandi fyrr eða síðar í koll.
Læt þessu hjali lokið. Góðar stundir!
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 6.5.2008 kl. 11:50
Sammála þér með staðsetninguna. Íbúð er einfaldlega á þriðju hæð, óþarft að segja að hún sé staðsett á þriðju hæð. Sama er með þetta endalausa „um-að-ræða“ -tuð. Um er að ræða íbúð sem staðsett er á þriðju hæð: Íbúðin er á þriðju hæð.
Góður vinur minn sem nú er því miður allur var vanur að klifa á því að við ættum að nota KISS aðferðina. KISS er að vísu skammstöfun á ensku orðatiltæki en gott fyrir því: Keep It Simple, Stupid!
Sigurður Hreiðar, 6.5.2008 kl. 12:00
Þetta hljómar eins og 1. sal (dönskuskotið) og auðvitað er jarðhæð 1. hæð og ekkert annað. Hins vegar finnst mér ég farin að sjá fasteignaauglýsingar þar sem hreinræktaðir kjallarar eru kallaðir jarðhæðir. Manst þú eftir fyrirbærinu ,,uppgrafinn kjallari" um kjallara sem voru ekki niðurgrafnir? Alveg hætt að heyra um slíkt, nú heyrist bara um ,,útgrafna" kjallara, sem er allt önnur ella. Sammála KISS - vel þekkt hugtak í hugbúnaðarbransanum.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.5.2008 kl. 13:07
KISS = Keep It Short and Simple (þ.e.a.s. ekki hafa fleiri orð um málið en nauðsyn krefur).
Helga (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 13:31
Mér þykir fyrri skýringin á KISS skemmtilegri, Helga!
Sigurður Hreiðar, 6.5.2008 kl. 18:24
Og hafa skal það sem betur hljómar!
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 6.5.2008 kl. 21:24
Og þetta með "formælanda" hins eða þessa.
Er formælandi Bandaríkjastjórnar sá sem formælir þeim mest?
Bölvar þeim mest?
HP Foss, 7.5.2008 kl. 13:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.