16.4.2008 | 17:31
Um bloggvini og reglustrikureglugerðir
Eins og tryggir lesendur mínur hafa kannski tekið eftir hef ég ekkert bloggað nú um skeið og get varla sagt að ég hafi litið á blogg. Alls ekki sinnt bloggvinum mínum vel. Því ráða annir af margvíslegum toga og má hver túlka svo sem honum sýnist.
Svo lítur út sem ítarlegt bloggbindindi sé vænlegt til vinsælda, því aldrei hafa jafn margir boðið mér nýja bloggvináttu á jafn skömmum tíma. Því miður verð ég að tilkynna þeim að ég hef að sinni ekki ráðrúm til að sinna þeim bloggvinum sem ég hef fyrir hvað þá nýjum, og því hafnað þessum kostaboðum.
Ekki hefur bloggið þó legið niðri af því að bloggefni hafi skort. T.a.m. aðgerðir trukkastjóra sem hafa sumir hverjir lagt sig fram um að ergja blásaklausan almenning sem ekkert ræður við eldsneytisverð né heldur reglur um hvíldartíma flutningabílstjóra. Enda hefur almenningur brugðist ókvæða við og m.a. útvarpsmaður nokkur sem fer iðulega með munnlegt blogg á RÚV rás 1 var á dögunum með heldur kuldalega umsögn um flutningabílstjóra sem krefðust þess að fá að aka hálf meðvitundarlausir af þreytu og svefnleysi um okkar örmjóu og ruggóttu þjóðvegi með 40 tonna farm + trukkinn eins lengi og þeim sýnist.
Af því gefna tilefni má nefna að vissulega eru reglur um hvíldartíma góðra gjalda verðar og vissulega verða flutningabílstjórar að skipuleggja ferðir sínar eftir bestu getu og jafnvel koma sér upp koppum sem þeir geta athafnað sig á í skjóli síns eigin bíls, eins og einhvers staðar var gerð krafa um. En mér finnst líka að hægt væri að malbika handa þeim svæði þar sem þeir geta þá lagt bílum sínum á annars staðar en úti í kanti á okkar örmjóu og ruggóttu þjóðvegum, meðan þeir fá sér hinn tilskilda blund samkvæmt reglunum frá Brussel og gera þarfir sínar í koppinn. Og að auki, eins og nú hefur verið sótt um, gera reglurnar ögn sveigjanlegri svo þeir nái því að aka 5-10 mínútur í viðbót til að ná inn á stað þar sem þeir geta stöðvað bílinn svo lengi sem krafist er, án þess að vera þar sjálfum sér og öðrum til voða.
Í þessu samhengi má benda á að í svo mörgum tilvikum sem verða hérlendis af því ökumenn sofna undir stýri eru það sjaldnast flutningabílstjórar. Svo áhættan af því að hleypa þeim inn á næsta alminlega hvíldarpláss er hverfandi miðað við ýmislegt annað, þó það stangist á við reglustriku-reglugerð austan úr Evrópu.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Alltaf gott að sjá þig, Sigurður minn og mikið var ég heppin að ná inn í tíma.
Ég tók reyndar allt annan pól í hæðina varðandi bílstjórana. Mér fannst aðgerðir þeirra bæði réttlætanlegar og hugaðar og taldi að þarna væri um svo mikið hagsmunamál að ræða fyrir hinn almenna borgara að smávægis fórnarkosnaður væri fyllilega ásættanlegur.
En eins og einhver benti mér reyndar á með réttu, þá get ég trútt um talað héðan úr langtbortistan. Ég varð hvorki sein til vinnu né óstundvís á önnur stefnumót vegna aðgerðanna. Og vel má vera að þetta hefði mátt útfæra á annan og betri hátt.
Ég kættist hins vegar vegna þess að mér fannst þetta benda til þess að Íslendingar væru að vakna sem neytendur, og almenningur að átta sig á að hann hefur bæði raddir og ráð til að láta þær heyrast. En án samsöðu verða þær eins og hjáróma rollur á túni. Hver jarmar á sínum bletti, skítur röltandi og heldur áfram að éta.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 16.4.2008 kl. 22:42
Aha, ég slapp inn í bloggvinahópinn þinn, ánægð með það. Góð ábending með hverjir það eru sem sofna undir stýri og hvað ósveigjanlegar reglur geta verið óréttlátar. Ég hef haft vissa samúð með baráttu flutningabílstjóranna vegna þess að ég tel þá vera að brejast fyrir lífsviðurværi sínu, en held að það sé búið að koma sjónarmiðum þeirra á framfæri með fjölmiðlaumfjöllun og tími kominn á annars konar aðgerðir. Það hefði eflaust verið málstað þeirra til meiri framdráttar hefðu þeir skipulagt mótmæli sín þannig að ekki hefði stefnt öryggi í hættu.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.4.2008 kl. 00:27
Velkominn aftur á þessi skemmtilegu spjöld sögunnar þar sem bloggið er!
Kveðja
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 17.4.2008 kl. 08:55
Þarf maður að sinna bloggvinum? Eins gott að ég á enga.
Helga (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 09:57
Þakka þessar kveðjur.
-- Já, Helga IP óskráð, ég lít svo á að bloggvinir séu ekki bara eitthvert vinsældasafn heldur séu þeir listi yfir það fólk sem maður vill fylgjast með og sjá hvað hefur að segja.
Og Helga Guðrún: því miður held ég að við verðum enn um sinn hjáróma rollur. Á túni eða úti í mýri. Lítrinn af dísilolíu kominn í 160 kr. Ætli það sé ekki eitt pund og tíu sent? Og við sem héldum að það ætti að verða dísilnum til framdráttar þegar vegagjaldið var fært inn í verð frá dælu!
Sigurður Hreiðar, 17.4.2008 kl. 11:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.