Til bloggvina fyrst og fremst

Ég er að velta fyrir mér til hvers bloggvinir eru. Jú, maður hefur þá á lista þegar maður fer inn á bloggið sitt og getur verið nokkuð fljótur að sjá hvað þeir eru að blogga.

Hangir eitthvað fleira á spýtunni?

Mér finnst óþægilegt að listinn sé alltof langur og sumir bloggvinir mínir blogga ekki nema nokkrum sinnum í mánuði - einn hefur held ég ekki bloggað síðan í júlí í fyrra. Eða var það júní?

Út af fyrir sig hef ég ekkert út á þessa bloggvini að setja. Sjálfur kann ég ekki að manga til við þá sem ég kynni að vilja hafa fyrir bloggvini, ein vinkona mín á blogginu sem ekki er á bloggvinalistanum benti mér á þann möguleika að eiga slóðina einfaldlega undir favorites og vera þannig fljótur að leita uppi þá bloggara sem mér þykir áhugaverðir. Þetta hef ég gert síðan.

Hvers vegna er ég að messa um þetta núna? Jú, af tveimur ástæðum. Önnur er sú að ég er að hugsa um að fara að grisja í bloggvinalistanum sem er að verða of langur að mínu viti. Hin er sú að í gær eða fyrradag var einn enn sem mæltist til bloggvináttu við mig.

Ég kannaðist ekki við bloggheitið og hafði aldrei séð það fyrr. Ég opnaði þetta blogg og þar stóð ekkert mannsnafn að heldur né aðrar marktækar upplýsingar um skrifarann.

Þetta var fljótgert. Ég hafnaði þessu bloggvinatilboði. Ef menn vilja ekki kannast við það sem þeir láta frá sér hafa þeir eitthvað að fela. Ég hef ekki valið mér þess háttar fólk að vinum. Kýs það ekki heldur bloggvinum. Vel má vera að sá sem stendur á bak við þetta dulnefni sé hinn vænsti og vitrasti maður, karl- eða kven- en hann ætti þá að hafa kjark til að kannast við sjálfan sig.

Kæru bloggvinir - að svo komnu máli hef ég ekki hugsað mér að hreinsa stórlega til á bloggvinalistanum. En er það ekki löggilt að sá sem hefur ekki gefið frá sér lífsmark á enn blogghátt eða annan í þrjá mánuði verði felldur út? - Ykkur er guðvelkomið að henda mér út af lista ykkar - ég veit hverja ég vil sjá og hef eins og að ofan segir ágætt ráð til að fylgjast með ykkur áfram þó það sé ekki á þennan hátt. Á sama hátt vona ég að enginn taki það illa upp þó ég taki aðeins til á mínum lista - fyrr eða síðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Mikið finnst mér þetta satt og rétt. Ég held að einhverjir séu til sem eru að keppast við að eignast sem flesta vini, það finnst mér fáránlegt af fullorðnu fólki. Ég hef neitað mörgum um vinsemd og vona að enginn hafi tekið það illa upp. Ég vil nefnilega geta sinnt mínum vinum almennilega og helst vildi ég vera skyld þeim eða tengd. Kannski fer ég líka bráðum að taka til. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 14.1.2008 kl. 20:09

2 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Sammála er nýbúin að taka til hjá mér (þ.e.a.s. bloggvinalistanum) og viti menn þú "frændi" ert þar enn

hafna þeim sem ég þekki ekki, en ramba oft inn á bloggvini bloggvina minna eins og t.d. ammatutte. Sé að hún býr í næsta bæ og hefur frá mörgu skemmtilegu að segja og kíki oft inn á síðuna hennar.

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 14.1.2008 kl. 20:34

3 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Vertu velkomin Hulda.kv.

Helga R. Einarsdóttir, 14.1.2008 kl. 21:08

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er að flestu leyti sammála þér varðandi bloggvinina. Þetta með favorites eða bookmörkin er svolítið annað. Það getur verið ágætt að setja áhugaverða bloggara í bookmark en það finnst ekki þegar farið er í aðra tölvu og þessar skrár eiga það til að hverfa. Sumir vinnustaðir leyfa heldur ekki bookmörk þó menn vildu reyna að koma sér upp tveimur settum af slíku. Þessvegna fyndist mér ágætt hjá þeim sem Moggablogginu stjórna ef þeir vildu setja upp eitthvað sem líktist bookmörkum í Moggabloggið.

Sæmundur Bjarnason, 15.1.2008 kl. 00:11

5 Smámynd: Beturvitringur

Ég er algjör nýbyrjandi. Þegar mér hefur verið send blogvinabeiðni, hef ég bara sent á móti eins og fáfróðum sæmir: "Ákkúrru?"

Beturvitringur, 15.1.2008 kl. 02:22

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég tek undir það með Huldu Bergrós að ég ramba oft inn á bloggvini bloggvina og svo koll af kolli. Og, Hulda Bergrós, frændrækin ertu! Mér sýnist í Íslendingabók að skyldleiki okkar sé svona ca. í 10. lið. Hins vegar ertu mikið skyld konu minni, hún af þriðja lið en þú fjórða frá ykkar sameiginlegu forfeðrum. En við mamma þín vorum saman í skóla og hún og móðursystkini þín flest ágætir kunningjar mínir, ekki síst Dísa þó hún væri talsvert eldri en ég. Þannig á ég vil gjarnan vera „frændi“ svona þannig séð!

En -- Beturvitringur -- því miður ert þú svona dæmi um hugsanlega bloggvini sem ég myndi hafna. Og ef þú spyrðir akkuru? myndi ég einfaldlega svara: afþvíbara!

Sigurður Hreiðar, 15.1.2008 kl. 10:05

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Skemmtilegar vangaveltur. Hef einnig neitað ýmsum huldumönnum að gerast bloggvinur minn. Mosi vill vita einhver deili á þessum mönnum sem ekki bjóðast til að taka ofan síðhöttinn og segja til sín. Nýjasti bloggvinur Mosa eru Torfusamtökin sem buðu mér að gerast bloggvinur sinn hvorki meira né minna! Tilefnið er líklega að Mosi blandaði sér í umræðuna um gömlu húsin við Laugaveg. Mér finnst mikil skammsýni að koma upp hóteli á þessari litlu og þröngu lóð. Einar Ben. hefði þótt það kotungsleg markmið að byggja smáhótel og sennilega er einingin ákaflega óhagstæð og kalli á stækkun fljótlega.

Laugavegurinn var upphaflega hannaður á 19. öld fyrir handvagna og hestvagna til að auðvelda fólki að koma þvottinum sínum inn í Laugar til að þvo. Hvar á að hafa gott pláss fyrir hópferðabíla til að stoppa þarna í þessum þrengslum sem þegar eru næg fyrir? Eigum við ekki að leyfa þessari götu að vera áfram í sem líkustu formi og hún hefur verið? Þannig er það víða erlendis, gömlu húsin eru látin í friði fyrir árans nýjungagirninni.

Bestu kveðjur

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 15.1.2008 kl. 10:29

8 Smámynd: Björn Jóhann Björnsson

Félagi Sigurður Hreiðar, long time no see, eins og gamla konan sagði, en maður minnist samstarfs okkar í Þverholtinu með mikilli ánægju en um leið söknuði, bæði synd að sjá hvernig Þverholtið er útlítandi í dag og hvernig okkar gamla góða DV hefur þróast. En það er nú annað mál. Er ég kíkti á þessa bloggfærslu fékk ég hnút í magann, nýbúinn að gerast bloggvinur þinn, og vona að ég hafi ekki valdið þér svona miklu hugarangri  en það er alltaf gaman að lesa bloggið. Bestu kveðjur frá bjb.

Björn Jóhann Björnsson, 15.1.2008 kl. 19:52

9 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Nei Björn minn Jóhann, ekkert var mér vinarboð þitt hugarangur, en ágætt að allir vitir hvernig ég lít á þennan bloggvináttulista yfirleitt.

Tek undir harm þinn um gamlan vinnustað etc.

Sigurður Hreiðar, 15.1.2008 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband