9.1.2008 | 15:34
Berserksgangur með slökkvitæki
Mér svona datt þetta í hug af því ég var að lesa um konu á Sauðárkróki sem fékk aurskriðu á húsið sitt svo klæðningin eyðilagðist á tveimur hliðum af fjórum. Svona klæðning fæst ekki lengur en konan fær ekki bætta nema veggina tvo sem skemmdust svo húsið verður framvegis með tvennskonar klæðningu nema konan splæsi sjálf tveimur millum í að gera hina veggina eins. Voða næs. Þetta er eins og að fá ekki nema aðra skálmina nýja ef buxurnar manns skemmast, skítt með þó efni eins og var í eldri skálminni fáist ekki lengur. Jafnvel ekki sami litur.
Svo er það maðurinn sem gengur berserksgang í sjónvarpinu á vegum tryggingafélags síns og puðrar úr slökkvitækinu á öll rómantísku tekertin sem ástleitin rauðklædd kona hefur raðað í kringum sig af því hún ætlaði að vera svo góð við manninn þegar hann kæmi heim. Fyrir utan að maður með svona geðslag er ekki í húsum hæfur og konan ætti að losa sig við hann sem fyrst verður ekki annað séð en hann blási logandi kertunum og glóheitu vaxinu út um alla stofu og má mikið vera ef hann kveikir ekki í með þessum hamagangi.
Tryggingafélög ættu að hugsa dálítið um ímynd sína. Það er þeim sjálfum að kenna að okkur finnst næstum öllum að þau séu gróðafyrirtæki sem hugsi meira um sinn eigin hag en viðskiptavinanna. Þau hafa sjálf gefið okkur þá óheppilegu ímynd - óheppilegu bæði fyrir þau og okkur.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Já þessar auglýsingar frá tryggingafélögunum eru mér líka óskiljanlegar.
Þegar ein dýpsta lægð gekk yfir landið fyrir allmörgum árum og olli því að tré brotnuðu og rifnuðu upp með rótum, heilu þökin og jafnvel bílar tókust á loft, var Suðvesturhornið eins og eftir loftárás. Einn af eldri kunningjum mínum eldri maður sem lengi vel var smiður að atvinnu, átti þá ekki góða nótt. Snemma um kvöldið tekur hann eftir því að þakið hjá granna sínum er byrjað að losna og þar sem húsið hans var áveðurs þá fékk hann annan mann til aðstoðar við sig. Alla nóttina ruku þeir af stað í hvert sinn lægði um stund og gómuðu þakplötur og báru þær inn í skúr. Þannig náðu þeir hverri einustu plötu nema einni inn í skúrinn og hefði það einhvern tíma þótt þrekvirki og vel af staðið. Þessi eina plata flaug gegnum stofugluggann hjá þessum kunningja mínum og stakkst í stofuborðið. Daginn eftir óveðrið kom fulltrúi frá tryggingafélaginu og honumvar sýndar plöturnar í skúrnum sem þeim félögunum tókst að gera skaðlausar. Ekki var um einn „bónus“ að ræða, það sem kunningi minn fékk bætt var rúðan og ísetning hennar. Mig minnir að forláta stofuborðið hafi verið óbætt og var það ekki lengur það djásn sem það áður var. Taka þurfti upp gólfefnin því allt var ónýtt eftir þessi ósköp.
Mosi vill taka það fram að eftir viðskipti sín við tryggingafélag þetta sagði kunningi minn upp öllum tryggingum og kvaðst eigi vilja eiga neitt lengur undir svona herramönnum.
„Þú færð bætt ef þú ert tryggður“er mjög ódýrt og fremur ómerkilegt slagorð sem tryggingafélögin mega gjarnan spara sér.
Sjálfur þurfti Mosi að leita til tryggingafélags vegna ökufants sem fór fram úr við sunnanvert Skorradalsvatn. Þessi ökufantur var á leið suður nákvæmlega sömu leið og þegar mjög slæmt rútuslys varð ári fyrr á norðanverðum Geldingadraga. Um var að ræða gamla jeppabifreið gráa að lit en við athugun lögreglu kom í ljós að hún var skráð græn! Einhverra hluta vegna hefur Mosi grun um að þarna hafi sami ökuníðingur átt hlut að máli. Ekkert fékkst bætt úr þessu og mátti Mosi sitja sjálfur uppi með skemmdirnar á bíl sínum en öll hliðin var eins og eftir vélbyssuskothríð.
Svona er nú það. Kannski mætti eins segja: Tryggður hlut er tapað fé!
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 9.1.2008 kl. 16:20
Einu sinni átti ég og rak hestaleigu. Einn viðskiptavinur, eldri kona var á hesti sem hnaut með hana, hún tognaði í baki og þurfti að fara í sjúkraþjálfun. Hún fékk ekkert út úr tryggingum af því hún datt ekki af baki ! Önnur yngri datt af baki og axlarbrotnaði og missti nokkrar vikur úr vinnu, hún fékk ekkert út úr tryggingunum af því að hún datt af baki ! Að reyna að eiga við þá hjá tryggingarfélaginu var eins og að reyna að veiða fisk með berum höndunum, þeir voru svo agalega sleipir....Ég skipti um tryggingafélag.
Jónína Dúadóttir, 10.1.2008 kl. 09:08
Já, maður heyrir (og sér) margar misfagrar sögur af viðskiptum við tryggingafyrirtæki. (Af hverju þau séu yfirleitt alltaf kölluð -félög?) Sagan þín er grátbrosleg, Jónína!
Sjálfur hef ég eiginleg ekkert nema gott um tryggingafélög að segja. Tók mig að vísu einu sinni heilt sumar að fá viðunandi bætur fyrir bílinn minn sem var eyðilagður tótalt fyrir mér. -- En í þau fáu skipti sem ég hef þurft að sækja bætur til núverandi tryggingafélags -- sem ég hef verið í viðskiptum við í allnokkra áratugi -- hef ég fengið þar ákaflega sanngjarna afgreiðslu og úrlausn minna mála. Tafarlaust.
Því verð ég að segja að mér sé tryggingin VÍS.
Sigurður Hreiðar, 10.1.2008 kl. 23:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.