Hvað þýðir „braskaður“?

 Kominn fjórði janúar og nýtt ár komið á fulla ferð, daginn að lengja og hvaðeina. Hér á bloggi auto (hefur nokkur skilið, annars, að auto þýðir einfaldlega „sjálfur"?) hefur nýja árið farið hljóðlega af stað. Því veldur ýmislegt. Fyrst ber trúlega að nefna eðlislæga leti og værukærð, í öðru lagi löngun til að vera innan um annað fólk fremur en húka við tölvuskjáinn, í þriðja lagi gnótt lestrarefni nýs og gamals, í fjórða lagi ofurlítil hugsun fram á veginn: ég þarf að læra svolítið meira og nú er ég búinn að finna námskeið við hæfi og skrá mig í það. Hlakka til og hef ofurlítið verið að rýna í það sem ég hyggst nema. Fleiri afsakanir gæti ég tínt til en svipti mig þeirri ánægju, maður verður að hafa obbolítinn sjálfsaga.

Einhverra hluta vegna er mönnum tíðrætt um áramótskens sjónvarpsins, þetta sem kallað er Skaup. Það orð var rifið upp úr salti ef ég man rétt meðan sjónvarpið var enn á barnsskónum; orðið hafði þá verið dautt um hríð en forn merking þess var skop eða háð. Síðan hefur það verið fastur liður undir miðnætti að kvöldi gamlársdags og menn sett sig í stellingar til að hlæja. Næstu dagar á eftir fara svo í að tala um hvað Skaupið hafi verið lélegt. Eflaust með réttu frá ýmsum sjónarhornum, því hverju einu okkar er tamt að hafa asklok fyrir himinn eins og einu sinni var sagt og skilja ekki það sem ekki hefur náð inn undir lok hvers eins. Sama má segja um þá sem Skopið búa til, þeirra skilningur og skaupskyn nær ekki undan þeirra askloki. Þannig að aðeins þeir geta hlegið að Skaupi hverju sinni sem gist hafa sama askinn. 

Þetta er lögmál og hægt væri að fara út í víðari fílósófíur um hvernig fjölmenning og fjölmiðlun hafa eyðilegt möguleika þjóðarinnar til að hlæja samtímis og að sömu hlutum. Í framhaldi af því mætti fjasa eitthvað um gróðahyggjuna, sem birtist í áhyggjum fólks af fjármálabröskuðum landsins, amk. þess hluta fólksins sem á eitthvað verulega undir því hvernig kaupin gerast á þeim braskaði.

Rétt er að geta þess að orðið „braskaður" er nýyrði og stendur fyrir þann vettvang þar sem fólk stundar kaup og sölu á sjálfs sín og annarra manna væntingum á fjármálasviðinu, oftast án þess að nokkur eða nokkur teljandi innstæða sé fyrir hendi né nokkurt gull glói nema vonin í fjarska.

Vonandi verður nýtt ár okkur gleðilegt á öllum okkar bröskuðum og megi sem flestir bera sem mest úr býtum, ekki síst við sem komin erum á afskriftaraldur og ættum helst að vera dauð og hætt að vera baggi á samfélaginu og þeim sjóðum þess sem við guldum tíund alla okkar virku starfsævi og héldum að við myndum njóta góðs af að lokum. En á þeim tíma hét þetta líka Almannatryggingar en heitir núna TR sem stendur líklega fyrir Til Ríkisins. Og er einskonar braskaður ríkisins.

Gleðilegt nýár góðir lesendur. Hafið þökk fyrir það sem þakka ber í samfylgdinni á liðnu ári.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Góður pistill,hafðu þökk fyrir,og snilldarskilgreining á því, fyrir hvað T R stendur...Kveðja.

Ari Guðmar Hallgrímsson, 4.1.2008 kl. 20:13

2 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Frábært Til Ríkisins !!!

En gleðilegt ár þakka góðar færslur og megi þær verða sem flestar á nýju ári

Spennandi með "námið"

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 4.1.2008 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband