Auka A U og önnur ónáttúra

Í dag er minnt á það í Mogganum að styrktartónleikarnir Jólaljós, sem frestað var fyrir jólin, verði haldnir í kvöld í Fríkirkjunni í Reykjavík. Þar stendur að að tónleikunum standi kirkjukór Lágafellssóknar í Mosafellsbæ...

Einhver málvöndunarstefna er í gangi sem laumar inn aukastaf í orð sem gengið hafa áratugum og öldum saman án þess að nokkur fyndi hjá sér hvöt til að skjóta inn málvöndunarstaf. Eins og MosAfellssveit. Eins og náttúrUlega, um það sem er bara náttúrlegt. Eins og í hamborgarAhrygg eins og hann sé stappaður saman úr hamborgurum en ekki bara venjulegur svínshryggur einhverra hluta vegna kenndur við Hamborg. Eða eins og útvarpsþulurinn um daginn sem talaði um fjallAskil eins og hann vissi ekki lengur hvað fjallskil væru eða fjallskilaseðill.

Og úr því farið er að gremjast yfir þessum breytingum sem sumir vilja ugglaust kalla þróun má líka reka hornin í að nú er sögnin að spara farin að taka með sér þágufall, eftir að hafa dugast við þolfall býsna lengi. Maður sparar eitthvað. Ekki einhverju. Eða svo hefur þetta verið. Nú er engu sparað. Kannski er þetta fasteignasalamálfræði. Þeir selja hús þar sem engu er sparað. Ég hefði viljað hafa það ekkert sparað.

Kannski er þetta þróun.

Ég kalla þetta afturför.

Eftir stendur þó að Jólaljósin munu loga í Fríkirkjunni í kvöld. Til styrktar Fjölskylduhjálp Íslands. Og það eru Kirkjukór Lágafellssóknar (hvort tveggja með stórum staf því þetta er nafn kórsins) í Mosfellsbæ ásamt stjórnanda hans Jónasi Þóri sem að tónleikunum standa ásamt fjölda þjóðþekktra listamanna.

Veit af reynslu að þetta er afbragðs skemmtun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Ég hef lengi haft lúmskan grun um að ég sé ekki alvitur - og nú er það sannað.

Mér hefði aldrei dottið í hug að nokkur hlutur gæti verið "náttúrlegur" , heldur alla tíð talið orðið náttúrUlegt gott og gilt. kv. 

Helga R. Einarsdóttir, 28.12.2007 kl. 12:56

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Að mínu viti er náttúrUlegt það sem líkist náttúrunni eða líkir eftir henni.

Annars ræður þú fyrir þig -- náttúrlega!

Sigurður Hreiðar, 28.12.2007 kl. 14:09

3 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Á Norðausturlandi,var oft sagt, og var þar engu til sparað, ég var alin upp við þetta en held að nú í seinni tíð sé þetta á undanhaldi heyri þetta ekki sagt af yngra fólki, nota það sjálfur þegar mér finnst við eiga,sé  þá stundum koma undrunarsvip á viðmælanda minn,og þá jafnan spurningu, hvað meinarðu ? Kveðja með ósk um gleðilegt nýtt ár.

Ari Guðmar Hallgrímsson, 28.12.2007 kl. 16:41

4 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Mér finnst þetta með sparnaðinn bara ósköp eðlilegt orðatiltæki. Samt er ég ekkert svo gömul, held ég, alla vega ekki eldri en svo að ég þurfti ekki að skipt um gleraugu til að sjá í orðabókinni frá Menningarsjóði, árið 1960 og eitthvað, að frændi er náttúrlega á réttri leið þegar hann er að gera athugasemdir við nútíma talsmáta. Gott hjá honum. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 28.12.2007 kl. 17:46

5 Smámynd: Karl Tómasson

Vonandi verður mikið af fólki á tónleikunum.

Bestu kveðjur minn kæri frá Kalla Tomm úr Mosó.

Karl Tómasson, 28.12.2007 kl. 21:26

6 identicon

Þegar ungAbarnið hafði unnið hamborgarAhrygg í happAdrættinu fór það náttúrUlega  í reipItog með brjóstRahaldara í svefnEherberginu

Ruth Fjeldsted (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 22:57

7 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Takk fyrir þetta gott fólk. -- Ertu viss um, Ari, að á þínum heimaslóðum á Norðausturlandi hafi ekki verið sagt „í engu sparað“-- smáorð gera nefnilega gæfumuninn og ógæfulegur sá sparnaður að hafa þau ekki lengur með.

Þakka stuðninginn, Helga mín R. -- og Kalli minn, því miður var ekki margt fólk (þú varst að fiska eftir þessu, var það ekki?) á tónleikunum sem þrátt fyrir það og ískalda Fríkirkju voru afar vel heppnaðir eins og ævinlega. Styrktartónleikarnir Jólaljós hafa nú verið haldnir árlega síðan 1999 (að mig minnir) og hafa aldrei farið ver en vel. Þarna gefa allir vinnu sína 100% og það smitar að þarna er listafólkið að skemmta sjálfu sér -- kemur fram og gefur af sér sjálfu sér til yndisauka.

Og Ruth -- þrátt fyrir tannAleysið hefur ungAbarnið svo sennilega farið út með járnAkall að bora fyrir jarðARgöngum til VestmannAeyja. -- Tók eftir því líka í gær að í merkum húsnæðissamningi sem gamlingum er boðinn, ef þeir vilja fara í þjónustuíbúðir, er talað um búseturéttARhafa. Dugar sem sagt ekki lengur að vera rétthafi…

Góð kveðja

Sigurður Hreiðar, 29.12.2007 kl. 10:25

8 identicon

"Baggalútur er landsmönnum að góðu kunnugur"!

Jólanótt og nýársnótt eiga undir högg að sækja: Sjónvarp allra landsmanna auglýsir Menningarnæturtónleika á "gamlársnótt".

Kona nokkur þurfti að bíða í nokkra mánuði eftir að fá gert við holu. ( Var holan biluð?)

Fyrir skömmu réðust ógæfumenn inn í Litlu Kaffistofuna. Eigandi hennar varðist með stunguskóflu að sögn blaðanna. Í einu blaðinu var svo birt mynd með fréttinni af vígreyfum manni með malarskóflu. 

Ruth Fjeldsted (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 306295

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband