27.12.2007 | 10:05
Ekki rota jólin
Endurtek hérmeð góðar jólaóskir. Um tíma tíðkaðist að óska gleðilegrar restar þegar líða tók á jóladagana, það finnst mér ljótt og ef ég á annað borð ber fram einhverja jólaósk verða það gleðileg jól alveg fram á þrettánda. Reyndar tíðkast að óska gleðilegs nýárs frá og með nýársdegi þannig að jólin verða þá í reynd úr sögunni að mestu, þó formlega séð ljúki þeim ekki fyrr en á þrettánda degi jóla. Þá tíðka sumir að rota jólin - það finnst mér ljótt og tek ekki þátt í því. Læt mér nægja að slökkva jólaljósin, taka niður jólatréð og byrja angurvær að bíða eftir næstu jólum, minnugur þjóðvísunnar sem endar á orðunum: Guð mun ráða hvar við dönsum næstu jól.
Verður það í Mosó? Á Kanarí? Eða...?
Þetta hafa verið þægileg jól. Dæturnar hafa komið í veg fyrir það að móðir þeirra stæði í mataramstri og boða-undirbúningi og við foreldrarnir höfum látið nægja að valsa á milli góðbúanna og kýla okkur út af krásum og hlýhug.
Rifjuðum reyndar upp dálítið af gömlum töktum frá því að við sungum með kirkjukórnum í fáeina áratugi og sungum með núna í tveimur messum. Ég hef reyndar reynt að komast í það líka þessi jól sem ég hef verið utan kóra, því það er svo merkilegt með sálmasönginn og þá tónlist sem þar er iðkuð að hún er vanabindandi. Já, ég er líklega fíkill í hana. Hef reynt að hlaupa út undan mér með öðru kórstarfi, en kirkjukórsstarfið er það sem mér finnst mest gefandi. Hvers vegna? Fyrir því eru margar ástæður, en kannski er sú veigamest að þar er opinber flutningur hvað fjölda snertir til jafns við æfingar. Í öðrum kórum er langur æfingakafli og síðan opinber flutningur (söngskemmtanir) gjarnan í vetrarlok þegar allir kórar eru að sýna hvað í þeim býr og svo er þetta búið - fram á næsta haust.
-- Oft er talað um almennan safnaðarsöng og sumir vilja kirkjukórana burt úr kirkjunum. Gott og vel, en helmingur af einni guðsþjónustu er tónlist. Þegar ég fer í kirkju (og er ekki í kórnum) fer ég ekki síður til að hlusta á tónlistina en prestinn. Jú, ég raula með, en reyni að trufla ekki að ráði gestina á bekknum fyrir framan mig, eða á hlið við mig. Það finnst mér ágætur safnaðarsöngur. En fyrst og fremst vil ég heyra raddaðan kórsönginn og vel spilað á orgelið - kirkjuorgel er eitthvert magnaðasta hljóðfæri sem til er og stórkostlegt í höndum þeirra sem kunna að fara með það. Og vel heppnaður raddaður söngur blandaðs kórs - ja? Hvað verðskuldar fremur að vera kallað lofsöngur?
Jólasálmana kann maður alla. Viðurkenni að ég er pínulítið leiður á tveimur þeirra: Í Betlehem er barn oss fætt - af því þetta eru svo óheyrilega mörg erindi. Heims um ból - af því bassinn í útsetningunni úr gömlu sálmasöngsbókinni er alveg skelfilega mónótón og leiðinlegur. Syng samt báða af innlifun af því lögin eru í sjálfu sér falleg og þeim fylgir sérstök stemning. Í myrkrum ljómar lífsins sól - Heimi í hátíð er ný - þetta finnst mér í rauninni inntak jólanna.
Viðurkenni að mig vantaði þessi jól eins og svo mörg önnur þann jólasálm sem mér þykir hvað fallegastur, bæði texti og lag: sálmur nr. 74 í sálmabók. Ætli hann verði út undan af því þar er minnst á særða sál? En ég bið menn að muna að hann tekur á öllum hliðum: Kveikt er ljós við ljós, burt er sortans svið. Angar rós við rós, opnast himins hlið...
Hvað viljið þið hafa það bjartsýnna?
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 306295
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Heims um ból kemur mér alltaf í jólaskap, forréttindi þeirra sem heyra þetta ekki með bassann (mónótón og leiðinlegan) en ég er sammála því að það mætti fækka erindunum í Betlehem um 70%. Gleðileg jól enn á ný til þín og þinna.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 27.12.2007 kl. 13:50
Gaman að lesa þetta hjá þér Sigurður. Það væri nú ekki nálægt því eins gaman og gefandi að fara í kirkju ef ekki væri þar öll þessi fallega tónlist. Ég sjálfur fer mjög mikið til kirkju, í hverri einustu viku og ég tek mjög virkan þátt í ýmsu starfi í minni kirkju (Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu). Það er svo yndislegt og gefandi á samkomum og í messum að lofa guð kröftulega með því að syngja með, eða raula með þessari yndislegu tónlist. Mér líður svo óskaplega vel í hjartanu á eftir. Sumir þora varla að syngja með í kirkjunni af ótta við að syngja kannski falskt? En trúðu mér, guði er alveg sama þó einhver lofi hann pínulítið falskt...
Á hinum árlegu jólatónleikum Fíladelfíu sem var sjónvarpað á RÚV á aðfangadagskvöld var eitt lag sem einhverra hluta vegna gladdi hjarta mitt alveg sérstaklega mikið nú í ár, að öllum hinum ólöstuðum. En það var fyrsta lagið, Litli trommuleikarinn í flutningi Írisar Guðmundsdóttur og Gospelkórs Fíladelfíu.
gudni.is, 29.12.2007 kl. 03:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.