Að totta hrútinn…

Nú þegar þetta er skrifað að morgni 12. desember eru að mínu viti 13 dagar til jóla. Ekki 12, eins og víða sést þar sem jólin eru talin niður, ýmist í ómengaðri góðvild eða í ómenguðu auglýsingaskyni.

Rök: Dagurinn í dag er rétt nývaknaður og ekki liðinn enn. Hann er dagur 1. Síðan líða dagar hver af öðrum fram á aðfangadag, sem er dagur 13. Jólin hefjast ekki fyrr en hann er að kvöldi kominn – sem sagt liðinn. Aðfangadagur telst ekki til jóla, hann er til aðfanga eins og nafnið segir til um. Jól hefjast ekki fyrr en um kvöldið.

Jólasveinarnir eru 13 og þeir segja til um hve margir dagar eru til jóla. Kemur einn á dag. Jóhannes í Kötlum segir í óborganlegum jólasveinavísum sínum að þá sé tíðin köld ef hann komi ekki síðastur á aðfangadagskvöld. Ef ég man rétt er það sá eini sem við fáum í téðri heimild að vita hvenær sólarhringsins sé væntanlegur. Hinir strákarnir geta verið að koma um miðja nótt, miðjan dag eða allt þar á milli.

Í Mogganum í dag er ansi skemmtileg klausa um Stekkjastaur og skrifuð af góðum skilningi, þó nöfnin þar undir rituð sé ekki forníslensk. Myndin er líka vel gerð og nokkuð skondin, ekki síst að því leyti að þar sést sveinki – væntanlega Stekkjastaur – þar sem hann er búinn að lassóa hrút og dregst með honum yfir desemberhjarn á ótilgreindum stað. En þarna hefur Stekkjastaur förlast, að hann skyldi slöngva hrút, því í fyrrgreindum jólasveinavísum segir að hann vildi sjúga ærnar – varla ætlar hann að totta hrútinn á þessari jólaföstu?

Nema þessir gömlu siður og venjur séu mjög svo að gleymast á ærið mörgum vígstöðum. Ég heyrði ekki betur um daginn en kvenkyns útvarpsþulur talaði um óánægju nýríkra jarðeigenda með að þurfa að gera fjallaskil. Fyrir fáum árum hétu þetta einfaldlega fjallskil.

Kannski heyrum við næst um tannabursta?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú heyrðir rétt.

Eiður (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 17:58

2 identicon

Tók eftir þessu líka. - Ég var hinsvegar að velta fyrir mér hvernig gengi að gera fjallskil í sumum sveitum, ef þeir einir þurfa að standa að þeim sem eru með sauðfé, sem fer raunar óðum fækkandi. Fjallskil eru að verða þvílíkt vandamál í sumum landshlutum að til stórra vandræða horfir og er dýravernduarmál í raun.  - En viðhorfið breytist hratt, þegar heilu landshlutarnir eru komnir í eigu ykkar þéttbýlinganna á suðvesturhorninu. - Annað sem mér hefur sýnst fylgja þegar sporthrossaeigendur eignast jarðir,  er að landníðsla eykst. Heilu jarðirnar eru orðnar svo nauðbeittar að ræktarlönd sem áður voru eru orðin að forarsvaði.

Ellismellurinn (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 08:31

3 identicon

Ketkrókur kom nú víst líka þrammandi á Þorláksmessudag. Hurðaskellir væntanlega um kvöldið eða nóttina, er fólkið vildi í rökkrinu, fá sér vænan dúr. Annars held ég að ekki sé tilgreint í öðrum vísum hvenær sólarhringsins þeir koma sveinarnir okkar alíslensku.

Anna Magga (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 12:00

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

„Gera fjallaskil“ - er þetta ekki hápunkturinn á hernámi enskunnar í íslenskuna. Nú á að gera allan andsk. Veður uppi sú tilhneyging að nota sögnina að gera sem hjálparsögn eins og í enskunni doing something. Þetta er mjög bagalegt og bersýnilegt hve margir mörlandar eru smám saman að hugsa á ensku þrátt fyrir þegar þeir eru að tjá sig á sínu móðurmáli.

Fyrir nokkrum vikum var ritað í leiðara Morgunblaðsins um ástandið á íslenska hlutabréfamarkaðinum. Þar var vikið að upphafi efnahagskreppunnar miklu í október 1929 sem sagt hafa verið á „öðrum og þriðja áratug síðustu aldar“ eins og um þýðingu á bandarískum texta væri um að ræða. Mosi reit athugasemd um þessa meinloku en svo lítur út fyrir að enginn á ritstjórn Morgunblaðsins lesi athugasemdir þó svo boðið sé upp á slíkt. Gagnrýni og ábendingar eiga að vera gagnlegar og þarfar.

„Íslenska tungu í íslenskum kaupstað hvað allir athugi“lét Stefán Gunnlaugsson land- og bæjarfógeti bumbuslagara kalla um alla Reykjavík fyrir nær 160 árum. Því miður uppskar þessi merki embættismaður skammir og tortryggni frá þeim dönsku sem réðu nær öllu í Reykjavík á þeim tíma. En brátt var hætt að rita fundargerðir á dönsku og öll stjórnsýsla varð á íslensku. Þannig kom þessi ágæti áður góðum málstað til að verða það sem farið var eftir.

Varðandi jólin þá er það rétt að eftir gamalli venju er 25. des. fyrri jóladagurinn og sá 26. seinni jóladagurinn. Því er það algjörlega út í hött að telja aðfangadaginn til jólanna. Þessi dagur ásamt kannski Þorláksmessu síðari  voru í raun undirbúningsdagar jólanna. Hangiketið soðið á Þorlák og síðan dregið í bú nærsvæðis sem hafa þurfti til jólanna, auðvitað allt miðað við gamla sveitasamfélagið.

Guðjón Sigþór Jensson, 14.12.2007 kl. 08:14

5 identicon

Ungbarn eða ungabarn?

Véfrétt (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 306295

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband