Keldur um keldur frá keldum til keld???

Sú var tíðin að eignarfall af orðinu keldur var keldna. Sú nýbreytni að fella úr n-ið er kannski afleiðing af lestrar- (og þar með væntanlega málfarslegrar-) hnignunar (eða á maður að segja þróunar?) í samræmi við PISA könnunina sem einnig er sagt frá á mbl. is núna.


mbl.is Landmark í Búlgaríu selt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Stundum gæti ég gargað. Veistu annars hvort það er búið að breyta þessu með " þau eða þeim langar, ég, eða mér hlakkar til" o.s.frv. ?

Á mínum vinnustað er nefnilega varla nokkur munur á því hvort  er frekar notað. Þar á ég við fullorðna.  Og sá staður á nú að vera réttu megin í málfari? 

Ég er jafnvel ekki frá því að ég hafi heyrt "fyrirmynd" sem ekki réði við málið segja að " það sé nú eiginlega búið að gefa grænt ljós á að þetta megi vera á hvorn veginn sem er". 

Helga R. Einarsdóttir, 4.12.2007 kl. 16:38

2 Smámynd: Ásgeir Eiríksson

Það er snúið þetta tungumál okkar, og flókið að hafa það rétt ritað á stundum.  Það virðist reyndar sem ýmislegt sé að festast í málinu, án þess að nokkur spyrni við fótum.  Gott dæmi um það er að nú tíðkast ekki lengur að hringja á dyrabjöllu, heldur skal það vera dinglað.

Ásgeir Eiríksson, 4.12.2007 kl. 18:55

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Hmm -- Helga -- eigum við ekki að veifa rauðu ljósunum fram í rauðan dauðann?

Og -- Ásgeir -- kannski er það flókið. En ansi mörgum tekst það nokkuð vel. Verst þegar ferst fyrir að spyrna við fótum!

Kv. í báða bæina!

Sigurður Hreiðar, 4.12.2007 kl. 20:34

4 identicon

Það hefur löngum angrað mínar hlustir þegar ég heyri sagt " þau krakkarnir, þau nemendurnir og þau foreldrarnir". Þetta heyrist daglega, bæði  í útvarpi og sjónvarpi og sést daglega á síðum dagblaðanna. Svo virðist sem fólk sé algjörlega dofið gagnvart þessu. Margir íþróttakennarar sem og mjög margir aðrir tala um fæturnar. Er þá rétta málið að segja hægri fótan og vinstri fótan? Frá því að ég man eftir mér hef ég haft tvo fætur (sem betur fer). Enn eitt sem ég man eftir í fljótu bragði. Hurð - dyr.  Eitt sinn  fylgdi ég sjúklingi sem þurfti að fara á röntgendeild BSP. Vegna nýafstaðinna breytinga þar innanhúss þurfti ég að spyrja til vegar. Ég fékk greinargóða leiðarlýsingu og þurfti samkvæmt henni að ganga í gegnum tvær glerhurðir!! Ég er helst á því að margur viti ekki hvað dyr eru (kannski eru þær til þess að loka hurðinni!). Oft hef ég heyrt fólk segja að það hafi  keypt sér tvennar peysur á útsölunni! Við dinglum líka í Strætó og við bjöllum í kunningjana, eða það sem verra er, við erum í bandi! Hver teymir? Íslenskan er ekkert flókin. Það er algjör óþarfi að telja fólki trú um það. Ég er alin upp af algjörlega ómenntuðu almúgafólki og af því lærði ég íslensku sem er síst verri en margur langskólagenginn Íslendingurinn talar nú til dags  (ekki "í dag")

Ruth Fjeldsted (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 21:10

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Eigum við að reyna að tala svona og skrifa sosum eins og eina viku, Ruth? -- Ég minnist þess líka þegar ég heyrði starfsmann á bílasölu hrópa á annan: Hvaða bíl átti ég að færa? Og svarið kom um hæl: Það er þessi rauði þarna í hurðinni…

Kv. í bæinn

Sigurður Hreiðar, 4.12.2007 kl. 22:32

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það má endalaust deila um íslenskt mál. Sumt í því er flókið, annað  ekki. Flestu af ofanrituðu er ég sammála. Finnst þó orðið vafamál hvort tekur því að berjast lengur gegn þágufallssýkinni. Í árdaga Internetsins á Íslandi var það netsiður að gagnrýna ekki málfar annarra sem skrifuðu á Netið. Í bílamáli er eitt sem hreintungumenn hafa haldið stíft fram. Það er að segja skuli að bíll sé tvennra dyra. Ég er orðinn því svo vanur að tala um tveggja dyra bíla að mér finnst það eðlilegt. Samt skil ég vel rökin sem færð eru fyrir því að það  fyrra sé réttara. Hugtökin rétt og rangt eru oft vandmeðfarin í sambandi við málfar. Í mbl greininni sem kom þessu öllu af stað finnst mér að blaðamaðurinn hefði bara átt að nota nefnifall eins og blaðamenn gera oftast, en ekki vera að burðast við að hafa þetta í eignarfalli.  

Sæmundur Bjarnason, 4.12.2007 kl. 23:19

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Hvað með nýja fallið sem virðist fá samþykki frá kennurum og fleirum.  Dæmi: Það var strítt mér í skólanum í dag, og annað dæmi Það var lamið mig í skólanum í dag.  Ég get ekki sætt mig við þessar ambögur

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 5.12.2007 kl. 02:11

8 identicon

Ég get mér þess til að eigið fé og umsýsla eignarhaldsfélagsins Keldur hafi dregist umtalsvert saman og félagið heiti nú Kelda.

....en það er auðvitað bara einfeldningsleg ágiskun.....

Gunnar Th. (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 07:45

9 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sæll Sigurður og aðrir lesendur:

Þegar rætt er um Keldur þá kemur óhjákvæmilega í hugann bæjarnafnið Keldur sem eru á a.m.k. 2 stöðum: á Rangárvöllum og við enda Grafarvogs sem fram til 1920 tilheyrði gömlu Mosfellssveitinni. Frá bæjarhlaðinu á þeim Keldum er nokkuð einkennilegt að sjá hvergi nokkurs staðar fjall, hvorki nær né fjær. Mun það einsdæmi á gjörvöllu Íslandi. Ástæða þessa er sú að bærinn er í dalkvos hvers ásar fyrir norðan, austan og vestan byrgja sýn til fjalla sem ella sjást frá þessum slóðum. Þetta er nokkuð sem tiltölulega fáir vita um en þess virði að halda til haga.

Þá er óskandi að við berum þá gæfu að geta varðveitt íslenskuna eftir því sem unnt er enda er hún eitt elsta lifandi tungumálið sem talað er í Evrópu.

Með bestu kveðjum

Mosi - alias

Guðjón Sigþór Jensson, 5.12.2007 kl. 14:02

10 identicon

Það er sjálfsagt að leyfa málinu að þróast, en er ekki rétt að óska þess að þróunin eða kannski öllu heldur þroskinn verði til þess að auðga málið og fegra það. Finnst einhverjum það góð þróun að hætta t.d. að bjóða góða nótt og segja í stað þess eigðu góða nótt - eigðu góðan dag -helgi-ferð o.s.frv. Þegar ég spyr ungu Íslendingana í minni fjölskyldu hvernig þeir hafi það nú, þá er svarið oftar en ekki: "Ég er góður". Er það góð þróun eða þroski að apa allt eftir ensku eða öðrum málum og verða svo bara samdauna öllu saman.  Mér finnst og ég vil jafnvel gera þær kröfur að allir sem starfa á og í fjölmiðlum kunni skil á móðurmáli sínu og kunni að nota það á sómasamlegan hátt. Þeir hafa svo ótrúlega mikið málfarslegt vald í hendi sér. Það er alveg skelfilegt að hlusta á hinar ýmsu útvarpsstöðvar og heyra bullið sem þar þrífst.

En ekki er þó allt neikvætt í íslensku nútímans. Til þess að fylgjast með gangi lífsins; og dauðans, þá les ég gjarnan andlátsfregninar í blöðunum. Þar kennir oft margra grasa enda misjafn sauður í mörgu fé. Nú nýverið las ég þakkarávarp sem var frá eiginkonu hins látna, dóttur þeirra og syni og afabörnunum sex. Þetta þótti mér svo sérstaklega fallegt að mér hlýnaði um hjartarætur.

Læt ég svo þessu rausi lokið.

Siggi minn, hafðu mig afsakaða, en ég gat ekki setið á mér. Íslenska er mitt hjartans mál.

Ruth Fjeldsted (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 14:17

11 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ekki þarftu að biðja mig afsökunar, gamla vinkona Ruth! Öðru nær. Ég er þér aldeilis sammála um þessa hluti -- svo getum við pexað um smáatriði innan þess ramma. T.d. held ég að ég myndi ekki spyrja þig hvernig þú hefðir það (hvordan har du det?) heldur myndi ég spyrja hvernig þér liði -- eða hvað þú segðir.

En sem betur fer sjáum við líka (og heyrum) dæmi um fallega málnotkun, eins og þú gefur þarna dæmi um. Og það er aldeilis sulta (þetta er orðtak sem ég lærði nýlega og þykir dálítið gaman að).

Mosi minn góður -- oft kom ég áður fyrr til Keldna heim og reyndar líka fyrir ekki ýkja löngu -- en hef aldrei vitað um þennan skort á fjallasýn sem þú nefnir né saknað fjallanna! Svona er maður alltaf að læra.

Sigurður Hreiðar, 5.12.2007 kl. 14:27

12 identicon

Þarna sérðu hvað ég er orðin samdauna þessu, þrátt fyrir einbeittan vilja til annars.

Ruth Fjeldsted (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 14:41

13 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Við skriplum öll á skötunni, Ruth. Þess vegna lagði ég áherslu á það við krakkana, meðan ég var að kenna erlend tungumál, að nota málið þó við mættum vita að það væri ekki alltaf alveg hárrétt -- og benti á til samanburðar að við þættumst „kunna“ íslensku en segðum samt vitleysur -- eða notuðum íslenskuna ekki hárrétt alltaf. Og við hverju væri þá að búast á erlendum málum sem við erum að burðast við að læra?

Ég veit þú átt eftir að hanka mig á einhverju og lofa að taka það ekki nærri mér né erfa það við þig!

Sigurður Hreiðar, 5.12.2007 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband