Að drekkja bílum

Hvar er Lambhagafell? var ég spurður í framhaldi af síðasta bloggi mínu, sem snerist um þá arfavitlausu fyrirætlun að hrúga einhverju framtíðar sjúkrahúsi á umferðarfræðilega afskekktum stað ofan í gamla miðbæ sem er löngu úr leið fyrir flesta.

Og er ekki nema von að spurt sé. Þetta landsvæði sem áður hét Lambhagafell heitir nú Suðurhlíðar Úlfarsfells. Það er öxlin sem gengur suður og vestur undan Úlfarsfellinu sjálfu. Lambhagi hét þar bær sem stóð sunnan í Lambhagafellinu og raunar er heitið Lambhagi ennþá til, á gróðrarstöð sem stendur á svipuðum slóðum og húsin í gamla Lambhaga voru og mátti sjá tóftir þeirra vel fram yfir miðja öldina sem leið. Nafnið mun vera nokkuð gamalt; ekki veit ég frá hvorum bænum þarna var upprunalega höfð hagabeint fyrir lömb, Úlfarsfelli eða Korpúlfsstöðum, giska þó frekar á hið síðarnefnda.

Fremst og suðvestast á Lambhagafellinu er dálítill hnjúkur. Sá hlýtur að hafa heitað eitthvað en það nafn er líklega alveg týnt. Bak við hann verður afturámóti dálítill slakki sem í safnast vatn þegar þannig viðrar. Þar heitir Leirtjörn enda stendur leirbotninn ber mestan hluta sumarsins og ég man eftir moldroki af honum hér endur fyrir löngu. Stundum frýs vatn í Leirtjörn og þarf þá ekki löng frost né mikil til að botnfrjósi, því ekki er flóðið djúpt. Þar hafa menn stundum skemmt sér við ísakstur 0711260039þegar þannig stendur á og sett upp keilur til að aka á milli -- eða fella, eftir færni hvers eins.

Þegar ég átti leið þarna í gær sá ég að bíll hafði farið ofan í. Var það óviljandi? Í mínum augum leit það allteins út eins og eigandinn hefði verið orðinn leiður á fararskjóta sínum og helst ætlað að drekkja honum. Og nú stóð hann í lélegu svelli upp á miðjar hurðir.

Minnti mig á sögu af því sem átti að hafa gerst eigi allfjarri þessum stað, þar sem setulið Breta og síðan Amríkana hafði herbúðir, svokallaðan kamp, við vestanvert Hafravatn. Þar áttu nokkrir Bretar að hafa veirð orðnir hundleiðir á lélegum bílum sínum og því ekið þeim út á ótraustan ís á Hafravatni og stefnt þeim á suðurhluta vatnsins þar sem dýpi kvað vera mikið og afætur á ís. Sagan segir að þar séu nokkrir breskir herbílar á vatnsbotni en ekki sel ég þá sögu dýrar en ég keypti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: gudni.is

Ég sá einmitt mynd af þessum bíl frosnum föstum í Leirtjörninni um helgina á visir.is minnir mig.

Ég er svolítið kunnugur á þessum slóðum sem þú ert að tala um. Það mun vera frændi minn sem á og rekur gróðrastöðina Lambhaga, en ég þekki hann þó ekkert sjálfur. En mikið hef ég nú þvælst á þessum slóðum allt frá unglingsaldri og oftast á háfaðasömum fret-faratækjum...

Hérna eru myndir þar sem sést aðeins í Lambhagasvæðið í bakgrunni.
http://www.gudni-is.blog.is/album/FlugmyndirTF-ULV/image/224318/
http://www.gudni-is.blog.is/album/FlugmyndirTF-ULV/image/224319/
http://www.gudni-is.blog.is/album/FlugmyndirTF-ULV/image/224317/
Þessar myndir eru teknar á Langavatninu (í jaðri Grafarholts) þann 31. jan 2004 er við fórum nokkrir vinir úr Flugklúbbi Mosfellsbæjar á flugvélum og lenntum á 5 frosnum vötnum sama daginn í nágrenni Mosfellsbæjar. Eftir á kölluðum við þennan dag "Ís-lendingar á góðum laugardegi" - Sjá fleiri myndir

Ég hef mjög oft stundað ísakstursæfingar á bæði Leirtjörn og á Hafravatni, mest á mótorhjólum á ísdekkjum en einnig á bílum. Þó mun oftar á Leirtjörninni þar sem hún er mjög örugg og hentug í slík þar sem hún er mjög fljót að botnfrjósa eins og þú nefnir. Ég hef samt nokkrum sinnum séð menn missa bíla þar niður líkt og gerst hefur hjá þessum á myndinni. En sem betur fer er þetta grunt og hættulaust.

Ég hef hinsvegar alltaf verið skíthræddur við ísakstur og þvæling á Hafravatninu. Aðallega vegna þess að maður veit af því hversu djúpt það er og svo eru nánast alltaf ófrosnar vakir á ákveðnum stöðum á vatninu þó svo að mikið frost sé búið að vera.

Gaman að heyra þessa frásögn þína af hermönnunum sem drekktu herbílunum. Ég er nokkuð viss um að þetta er sönn frásögn. A.m.k. hafa menn mjög lengi talað um það að herbílar væru á botni Hafravatns. Sagt er að þeir sjáist ekki lengur nú á tímum þar sem þeir séu sokknir í drulluna á botni vatnsins.

gudni.is, 28.11.2007 kl. 10:20

2 Smámynd: Karl Tómasson

Heill og sæll Sigurður Hreiðar.

Verðum við ekki að  láta finna þessa herbíla á botni Hafravatns. Það væri nú verðugt verkefni, ekki rétt?

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm.

Karl Tómasson, 28.11.2007 kl. 14:26

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Flottar myndirnar frá þér, Guðni -- en kuldalegar nokkuð! Eins og við er að búast þegar ís-lendingar eiga í hlut!

Ég hef líka illan bifur á Hafravatninu. Kannski arfur frá æsku. Þegar foreldrar mínir bjuggu í Þormóðsdal var mikill samgangur milli þess bæjar og Grafarholts, þaðan sem móðir mín var. En ævinlega var mælst til þess að ekki væri farið Hafravatnið þó ísi væri lagt; það þótti of áhættusamt og ýmiss munnmæli til um voveiflega voveiflega atburði þar á ísum, einkum um vatnið sunnan til, þó afætur muni líka vera þar víðar. Og ekki langt síðan jeppi fór niður nærri norðurströnd þess þó þá færi betur en á horfðist.

Hafa menn þóst sjá móta fyrir herbílum á botni Hafravatns úr lofti?

Og Kalli -- ætli þeir séu ekki farnir að þynnast nokkuð? En gaman væri að fá úr því skorið hvort þessar sögur um herbílana eiga við rök að styðjast. Eigum við einhverja kafara?

Sigurður Hreiðar, 29.11.2007 kl. 12:40

4 Smámynd: gudni.is

Nei menn hafa ekkert séð í þessa herbíla úr lofti, það mundi aldrei sjást í þá úr lofti þar sem vatnið er bæði mjög djúpt og svo er svo mikil dökk leðja á botninum sem bílarnir eru pottþétt sokknir í að mestu skilst mér.

Ég heyrði þetta með þessa herbíla fyrir mjög löngu síðan, löngu áður en ég fór að fljúga sjálfur. Ég hef heyrt að kafarar telji erfitt ef ekki útilokað að ætla að reyna að finna bílana sökum aðstæðna þannig að menn virðast eitthvað hafa spáð í þessu í gegnum tíðina. En óneitanlega væri mjög gaman að grenslast nánast fyrir um þessar sögur og fá staðfest að þær séu pottþétt sannar og þá jafnvel meiri upplýsingar um þetta. Það hlýtur einhver að þekkja málið eitthvað?

Hvað er það sem þú kallar afætur á ísnum?? Ertu að tala um ófrosnar vakir, hitauppstreymi eða eitthvað annað?  Ég viðurkenni að ég man ekki eftir þessu orði í tengslum við ís?

Ein smá lífsreynslusaga af Hafravatni:
Þessi mynd - http://www.fkm.is/pages/m_0416_sbj.htm  er tekin af mér úti á miðju Hafravatni við flugvélina mína TF-ULV. Þarna lennti ég og stoppaði með einn vin minn með mér bara svona okkur til gamans. Mikið frost (-10-15 C°) var búið að vera í um tvær vikur og ísinn var um 15 cm þykkur. Við vorum búnir að vera þarna stopp í u.þ.b. 10 mínútur að taka myndir og bara að njóta kyrrðarinnar og stillunar sem var úti í kuldanum. Svo fórum við allt í einu að heyra miklar og háværar drunur og háa hvelli langt í fjarska og fórum að velta fyrir okkur hvaða hljóð þetta væru nú? Ekki hvarflaði að okkur að þetta væru hljóð í ísnum trausta... 

Svo allt í einu rétt nokkrum sekúndum eftir að þessi ljósmynd var tekinn þá hækkuðu hljóðin mjög mikið og nálguðust okkur mjög hratt og um leið og við vorum að átta okkur á raunveruleikanum þá myndaðist sprunga í tærum og fallegum ísnum rétt við fæturnar á okkur og náði sprungan marga tugi metra í burtu. Mér hefur sjaldan brugðið eins mikið á ævinni og stukkum við á ljóshraða inn í flugvél og settum í gang í einum grænum og ég gaf allt í rauða botn til að komast örugglega af stað og í loftið. Það gekk alveg ljómandi vel og allt fór vel þó að okkur hafi verið nokkuð brugðið á eftir.

Þetta er líka í eina skiptið sem ég hef framkvæmt flugtak á flugvél með tvær illa lokaðar hurðir, enginn í öryggisbeltum og allar öryggisreglur þverbrotnar með að keyra upp mótor og athuga að allt virki eins og það á að gera.

Eftir á áttuðum við okkur á því að það sem var að gerast var það að íshellann var öll að síga undan þunga okkar þar sem um 15-20 cm holrúm var víst komið undir ísnum, þ.e. ísinn lá ekki beint ofan á vatninu undir. Þar með seig ísplatann rólega með tilheyrandi sprungum og látum.

Hérna er gömul loftmynd af frosnu Hafravatninu sem vinur minn Jón Sverrir í Varmadal tók. Hérna eru svo fleiri myndir frá honum af uppákomu á Hafravatni fyrir ca. 10 árum þar sem Ómar Ragnarsson tók sjónvarpsviðtal við flugmennina sem héldu kakó og kleinuveislu á vatninu.

Kannast þú ekki Sigurður við hann Jón Sverrir vin minn úr Varmadalnum?? Það kæmi mér ekki á óvart þar sem hann er af svipaðri kynslóð og þú. Við höfum mikið flogið saman og tekið skemmtilegar ljósmyndir víða.

gudni.is, 29.11.2007 kl. 17:29

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Heppinn varstu, Guðni, að ísinn seig hægt í stað þess að bresta snögglega undan ykkur!

Jú, Sverri hef ég þekkt síðan við vorum báðir smáputtar. Hann er eitthvað yngri en ég þannig að við vorum ekki samferða á sokkabandsárunum en það vorum við Valli bróðir hans. En ef mig vantar þjónustu vörubíls er að sjálfsögðu hringt í Sverri!

Afætur er kaldavermsl eða straumar sem liggja þannig að þau (eða þeir) þynna ísinn neðan frá og gera hann ótraustan, mynda jafnvel vakir. -- Ég sé að þessi merking er ekki í orðabók, en þetta hef ég áreiðanlega lært í bernsku.

Sigurður Hreiðar, 30.11.2007 kl. 09:40

6 Smámynd: gudni.is

OK, mig grunaði að afætur væru eitthvað slíkt. Ég hafði bara aldrei heyrt þetta svona, en alltaf er fróðlegt að læra eitthvað nýtt.

Já við vorum heppnir þarna. Þyngdin var ekki svo mikil, Þessi flugvél vigtar ekki nema 425 kg. og svo við tveir létthlunkar að auki. Þannig það hefði verið verra ef við hefðum verið á 1500 kg. bíl.

Ég hitti Sverri hérna uppí Mosó í gær seinnipartinn og fór auðvitað með honum nokkrar ferðir á vörubílnum með tilheyrandi spjalli eins og oft áður. Hann var að keyra í nýja Leirvogstunguhverfið. Hann verður einmitt 65 ára kallinn á morgun 1. des.

gudni.is, 30.11.2007 kl. 11:41

7 identicon

Þetta orð; afætur, er þekkt víða um land einmitt um þetta fyrirbrigði. Afætur geta bæði komið þar sem uppstreymi er frá kaldavermslum, ellegar frá volgum uppsprettum, nú, eða þá það sem kallað er straumvakir, sem eru algengari á ám sem renna um flatlendi og leggur annars alla jafna. En maður getur svo sem gefið sér að fólk sem aldrei hefur verið í beinum tengslum við náttúruna, svo og fólk sem er yngra en við SHH, kannist ekki við svona. Það er svo margt af þessu tagi sem er að týnast vegna breyttra lífshátt og svo sem ekkert óeðlilegt við það.

Ellismellurinn (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 306247

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband