HAMAS á Akureyri

Um daginn skrifaði ég lítillega um heimsókn til Akureyrar. Tæpti á því sem mér þótti þar gott en minntist líka á fáein atriði sem var ósáttur við. Fékk á þetta slatta af athugasemdum og eins og fyrri daginn taka Akureyringar það sumir ansi persónulega ef HAMAS (Helvítis Aðkomumaður Að Sunnan) lætur í ljósi eitthvað annað en eindregna ánægju með það sem finna má í höfuðborg Norðurlands.

Það þykir tam. ótækt að þetta HAMAS dót kunni ekki að meta glerhálar gangstéttar. Sjálfsagt eru meira að segja öldungar Akureyrar útfarnir í hálkugöngu með tilheyrandi skriki út og suður á mistroðnum freranum. Það eru ekki nema klunnalegir bjálfar að sunnan sem kunna ekki fótum sínum forráð við þær kringumstæður eða finna fyrir því þegar bíllinn þeirra fer að skrika.

(Innskot) Þegar ég átti heima fáein ár í Reykjavík var alsiða að íbúar húsanna (Þetta var í gamla bænum, 101) skryppu út með skóflu og gerðu hreint fyrir sínum dyrum og meðfram allri lóðinni þegar snjóþekja var komin á gangstéttina. Þó ekki væri nema óverulegt föl. Ég veit ekki hvort þetta tíðkast lengur en þetta var ágætur siður og mætti nota víðar um land. (Innskoti lokið.)  

Það snjóar aldrei fyrir sunnan svo HAMAS er sæmst að halda kjafti þó að kasti úr éli fyrir norðan. Hann ætti bara að halda sig þar sem hann kann að fara ferða sinna og skafið er fyrir margfalt meiri pening heldur en fyrir norðan. (Vegalengdir eða staðfræðilegar um umferðafræðilegar breytur ekki teknar með í reikning.) Þetta myndi allt blessast ef HAMAS liðarnir hefði vit á því að hafa Bridgestone loftbóludekk undir bílnum. (Athugasemd: Gerði það einn vetur og slapp áfallalaust! Eins og hina veturna, á dekkjum sem mér eru meira að skapi, svo sem Continental, Michelin, Cooper og nú síðast Arctic Claw.) Svo koma glósur um tíðarfar og umferð í Reykjavík sem er eins og allir vita annað nafn á „fyrir sunnan" og þar búa auðvitað allir bjálfar. Í gömlu góðu rigningunni þar sem þeir eru klukkustund að aka í vinnuna. Heldur lengri tíma en þeir fyrir norðan eru að aka milli Akureyrar og Húsavíkur.

Maður hlýtur að samhryggjast þeim sem hafa valið sér búsetu á þessum norðlægu slóðum að vera svona viðkvæmir fyrir umræðu um það sem þar er að finna. Vissir um sitt eigið ágæti og sérstaklega kunnáttu í að búa á norðlægum slóðum og samsama sig misvondri færð, sem er óþekkt fyrirbæri „fyrir sunnan". Og fá útrás með því að hnýta í það sem álitið er eiga við um þann part landsins.

Samt er það svo merkilegt, að þegar ágætir vinir mínir að norðan (jú, ég á nokkra svoleiðis) hafa sest að við Faxaflóa til lengri eða skemmri tíma hætta þeir að ræða yfirburði Norðlendinga í vetrarumferð eftir fyrstu eitt eða tvö snjóaköstin hér.

Um yfirgengilegt rykið (svifryk þegar það hreyfist) á götunum nyrðra voru athugasemdavinir mínir flestir heldur fámálir. Einn gat þess þó að pissubíll hefði sést þar á ferðinni -- og veitti ekki af. Að mínu viti er það virkasta leiðin til að koma í veg fyrir göturyk (svífandi eða öðru vísi) að halda götunum hreinum. Sama í hvaða landshluta er.

Eitt varð ég fyrir vonbrigðum með: Enginn tók upp hanskann fyrir feitu konurnar á Akureyri!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: gudni.is

Mikið var ég ánægður með þig þegar ég las fyrri greinina þína (og líka þessa) um Akureyri. Ég glotti alveg hressilega og tísti jafnvel smá þegar ég las niður greinina, en svo bara fór ég að skellihlæja þegar það kom að þessu atriði með feitu konurnar á Akureyri í lokin.... Mér fannst þetta mjög góð athugasemd hjá þér og ég hreinlega dáðist að þér!! Bæði fyrir það að taka eftir þessu atriði fyrir norðan og svo ekki síður fyrir það að þora líka að tjá þig um það hérna...    Þú fékkst a.m.k. nokkur prik í kladdann hjá mér fyrir þetta.

Ég verð nú bara samt að viðurkenna það að ég hafði ekki tekið eftir þessu sjálfur að þær væru svona almennt mikið feitar þarna í höfuðborg norðurlands..? Ég hef samt verið svolítið duglegur við það sl. ár að fljúga mér til ánægju og yndisauka þarna norður (og á fleiri ágæta staði) og staldra aðeins við og njóta þess að þekkja nánast enga..

Nú sit ég hérna heima hjá mér í Mosfellsbænum okkar fagra og góða við gluggann og ég sé ekki einu sinni votta fyrir Úlfarsfellinu okkar vegna þoku þó ég sé ekki nema um 2 km. frá því. Og ekki er það viðkvæmt feimnismál að tala opinskátt og af heilindum um veðráttuna í Mosfellsbænum..??

gudni.is, 19.11.2007 kl. 13:43

2 Smámynd: Móðir, kona, sporðdreki:)

Haha stórskemmtileg blogg, HAMAS *glott* og þetta með konurnar jú veistu ég hef tekið eftir þessu, ætli þetta sé ekki vegna hreyfingarleysis þær þora auðvita ekki út að labba á ómokuðu gangstéttunum.... Kv úr "hálkunni" Erna

Móðir, kona, sporðdreki:), 19.11.2007 kl. 14:34

3 identicon

Ég er sammála þremur meginniðurstöðum þessara pistla þinna: Konurnar eru of feitar (og karlarnir líka, en eðlilega hefur þú ekki veitt því sömu athygli), gangstéttarnar eru ekki hreinsaðar sérstaklega vel og rykið og drullan í loftinu á stilltum vetrardögum er frekar hvimleið. Ég held að Akureyri sé jafnvel meiri bílabær en Reykjavík er bílaborg, þó að fjarlægðirnar séu styttri dettur voða fáum í hug að ferðast öðruvísi en á bryndrekunum, kannski einmitt útaf hálkunni og rykinu. Spikið fylgir svo auðvitað þessum bílisma þannig öll þessi vandamál eru samhangandi.

kv. að norðan

Bjarki S. (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 14:41

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Fremst í röð er Akureyrarbær

og engar konur vænlegri en þar.

Miklu betra er að elska þær

en allar hinar beinasleggjurnar.

Svavar Alfreð Jónsson, 19.11.2007 kl. 16:40

5 Smámynd: Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir

Það er líklega best að byrja á því að taka fram að ég er ekki Akureyringur heldur Eyfirðingur sem er allt annar handleggur.  Hef sjálf séð allt of mörg dæmi feitra kvenna á Akureyri og tel því enga ástæðu til að mótmæla þeim ummælum.  Hinsvegar bendir brosmildi þeirra (sem þú minnist á) til þess að þetta séu hamingjusamar feitar konur.  Ég hef nú reyndar búið hér á suðvesturhorninu í þó nokkurn tíma en hef samt ekki skipt um þá skoðun mína að ég myndi nú heldur kjósa smávegis vetrarfærð í skiptum fyrir he#%##/$ rigninguna og rokið sem gerir mann geðvondan og pirraðan sérstaklega þegar það blandast við and$#//&#$# umferðarþungan sem maður þarf að glíma við daglega. 

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, 19.11.2007 kl. 19:47

6 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Snilldarpistill, takk :D

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 19.11.2007 kl. 20:26

7 identicon

Besta ráðið gegn þessum fordómum okkar Akureyringa er að tæla vænan skerf Hamasliða, þá sérstaklega af suðvesturhorninu, norður.

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 00:07

8 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

"Manstu eftir bláum Mercury 56 sem átti stundum erindi í Mosfellssveitina...?" hahaha yndisleg spurning!

Og úrþví ég er nú að kommenta um kommentin þín; séra Svavar Alfreð Jónsson, (maður sem ber grunsamlega svipuð nöfn og móðurbræður mínir..hmm) bregst ekki frekar en fyrri daginn og galdrar fram þennann líka flotta kveðskap um hinar rómuðu Akureyrardætur.

Það var svo bara minn eiginn aula- og skítahúmor sem fann fyndnina í því að skipta orðinu "elska" út fyrir "éta". Sá fyrir mér íbúana í þorpi nornanna í Hans og Grétu ævintýrinu að ráðleggja hver öðrum hvaða staður á Íslandi væri bestur heim að sækja..

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 20.11.2007 kl. 03:59

9 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þakka ykkur fyrir athugasemdirnar ykkar, ágætu bloggvinir (óskráðir sem skráðir). Má til með að svara séra Svavari Alfreð sérstaklega:

Ber sinn hver af skinni skammt / og skerf af yndirþokka.

En er ekki rétt að elska jafnt / alla þyngdarflokka?

Helga Guðrún: Þú ert vonandi ekkert skyld Hannibal Lecter?

Og Gunnfríður Elín -- þú tæpir þarna á nokkru sem hinir snjöllu vetrarfærðarbílstjórar nyrðra hugsa sjaldnast út í: umferðarþungann hér syðra. Ég efast um að hægt væri að vanrækja hálkueyðingu svo sem mér virðist gert á Akureyri ef umferðarþunginn væri viðlíka og hér á suðvesturhorninu. -- Verandi Faxflóingur hef ég vanist rigningunni allnokkuð en verð sennilega aldrei svo gamall að ég sættist við he#%##/$ and$#//&#$# rokið. Þess vegna ma. leið mér afskaplega vel í þokunni og koppalogninu í gær.

Anna K: Nei, því miður man ég ekki eftir bláum Mercury við erindrekstur í Mosfellssveit 1960-1965. Þetta voru nefnilega árin sem ég bjó nauðugur viljugur í Reykjavík. En þú vekur forvitni mína um þennan bíl og erindi hans. Áttu nokkuð mynd af honum?

Sigurður Hreiðar, 20.11.2007 kl. 07:51

10 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Endurtek svarið til sr. Sv. Alf. vegna innsláttarvillu:

Ber sinn hver af skinni skammt / og skerf af yndisþokka.

En er ekki rétt að elska jafnt / alla þyngdarflokka?

Sigurður Hreiðar, 20.11.2007 kl. 07:55

11 identicon

Sæll og blessaður.  Ég er Akureyringur.

Ég þakka fyrir alveg frábæra pistla.  Bæjaryfirvöld á Akureyri fara nú mikinn í staðafjölmiðlum og biðja menn að gera hvað þeir geta til að halda svifriki í skefjum.  Meðal uppástungna þeirra er að menn íhugi aðra kosti en nagladekk.  Og hvað aðhafast svo bæjaryfirvöld í hálkunni.  Jú, bærinn gerir út sérstaka litla vörubíla, auðvitað á þrælnegldum dekkjum, sem aka um bæinn og dreyfa á göturnar sérstökum sandi.  Þeir semsagt dreifa svifryki gagngert um bæinn.  Sandur þessi er sérstaklega útbúinn, með sérstökum kvartsmöl íblandaðri þannig að hann stóreykur eyðingu malbiksins því að hann er harðari en mölin í malbikinu.   En svona er þetta hér í bæ öfugmælanna og skipulagsóreiðunnar.

Vissulega eru til hér konur með hold á beinum og er það vel.  Hins vegar sé ég alltof oft horrenglur sem hanga saman á klæðaleppunum einum saman og ætla ég að hér muni vera aðkomufólk á ferð. 

Það sem Akureyringar telja umferðarþunga er sérstaklega á einni götu sem heitir Þórunnarstræti, sunnan við Þingvallastræti (krafmikil nöfn).  Þar vill svo til, milli kl. 07:55 og 08:02 á morgnana að ekki er hægt að keyra rakleitt leiðar sinnar heldur þarf að hægja ferðina og jafnvel stöðva í einhverja tugi sekúntna vegna annarrar umferðar.  Hér hefur skapast mikil umræða um þennan "umferðarhnút".

Það má hins vegar ekki fjölga mikið í þessum bæ.  Það stafar af því að okkar misvitru stjórnmálamenn hafa ekki kjark til að byggja þau samgöngumannvirki sem leiðir af byggingu nýrra íbúðarhverfa.  Þannig hafa menn byggt upp heilu nýju hverfin en síðan heykst á því að leggja til þeirra tengibrautir, sem hafa verið fyrirhugaðar árum saman, vegna þess að forkólfar íþróttafélags leggjast gegn því.  Svo breyta menn byggingaskilmálum hægri vinstri, af eigin geðþótta, og rugla með fyrri ákvarðanir þannig að bæjarbúar vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara.

Akureyri er spennandi staður til að búa á og að sækja heim.  Mér þykir vænt um bæinn og ekki hvað síst fyrir það hvað hann er skringilegur.  Og bæjarbúar hafa húmor fyrir skringilegheitunum.  Það sannast á því hverja þeir kjósa í bæjarstjórn.

Hreiðar Eiríksson (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 09:00

12 Smámynd: Berglind

Góðan daginn Sigurður og aðrir hér,

Það er fróðlegt að lesa bæði pislanna um þetta málefni sem og athugasemdirnar við þá, eins og sagt er að málfrelsið og skoðanna skipti séu frjáls og því kemur hér mín skoðun á þessu umræðu efni.

Sjálf er ég blanda af þínu svokölluðu ,,HAMAS" geni og ,,Akrri" geni (sem ég hef aldrei áður séð nefnt á þennan hátt, en oft hljómar sunnanlands hreimurinn á orðinu Akureyri frekar líkt og orðið væri skrifað ,,Agureyri" og gæti skýrt þessa undirstrikun heimamanna á K-inu sínu), og hef ég verið búsett á báðum stöðum til skiptis með jöfnu milli bili í fjölda ára. Enda erfitt að gera sér upp á milli hvar sé best að búa, þar sem báðir staðirnir eiga sér bæði yndislega kosti en líka sína miður svo góða kosti.

Það er ekkert nýtt að fólk sunnan heiða sem norðan deili á um staðreyndir á hinum. En ég veit ekki hvort það sé vegna áralangrar búsetta minnar erlendis sem gerir það að verkum að ég eignilega get ekki annað lesið það út úr öllum þessum skrifum hér um Akureyri að þetta hljómar eins og oftast væri kallað í barnaskóla sem ,,einelti". Þar sem jú fjölmennari hópurinn stækir sér á kostnað fámennari hópsins. En það hefur verið siður hjá þeim norðan mönnum að láta slíka ásókn ekki á sig fá og berjast frekar á móti og því svara hátt. Hefur þessi norðan kostur bjargað sjálfri mér úr eineltis stöðu sem byggja átti upp á móti mér í barnaskóla fyrir sunnan.

En jú það er alltaf auðveldara að sjá flísina í augum annara heldur enn bjálkann hjá sér sjálfum, og það finnst mér bæði pistlarnir og athugasemdirnar endurspegla hér.
En það er oft gott að vera vitur eftir á og því hefði kannski verið betra að taka bæði kosti og galla beggja staða inn í pistilinn og ekki bara að byrja með fá fagurummæli og síðan hella sér út í níðyrði um hina.

Persónulega finnst mér þetta bara undirstrika að ,,einelti" eigi sér fleiri myndir en bara að vera tengt skólum eða vinnustöðum. Hver getur fullyrt að hann sjái hina réttu útkomu ef annar hópurinn sér allt í grænu ljósi en hinn sér allt í bláu ljósi. Hver er fær um það að dæma hvor liturinn lýsi rétt á málið? Er það ekki bara það réttast fyrir manni sjálfum í hvaða ljósi maður sér hlutina sína frá sínum bæjardyrum?

Þín finnst mér þessi misfallegu orð sem búin eru að skiptast hér ekki til sóma fyrir nokkur, en jú það er auðvita bara mín persónulega skoðun sem kannski mætti segja að ég sjái svo málið frá þriðja litnum og því ekkert frekar réttar en hinar skoðanirnar.

Með kveðju frá Danaveldinu.

Berglind, 20.11.2007 kl. 10:05

13 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Bíddu nú við Berglind -- hvað áttu við með „níðyrði?“ Hef ég viðhaft einhver slík? Og ég vil fá skýringu á því hvað þú ert að fara með „Þín finnst mér þessi misfallegu orð sem búin eru að skiptast hér ekki til sóma fyrir nokkur“?

Vissulega átt þú rétt á þinni persónulegu skoðun, en, fyrirgefðu, ég sé ekki þriðja litinn sem þú segir vera að bæta við.

Sigurður Hreiðar, 20.11.2007 kl. 11:24

14 Smámynd: Berglind

Já það gæti verið að ég hafi annað hvort tekið of hart í árina og með orðinu ,,níðyrði” eða við einfaldlega ekki með sömuskoðun á túlkuninni á því orði... en alla vegna hér er kannski ekki átt við þá hörðu mynd af því orði sem það getur verið túlkað í, frekar til að undirstrika svona meira hæðsl eða alla vegna ekki átt við það í svokallaðri bókstaflegri merkingu... (væntanlega dana hugsun hér í gangi með orðaforðan þar sem t.d. "Hold kjaft" er ekki bein þýðing haltu kjafti heldur frekar notað sem æi.... ættu nú alveg, hihi)

En samt sem áður víst þú baðst um dæmi ákvað ég að kíkja aðeins á þetta aftur og hér eru alla vegna nokkrar tilvitnanir og túlkanir eins og ég skyldi sumt af því sem var rætt sem gætu flokkast undir þetta níðyrði/misfalleg orð um hin aðilann... tek það aftur fram að þetta er mín persónulega skoðun á málinu... ,,samhryggjast þeim sem hafa valið sér búsetu á þessum norðlægu slóðum að vera svona viðkvæmir fyrir umræðu um það sem þar er að finna.” – Það má ekki gagnrýna þá því þeir fara bara í fýlu! Er þetta ekki allstaðar ef einhver fær árás á sig þá fer fólk í vörn, sérstaklega þegar samheldnin getur verið virkari á minni stöðum en stærri stöðum. Hef grun um að hef þú hefðir tekið t.d. Vestmanneyjar fyrir heldurðu ekki að þú hefðir fengið svipuð viðbrögð, þ.e.a.s. hlutfallslega miða viða hvað búa margir þar? – sé ekki að þetta sé eitthvað sér norðlenskt dæmi eða hvað? ,,Vissir um sitt eigið ágæti og sérstaklega kunnáttu í að búa á norðlægum slóðum” – Já þeir að norðan eru sjálfumglaðir sérstaklega hvað varðar búsetu hæfileika að búa við sínar aðstæður. Lærir fólk ekki af því sem fyrir því er haft og verður stolt af því að geta bjargað sér sjálft? Ekki eru þeir að hreykja sér að búa á framandi slóðum. Ertu ekki viss um að sunnan menn geti ekki stælt sér fyrir að hafa t.d. sérstaklega kunnáttu að búa við umferðarmenningu sína eða hraða á lífinu heldur enn aðrir í landinu? “Upplagt fyrir lærbrot og hálsbrot og allt þar á milli.” – Hljómar eins og sé verið að segja ,,þar sem ég er ekki vanur svona fyrir sunnan þá skil ég þetta ekki hvernig þeir geta farið út án þess að slasast hrikalega.” Hlutirnir eru ekki eins allstaðar þótt svo að þeir eigi það sameiginlegt að vera á Íslandi og er ekki bara spurning að átta sig á því og aðlaga sig að þeim aðstæðum? Enda greinilega er ekki samaviðhorf allra á virði (kostnaði) þeirra slysahættu sem skapast og hverfur á einum sólahring. 

“hafa vörubílstjórar aldrei heyrt að byrgja skuli svoleiðis drullufarma” – Það hljómar eins og þú spyrjir hvort norðlenskir vörubílstjórar séu ekki eitthvað mikið eftir á. Mætti áætla vegna þess að það er löngu búið að vera að ræða þetta (alveg var umræða um það í síðasta eða þarsíðasta mánuði með vesenið á Selfoss) um slíka farma...

 ,,margar furðulega feitar konur” ,,af hverju verða þær svona feitar þarna? Er værðin kannski einum of mikil?” – Sem sagt eru konunar á Akureyri ekki allt í lagi, eru þær sem sagt bara svona hrikalega latar og nenna ekki að hreyfa sig? Og svo þegar enginn nógu góð viðbrögð komu þá kom: ,,Enginn tók upp hanskann fyrir feitu konurnar á Akureyri!” Gæti verið að fólk sé bara kannki ekki alveg sammála þessu... það var alla vegna einn sem nefndi það að hann væri það ekki. En þetta ,,vandamál” er allstaðar að finna í svipuðum stíl, það er bara sýnilegra á sumum stöðum en öðrum, gæti verið vegna sjálfsumgleði þeirra að þær þora að fara út úr húsi en ekki keyra bara á milli í lúgusjoppurnar. –Gæti verið ein skýring... “HAMAS er sæmst að halda kjafti þó að kasti úr éli fyrir norðan. Hann ætti bara að halda sig þar sem hann kann að fara ferða sinna og skafið er fyrir margfalt meiri pening heldur en fyrir norðan.” „fyrir sunnan" og þar búa auðvitað allir bjálfar.” “ekki nema klunnalegir bjálfar að sunnan”Þetta einmitt hljómar eins og Akureyringar blóti öllum fyrir að gagnrýna þá fyrir að hafa það betra enn þeir... Málið er að hér þarf bara að skoða allar stærðir í samhengi og ekki bara að bera appelsínu og epli saman, það hefur alla vegna verið mín upplifun að það er það sem norðan menn meina að vanti oft í stærðfræði formúlur sunnanmanna. Þ.e.a.s. 17 þús. mans á móti hvað 110 þús. mans. Og vegna harðmælsku þeirra hljómar þetta oftar sterkara í eyrum annara en meininginn er með slíkum orðum. ,,Samt er það svo merkilegt, að þegar ágætir vinir mínir að norðan (jú, ég á nokkra svoleiðis) hafa sest að við Faxaflóa til lengri eða skemmri tíma hætta þeir að ræða yfirburði Norðlendinga í vetrarumferð eftir fyrstu eitt eða tvö snjóaköstin hér.” Hefurðu spurt vini þína hvort það sé vegna þess að sunnan menn séu jafn góðir í slíkum aðstæðum, þjónusta er mun betri, óþarft umræðuefni eða hvort þeir séu bara búnir að samlagast menningunni um veðurfærð og -far? 

Já það er kannski alveg rétt að ég hef ekki verið með þriðja litinn í þessari skoðun minni, þar sem við að lesa þetta hérna aftur sé ég að þetta hefur greinilega vakið ,,Akrrri” genið meira upp í mér en HAMAS genið (sem sagt ekki fjólubláaljósið sem íslenskurútlendingur sem kannast við bæði blátt og grænt ljós), ekki að ég sjái nokkuð fallegt við þessar lýsingar ,,Akrrri” eða ,,HAMAS”. En sumir sjá þetta sem kaldhæðnis húmor á milli...

 Sé ekki alveg hvers vegna að ber upp mismun á milli norðan og sunnan manna sé af hinu góða ef það er gert í slíkum dúr og hér fyrir ofan.

 “No hard feelings” ;)Kveðja frá Danaveldinu.

Berglind, 20.11.2007 kl. 14:21

15 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já, Berglind, no hard feelings and never were. Ég skildi þig bara ekki alveg og sýndist þú vera saka mig um að hafa farið með níð um norðanmenn, sem ég er ekki sammála.

Hinu neita ég ekki að hafa verið með vissa kaldhæðni. Ef það lukkast þykir mér það betri málflutningur en stór orð og ljót.

Góð kveðja í Danaveldið -- trúi það sé kalt þar núna!

Sigurður Hreiðar, 20.11.2007 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband