15.11.2007 | 22:02
Halló
Akureyringar tala ekki um Akureyri. Hún heitir Akrrri. Með hörðu kái. Hér er harðneskjan ríkjandi í framburði orðanna. Og harðmælinu fyl-g-t eftir. Að öðru leyti er hér er værðarblær yfir öllu. Kjörinn staður til að hvíla sig og sofa.
En svo langar mann að hreyfa sig. Þá væri nú að vetrarlagi betra að hafa mannbroddana. Eða amk. hafa efnað sér í kuldaskó með ísnöglum neðan í. Gangstéttar eru ekki ruddar/hreinsaðar. Bara þjappað í klaka og svo rignir á allt saman. Upplagt fyrir lærbrot og hálsbrot og allt þar á milli. Eða ef maður vill vera umhverfisfjandsamlegur og fara á milli húsa á bílnum er betra að lúsast og velja sér leiðir vandlega fyrirfram, sérstaklega ef maður er bara á þessum ónegldu góðu vetrardekkjum sem duga svo vel hérna fyrir sunnan þar sem allt er saltað og rutt. Í þessu éljakasti sem gerði meðan ég var fyrir norðan urðu menn sjálfir að hafa vit fyrir sér á svelluðum og síðan rennvot-svelluðum götunum og dansa spennandi bílaballett sem ekki var sjálfráður nema að nokkur leyti. Nema hvað fáeinar krossgötur virtust hafa verið sandbornar.
Svo las ég e-s staðar að bæjarstjórnin var að skora á fólk að nota ekki nagladekk. Þau gætu valdið svifryki. Helst ekki nota einkabíla, hjóla heldur eða ganga. Það væri svo heilnæmt. Jamm og já. Á þessum klamma.
Svo var hann horfinn daginn eftir eða svo. Komin þíða og klammann tók upp, meira eða minna. Við fórum í heilnæma gönguferð, meðal annars eftir Þórunnarstræti fyrir ofan sundlaugina. Og -- í öðrum eins rykmekki hef ég ekki ferðast -- ég man bara ekki síðan hvenær. Vissulega standa yfir miklar framkvæmdir sem krefjast jarðvegsflutninga um Þórunnarstræti og hér hafa vörubílstjórar aldrei heyrt að byrgja skuli svoleiðis drullufarma svo þeir fjúki ekki á allt og alla. Þess síður virðist götur sópaðar á Akrrri og þegar ekið er í rykflekkina á jöðrum akbrautanna þyrlast þeir í háaloft. Ég tók myndir t.d. á Þingvallastræti af sand- og rykröstunum þar, set eins og eina hér ef vel gengur. Svifryk? Já, vissulega. Allt ryk sem þyrlast upp er svifryk.
Myndin: Þingvallastræti á 11. tímanum 9. nóv. 07
Allt fólk sem ég hitti var brosmilt og hlýlegt, ef það sýndi einhver merki þess að sjá annað fólk. Og alveg sérstaklega ánægjulegt að hvarvetna sem maður kom í verslanir eða aðrar stofnanir var maður afgreiddur á íslensku, skírt og greinilega og aldeilis ekkert hálfkák á því. Húrra fyrir því, húrra Akureyri.
Eitt enn vakti athygli mína alveg sérstaklega og var mér til undrunar. Ég hef bara aldrei áður séð á jafn litlum stað jafn hlutfallslega margar furðulega feitar konur - frá fermingaraldri eða þar um og upp úr! Hvernig stendur á því að svona margar feitar konur hafa safnast saman þarna á þessum kyrrláta stað við innanverðan Eyjafjörð? Eða ætti maður kannski heldur að spyrja - af hverju verða þær svona feitar þarna? Er værðin kannski einum of mikil?
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég datt inn á þessa síðu eiginlega fyrir slysni.
Vil taka fram að ég er ekki Akureyringur.
Það hefur nú tæplega snjóað það mikið að ryðja hafi þurft götur og gangstéttar þar sem snjórinn var farinn daginn eftir.
Bara svona til að vita hvert þú ert að fara. Á þetta að vera fyndið?
Ef svarið er já, þá verð ég hryggja þig með því að svo er ekki, í það minnsta að mínu mati. þó eru skemmtilegurnar í mér við hestaheilsu og ég er nokkuð góður í að greina á milli hvað er skemmtilegt og hvað ekki.
Til að draga þetta saman í 1 setningu.
Leiðindapistill og þér ekki til mikils framdráttar
Páll Karlsson (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 08:23
Gamli bærinn er nú eiginlega meira Innbærinn og Fjaran/Aðalstræti, en takk fyrir falleg orð um fallegan bæ Hér má vissulega ýmislegt betur fara, en í gær sá ég nokkuð sem ég hef aldrei séð áður í þessum bæ, "pissubíl" sem sprautaði vatni á undan sér og skolaði göturnar ! Svo held ég að við eigum bara einn "götusóparabíl".....
Jónína Dúadóttir, 16.11.2007 kl. 08:32
Ekki veit ég hvað þessi Páll Karlsson hefur borðað í morgunmat, það hefur væntanlega ekki verið mjög hollt. Ég ætla nú þvert á hans orð, þakka þér fyrir skemmtilega og læsilega pistla. Það kemur þarna vel fram fagmennska hins reynda blaðamanns.
Ellismellurinn (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 09:27
Ágætis pistill og gaman að sjá viðhorf "borgarbarna" til lífshátta í öðrum "borgum".
Tvennt sem mér finnst standa upp úr.
Fyrsta er að það er greinilega búið að taka af "borgarbúum" hæfileikan til að fóta sig í hálku, hvort sem er á tveimur jafnfljótum eða á fjórum hjólum. Þetta er bara spurning um að kunna að fóta sig á svellinu !! Á Akureyri endast bílar yfirleitt fjórum sinnum lengur en í saltinu.
Annað er að það er alveg hægt að hreinsa götur betur en nú er gert á Akureyri. Ef á að nota allan þennan sand á göturnar þá verður líka að hreinsa hann.
Við búum nefnilega við það að þegar hlýju sunnanáttirnar spúa ómældu regni á sunnanfólk þá skilar hann þurrum hlýjum vindum til okkar, sem þýðir jú að rykið þyrlast upp.
Og svo þegar þarf ávallt að byggja á hverjum bletti í grónum hverfum (yfirleitt í andstöðu íbúanna!!) þá þyrlast auðvitað ennþá meira ryk upp.
Svo er þetta athyglisvert með feitu konurnar..... kannski þekki ég bara þessar grönnu...?
Ingimar Eydal, 16.11.2007 kl. 11:18
Halló Siggi:)
Stórgóður pistill:) Hló mig máttlausa á köflum er kannski með svona lélegan húmor, eflaust hefur greinin heldur ekki átt að vera brandari en svona er þetta. Ég er sammála þér innilega í öllu sem þarna stendur, nema ég þakka guði fyrir nagladekkin mín en tek fram að ég hef reyndar ekki prófað annað að vetri til spurning um að prufa fyrr getur maður ekki sagt að það virki ekki:) En tek fram að ég er nú ekki Akureyringur heldur Keldhverfungur og er stolt af, en bý nú reyndar í höfuðborg Norðurlands og líkar vel. Takk fyrir fínan lestur kv Erna
Móðir, kona, sporðdreki:), 16.11.2007 kl. 12:05
Glöggt er gestsaugað! Er búsettur á Akureyri og búinn að vera með annan fótinn hér í nær 10 ár. Verð auðvitað aldrei Akureyringur. Mér líður afskaplega vel hér og það er einmitt hægi takturinn sem er aðalkosturinn ásamt náttúrufegurð og veðráttu. Veðráttan er einnig vandamál, því hér eru miklar stillur og svifryksský myndast oft hér og sérstaklega við Þórunnarstræti. Ég hef búið í öðrum 16 þúsund manna bæ (erlendis) og þar hugsuðu menn lítið um kostnaðinn við snjómokstur, allar götur voru mokaðar og allir göngustígar voru orðnir færir að morgni. enda nánast aldrei hálkuslys þar. Tek algerlega undir orð þín um gangstéttir hér, það er t.d. lífshættulegt að ganga niður gilið í hálku, í fysta lagi má maður telja sig heppinn ef maður kemst á tveimur fótum niður brekkuna í hálkunni og yfirleitt þarf maður að ganga á götunni þar sem snjónum er mokað á gangstéttir. Síðan er nokkuð algengt að ökumenn nái ekki að halda sér á götunni og keyri út af upp á gangstétt og þá er maður í hættu. Eins og þú hefur sennilega tekið eftir þá eru margir Akureyringar mjög viðkvæmir fyrir því að sett sé út á þá eða bæinn, sérstaklega ef þú ert svo óheppinn að koma "að sunnan".
Eyþór Ingi Jónsson (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 14:07
Svifryk hér, svifryk þar. - Af hverju eru allir alltaf að tala um þetta "svifryk"? Eru allir búnir að gleyma moldrykinu sem lá yfir vegum landsins í þurrkatíð hér áður fyrr þegar ekki var búið að rykbinda allar leiðir. Í mínum huga er svifryk létt í sér og svífur í lausu lofti líkt og það sem við sjáum þegar blessuð sólin er lágt á lofti og skín inn um gluggana á hýbílum okkar og allt kemst upp um að við höfum sofið á verðinum hvað húsaþrif varðar. Það ryk sem þyrlast upp undan bílhjólum er aldeilis ekki létt og svífandi. Það fellur samstundis aftur til jarðar eftir að hafa þeyttst (þeyst!) upp í loftið (hæðin fer eftir þyngd og hraða ökutækisins) en uppistaðan í þessu svokallaða (nútíma)svifryki er jú jarðvegur svo sem mold og sandur sem og malbiksagnir. Þegar allt kemur til alls þá er þetta bara hreint og klárt ryk
Ruth (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 18:21
Afsakið!
Á degi íslenskrar tungu lætur enginn móðurmálsunnandi svona sjást eftir sig. Að sjálfsögðu á að segja hýbýli en ekki hýbíli
Ruth (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 19:00
Ég hef oft heyrt þá kenningu að skapferli Akureyringa taki mið af veðráttunni, því er ég ekki hissa á að þú hafir hitt mikið af brosmildu glaðlegu fólki. Það gæti líka útskýrt þetta með værðina. Annars held ég nú að Íslendingar séu almennt að verða feitari og feitari, vona að Akureyringar séu ekki óvenju framsæknir í þeim efnum. Reyndar minnir mig að ég hafi einhversstaðar séð athugun á þyngd kvenna í mismunandi bæjarfélögum þar sem Akureyrskar konum voru þyngstar en þær Hafnfirsku léttastar.
Kveðja af annari Eyri
Gunnfríður jr.
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, 18.11.2007 kl. 18:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.