24.10.2007 | 11:24
Tvinnbílar? - Uppblásið fjas um umhverfisvernd?
Hmm.
Get ekki varist því að sú hugsun verður æ áleitnari að þetta tvinnbíladæmi (hybrid) sé einhver best lukkaða sölubrella síðari tíma, hvað bíla áhrærir. Með Toyota í fararbroddi, sem þessi misserin skiptist á við General Motors um að vera stærsti bílaframleiðandi heims.
Núverandi Prius er með 1,5 l bensínvél. Ekki verður séð að Toyota noti þessa 1,5 l vél í annan bíl, en reiknaður CO2 (koldíoxíð) útblástur á henni miðað við 4,3 l meðaleyðslu pr. 100 km er 104 g/km (grömm á kílómetra). Næsta sambærilega Toyotavél er 1,4 l vélin sem notuð er í Corolla og skilar 159 g/km af CO2 við 7,1 l meðaleyðslu. Útblástursmengun Prius er því 65% af útblástursmengun miðað við Corolla með 1,4 vél - að vísu aflminni vél. En hvað stærð áhrærir og rými er Corolla býsna sambærileg við Prius.
Þessar tölur miðast við það sem framleiðandi gefur upp.
Honda á Íslandi býður nú Civic tvinnbíl (hybrid) með 1,3 l bensínvél móti rafbúnaðinum. Meðaleyðsla gefin upp 4,6 l og CO2 109 gr/km. Þessa vél finn ég heldur ekki í öðrum bíl frá Honda, en 1,2 l vélin í Jazz - sem vissulega er minni bíll og ekki eins sambærilegur við Civic tvinnbílinn og Corolla við Prius - er gefin upp með 5,5 l meðaleyðslu og 129 gr/kg CO2.
Þriðji bíllinn sem boðinn er í tvinnútgáfu hérlendis er Lexus RX 400h, jeppi eða jepplingur eftir því hvernig menn kjósa að skilgreina þar á milli. Vélarstærð 3,3 l og meðaleðsla uppgefin 8,1 l með 192 CO2 í mengun.
Fjórði bíllinn er svo Lexus LS 600h sem forsetaembættið lét hafa sig í að kaupa og verður ekki ræddur hér frekar.
Þrem fyrstu hef ég öllum reynsluekið - Hondunni þó langminnst. En það sem þessir bílar áttu allir sameiginlegt var að meðaleyðslan var hátt yfir því sem uppgefið var og þar með að sjálfsögðu CO mengunin, sem allt þetta fjast snýst um þegar öllu er á botninn hvolft. Priusinn var með um 9 í meðaleyðslu á reynslutímanum, Lexusinn 12 og Hondan rúmlega 7 l á 100 km.
Enda nýtist rafmagn til aksturs á þessum bílum aðeins á lágum hraða - innan við 60 km/klst ef ég man rétt. Yfir þeim hraða aka þeir eingöngu á eldsneyti.
Tvinnbílarnir eru þyngri en sambærilegir bílar með hefðbundið eldsneyti. Það gera rafgeymarnir. Sem þýðir meira dekkjaslit og meira gatnaslit, þó þyngdarmunurinn sé ekki nema um 150 kg eða þar um bil. Þeir eru dýrari vegna dýrari og flóknari búnaðar sem aftur þýðir að fleira getur bilað sem enn þýðir meiri reksturskostnað. Því er og haldið fram að aukin mengun fylgi bæði framleiðslu stærri og fleiri rafgeyma og í lokin eyðingu þeirra.
Hvað er þá eftir af ágæti tvinnbílanna? Kenningin um minni loftmengun þeirra stenst ekki eða er ekki í samræmi við það sem gefið er upp. Þeir eru dýrari í innkaupi og meiri mengun við upphafi þeirra og endi? Þeir eru leiðinlegri í akstri en sambærilegir bílar með hefðbundna orkugjafa nema kannski Lexusinn.
Út á hvað eru menn þá að kaupa þessi ósköp? Ímyndaða minni mengun?
Þá hefur sölubrellan heppnast. Tvinnbílar? - Uppblásið fjas um umhverfisvernd til að spila á tíðarandann. Nú um stundir étur þar hver eftir öðrum með æsilegum upphrópunum og fá jafnvel friðarverðlaun útá.
Hver getur verið þekktur fyrir að vera ekki meðvitaður um umhverfismál?
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þegar við þetta bætist mun meiri framleiðslukostnaður hjá tvinnbílunum sem aftur þýðir meiri útblástur vegna hennar vil ég að allur, ekki bara hluti, - heldur ALLUR kostnaður vegna tvinnbílanna sé tekinn með og dæmið síðan skoðað í heild.
Ómar Ragnarsson, 24.10.2007 kl. 12:49
Ég hef reynsluekið príus og var einmitt að furða mig á eyðslunni sem kom fram í eyðslutölvunni hún var langt yfir það sem talað er um í auglýsingum. Minnir að hún hafi einmitt verið eitthvað um 9 l./100.
Það kemur heldur ekki fram þegar fjallað er um þessa bíla að eini möguleikinn sem þessir bílar hafa til að spara er með því að endurvinna bremsuaflið með því að framleiða rafmagn og svo getur vélin gengið á hagkvæmasta hraða. Á móti kemur að það fer væntanlega talsverð orka í að vera alltaf að ræsa vélina í innanbæjarakstri. Að öðru leiti eru þetta bara bensínbílar bara miklu flóknari en hinir.
Einar (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 13:51
Þetta tvinnbílakjaftæði allt saman, er sennilega ein best heppnaða auglýsingabrella sem um getur. Þegar svo kolefnisjöfnurþvælan bætist við, er vandséð hverju er eiginlega hægt að ljúga eða blekkja meira með, þegar kemur að tali um umhverfisvernd. Vissulega eigum við öll að vera meðvituð um umhverfið og umhverfisvernd, en því miður virðist það einhvernveginn snúast upp í andhverfu sína með svona dómadagsrugli.
Halldór Egill Guðnason, 24.10.2007 kl. 15:10
Það er ekki hægt að hafa vit á öllu og ég læt bílana mæta afgangi. Veit ekki hvort sonur minn er hér fyrir ofan að reyna að bæta það tjón?
Eða er hann ekki sonur minn? kv.
Helga R. Einarsdóttir, 24.10.2007 kl. 18:00
Þetta er mjög eðlilegt, stærstur hluti umhverfisverndar í dag snýst um peninga, en ekki umhverfið. Og Al Gore er sennilega einn stærsti svindlarinn í þessu öllu saman, hversvegna var hann ekki búinn að gera neinar ráðstafanir heima hjá sér, fyrr en blaðamenn komust að því að heimilli hans notaði margfalt meiri orku en venjulegt heimili.
Hvers vegna er alltaf í lagi að menga aðeins meira, ef þú bara borgar aðeins í viðbót, útblásturskvótar, kolefnisjöfnun og margt fleira. Af hverju er ekki hægt að fara hina leiðina og gera það "umhverfisvæna" ódýrara?
Anton Þór Harðarson, 24.10.2007 kl. 20:52
Sæll frændi,
Ég finn mig knúinn til að svara spurningu þinni, enda mjög vel kunnugur Prius, hef mikið ekið honum í Bandaríkjunum og minna hér heima. Nú og svo vill til að ég er ágætlega upplýstur um umhverfismál, enda kvæntur einum fremsta sérfræðingi þessa lands á sviði orku- og loftslagsmála.
Mér virðast íslenskir bílablaðamenn almennt fúlir út í tvinn hugmyndina og hampa þess í stað díselvélum. Sömuleiðis hef ég áður séð Ómar tjá sig um tvinnbíla á sömu nótum, en þó er hann í þeirri einstöku aðstöðu að vera bæði bíladellumaður og “umhverfisverndarsinni”. Sá hann líka hér í götunni um daginn á sótspúandi díselflykki á tvítugs- eða þrítugsaldri.
Díselvélar eru um margt ágætar, sparneytnar og togmiklar. Nýjustu díselvélarnar með “common rail” tækni eru orðnar mjög magnaðar og menga mun minna en áður. Nýji Land Cruiserinn sem kemur um áramót verður með dísilvél sem togar 650nm!. Engu að síður menga dísilvélar mikið, svo mikið að þær eru bannaðar víða t.d í Kaliforníu og Massachussetts.
Mengunin úr díselvélum er þrenns konar, sót/svifryk, nituroxíð og “volatile organic compounds” sem ég kann reyndar ekki að þýða, en eru flokkur efna þ.á.m formaldehýð, einnig fundið í sígarettureyk. Bílaframleiðendur kappkosta nú við að laga þetta, með allskonar hvarfakútum og bætiefnum, en ennþá er engin “hrein” dísilvél á borð við Mercedes Bluetec vélina flutt til Íslands. Dísilbílar heldur alls engin lokalausn í smábílum sem eru oftast notaðir í innanbæjarakstri. Dísilvél eyðir meira en ella á meðan hún er köld og á meðan meðal “rúntur” á Íslandi er 10 mínútur þýðir það að það er verið að keyra kaldar vélar út um allt.
Tvinnbílar kallast svo vegna þess að í þeim eru tvær aflstöðvar, annars vegar bensínvél og hinsvegar rafall. Kostir tvinnbíla koma fyrst og fremst í ljós í innanbæjarakstri, þar sem oft er stansað er á ljósum og bílar ganga mikið í lausagangi. Ég þekki Prius eiganda, reyndar vin minn í Boston sem hefur náð eyðslunni niður úr öllu valdi, venjulega er hún í kringum 5l á hundraðið, en nær allt niður í 3lítra. Prius eigendur þar úti halda úti vefsíðum “hypermilers” þar sem þeir gorta af því hversu litlu þeir geta eytt.
Ég get vel trúað því að í reynsluakstri bílablaðamanna sé ekkert tillit tekið til þessa eiginleika Priusins, aðallega spænt um á þjóðvegi eitt eða Sæbrautinni, frekar en að setja sig í spor fjölskyldunnar sem er föst í raunverulegri umferð út í Mosó eða bíður eftir lausu stæði í Kringlunni. Mér þykir líka ansi langsótt gengið að gagnrýna Prius fyrir “meira gatnaslit, eða dekkjaslit” fyrir þunga sem jafnast á við tvær manneskjur. Auðvitað eru tvinnbílar líka dýrari, þeir eru enn á þróunarstigi. DVD spilari kostaði hundruðir þúsunda króna árið 1996, en þeir sjást nú stundum á 5 þúsund kall í Bónus. Rétt eins og Moores Law spáir því að reiknigeta örgjörfa tvöfaldist á tveimur árum, mun tvinntækninni fleyta fram, með minnkandi rafhlöðum og betra samspili rafals og bensínvélar. Um leið mun og tæknin batnar og nær meiri útbreiðslu mun verðið lækka. Andstæðingar tvinntækninnar, eins og Ómar tala oft um “mun meiri framleiðslukostnað” sem skýrist auðvitað einnig af nýrri tækni, nýjum framleiðslulínum og rannsóknum. Þetta er upphafleg fjárfesting í framleiðslukostnaði sem á eftir skila sér í betri tvinnbílum, þar með töldum plug-in eða tengiltvinnbílum. Fjárfesting til framtíðar sem á eftir að gefa af sér “vexti, vaxtavexti og vexti líka af þeim.”
Frændi sæll, þú getur af ofangreindu greint að ég hef tröllatrú á þessari tvinnhugmynd.
Bílar sem aka eingöngu á innlendu rafmagni, hljóta að vera lausnin sem hentar best hér á Íslandi. Þangað til hreinir rafmagnsbílar verða staðreynd, er þróun tvinnbíla mikilvæg millibilslausn fyrir þessa þjóð. Þú hæðist að þeirri staðreynd að Prius muni geta ekið 10km. á rafhleðslunni einni saman. Við sem búum inni í Reykjavík og förum að jafnaði 8 kílómetra á dag fram og til baka úr vinnu og leikskóla með viðkomu í búðinni gætum þarna verið að aka algjörlega á íslensku rafmagni!. Þar með erum við ekki háð síhækkandi olíuverði, dísel eða bensín. Þar með erum við ekki að styrkja ósvífna olíubaróna. Þar með erum við ekki að taka burt hreint loft eða rétt loftslag frá börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum okkar. Ég get ekki séð hvernig einlægur vilji til þessa flokkast undir “fjas” eða “sölubrellu”, “svindl” eða “kjaftæði” eins og tíska er hér á síðunni.
Allavega, ég vona að þetta svar bæti að einhverju leyti upp þekkingarleysi móður minnar.
kv.
Einar Örn.
Einar Örn S. (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 00:42
Sæll aftur, frændi Einar Örn, og þakka þér fyrir áhugavert tilskrif. Vonandi er gott að fólk hefur tröllatrú á tvinnbílahugmyndinni -- ég segi vonandi, því ég óttast að þeir séu að trúa á nokkra blekkingu.
Ég hef nú stundað reynsluakstur nýrra bíla í 46 ár, að vísu með nokkrum hléum. Það sem ég hef á þeim tíma lagt áherslu á er að nota þá sem almenna fjölskyldubíla í umferð sem er föst í raunverulegri umferð út í Mosó eða bíður eftir lausu stæði í Kringlunni. Hluti af því er að vísu á þjóðvegi 1 eins og þú veist og óneitanlega er Sæbrautin meðal leiða sem ég þarf iðulega að fara á mínum heimilisbíl. Ég hef ekki orðið þess var að ég hafi þurft að éta ofan í mig eyðslutölur sem ég hef staðhæft eftir reynsluakstur.
Ég hef eftir megni líka leitast við að gera mér grein fyrir hverjum bíl eins og ætla má að hann verði aðallega notaður. Eins og danskur vinur minn orðaði það einu sinni: fra konsumentens synspunkt.
Á Prius er hnappur sem maður getur gripið til ef maður vill fara á rafmagni eingöngu einhvern smáspöl. Ég reyndi ítrekað að fara á rafmagni eingöngu endilanga heimagötuna hjá mér sem er um 200 metra löng -- en bensínvélin kom alltaf inn eftir nokkra metra, sama hversu varlega var farið. Ég tók líka miðju úr heilum degi til að lúsast innan bæjar í líkingu við hagsýna húsmóður sem þyrfti að fara með börnin í leikskóla, út í búð, í hárgreiðslu eða kaffi hjá vinkonu og helst aldrei yfir 30 km hraða. Af ásettu ráði forðaðist ég aksturslag uppans með golfsettið í skottinu… Jú, eyðslumælirinn fór akkúrat þá stund niður um 0,2 l en til þess þurfti mjög meðvitaðan sparakstur í langan tíma.
Ég hef séð þessar netsíður hypermilers. Þær minna mig mjög á fagurgala sumra vina minna sem aka á eyðsluhákum sem eyða 20 lítrum eða meira en leggja sig fram um að ljúga upp á þá eyðslu sem jafnast á við CR-V-inn sem ég á núna og er með meðaleyðslu upp á 11,5 eða þar um bil (gefinn upp með 9,3!) eða þaðan af minna. Þess konar blekking sem dugar ekki einu sinni sem sjálfsblekking þykir mér bara sorgleg.
Toyota hefur nú verið með tvinntæknina á markaði í áratug eða svo. Honda lítið eitt skemur. Ford er tiltölulega nýkominn í slaginn. GM gaf þetta frá sér um árið. Fer ekki að líða að því að framleiðslukostnaður vegna nýrrar tækni, nýrra framleiðslulína og rannsókna fari að skila sér í lægra verði og betri tækni? Minni á að samskonar tilrauna- og þróunarferli á sér enn á stað og er orðið á annað hundrað ára gagnvart bílum sem nota hefðbundið jarðefnaeldsneyti.
Við getum eflaust pexað um þetta langa hríð enn og það verður gert, hvort sem það verður með okkar þátttöku eða ekki, Einar Örn. Sjálfum er þetta mér ekkert hjartans mál. Mér finnst bara, eins og ég var að reyna að segja, að við gleypum of gagnrýnislaust við fagurgala sem hægt er að fóðra með umhyggju fyrir umhverfinu. Sem sagt, látum hafa okkur að ginningarfíflum.
Heimilisrafmagn sem eini aflgjafi fyrir bíla er falleg hugsjón. Og aldeilis ekki ný heldur var mjög á lofti meðan bílar voru enn á barnsskónum. Fyrsti bíllinn sem náði yfir 100 km hraða var rafbíll. Það gerðist í Frakklandi árið 1899. Ætti tíminn síðan þá ekki að vera orðinn nógu langur til að þróa tækni og framleiðsluferli fyrir þá fögru hugsjón?
En, meðal annarra orða: Er sem mér sýnist að þú vitir hver er höfundur vísunnar sem inniheldur orðin “vexti, vaxtavexti og vexti líka af þeim”
Góð kveðja
Sigurður Hreiðar, 25.10.2007 kl. 09:01
Við skulum heldur ekki gleyma þeirri staðreynd að þó að heimilisrafmagn sé framleitt með "umhverfisvænum" hætti hér á Íslandi, sem er þó hæglega hægt að hrekja á margann hátt, þá er því ekki þannig farið með megnið af raforku heimsins, en hún er framleidd með brennslu jarðgasa. Þ.e.a.s. öðru formi jarðeldsneyta sem einnig eru við það að verða uppurin.
En hvað sem öllu þessu líður, þá þurfum við að fara að hugsa okkar gang, þar sem allir helstu olíusérfræðingar heimsins eru nú orðnir nokkuð sammála um að olíuframleiðsla á jörðinni hafi nú þegar náð hámarki og komi einungis til með að minnka hér eftir.
Heimir (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 10:07
Tja, nú skal ég ekki segja, ég skil ekki hvernig þér tekst að eyða svona miklu á Prius. Alveg öfugt við mína reynslu. Þegar ég prófaði bílinn var ég að vinna fyrir keppinaut Toyota í Bandaríkjunum og var að reyna að finna honum allt til foráttu. En ég hef heldur engann áhuga á pexi, við þig eða aðra. Mér finnst reyndar að stjórnvöld gætu gripið inní og hjálpað enn frekar með lægri tollum og gjöldum á tvinnbíla.
Það var framleiddur mjög góður rafmagnsbíll EV1 náði uþb 100 km á hleðslu, en General Motors tók hann af markaði og hætti frekari þróun, sagan segir að það hafi verið til að láta undan þrýstingi olíurisa. Það er fín grein um EV1 á Wikipedia. Og svo var einnig gerð mjög athyglisverð heimildamynd "Who killed the electric car?" sem fjallar um EV1 og hina ótrúlegu sögu hans. Það eru geysilega miklir duldir hagsmunir hjá olíufyrirtækjunum og bílaframleiðendum sem hafa mögulega hamlað framförum í rafbílatækni. Engin tilviljun að það eru japönsk fyrirtæki sem leiða vagninn nú með raf og hybrid tæknina, tja og þýsk fyrirtæki sem eru lengst komin með fuel-cell tækni.
"Í kolli mínum geymi ég gullið" er náttúrulega einn eftirminnilegasti gullmoli íslenskrar auglýsingasögu, ásamt "Frúin hlær í betri bíl frá bílasölu Guðfinns" og "Homeblest, gott báðum megin" Það er ekki langt síðan ég frétti hver er höfundur vísunnar, - óvænt og skemmtilegt að vita til þess að frændi hafi látið til sín taka í bransanum.
kv.
Einar Örn S. (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 10:30
Tja -- ég er ekki einn um að hafa getað látið Prius eyða svona miklu. En gott að við erum sammála um að standa ekki í pexi. -- Ég þarf að rifja þetta upp með EV1, sem mig minnir að GM hafi lent í margskonar hremmingum með, ma. bunka af málssóknarhótunum af því að menn urðu fyrirvaralaust rafmagnslausir „in the middle of nowhere“. Vera má að duldir hagsmunir olíufyrirtækja hafi spilað þar eitthvað inn í, ég skal ekki segja. En satt að setja þykir mér hafa dregist mjög að þróa rafbíla og skemmtilegasti „alternative fuel“ bíllinn sem ég hef ekið (já, ég hef líka ekið vetnisbíl) var Fiat rafbíll sem hér var til reynslu -- ætli það geti hafa verið 1997? eða 1998? -- bara með rafgeyma.
En þetta með gullið og kollinn. Ég hef átt nokkra auglýsingatexta gegnum tíðina en þessi er líklega eftirminnilegastur. Og hvernig hann var afhentur í handriti er saga út af fyrir sig. -- Sjálfum þykir mér samt besti auglýsingatextinn minn alltaf vera þessi: Nú er veðrið til að lesa Úrval.
Góð kveðja
Sigurður Hreiðar, 25.10.2007 kl. 10:47
Skemmtileg umræða og sitt sýnist hverjum. Í fyrirtæki sem ég vinn hjá voru til skamms tíma í notkun T. Prius tvinnbílar. Skemmst er frá að segja að þeir stóðu ekki undir væntingum; eyðsla var úr hófi fram, leiðinlegir í akstri, hleðsla á rafgeymum entist einungis örskamma stund.
Þetta voru sagðir hentugir bílar til "óvissuferða". Þ.e. notendur voru stöðugt í óvissu um hvort þeir kæmust á áfangastað. Ef það heppnaðist þá var bara enn meiri óvissa hvort hægt yrði að komast alla leið til baka. M.ö.o.s. alltof bilanagjarnir.
Ég er því sammála blogghöfundi að við höfum látið blekkjast af skrumi þeirra sem vilja græða með því að höfða til samvisku neytenda um vonda umgengni við náttúruna. Þetta er af sama meiði og sala aflátsbréfa var hér á öldum áður.
Sveinn Ingi Lýðsson, 26.10.2007 kl. 10:27
Vill bara benda á það ef að menn vilja vera umhverfisvænir að samkvæmt rannsóknum vísindamanna þá er hagkvæmasti bíll til að aka á þegar tilit er tekið til allara þátta Jeep Wrangler. Þá er tekið tilit til þátta eins og framleiðslu eyðingu endingu og viðgerðarkostnaðs. Þessi rannókn birtist á MB fyrir ekki svo löngu síðan. Þess vegna finnst mér óréttlátt að ég fái ekki frítt stæði þegar ég fer í bæinn.
Jón Aðalsteinn Jónsson, 26.10.2007 kl. 23:02
Hér sé ég afar áhugaverða lesningu um Prius bíla og þrátt fyrir að ég ætli nú ekki að draga í efa ykkar mætu orð, enda margur sérfræðingurinn sem mælir, þá fannst mér þess virði að leggja mín orð í belg.
Fjölskyldubíllinn okkar er Prius, hann er eini bíll heimilisins og við höfum ekið honum rúma 20.000km.
Bíllinn var nýr þegar ég fékk hann svo auðvitað er engin reynsla komin á áreiðanleika hans en það hefur í það minnsta ekki eitt einasta atriði komið upp á til þessa. (Nema helst að hann varð bensínlaus einu sinni og var ekið á næstu bensínstöð á rafhleðslunni) Varðandi rekstrarkostnaðinn þá hef ég ekki áhyggjur af honum, hybrid kerfið kemur með 8 ára ábyrgð, þar með taldir rafgeymarnir. Þó að hybrid tæknin sé ný þá er ekki eins og rafmótorar og rafalar séu einhver framandi tækni.
Meðaleyðsla hans hefur verið 6.0l og það er ekki í neinum sparakstri, mestmegnis innanbæjar akstur auk reglulegra ferða austur yfir heiði og þá oftast á cruise control á milli 90-100.
Ég hef svo reyndar ekki mælt hversu langt hann kemst á rafhleðslunni einni og ég vil nú ekki rengja neinn en allavega skal veðja upp á ársbyrgðir af bensíni við hvern ykkar að hann kemst meira en 1km á fullri hleðsu - hver vill taka því? Ef hleðslan er tóm þá kemst maður auðvitað ekki langt, ekki frekar en maður keyrir hefðbundinn bíl á tómum tanki.
Það stoðar svo ekki að tala um að rafgeymar séu svo og svo þungir en gleyma svo að það munar ófáum kílóum á venjulegri 2000 vél og 1500 vélinni í Priusnum. Prius er ekki það sama og Corolla, Priusinn er talsverrt stærri, særstaklega farþegarýmið. Priusinn er mjög sambærilegur við sjálfskiptan Nissan Primera 1800. Þeir eru álíka stórir, hafa svipað lag og eru svotil jafn þungir. Aðal munurinn er að Priusinn hefur 25 hestöflum fleiri til taks auk þess sem hann eyðir 30% minna (miðað við að Primeran eyði 9 og Priusinn 6)
Það er svo mín reynsla þó að Priusinn aki að öllu jöfnu á eldsneyti á yfir 60kmh þá er það ekki algilt. Ef Priusinn fer t.d. niður brekku slekkur hann alveg á vélinni og hleður geymana, svo þegar hallinn minnkar ekur hann oftast smá stund bara á rafmagninu áður en hann startar vélinni. Þetta þýðir m.a. að á meðan flestir eru í óða önn við að slíta bremsubúnaðinum sínum niður kambana, þá er ég að hlaða á geymana.
Svo er eitt sem ég skil ekki og einhver ykkar getur kannski frætt mig um - ef tvinnbílar eru bara sölubrella eins og þú segir Sigurður, og þeir hafi svona miklu meiri framleiðslukostnað heldur en hefðbundir bílar eins og Ómar og fleiri fullyrða. Hvernig hagnast þá Toyota á því að selja þá ódýrar heldur sjálfskiptan Avensis með sama búnaði.
Og Sveinn Ingi, mætti ég forvitnast um hjá hvaða fyrirtæki þetta var sem þessir bilandi Priusar voru og hugsanleg hvenær það var. Ég hef nefnilega ekki heyrt af þessu né tekið eftir Prius fyrirtækjabílum. Hins vegar hef ég heyrt af bilanagjörnum metanbílum hjá fyrirtækjum - en það voru vonandi bara byrjunarörðugleikar, metanbílar eru að verða mjög áhugaverður kostur.
Annars verð ég að segja að ég er hæstánægður með Priusinn, hann er stórskemmtilegur í akstri, vel búinn, ódýr í rekstri og virkilega öruggur. Besti bíll sem ég hef átt. Ég mæli með því að menn fari á bilasolur.is og skoði hversu margir Priusar eru á sölu, það er alltaf góð ábending um gæði bíla. Eins og er þá sýnist mér vera fjórir Priusar á sölu.
Auðvitað er gott að það sé rætt að bílar eyði meira en auglýst er og að rafgeymar séu hreint ekki umhverfisvænir - en það þýðir ekki að einblína bara á tvíræðnina og horfa framhjá kostunum sem tvinnbílar hafa að bjóða og þá sérstaklega þegar þeim verður stungið í samband.
gummih, 30.10.2007 kl. 17:02
Þakka fyrir þetta, gummih. Gott að fá innlegg frá eiganda. Ég hef fengið mikil viðbrögð við þessu en mun færri sem taka undir sjónarmið Einars Arnar og gummah. M.a. hef ég fengið ljósrit af viðtali við aðalforstjóra Bosch sem tekur heldur betur undir það sem ég er að segja. Kem kannski inn á það í bloggi betur seinna.´
Lægra verð á Prius en Avensis? Avensis er mun meiri bíll en Prius -- og er ekki ívilnun á vörugjöldum á Prius af því hvað hann á að vera vistvænn?
Sigurður Hreiðar, 31.10.2007 kl. 08:25
Hvers vegna segirðu að Avensis sé mun meiri bíll en Prius? Er það vegna þess að hann er miklu þyngri? Hann er örlítið stærri jú, en ekki gríðarlega, reyndar situr maður hærra í Prius heldur en Avensis. Priusinn er 145 hestöfl, aflmeiri en 1800 Avensis, Priusinn er hljóðlátari en annars er búnaðurinn í þeim er mjög sambærilegur.
Prius / Avensis
Hjólabil 270 / 270
Lengd 445 / 465
Breidd 173 / 176
Hæð 149 / 148
Heildarþyngd 1300 / 1820
Hestöfl 145 / 129
Og aðalforstjóri Bosch já. Þó að Bosch sé aðal rúðuþurrkusali heims þá er forstjórinn varla sérfræðingur um vistvæna bíla? Er búið að athuga hvað aðalforstjóri Hitachi hefur um málið að segja? Annars vildi forstjórinn meina að megin minnkun CO2 frá bílum muni koma frá stopp-start kerfum og betri bensínvélum en ekki hybrid tækni. Það kemur svo ekki á óvart að Bosch framleiðir einmitt stopp-start kerfi, innspítingar og vélastjórnunarkerfi en ekki hybrid tengda tækni eða rafgeyma svo að honum er frekar mikið í hag að níða skóinn af tvinnbílum og mæra sína eigin tækni.
En jú, hluti vörugjalda af Prius er felldur niður, það er alveg rétt.
gummih, 31.10.2007 kl. 11:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.