22.10.2007 | 09:04
Í guðanna bænum, ekki kalla ykkur hjón!
Er hommum og lesbíum ekki nóg að við hin viðurkennum tilvist þeirra og tryggðaband og samfögnum þeim í fullum réttindum? Þurfa þau líka að skemma fyrir okkur hinum?
Ef Jón A og Jón B sem lengi hafa búið saman á nr. 20, eða Gunna A og Gunna B á nr. 25, kjósa að fara í kirkju og fá prestinn til að lesa yfir sér sambærilegan tryggðasáttmála við það sem tíðkast þegar gagnkynhneigt par ákveður að verða hjón er það í fínu lagi mín vegna. Og ég óska þeim alls velfarnaðar og hamingju í fötuvís.
En, í guðanna bænum, ekki kalla ykkur hjón! Finnið annað orð sem passar fyrir ykkar helguðu samvist! Hvað sem öllu öðru líður verðið þið áfram karl og karl (hommar) eða kona og kona (lesbíur). Og leyfið ykkur að vera það. Njótið þess. En leyfið okkur hinum að vera karl og kona = hjón og njóta þess.
-- Ég þekki mér vitanlega ekki marga homma enda eru þeir ekki sérmerktir. En þeir sem ég þekki eru prýðilegir kunningjar og hafa reynst mér afbragðs vinnufélagar. Sama er að segja um lesbíur og ég veit mig meira að segja eiga vinkonur þeirrar hneigðar. Sem snertir mig ekki þannig séð, því í almennum samskiptum kunningja, samstarfsmanna og vina (beggja kynja) skiptir kynhneigðin ekki máli.
En mér þætti grætilegt ef ruglaður hlutverkaleikur sem miðaðist að því að verða eins og gagnkynhneigða fólkið, sem samkynhneigða fólkið hefur lagt mikla orku í að aðgreina sig frá, verður allsráðandi með skemmd á því hvað orðin hjón og hjónaband standa fyrir.
Jón A og Jón B, endilega gangið í guðsblessað tryggðaband og auglýsið fyrir öllum heiminum, líka þið, Gunna A og Gunna B, og megi Guð og gæfan vera ykkur eilífu fylginautar. En ekki kalla ykkur hjón og tryggðaband ykkar hjónaband.
Þið hafið vanið okkur af að kalla ykkur kynvillt. Þið hafið kosið að taka upp önnur orð fyrir ykkar hneigðir og sýnt að þið getið fundið ný orð og nýjan skilning ef þið viljið. Ég bið ykkur: finnið annað orð fyrir tryggðaband pars af sama kyni.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Einkaréttur á hjón... hvað með manneskja; mega þau kalla sig það eða er það frátekið líka
DoctorE (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 09:21
Almennt vil ég ekki svara nafnleysingjum. En, þú huldudoktor, líttu í orðabók:
Manneskja: maður (karl eða kona).
Svarar þetta spurningu þinni?
Sigurður Hreiðar, 22.10.2007 kl. 09:38
Hverju breytir það þig hvað fólk kallar sig. þín vegna myndi ég ekki vera reyna rembast við að reyna breyta einhverju sem þú getur aldrei breytt. Þ.e. öðru fólki.
Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 22.10.2007 kl. 10:05
Mér sýnist Sigurður (sem sízt verður kallaður fordómafullur gagnvart samkynhneigðum) ekki vera að reyna að breyta öðru fólki, heldur mælast til þess, að sumir (ekki meirihlutinn) láti það vera að breyta tungumáli okkar hinna. Lík ósk er borin fram í Morgunblaðsgrein Steinunnar Jóhannesdóttur rithöfundar í gær og í innleggjum hennar í Silfri Egils og kvöldfréttum Rúv í gær. En í fyrradag kom ég á ráðstefnu róttækra presta og Samtakanna '78 í Þjóðminjasafninu, þar sem einn ræðumanna lagði til, að ef Þjóðkirkjan samþykki ekki hjónavígslu samkynhneigðra, verði rétturinn til kirkjulegra hjónabanda tekinn með lögum af trúfélögunum. Undarlegt þótti mér að sjá suma viðstadda presta klappa fyrir því -- og efast satt að segja stórlega um, að almenningur vilji þola þvílíkan fórnarkostnað meintrar réttindabaráttu samkynhneigðra.
Jón Valur Jensson, 22.10.2007 kl. 10:28
Á hvern hátt er ég að reyna að breyta öðru fólki, Nanna Katrín? Ef þú lest í raun og veru það sem ég er að skrifa hér að ofan hlýturðu að sjá að ég er fyrst og fremst að reyna að bjarga íslensku máli og koma í veg fyrir brenglaðan málskilning. -- Mín vegna máttu ganga að eiga köttinn þinn, ef þið bæði viljið, en í guðanna bænum ekki kalla það hjónaband!
Sigurður Hreiðar, 22.10.2007 kl. 11:08
Ef þú vilt að fólk kalli sig ekki hjón þegar orðið á ekki við, en það gerir það samt ef það vill, þá er það eins og að berja hausnum í vegg.
Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 22.10.2007 kl. 11:17
Einmitt það sem ég er að gera, að biðja fólk að kalla sig ekki hjón þegar orðið á ekki við.
Það er ábyggilega vont að berja hausnum í vegg. Verra þó að vita sig hafa þagað þegar maður átti að láta í sér heyra.
Sigurður Hreiðar, 22.10.2007 kl. 11:26
Ég get ekki séð, þrátt fyrir þessa tilfinningahlöðnu röksemdarfærslu, að samkynhneygðir "skemmi" nokkuð fyrir okkur hinum með því að kalla sig hjón, Sigurður.
Melkorka Helgadóttir.
Melkorka Helgadóttir (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 11:47
Þakka þér fyrir gott innlegg í þessa umræðu. Ég held að það sé meira samfélagsmál að reyna að hefta kynvillu, heldur en að þau fái að kalla sig hjón. Þetta hjónahugtak mun fá aftur eðlilegan sess ef samfélagið berst á móti þessum kvilla. Því fólki sem fæðist með röng gen og eru kynviltir af þeim völdum, er einungis 5 % af öllum fjöldanum. Hin 95 % er áunnin kynvilla. Þetta er orðið stórt samfélagsvandamál sem vinna á í. Hjónaorðið er ekki vandamál
Eggert Guðmundsson (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 12:23
Mjög gott blogg hjá þér, Sigurður. Tek líka undir orð Jóns Vals hér að ofan þar sem hann vísar í orð Steinunnar Jóhannesdóttur í Silfri Egils.
Birna Ó. Jónsdóttir (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 12:58
Ég skil þessa umræðu. Mér er það samt að meinalausu og ég hugsa flestum öðrum að samkynhneigð pör séu kölluð hjón og gangi í hjónaband.
Í heimspekitíma hjá Gunnari Dal í gamla daga lærði ég þá skilgreiningu á menningu að henni tilheyrði allt það sem menn hefðu fram yfir dýrin. Þar má t.d. nefna trú. Ég get ekki ímyndað mér kött biðja til Guðs eða velta fyrir sér kærleiksboðskapnum! Mér finnst frekar óviðeigandi að tala um að giftast dýrum um leið og við erum að tala um heilög mennsk sambönd.
Það er mjög gamaldags og úrelt að nota orðið kynvilla og um samkynhneigð sem kvilla. Ef Eggert væri 88 ára (hef ekki hugmynd um aldur hans) myndi mér finnast það eðlilegt þar sem fólk á þeim aldri er alið upp við orð sem kynvillu og kvilla - og erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja.
Hugsum okkur aðeins um, ..er alveg galið að kalla samkynhneigt par hjón ? ..er málið okkar svo niðurnjörvað að ekki megi gera breytingar í þágu mannréttinda ? Hugsum út fyrir rammann - það er mælt með því í nýjum stjórnunarfræðum og mér finnst það eiga við hér.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 22.10.2007 kl. 13:56
Það er ekki nema sjálfsagt að hugsa út fyrir rammann. En það má heldur ekki gleyma að fara inn fyrir hann aftur þegar það á við.
Ég held og miða við umræðuna í samfélaginu að flestir vilji halda í gömul og núverandi gildi orðanna hjón og hjónaband. Það eru bara svo margir sem rugla þessi saman við fordóma og þora ekki að kannast við skoðun sína af ótta við að vera kallaðir fordómafullir.
Þess vegna eru hinir, þeir skinheilögu og fordómalausu, þeir sem hæst gjalla.
Sigurður Hreiðar, 22.10.2007 kl. 14:51
Ég er sammála þér, Sigurður að fólk er mjög fljótt að grípa til orða eins og fordómar. Ég hef nýlega verið kölluð öllum illum nöfnum þar sem ég vogaði mér inn á viðkvæm málefni sem ég ætla ekki að ræða hér. Það var sett fram af góðum hug eins og ég á von á að þú sért að gera hér. Ég setti inn á síðuna mína skilgreiningu á orðinu hjón sem ég fann hjá Guðrúnu Kvaran og samkvæmt henni fannst mér í raun allt í lagi samkynhneigð pör kölluðu sig hjón. Í raun finnst mér þetta alltaf meira og meira O.K. En hvað um það, ef ekki hjón hvað þá ? Á að auglýsa eftir viðeigandi orði yfir pör af sama kyni ? Skella alveg í lás á ,,samkynhneigðu hjónin" eða melta það aðeins lengur þangað til að hjón verður viðeigandi ? ...
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 22.10.2007 kl. 15:27
Þakka þér, Jóhanna, fyrir að vera málefnaleg. Megi sem flestir vera það, sem lengst.
Ég þekki þessa tilvitnuðu skilgreiningu Guðrúnar, sem mér finnst frekar vera upprunafræði heldur en nútímaskilningur. Í Íslenskri orðabók frá 2002 er orðið skilgreint á mismunandi vegu eftir því hvers konar hjón er um að tala, en sá sem snýr að hjónabandi karls og konu er þar alveg skýr eins og kemur fram hér að ofan.
Ég er hlynntur því að lýsa eftir viðeigandi orði. Það er kannski í raun það sem ég er að gera. Og er viss um að það finnst.
Sigurður Hreiðar, 22.10.2007 kl. 15:48
Mæl þú manna heilastur, Sigurður Hreiðar. Þín orð eru skynsamlegasta framlagið, sem ég hef séð, í þessa fáránlegu umræðu.
Eiður Svanberg Guðnason (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 16:09
Sæll Sigurður Hreiðar! Samþykki í aðalatriðum mat Eiðs Svanbergs á bloggpistli þínum. Enda þótt ég sé ríkur af reynslu, þekki ég nákvæmlega enga sem ég veit um að séu samkynhneigðir, af hvoru kyninu sem er. En veit þar á móti um fjölda fólks sem er í þessari stöðu, af afspurn. Enda í fjölmiðlafréttum dags daglega. - En sem sagt: Þú talar í þessu máli jafnframt fyrir mína hugsun.
Herbert Guðmundsson, 22.10.2007 kl. 16:49
Mér hefur stundum dottið í hug hvort ekki er hægt að nota orðið hjónur um lesbíur,og hjónar um hommana,svo erum við sem eigum maka af gagnstæðu kyni hjón.Ég hef hugsað þetta eins og td getur munkur aldrei orðið nunna.og öfugt.En ég er á móti því að tveir einstaklingar af sama kyni séu hjón.Mér líkar vel að nota orðið hjónur um konurnar en er ekki alveg viss um hjónar.
maggas (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 17:45
Hjónur eða hjónar! Brilliant.
Þórdís Bára Hannesdóttir, 22.10.2007 kl. 19:00
"kynvilltir einstaklingar í staðfestri sambúð" <- er það of þjált?
Róbert Þórhallsson, 22.10.2007 kl. 19:05
Kæri Sigurður. Ég vil þakka fyrir ágæta umræðu.
Ég dreg þó stórlega í efa að hinsegin Íslendingar séu fyrst og fremst á höttunum eftir því að kalla sig hjón. Hér finnst mér verið að þyrla upp óþarfa ryki. Ég vil benda á, fólki til glöggvunar, að ég veit ekki til þess að neitt af þeim pörum sem ég þekki í staðfestri samvist kalli sig hjón.
Aðalatriðið í umræðunni er hins vegar krafan um að veita þeim trúfélögum, sem það vilja, rétt til þess að gefa saman einstaklinga af sama kyni (löggjörningur sem inniheldur blessun). Ég treysti kirkjunni minni fullkomlega til þess að finna þessum gjörningi fallegt og viðeigandi nafn ef orðið hjónavígsla stendur ekki til boða.
Mig langar hins vegar að spyrja þig álits á orðunum "giftur" og "kvænt". Þetta eru orð sem ég heyri mun oftar en orðið hjón í samfélagi samkynhneigðra. Mér finnst þessi orð mjög falleg. Ennfremur finnst mér þjálla að segja "þeir eru giftir" og "þær eru kvæntar" en "þeir/þær eru hjón". Svo lýsa þessi orð líka fyrst og fremst hjúskaparstöðu einstaklingsins. Reyndar eru orðin giftur og kvæntur notuð sitt á hvað um íslenska karlmenn og málvenja orðin sterkari en eldri notkun orðanna.
Ásgeir Helgi Magnússon (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 19:11
Það er greinilegt að ÍSLENSKAN mín fari fyrir brjóstið á sumum. Þetta er ekki gamaldags orð sem ég hef notað, heldur eru þau skýr og skilmerkileg. En það sem ég er að reyna að vekja athygli á að komið er "nýtt samfélagsvandamál" Mér er sama hvort það sé kallað -Samkynhneigð- eða eitthvað annað. Vandamálið er að mikil fjölgun er í þessum hópi, og þegar hópurinn stækkar, þá eðlilega gerin hann kröfur. Rannsóknir á "samkynheigð" hafa sýnt að genagalli er einungis 5% af heildinni, hinn hlutinn er samfélagslega áunninn kynheigð.
Það hlítur að vera áhyggujuefni okkar íslendinga um komandi framtíð. Ef samkynheigð eyks og eyks vegna samfélagsþátta, þá hlítur það að leiða til þess að Íslendingum fækkaði, þ.e. a.s. ef samkynheygð er stunduð eingöngu.
Þvi er áríðandi að vekja athygli á þessu "vandamáli" í tíma. Og ég vil taka undir með Sigurði Hreiðar þegar hann segir "Verra þó að vita sig hafa þagað þegar maður átti að láta í sér heyra".
Eggert Guðmundsson (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 20:22
Bíddu, er ekki giftur eingöngu um konur og kvæntur um menn?? konur giftast (eru gefnar) menn kvænast (fá sér kvonfang) samstætt kyn verður þá að vera "par" eða "sett" æ ég veit ekki, í mínum huga eru allavega þau hjón sem eru að sitthvoru kyni. Á samband homma og lesbía finnst mér að þeir eigi að finna sítt sérstaka nafn, þeir vilja jú skera sig úr með einhverjum orðum eð allavega hefur mér fundist það í gegnum tíðina. Reyndar finnst mér samkynhneigt fólk þurfa full mikið að tala um kynhneigð sína og finnst mér t.d. gay pride allt of kyntengd, minnir á myndband með Britney Spiers og fleiri dansálfum. En þetta er jú bara mín skoðun og vona að þið virðið það.
Ásdís Sigurðardóttir, 22.10.2007 kl. 20:31
Þetta er athyglisverð og þörf umræða. Hafðu þökk fyrir þitt innlegg Sigurður Hreiðar.
Mér finnst þetta sjónarmið sem Steinunn Jóhannessdóttir hefur nú sett fram varðandi rétt fólks til þess að hafa skilgreint og viðurkennt kynhlutverk að lögum, vera umhugsunarvert. Það opnar nýja vídd í þessari umræðu - sem mér finnst full ástæða til að gefa gaum. Þín skrif eru í sömu veru.
Þakklátust er ég þó fyrir að í skrifum ykkar beggja skynja ég virðingu fyrir réttindabaráttu samkynhneigðra og stuðning við hana. Það er gott - og ég held að þið hafði bæði þarft að mæla.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.10.2007 kl. 22:51
Hjartanlega er ég sammála þér Sigurður. Ég er sjálfur hommi og ég kom einmitt út úr skápnum til þess að gera fólki grein fyrir að ég yrði aldrei helmingur af hjónum. Ég verð ekki hjón en mér leist alveg frábærlega á tillögurnar þarna hjónar og hjónur. Snilldin ein, það stendur í mínum kokkabókum þar til betra orð finnst. Mér finnst staðfest samvist eitthvað svo óþjált.
Jón Eggert Víðisson (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 01:16
Ég þakka ykkur öllum sem hér hafa lagt málefnalega orð í belg undir nafni, ekki síst Jóni Eggert sem gerir það sem hommi með skilningi á því sem ég var að reyna að segja.
Aðeins til Ásgeirs Helga um gift og kvænt: hér verðum við ögn að líta til upprunalegrar merkingar. Gift var áður aðeins notað um konur sem voru gefnar og þar af orðið. Aðeins karlar voru kvæntir, höfðu orðið sér úti um kvon (eiginkonu). Málþróun og breyttir hættir í því hvernig karl og kona stofna til hjónabands hafa orðið til þess að fyrra orðið hefur hlotið viðurkenningu fyrir hjónabandsstofnun almennt, hvort kynið sem um er rætt. En alveg fram á síðustu ár hafa konur ekki kvænst…
Um hjónur og hjóna: Kannski gæti það verið lausn. En hvað á þá að kalla tryggðaband þeirra? Í tilviki kvennanna líklega hjónuband þar sem einn bókstafur skilgreinir hvað við er átt -- en hvað skilur tryggðaband karlanna frá hefðbundnu hjónabandi gagnkynhneigðra?
Sigurður Hreiðar, 23.10.2007 kl. 07:55
Af hverju mega samkynhneigð pör ekki kalla sig hjón og samband sitt hjónaband? Hvað gerir það eiginlega til?
Orðið "hjón" þýðir ekki "karl og kona". Það þýðir "hjú" og getur átt við bæði karla og konur. Ég sé ekki neina knýjandi þörf til að "skilja að" hjónaband samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Hér er bara verið að búa til vandamál.
Svala Jónsdóttir, 23.10.2007 kl. 09:21
Líttu betur í orðabókina, Svala J. Þá sérðu að orðið er tveggja merkinga og hjón þýðir „karl og kona gift hvort öðru“. Ekki rugla saman merkingum og ekki alhæfa eina merkingu orða sem hafa tvær eða fleiri merkingar!
Sigurður Hreiðar, 23.10.2007 kl. 10:23
Sæll Sigurður.
Ég var að sjá framangreinda grein þína og er þér hjartanlega sammála.
Í íslensku máli og a.m.k skv. íslenskum málskilningi merkir hjón eins og þú réttilega segir "karl og kona gift hvort öðru" og af því leiðir einfaldlega að samband þeirra er og heitir "hjónaband".
Hvað samband samkynhneigðra varðar finnst mér liggja í augum uppi, að slíkt samband, hvort sem það er "staðfest", "skráð" eða "vígt" getur aldrei kallast hjónaband. "Hópurinn" í þeirra tilfelli er einfaldlega ekki þannig samsettur.
Mér finnst hinsvegar afar eðlilegt, að það þurfi að finna auðskiljanleg íslensk orð yfir hliðstætt samband samkynhneigðra og orðið "hjónaband" gagnkynhneigðra er, ekki hvað síst af praktískum ástæðum.
Í tilfelli homma finnst mér liggja í augum uppi að kalla sambandið auðskiljanlega samheitinu "karlaband" og í tilfelli lesbía sé "kvennaband" rétta orðið.
Þessi orð eru þjál og auðskiljanleg, og lýsa öll þrjú orðin, þ.e. hjónaband, karlaband og kvennaband hverskonar og hvers kyns sambandið er í hverju tilviki.
Þessi orð eru á engan hátt meiðandi fyrir einn né neinn, en lýsa einfaldlega staðreyndum sambandsins í hverju tilviki, staðreyndir sem væntanlega enginn viðkomandi skammast sín fyrir enda engin ástæða til þess.
Það er svo önnur "Ella" hvort prestar þjóðkirkjunnar eigi að "staðfesta eða vígja" öll þessi sambönd á sama hátt. Þar kemur afstaða hvers og eins til trúarinnar að sjálfsögðu afar sterkt inn í.
Kveðja
Guðm. R. Ingvason
Guðmundur R. Ingvason (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 10:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.